03.04.1979
Efri deild: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3813 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths.

Hæstv. forsrh. sagði að ég hefði misskilið að þetta samkomulag, sem við höfum verið að ræða um, auki verkfallsréttinn. Það er dálítill misskilningur milli okkar um þetta atriði. Þegar ég var að ræða um þetta talaði ég um samningsrétt, en vék einnig að verkfallsrétti. Ég átti ekki við að það væri verið að veita núna rétt sem áður hefur verið veittur, heldur að með þessu samkomulagi væru skapaðir möguleikar til þess að geta beitt verkfallsréttinum meir en áður, því að það eru sérstök takmörk fyrir því samkv. gildandi lögum. Það er nú ekki hægt að beita verkfallsréttinum nema á tveggja ára fresti.