03.04.1979
Sameinað þing: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3801 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

176. mál, atvinnu- og efnahagsleg áhrif takmarkana á fiskveiðum Íslendinga

Páll Pétursson:

Herra forseti. Fyrst ætla ég að byrja á stuttorðri og gagnorðri ráðleggingu til síðasta ræðumanns, hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar. Hann á að skoða tölurnar sínar betur og þegjandi og þegja lengi enn þá. Það voru ekki sanngjörn sjónarmið sem komu fram hjá honum. Hann vildi rétta hlut síns kjördæmis, en það er alls ekki að við viljum hafa neinn skó ofan af Suðurnesjamönnum. Suðurnesjamenn verða ekki ríkir á þeim fiski sem er að berast þar að landi núna og skemmast vegna þess að þeir hafa ekki tækifæri til að vinna hann.

Ég gerði vandlega grein fyrir afstöðu minni í umr. utan dagskrár fyrir viku. Það hefur komið í ljós, að uggur minn var ekkí ástæðulaus og gagnrýni mín var á rökum reist. Ég sakna þess að hér er ekki hv. þm. Garðar Sigurðsson, sem þá óð uppi með stóryrði um vanþekkingu mína og glæsilegar lýsingar á hinum framúrskarandi vinnsluferli hér á vertíðinni — er genginn í salinn. — Hvers vegna er þá verið að flytja stórýsuna frá Vestmannaeyjum og selja úti í löndum, eins og flokksbróðir hans sagði, togarafarma og það frekar tvo en einn? Það er óforsvaranlegt að veiða eins og nú er gert. Það er óforsvaranlegt að láta þetta dýrmæta hráefni skemmast. Og það er óforsvaranlegt að vinna þorsk í mjöl. Það er mergurinn málsins. Það verður að tempra þetta og það verður að ganga í það verk. Það hefði verið betra að sleppa ekki loðnubátunum í fiskinn. Og hvernig á svo að selja allan þennan saltfisk, því að óhjákvæmilega hlýtur að verða mikill hluti af honum í lægri gæðaflokkum? Verðum við að kaupa fyrir hann togara í Portúgal? Mér þykir ýmislegt benda til þess.

Ég held sem sagt að það sé alveg óhjákvæmilegt, og það er krafa mín, að stöðva þetta netafiskirí þegar vertíðaraflinn hér er orðinn svipaður og hann var í fyrra. Ef hæstv. sjútvrh. sér að athuguðu máli að hann hefur ekki lagaheimild til þess að gera það, eins og mér fannst raunar liggja í orðanna hljóðan í reglugerðinni sem hann gaf út um veiðarnar, verður hæstv. sjútvrh. að afla sér þeirrar heimildar. Ég skal reyna að gera mitt til þess að stuðla að því að hann geti fengið hana sem fyrst.