03.04.1979
Neðri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3825 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Vegna þessa máls og þeirra hugmynda, sem hæstv. landbrh. kynnti sem sínar hugmyndir hér, vil ég minna á hversu hrikalegan vanda er við að fást í þessu efni og að nú er einmitt þangað komið sem Alþfl. hefur varað við á undanförnum árum, þannig að ný stefna er meira en tímabær. Ég vil líka benda á það, að 10% markið, sem svo hefur verið nefnt, var hugsað sem hámark, en það hefur sífelldlega verið brotið og verið bætt við umfram það mark. Hér þarf því ekki aðeins nýja stefnu, heldur líka fastari tök sem tryggi, að ekki sé farið bakdyraleiðina inn í ríkissjóð til þess að fást við bráðan vanda á hverjum tíma, eins og það er gjarnan orðað.

Ég er þeirrar skoðunar, að þau fjögur meginatriði, sem hæstv. landbrh. rakti hér, eigi fyllilega rétt á sér öll saman og þ. á m. að sjálfsögðu endurskoðun á jarðræktarstyrkjunum í því skyni að draga úr jarðrækt sem hefur orðið til enn frekari framleiðsluaukningar en æskilegt hefur verið, og er ég þar á öndverðum meiði við hv. síðasta ræðumann. En meginatriðin eru auðvitað þau meginmarkmið sem menn ætla að stefna að í þessum efnum, og þau mega ekki vera óljós. Þar þarf greinilega að vera um töluleg markmið að ræða sem sé tryggilega gengið frá að verði haldin og þannig að v andanum verði ekki síðar velt yfir á ríkissjóð. Ég nefni þetta alveg sérstaklega vegna þeirra hugmynda sem hér hafa komið upp um úrlausn hins bráða vanda, hver nauðsyn sé á að það verði tryggilega frá öllum endum gengið, töluleg markmið liggi fyrir og að á þessu máli verði föst tök.

Það er svo að dómi okkar Alþfl.-manna, að það er nauðsynlegt að fyrir liggi heildstæð stefna sem með sannfærandi hætti tryggi að dregið verði markvisst úr offramleiðslu og þannig tryggt að innan fárra ára verði hætt óarðbærum útflutningi á landbúnaðarafurðum. Þegar ég segi að þetta þurfi að gerast með sannfærandi hætti, þá á ég við það, að menn sjái greinilega hvers konar framleiðslu- og greiðsluáætlun það sé sem menn ætli að fylgja fram, og ég tel að fyrr en slíkt liggur fyrir sé ótímabært að tala um sérstakar lántökur. Þar tölur, sem hafa verið nefndar í þessu sambandi, kunna líka að orka tvímælis.

Ég vil sérstaklega taka þetta fram vegna þeirrar umr. sem hér hefur farið fram, að meginatriðið er tryggilegur frágangur stefnunnar og þeirra leiða sem eiga að tryggja að þau tölulegu markmið náist sem nauðsynleg eru til þess að hér hverfi ekki aftur til sama horfs, heldur verði um varanlega stefnubreytingu að ræða.