03.04.1979
Neðri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3832 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um voru allar till., sem lágu fyrir við 2. umr., dregnar til baka til 3. umr. að ósk ráðh. og með það í huga að yfirfarast af landbn, milli umr. En hálfur mánuður er nú liðinn síðan sú umr. fór fram.

Umræða í nefndunum varð minni en til stóð, sem sagt í n. í heild. Hins vegar munu stjórnarsinnar hafa haldið marga fundi um málið. Í þessu sambandi vil ég leggja áherslu á að Sjálfstfl. hefur ekki tafið málið þennan tíma.

Hér hefur hæstv. landbrh. talað í þessu máli, og kem ég að því síðar, en það var athyglisvert, að rétt að hans orðum slepptum kom sjútvrh. upp og talaði algerlega á móti því sem landbrh. hélt fram. Það er furðulegt hve lengi á að ganga hjá þessari blessaðri ríkisstj. að ráðh. sitji eins og hundar og kettir hver framan í öðrum. En sjútvrh. gerði í þessu máli till. hæstv. landbrh. strax marklausar. Það var sagt t gær að á fundi ríkisstj. í dag ætti að afgreiða bæði það ástand sem er í flugmálunum og einnig í landbúnaðarmálunum. Það heyrðist fyrr í dag hvernig gekk að afgreiða flugmálin, og nú liggur þetta fyrir.

Ekki var óeðlilegt að það tæki meiri hl, nokkurn tíma að laga brtt. sínar, þar sem það hafði fengið þann dóm hjá stéttarsambandsmönnum að þær væru óframkvæmanlegar. Nýjustu fréttir eru að búnaðarmálastjóri hafi á flokksþingi Framsfl. lesið yfir mönnum fyrir að vera með óframkvæmanlegar till. Ekki er þetta nú allt efnilegt, þegar bæði Stéttarsamband og Búnaðarfélag hafa þennan hug til tillagnanna.

Það plagg, sem hér liggur fyrir og ég hef óbundnar hendur um, eins og komið hefur fram í umr., hefur verið mjög lagað frá gömlu meirihlutatillögunum og komið til móts við þær till. er við hv. 2. þm. Norðurl. v. höfum lagi fram. Einnig hafa verið teknar til greina nýjar ábendingar. En engin svör hafa enn fengist hjá ríkisstj. varðandi það meginatriði þessa máls, hvort ríkisvaldið ætlaði að koma til móts við bændur vegna birgðavandans. Svar um þetta efni hefur þó verið krafist af fulltrúum Sjálfstfl. og tekið undir af Alþb.-mönnum á sameiginlegum landbn. fundi beggja d., bæði fyrr í vetur og voru ítrekuð á fundi n. morguninn eftir að 2. umr. lauk, þ. e. fyrir réttum hálfum mánuði.

Í till. okkar hv. 2, þm. Norðurl. v. er ákvæði til bráðabirgða sem við föllum ekki frá, en þar er sett fram till. um að ríkið komi til móts við bændastéttina í þessum vanda, og þetta tengist óumdeilanlega þeim heimildum sem verið er að veita Framleiðsluráði með þessu frv. Hvað ríkisstj. ætlar að gera í þessum málum hefði fyrir löngu getað legið fyrir, ef hér væri stjórn sem tæki á þessum málum. En það virðist hafa verið skoðun stjórnarliðanna í n., að undanskildum fulltrúum Alþb., eins og áður kom fram, að þetta ætti að mestu að lenda á bændunum. Óskir sjálfstæðismannanna í n. um svör frá ríkisstj. og undirtektir Alþb.-manna og síðan flutningur á till. okkar um ákvæði til bráðabirgða hafa vakið stjórnina af værum blundi og er það vel. En þetta átti að geta legið fyrir strax í haust þegar málið var lagt fram. Þá hefði málið getað siglt hraðbyri.

Það bæri að fagna orðum hæstv. landbrh. áðan ef hann hefði haft fyrir þeim samþykkt ríkisstj. og stuðning, sem ég gat um áðan að kom fram að ekki væri fyrir hendi, og slík orð án stuðnings ríkisstj. algerlega marklaus. En það var meira sem ráðh. sagði. Það var skilyrt, að þetta frv. og m. a. jarðræktarfrv. það, sem hann er búinn að leggja fram, yrðu samþ. Það frv. er með þeim endemum að ég vona að það gangi ekki í gegn, þar sem ráðh. er falið allt vald til að ráðskast með jarðarbótastyrkina. Hins vegar væri ekkert óeðlilegt að hluti af þessum styrkjum gengi beint til að létta birgðavandann. Ég legg áherslu á að það væri e. t. v. ekkert óeðlilegt, en alls ekki með þeim hætti sem þarna er ráð fyrir gert.

Hæstv. ráðh. þakkaði samstöðu í n., og má segja að hún sé nokkur. En meiri hl. n. vildi ekki koma til móts við okkur um þá till., sem við vorum með í okkar minnihlutaáliti, að koma til móts við birgðavandann af ríkisins hálfu. Ef það hefði verið, þá hefði verið hægt að tala um að samstaðan hefði verið meiri.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason talaði hér mikið, en hann virtist tæplega skilja þetta frv. Þetta frv. gengur fyrst og fremst út á það, að bændum sjálfum eða bændasamtökunum eru veittar heimildir til að jafna á sig halla sem þegar er orðinn. Þeir eiga að deila þessu á sig eftir þessu frv. Ef frv. verður samþ. óbreytt og ekki tekin með till. okkar um ákvæði til bráðabirgða, þá er hér eingöngu um að ræða frv. þar sem bændurnir einir eiga að jafna á sig kjaraskerðingunni. Þá kemur ríkið ekkert þar til móts. Það er því ósambærilegt við það frv. sem er í Ed., þar sem jafnað er kjaraskerðingu á alla landsmenn. En þar þykist ríkisstj. koma til móts með einum eða öðrum hætti til að draga úr henni, þótt það sé raunar meiri og minni sjónhverfing. En vonandi styður ríkisstj.-meirihlutinn ákvæði okkar til bráðabirgða vegna birgðavandans.

Að lokum vil ég leggja áherslu á að þetta mál er búið að velkjast hér í þinginu í allan vetur. Hvað það hefur tafist er fyrst og fremst stjórnarliðinu að kenna, en ekki Sjálfstfl. Þó að hann hafi fengið rúmlega viku frest um daginn, þá er það aðeins brot af þessum tíma.

Nú liður að vori og tíðarfar þessa dagana er erfitt fyrir bændur landsins og gæti boðað enn meiri erfiðleika með hafís, vorharðindum og e. t. v. kali. Vonandi er þó að „landsins forni fjandi“ hverfi sem fyrst frá landinu og sunnanþeyr haldi innreið sína. En eins og nú blasir við þarf stóraukinn fóðurbæti til þess að fleyta fénaði fram. Með það í huga og að áburður á að hækka í vor um eða yfir 50% tel ég útilokað að skella nú á fóðurbætisskatti, eins og gert yrði ef ákvæði til bráðabirgða í meirihlutatill., sem hér liggur fyrir, yrði samþykkt. Ég lýsi því eindreginni andstöðu við það ákvæði.