03.04.1979
Efri deild: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (3003)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þær fsp., sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og hv. þm. Jón Sólnes hafa beint til mín, varða það samkomulag sem gert hefur verið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna, en við þessa aðila hefur fjmrn. gert samkomulag. Það samkomulag er skilyrt. Það er á þann veg, að BSRB hefur fallist á að fresta áfangahækkun þeirri sem átti að koma til framkvæmda 1. apríl, en samþykki bandalagsins á þeirri ákvörðun er bundið þeim fyrirvara að ákvörðunin verði samþykkt við allsherjaratkvgr. Á móti því, ef frestunin verður samþ. við slíka allsherjaratkvgr., hefur fjmrn. og ríkisstj. heitið því að beita sér fyrir tilteknum breytingum á lögum um samningagerð við opinbera starfsmenn. Það var leitað eftir því við bankamenn a. m. k. að þeir gerðu hliðstætt samkomulag, en þeir vildu ekki á það fallast.

Að sjálfsögðu verður staðið að öllu leyti við það samkomulag sem hefur verið gert við þessa tilteknu aðila, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna, og þess vegna er ekki nema sjálfsagt að taka það fram alveg berlega í lögunum, þó að til þess hefði út af fyrir sig ekki borið nauðsyn, en þetta er gert til þess að taka af öll tvímæli í því efni. Ákvæði þetta tekur hins vegar aðeins til þessara tveggja aðila, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna. Um hina aðilana, sem hv. þm. Jón Sólnes nefndi, gildir ekki þessi undantekningarregla í bráðabirgðaákvæðinu. Hins vegar gildir auðvitað aðalreglan um þá, að þessi lög leggja engar hömlur við samningafrelsi og þeir geta gert nýja kjarasamninga. Þeir eiga það við atvinnuveitendur sína. Ef þeir hefðu fallist á þau tilmæli, sem til þeirra var beint, hefðu þeir auðvitað komist undir þetta ákvæði með sama hætti og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna. Ég vona að þetta sé nægilega skýrt til þess að svara þeirri spurningu sem hv. þm. báru fram.

Ég vil svo aðeins að lokum þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Hún hefur unnið mikið og gott starf. Hún hefur flutt margar brtt., sem er vitaskuld ekki óeðlilegt þegar um jafnviðamikið mál er að tefla, því að betur sjá augu en auga, og það er ugglaust að sumt í þeim brtt., sem gerðar eru, er til bóta. Um aðrar má segja að þær orki tvímælis. En ég fyrir mitt leyti get fallist á þessar brtt. og sætti mig við þær og vil þakka n. fyrir gott starf.

N. hefur ekki getað orðið sammála og stjórnarandstaðan hefur skilað séráliti. Við því er auðvitað ekkert að segja. Það er ekki annað en það sem tíðkast og gerist á bestu bæjum og í bestu deildum.

Ég ætla ekki að fara að ræða um það sérstaklega eða gera aths. við þau ummæli sem féllu í umr. í gær, en í þögninni felst vitaskuld ekkert samþykki við þeim röksemdum sem þar komu fram. Ég get þó sagt það, að frv. er vitaskuld ekki ætlað að taka til allra þátta efnahagsmála. Það hefur aldrei verið sagt. Því hefur aldrei verið haldið fram. Það var bent á það t. d. af frsm. minni hl., að það væri ekkert í þessu frv. að finna varðandi skattamál og innflutnings- og gjaldeyrismál. Það er laukrétt. En það verður alveg á næstunni t. d. flutt frv. um innflutnings- og gjaldeyrismál og að skattamálum er verið að vinna, þau eru í skoðun. Þessir þættir koma fram sem sérstakir þættir og auðvitað mýmargir aðrir þættir sem snerta efnahagsmál, en ekki eru ákvæði um í þessu frv. Þetta frv. tekur þó til allmargra þýðingarmikilla efnahagsþátta og er með því gerð tilraun til að ná betri stjórn á efnahagsmálum.

Það var talið í gær — kannske ekki í mjög virðulegum tón — um áætlanir og sagt að það væri mikið um áætlanagerðir í frv. Ég get fallist á að áætlanir leysa ekki allan vanda og það er meira komið undir öðru en áætlunum. En orð eru þó til alls fyrst, eins og sagt er, og áætlanir eru talsvert tískuorð og tískufyrirbæri um þessar mundir og það ekki aðeins hjá þeim sem í stjórn sitja og stjórn styðja, heldur reyna hv. stjórnarandstæðingar stundum að grípa til þess að flytja till. um ýmiss konar áætlanir og skulu þeir ekki lastaðir fyrir það. T. d. minnir mig fastlega að ég hafi hlýtt á það eða lesið í dagblöðum að skýrt hafi verið frá mikilli orkuáætlun um uppbyggingu orkumála hér á landi, — ætli það hafi ekki verið næstu 10 árin? (Gripið fram í.) Já, og þar er horft nokkuð langt fram í tímann. Ég man í svipinn eftir annarri mjög mikilvægri till. frá stjórnarandstæðingum um áætlanagerð, og það er um varanlegt slitlag á vegum umhverfis landið mjög merkilegt mál. Það er því ekkert óeðlilegt þó að sé gripið til áætlana, og þar er sannleikurinn sá, að það er afsakanlegt þó að menn reyni, af takmarkaðri getu oft og einatt að vísu, að líta fram í tímann og marka þá stefnu sem á að reyna að fylgja. Það er viðleitnin í þessu frv. að reyna slíkt varðandi t. d. fjármál ríkisins. varðandi fjárfestingarstjórn og fleira af því tagi. Ég hef trú á því, að ef þau ákvæði komast í framkvæmd, svo sem gert er ráð fyrir í frv., eigi þau eftir að skila árangri.

Hér er mjög mikið undir framkvæmdinni komið. Mér dettur ekki í hug að halda að með þessu frv. eða með ákvæðum um þau atriði, sem ég nefndi sérstaklega, sé fundið neitt lausnarorð. En ég held að það sé spor í rétta átt, og mér hefur skilist að það væri spor sem hv. stjórnarandstæðingar gjarnan vildu í sjálfu sér stiga og þeir væru ekki á móti því.

Þá eru auðvitað ekki síður þýðingarmikil atriði ákvæðin, sem að vísu eru mörg rammaákvæði og geta varla eðli sínu samkv. á þessu stigi verið annað, varðandi verðtryggingu sparifjár og útlánsfjárskuldbindinga. Ég hygg að hv. sjálfstæðismenn séu ekki andvígir þeirri stefnu sem í því felst. En það segi ég aftur, að mikið er undir framkvæmdinni komið. Við verðum að viðurkenna að það hefur verið farið verr með fáa en sparifjáreigendur. Það hefur verið viðleitni að undanförnu til þess að reyna að rétta hag þeirra svolítið, en hvergi nándar nærri nóg. Það er stigið stærra skref með þessu frv. í þá átt en áður, og því held ég að menn ættu að fagna, vegna þess að það verkar ekki aðeins í þá átt að gera það sem réttmætt er, að tryggja hag sparifjáreigenda, heldur mun það orka í þátt að koma á heilbrigðari viðhorfum í efnahagslífi og verða til þess að auðvelda stjórn á fjárfestingunni. En ég ætla ekki að fara nánar út í þessi atriði og ekki vera að gefa mönnum tækifæri til þess að þurfa að svará því sem ég segi hér.

Það hefur auðvitað enginn við því að segja, hvernig sjálfstæðismenn snúast við þessu, það er þeirra mál. En ég held að það sé yfirleitt skynsamlegra að fylgja því sem maður telur horfa til réttrar áttar, þó að skrefið sé ekki í einu vetfangi stigið til fulls, ef það miðar fram á við og er til bóta. Hitt er kannske til of mikils mælst, að í einu vetfangi sé gert allt sem gera þarf. Ég er líka og hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að þetta yrði að gerast í áföngum. Hvað sem því líður er frv. þetta að þessu leyti, sem ég hef minnst á, í samræmi við samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, þar sem þeir gera sérstaklega ráð fyrir áætlunum um tiltekna málaflokka, kjaramál, peningamál o. fl., o. fl. og hjöðnun verðbólgu í áföngum. Þeir hafa ekki sett markið hærra.

Sjálfsagt hefðu margir og þ. á m. ég viljað sjá stigið stærra skref í því að koma á hjöðnun verðbólgu á þessu ári. En þess er að gæta, að það getur verið vandþrætt að halda uppi fullri atvinnu, sem er markmið númer eitt, og að lækka verðbólguna. Þarna getur verið nauðsynlegt að fara bil beggja og það hefur einmitt verið gert og gerðar breytingar á þessu frv. frá þeirri mynd sem það var upphaflega í, vegna þess að samráð var haft við hagsmunaaðila — við þá aðila sem gert er ráð fyrir að hafa samráð við. Það hefur verið tekið nokkurt tillit til ábendinga, sem komu frá þessum aðilum, t. d. síðast frá Verkamannasambandinu. En auðvitað geta verið skiptar skoðanir um þetta efni.

Það má kannske óska Sjálfstfl. til hamingju með það, að hinn hv. nýi þm. Jón Ásbergsson hafði úrræðin með sér að norðan. Nú hafa þeir þau og vita hvað þeir eiga að gera. Ég ætla ekki að fara að tala frekar um þau.

Mér finnst skemmtilegra að leiðrétta eitt sem kom fram við 1. umr., en ætla annars ekki að fara út í þær aths. sem þá komu fram. Það kom fram í máli forvera hv. 5. þm. Norðurl. v., Eyjólfs K. Jónssonar. Hann sagði að þegar vinstri stjórnin hefði skilið við 1974 hefði verðbólgan verið yfir 54% . Mér er þetta mál skylt, af því að ég hef átt sæti í báðum þeim ríkisstj. sem þarna eiga hlut að máli, og ég hef áhuga á því einu að hið sanna sé sagt um þetta efni. Það vill svo vel til, að það eru fyrir hendi alveg órækar opinberar skýrslur Hagstofu Íslands sem segja til um þetta, hver verðbólgan var þá og hvenær verðbólgan var komin upp í 54%. Þetta er í skýrslu sem Hagstofan gefur út á þriggja mánaða fresti. Ef maður lítur yfir daga vinstri stjórnarinnar var verðbólgan frá því í ágúst 1971 12 næstu mánuði 13.6%, frá ágúst 1972 í næstu 12 mánuði 20.9% og frá því í ágúst 1973 til þess í ágúst 1974, að vinstri stjórnin fór frá, var verðbólgan 41.4%, sem að vísu var allt of mikið, en orsakaðist af ástæðum sem mönnum eru vonandi enn í minni. En í ágúst 1974 tók við ný stjórn og í ágúst 1975 var verðbólgan komin upp í 54.5% — hafði hækkað sem sagt á því tímabili. Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson er því einu ári á eftir tímanum. Það er ofurlítil tímaskekkja sem mér finnst eðlilegt að leiðrétta. Og til þess líka að halda áfram að láta fyrrv. ríkisstj. njóta sannmælis, sem mér er skylt, má geta þess, að í ágúst 1976 var verðbólgan aftur komin niður í 31.8%, en í ágúst 1977 var hún komin niður í 26.6%. Ég veit að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson vill hafa það sem sannara reynist, og þess vegna vonast ég til að heyra ekki frá honum aftur þessa tölu. Og mikið mundi ég vera þakklátur honum ef hann gæti haft þau áhrif á Morgunblaðið, að það væri ekki alltaf með þessi 54%, heldur héldi sig við þær tölur sem Hagstofan leggi upp í hendurnar á mönnum.

Ég endurtek svo þakkir mínar til n., sem hefur unnið vel að þessu máli.