03.04.1979
Neðri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þing veit og þjóð veit einnig að sú stefna í landbúnaðarmálum, sem hér hefur að meira eða minna leyti verið rekin um áratugaskeið, hefur misheppnast. Hún hefur misheppnast vegna þess að hún hefur ekki verið til þess fallin að halda uppi góðum lífskjörum heildarinnar, sem þessa þjóð myndar, heldur hefur stefnan í landbúnaðarmálum beinlínis verið til þess fallin að draga niður lífskjör annarra en þeirra sem beina eða óbeina hagsmuni hafa haft af því að vinna við landbúnað. Og það segir sig alveg sjálft, að þegar einn af meginatvinnuvegum þjóðarheildarinnar er rekinn með þessum hætti, þá er veruleg skekkja í efnahagskerfinu.

Landbúnaðarstefnan hefur verið slík skekkja í efnahagskerfinu. Við þekkjum það, að þegar í upphafi síðasta áratugs var byrjað að nefna þetta og gagnrýna voru viðbrögðin afar heiftúðug. En einkum nú á allra síðustu árum hafa þau gleðilegu tíðindi verið að gerast, að talsmenn landbúnaðarins hafa um margt viðurkennt hver vandi hér er þegar horft er af sjónarhóli þjóðarheildarinnar, — viðurkennt að heildardæmi landbúnaðarins hefur komið svo út að lífskjör þjóðarheildarinnar hafa verið dregin niður fyrir vikið. Þetta er auðvitað kjarni málsins og hefur verið um áratugaskeið.

Heilbrigður landbúnaður í heilbrigðu samfélagi á að vera til þess fallinn að halda uppi góðum lífskjörum og batnandi lífskjörum, meiri hagvexti en landbúnaður okkar hefur gert. Það hefur beinlínis stefnt í öfuga átt.

Það er ekki langt síðan talsmenn landbúnaðarins sjálfir fóru að gera sér grein fyrir þessum grundvallarstaðreyndum, og segja má að á allra síðustu árum hafi talsmenn landbúnaðarins beinlínis tekið annan pól í þessa hæð en þeir höfðu áður gert um árabil. Það styrkjakerfi, það hjálparkerfi, sem hér hefur verið rekið í landbúnaði og er orðið svo margþætt og flókið að það er sennilega ekki á færi nema fáeinna atvinnumanna að skilja það til hlítar, var auðvitað í upphafi sínu og einkum á fjórða áratugnum hið sjálfsagðasta réttlætismál, til þess hugsað og til þess fallið að hjálpa bændum sem þá voru bæði með smábýli og of fátækir til þess að brjótast út úr erfiðleikum. En það vill oft verða svo með mál sem í upphafi eru réttlætismál, að þegar fram líða tímar snúast þau í andhverfu sína, hið flókna réttlæti verður að argasta ranglæti og efnahagsleg markmið verða óljós, loðin og jafnvel týnast. Og það hygg ég að hafi einmitt gerst með stefnuna í landbúnaðarmálum.

Landbúnaðarferillinn er í sjálfu sér einfaldur. Öðrum megin á þessum ferli eru framleiðendur vörunnar, en hinum megin á ferlinum eru neytendur og skattgreiðendur. Báðir þessir aðilar, bæði neytendur og skattgreiðendur, eiga auðvitað verulegra og mikilla hagsmuna að gæta að stefnan í landbúnaðarmálum sé ekki einvörðungu hugsuð frá bæjardyrum bænda, heldur einnig frá bæjardyrum þessara aðila. Landbúnaðarstefnan hefur verið of dýr, styrkjakerfið hefur verið of mikið, skattgreiðendur hafa þurft að borga miklar fúlgur beinlínis til styrktar þessari atvinnugrein. Og nú er verið að leggja til ekki litlar greiðslur til viðbótar. Neytendur hafa þurft að greiða þessar vörur of háu verði, miklu hærra verði en hægt hefði verið ef vandinn hefði verið viðurkenndur fyrr, ef hlustað hefði verið á þá réttmætu gagnrýni sem m. a. hljómaði í þessum sölum fyrir nærfellt tveimur áratugum.

Kjarni vandans er auðvitað sá, að íslenskir bændur hafa með flóknu styrkja- og fyrirgreiðslukerfi verið gerðir ónæmir fyrir markaðslögmálinu. Á milli framleiðandans annars vegar og neytandans hins vegar er búið að koma fyrir kerfi sem svo vinnur að markaðslögmál komast þar ekki að. Framleiðandinn þarf ekki að því að huga, hverjir hagsmunir neytandans eru, með hvaða hætti hann vill kaupa vöruna og hvenær hún verði svo dýr í framleiðslu að hann vilji ekki kaupa hana, heldur kaupi eitthvað annað. Þetta eru svo kunnar staðreyndir að ég hygg að þær séu þekktar af nærfellt öllum.

Hér liggur fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ég efast ekki um góðan vilja hæstv. landbrh., og ég hygg jafnvel að óhætt sé að segja að í þessum efnum er núv. hæstv. landbrh. með nútímaleg sjónarmið, og þá á ég við að hann geri sér grein fyrir þeim grundvallarreglum sem lýst var í upphafi þessa máls. Ég hygg sem sagt að núv. hæstv. landbrh. hafi um margt nútímalegri sjónarmið og nútímalegri afstöðu til þessa vandamáls heldur en forverar hans um langt skeið, og það út af fyrir sig er allverulegur áfangi. Engu að síður er það galli við þetta frv., að orðalagið er svo almennt að það er nærfellt merkingarlaust sé það hugsað í þá veru að hamla gegn offramleiðslu og hamla gegn því að skattgreiðendur þurfi að láta milljarða á ári hverju af hendi rakna í þessa einu og tilteknu atvinnugrein. Þar að auki er fyrir minn smekk sú grundvallarvilla í þessu frv., að þar fer enn á ný fram mjög verulegt valdaafsal frá Alþ. og til þeirra aðila sem eiga hagsmuna að gæta, nefnilega bænda sjálfra. Þetta blasir eiginlega við í hverri till. og á hverri síðu þessara blaða. Dæmi um þetta er það, með leyfi hæstv. forseta, að ákvarðanir, sem varða gjaldtöku af kjarnfóðri, skulu teknar af fulltrúafundi Stéttarsambands bænda og vera háðar samþykki landbrh. Till. eins og þessar hygg ég að séu rangar í grundvallaratriðum. Þetta er hliðstætt við það að gera þingi Alþýðusambands Íslands að semja reglur um laun, og ég hygg að ekki dytti nokkrum manni í hug, hversu hliðhollur, hagstæður og velviljaður viðkomandi væri launþegasamtökunum í landinu, að selja þeim sjálfdæmi um hvað eigi að greiða í laun. Hvert barn sér að slíkt kerfi mundi springa fyrr en varir. Og það er nákvæmlega það sem gerst hefur í hinni almennu stefnumörkun landbúnaðarmála á undanförnum árum og áratugum, að kerfið er fyrir lifandi löngu sprungið.

Að öðru leyti lýsti hæstv. landbrh. þeirri till. sinni, að útvega verði lán til viðbótar útflutningsbótum, þó að það kerfi sé komið langt út fyrir eigin mörkuð takmörk, og þetta lán á að nema á ári 3.5 milljörðum kr. Þetta er í stefnumörkun til 5 ára — og reikni menn. Það er verið að leggja til að til viðbótar þeim fjárhæðum, sem þegar er varið til að fjármagna ranga, óhagkvæma landbúnaðarstefnu, og þá á ég við: ranga frá sjónarhóli neytenda og skattgreiðenda séð, verði á þessu ári 3.5 milljörðum varið til viðbótargreiðslna til útflutningsbóta. Sé dæmið lagt saman og sé ekkert lán útvegað með ríkisábyrgð, sem vitaskuld þýðir í reynd að ríkissjóður greiði þetta lán, skattgreiðendur þar með, þá er hér verið að leggja til að viðbótarstærðin nemi andvirði Kröfluvirkjunar.

Bændur eiga allt gott skilið vitaskuld. En kjarni málsins er sá að samfélagið er eins og lífræn heild og það eru fleiri á þessum ferli. Það eru skattgreiðendur, það eru neytendur, og ég hygg að það sé gersamlega ábyrgðarlaust að taka afstöðu til þessa dæmis nema hagsmunir allra þessara aðila séu skoðaðir. Með því að samþykkja slíka till. er verið að samþykkja milljarða fjármagnstilflutning enn á ný frá skattgreiðendum. Það er verið að leggja út í stórfelldar niðurfærslur, það er verið að færa niður lífskjörin í landinu sem þessu nemur og án þess að nokkurs staðar verði komið auga á í þessum tillögum alvarlega stefnumótun sem vegur að rótum þessa vanda.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, að það megi ekki henda Alþ. að samþykkja till. af þessu tagi, samþykkja till. um niðurfærslu lífskjara í landinu svo milljörðum nemur, öðruvísi en að fyrir liggi stefnumótun, ekki með því almenna orðalagi sem hér er gert ráð fyrir og ekki með því að selja hagsmunaaðilanum sjálfdæmi um það, hvernig að skuli farið og hvað gert, heldur með því að löggjafinn sjálfur, sem er ekki aðeins fulltrúasamkoma bænda, heldur og skattgreiðenda og neytenda, að þessi stofnun taki af skarið og setji almennar leikreglur sem að því skulu miða að vandinn sé viðurkenndur og að því stefnt í þeim áföngum, sem heppilegt kann að teljast, að hann sé leystur.

Við framleiðum of mikið miðað við innanlandsmarkað og það verð sem við getum fengið fyrir þessar afurðir erlendis. Það er kjarni málsins. Ef markaðirnir væru öðruvísi erlendis eða ef meira væri neytt innanlands, þá væri þetta ekki vandi. En meðan þetta eru þær staðreyndir sem blasa við, þá er fráleitt að ætla sér að færa niður lífskjörin í landinu, því að þessi skattheimta er auðvitað ekkert annað en það, með þeim till. sem hæstv. landbrh. reifaði hér í dag, enda væri slíkt vitaábyrgðarlaust af stofnun sem á að vera fulltrúi fyrir þjóðarheildina alla.

Það hefur auðvitað um margra ára skeið verið siglt að erfiðum ósi í landbúnaðarmálum, en þegar svo er komið sem nú er ber Alþ. að taka í taumana. Og alveg á sama hátt og Alþ. á ekki að láta þrýstihópaforingjana eina, hvort sem þeir eru frá verkamannasambandi, vinnuveitendum eða af öðrum slíkum stöðum, setja sér stólinn fyrir dyrnar að því er varðar lög um efnahagsmál, því að slíkt á Alþ. ekki að gera í þingræðiskerfi, þá á Alþ. ekki heldur að selja hagsmunaaðilum sjálfdæmi um reglur eða lagasetningar eða útfærslu þeirra í viðkvæmum málaflokki sem þessum. Dytti nokkrum í þessum sal í hug að það væri viturleg regla að selja iðnrekendum sjálfdæmi um það, hvernig við högum innflutningstollum eða jöfnunargjaldi, eins og nú er talað um? Það dytti engum í hug að gera það. Það er að vísu vandi á ferðinni að því er tekur til valdmarka þrýstihópaforingjanna og Alþingis. En ég hygg að það sé einn af veikleikunum í okkar efnahagskerfi að hér hefur þróast með sögulegar rætur í kjördæmaskipun eins konar sérstaða hagsmunaaðila í landbúnaði. Þessi sérstaða hefur verið sú, að landbúnaðurinn hefur átt hlutfallslega marga fulltrúa í þessari hv. stofnun, og það hefur árum og áratugum saman farið fram slíkt valdaafsal sem hér hefur verið gert að umræðuefni frá Alþ. og til þessara hagsmunasamtaka. Alveg burt séð frá því hvað mönnum finnst um þessi tilteknu samtök, stefnu þeirra, skoðanir og lífsviðhorf að öðru leyti, þá er þetta röng stefna, röng regla. Í þingræðislandi á ekki að fara þessa leið. Enda er það kjarni málsins, að landbúnaðarmál eru ekki einkamál framleiðendanna. Þau eru líka og í sama skilningi einkamál neytendanna og skattgreiðendanna, sem auðvitað byggja að mjög verulegu leyti hinar þéttari byggðir þessa lands, og Alþ. ber að skoða þessi mál ekki eingöngu frá sjónarhóli framleiðandans, heldur einnig frá sjónarhóli hinum megin á ferlinum, frá sjónarhóli neytandans og skattgreiðandans.

Þær till., sem hæstv. landbrh. kynnti hér í dag, stefna áfram út í þetta efnahagslega fen án þess að nokkur stefnumörkun, sem mark er á takandi, komi þar á móti. Þar er gert ráð fyrir niðurfærslu lífskjara til þess að færa verðmæti til landbúnaðar án þess að stefnumörkun í þá veru að leysa sjálfan vandann komi þar á móti. Af þeim ástæðum tel ég að þær till., sem hér voru kynntar, séu gersamlega óaðgengilegar. Ég vil enn lýsa því, að ég ber að þessu leyti traust til nútímalegra sjónarmiða hæstv. landbrh. Engu að síður er það Alþingi í þingræðislandi sem ber að setja leikreglur. Það verður að skoða hagsmuni fleiri en framleiðendanna og það verður að koma til stefnumörkun sem samrýmist hagsmunum allra þessara aðila. Sé hún til staðar, sé vandinn viðurkenndur og leitast við að leysa hann í áföngum, þá fyrst er hægt að huga að því að samþykkja svo stórfellt lán sem hér er farið fram á til þessa tiltekna hagsmunahóps. Fyrr teldi ég það fráleitt. Fyrr teldi ég það beinlínis ganga gegn hagsmunum launþega í þessu landi og það í langtum ríkari mæli en verið er að gera í öðru frv. sem er til umr. annars staðar og í annarri deild þessa ágæta húss.