04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3838 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ef ég væri ekki svo rámur sem raun ber vitni, þá mundi ég hafa hér langt mál um, því að hér er komið að máli sem vissulega væri ástæða til að ræða mjög náið, fara út í á hvern veg þeim málum, sem hér er að vikið, verður best skipað. Nú er frv. þetta komið til okkar úr Nd., þar sem það hefur hlotið jákvæða afgreiðslu, mætt töluverðri andstöðu þó og sú andstaða er hvergi nærri bundin við málið sjálft, heldur aðeins hvernig þarna er að staðið, þ. e. a. s. þarna er afmarkaður tekjustofn til ákveðinna hlutverka sem við margir hverjir álítum að eigi að vera alfarið í höndum ríkisins og ríkið eigi að sjá það vel fyrir að við þurfum ekki að setja nein sérlög um ákveðna tekjustofna til að standa þar undir. En nú er ég á því að eins og mál standa í dag, þá getum við vart annað en samþykkt frv. af þessu tagi. Ég geri mér hins vegar vonir um það, að áður en þetta frv. fær afgreiðslu sjái hér dagsins ljós frv. sem leysir að vísu ekki allan þann vanda sem hér er um að ræða, en kemur mjög inn á það og þarf að taka til athugunar samhliða, — mál sem fjallað hefur verið um í ríkisstj. nú á síðustu dögum og ég vona að verði afgreitt þaðan á morgun að tillögu hæstv. félmrh., þ. e. a. s. frv. um heildarlöggjöf um málefni þroskaheftra.

Hér er að vísu komið inn á víðtækara svið varðandi þennan Framkvæmdasjóð öryrkja en þar er að vikið. Engu að síður tel ég að við eigum að bíða eftir þessu frv., skoða þennan Framkvæmdasjóð í tengslum við það og athuga hvað við eigum sérstaklega að taka jafnvel út úr þessu frv. ef við sjáum að hitt nær fram að ganga.

Ég hef verið alfarið á þeirri skoðun og ligg ekkert á því, að sú aðferð, sem hér er lögð til, sé hrein neyðarráðstöfun, engu að síður nauðsynleg ef ekki er lengra gengið af samfélagsins hálfu en raun ber vitni til þessara mála. Og víst er um það, að þeir mörkuðu tekjustofnar, sem hafa staðið undir framkvæmdum af ýmsu tagi í þágu þessa fólks, öryrkja í landinu og annarra sem hafa átt við örðug lífsskilyrði að etja, hafa einmitt orðið til þess að eitthvað hefur verið aðhafst í þessum efnum. Ég er hins vegar á því að þetta sé ástand sem ekki megi vara of lengi, heldur eigi samfélagið að sjá til þess með skipulegri löggjöf, svipaðri þeirri sem hæstv. félmrh. mun leggja fram, vonandi á næstu dögum, og öðrum aðgerðum af hálfu fjárveitingavaldsins, að löggjöf af þessu tagi sé óþörf. Hér er talað um sérkennslusjóð. Hér er einnig talað um endurhæfingarsjóð. Við höfum grunnskólalög þar sem kveðið er á um fullt jafnrétti einstaklinga, þroskaheftra í þessu tilfelli, fullt jafnrétti þeirra til náms á við aðra þegna þjóðfélagsins. Og það er skylda okkar að sjá til þess, að fjármagn sé veitt svo sem þörf er á til að sinna þessu verkefni. Við vitum að til þess þarf mikið aukafjármagn, því að það að veita þessu fólki jafnrétti þýðir auðvitað miklu meira fjármagn en til venjulegrar kennslu. Við höfum líka endurhæfingarráð og við höfum vissa tekjuöflun í því sambandi, en engu að síður vantar þar fé einnig. Því hefur ekki verið komið í framkvæmd eins og skyldi. Og því er þetta frv. flutt af þörf og af kappi, og ég skil vel hug flm. í sambandi við þennan Framkvæmdasjóð öryrkja. Ef mál skipast þannig að við sjáum ekki fram úr þessu á annan máta, þá mun ég fyrir mitt leyti getað stutt þetta frv. Ég vil hins vegar gjarnan sjá það af hálfu þeirrar hæstv. ríkisstj., sem ég styð, að hún komi þannig málum nú fyrir þinglok að frv. af þessu tagi sé nánast óþarft og þannig verði staðið að fjárveitingum af hálfu ríkisvaldsins að við þurfum ekki á slíku að halda sem hér er ráð fyrir gert. Ég dreg sem sagt enga dul á það, að þetta er fyrirkomulag sem ég álít að sé ekki til frambúðar. Þetta er fyrirkomulag sem við eigum að leggja fyrir róða af þeirri einföldu ástæðu að við eigum að stefna að jafnrétti þessa fólks með öðrum hætti og samfélagið á að sjá sóma sinn í að gera það án þess að leggja til þess einhverja sérstaka afmarkaða tekjustofna.