04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3840 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir um Framkvæmdasjóð öryrkja, flutt af Jóhönnu Sigurðardóttur, er mjög þarft mál og er í raun flutt vegna þess að mönnum er ljóst og þá kannske sérstaklega flm., hversu illa hefur verið búið að þeim sem erfitt hafa átt um vik við það að lifa eðlilegu lífi í þjóðfélaginu, hve mikill skortur á jafnrétti hefur verið í þjóðfélaginu og hversu ríkið hefur illa staðið við þau lög sem það hafði áður samþ. í því skyni að sinna þessum verkefnum.

Í grunnskólalögunum, sem samþ. voru 1974, var gert ráð fyrir að ýmsu af því, sem hér er tilgreint, yrði sinnt, en því miður hefur það ekki verið gert. Ef grunnskólalögunum hefði verið fylgt varðandi þessi atriði, þá hefðu 600 millj. kr. átt að fara til þessara þarfa nú í ár. En því miður eru það ekki nema aðeins 60 millj. 1978 og 1977 einnig 60 millj. Sem sagt, það er ljóst að það er mikil tregða til þess að veita fjármagn í þessa hluti.

Það hefur margur haft þau andmæli uppi gegn þessu frv., að ekki væri rétt að samþykkja það vegna þess að gert væri ráð fyrir mörkuðum tekjustofnum. Ég vil taka undir það sem kom fram hér áðan, að það er eins í þessu sem öðru, að neyðin gerir það oft að verkum að fara þarf aðrar leiðir en kannske væri æskilegt. Við höfum nýverið afgreitt frá okkur efnahagsfrv. þar sem gert er ráð fyrir að endurskoða markaða tekjustofna, og er það minn skilningur, og reyndar býst ég við að það sé einnig skilningur þeirra þm. annarra er styðja þessa ríkisstj., að svokölluð félagsleg málefni verði látin sitja við annað borð en önnur málefni þegar svokallaðir markaðir tekjustofnar verða endurskoðaðir.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. sem ég tel harla gott og skora á þdm. að gera það sem mögulegt er til að flýta afgreiðslu þess. Ég tel að það þurfi ekki að bíða eftir því, að lagt verði fram frv. um málefni þroskaheftra. Við vitum ekki hvort það verður afgreitt á þinginu þó að það verði lagt fram, og er algerlega ástæðulaust að bíða með samþykkt þessa frv. þar til frv. um málefni þroskaheftra hefur komið fram.