04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3843 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég get verið sammála því sem hér hefur verið sagt, að hér er vissulega um gott mál að ræða og það er ekki borið fram að ófyrirsynju. Ég get líka verið sammála því, sem kom fram í tali hv. 3. þm. Austurl., að vissulega hefur mikið þokast áleiðis í þessum málum á síðustu árum og m. a. fyrir það að veitt hefur verið til þeirra fé í vaxandi mæli, meira fé hlutfallslega en áður var. Þó verð ég að segja það, að ég er dálítið hissa á að Nd. hefur nú afgreitt þetta frv. hingað til okkar. Ég er mjög hissa á því þegar ég lít til þess, hve erfiðlega hefur oft gengið að fá viðurkenndar þarfir þessa málaflokks á undanförnum árum. Ég hef vegna þess hlutans, sem snertir skólamálin, haft af því sérstök kynni um fjögurra ára skeið. Það var ekki fyrr en í þriðju atrennu með því að setja það algerlega á odd af minni hálfu ásamt með framlögum til kennaramenntunarinnar, að tókst að fá teknar upp á ný fjárveitingar í fjárl. til þess að hefja framhaldsbyggingar fyrir skóla þroskaheftra í Öskjuhlið og svo við Lyngásheimilið. Á þeim árum var ákaflega erfitt að fá viðurkenndar þarfir heimilanna fyrir kennaramenntað fólk til starfa. Það tókst þó í lokin að fá þar verulega leiðréttingu á. Í lokin, segi ég, og þá á ég við að þegar ég hætti að sinna þessum málaflokki voru í einu lagi samþykktar 14 kennarastöður við þessar stofnanir. En í framkvæmd okkar skólalöggjafar gerist það, að þegar fjölgar í venjulegum skóla með börn með venjulegan þroska, þá er kennurum fjölgað sjálfkrafa og þarf ekki til þess neitt sérstakt leyfi, en til þess að fá að ráða kennara að stofnun þroskaheftra þarf sérstakt leyfi frá ráðningarnefnd og þær heimildir hafa sannarlega ekki legið á lausu á undanförnum árum. Þess vegna er ég svolítið hissa á því, að þetta frv. með verulegar fjárveitingar innbyggðar hefur nú fengið greiða leið út úr hv. Nd.

Ég sagði áðan að hér er vissulega um gott og þarft mál að ræða og er ekki borið fram að tilefnislausu, heldur vegna þess, að þrátt fyrir það að mikið hafi verið aukinn stuðningur hins opinbera við þann málaflokk sem hér um ræðir, þá þarf miklu meira til. Þetta er ekki svo síðbúið allt saman af neinum illvilja að sjálfsögðu, heldur hreinlega vegna þess að menn hafa ekki fyrr en til skamms tíma kunnað tökin á þessu og menn hafa ekki heldur haft menntað fólk til þess að sinna kennslu og öðrum atriðum í þessu sambandi fyrr en nú nýlega. En ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir Alþ. og ríkisstj. að gæta nokkurs samræmis í vinnubrögðum sínum.

Það ber dálítið á því núna og ég held meira en oftast áður, að þm. flytja mál um málaflokka sem heyra undir ráðh. sama þingflokks og þm. hljóta að vita að eru til vinnslu í viðkomandi rn. Mér finnst þetta dálítið óskipuleg vinnubrögð, svo að ég segi ekki meira. Nú er það vitanlegt að það er frv., kannske ekki hliðstætt, en fjallar um sama verkefnasvið, á borði hjá hæstv. félmrh. og búið að vera þar alllengi. Ég held að það sé mjög skynsamlegt, þegar þetta mál nú kemur hér til n., að sú n. gefi gætur að því frv., sem ég tel víst að verði sýnt innan tíðar án þess að ég hafi um það beinar upplýsingar hjá viðkomandi hæstv. ráðh. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt.

Það frv., sem ég er að tala um, fjallar almennt um málefni þroskaheftra og er tilraun til að setja heildarlöggjöf um þau má(efni. Sú frv.-smíð á sér nokkuð langan aðdraganda. Það var hv. 3. þm. Austurl. og fleiri, ef ég man rétt, a. m. k. var hann 1. flm., sem flutti till. um það hér á Alþ. að skora á ríkisstj. að undirbúa slíka löggjöf. Ég var þá menntmrh. og til þess að flýta fyrir málinu óskaði ég eftir samstarfi við heilbrrn. og félmrn. við að setja slíka nefnd, hvað sem liði samþykkt till. Ég man ekki hvort hún var þá samþykkt, enda er það oft svo að till. eru lengi á leiðinni gegnum þingið. Slík n. var sett á fót. Í henni voru ekki fulltrúar frá neinum samtökum í styrktarfélögunum, heldur aðeins frá þremur rn. Þessi n. samdi frv. Samtökin eða styrktarfélögin voru ekki ánægð með þetta frv., þótt það væri sýnt þeim bæði á vinnslustigi og svo þegar það var fullunnið, en þá hafði verið tekið mið af ýmsum ábendingum þeirra. Síðan er það að sett er ný n. í málið. Menntmrh. skipaði formann í fyrri n., en félmrh. í seinni n., því að það varð sammæli þeirra, sem um þessi mál fjölluðu, að það væri eðlilegt að málefni þroskaheftra í heild heyrðu undir félmrn. Vangefinn maður er ekki í skóla allt árið og hann þarf ekki endilega læknishjálp alla ævina, en hann þarf félagslega aðstoð alla tíð. Þess vegna er eðlilegt, að það rn., sem á að fylgjast með málefnum þessa fólks ævilangt, hafi forustu um heildarlöggjöf á þessu sviði, að ég tel. Og það var raunar, eins og ég sagði áðan, sammæli þeirra sem um þetta fjölluðu. Seinni n. starfaði því undir formennsku fulltrúa frá félmrn. En sem sagt, þetta frv. er ávöxtur af þessu starfi og þessum undirbúningi sem ég rakti.

Ég held að það sé nauðsynlegt að samræma þessi tvö mál sem hér eru á ferðinni. Mér er kunnugt um að í því frv. er líka fjallað um tekjuöflunarhliðina. Ég hef haft dálitla sérstöðu varðandi markaða tekjustofna. Menn eru ekki alveg sammála um þá. Það hefur verið nokkuð áberandi í mínum flokki, að menn hafa verið andvígir mörkuðu tekjustofnunum, og t. d. tveir síðustu fjmrh. og líklega einnig núv. fjmrh., skilst mér, eru andvígir þeim og vilja leggja þá niður. Ég auðvitað fellst á það sem heildarstefnu að menn séu ekki með markaða tekjustofna út og suður. En þegar um er að ræða mál eins og þetta, sem eru brýn, en erfiðlega gengur að fá fram, þá getur það verið nauðsynlegt. Og það hefur oft reynst svo, að með því að taka upp markaða tekjustofna hefur fyrst komist skriður á viðkomandi mál eða málaflokk. Ég vil því ekki fordæma þá leið, ekki í þessu tilviki a. m. k. Hitt er svo annað mál, að það er alveg óhjákvæmilegt þegar fjallað er um þó þetta stóra liði, — þarna er gert ráð fyrir milljarð eða vel það, — að þá verða menn að vinna verkin í nokkru samræmi og taka tillit til annarra hlutá. Auðvitað tökum við ekki einn milljarð af þessum tekjustofni, áfengis- og tóbakssölunni, sem einn hv. þm. hér var raunar að fordæma, án þess að það hafi sín áhrif.

Ég vil sem sagt láta það koma fram, að ég tel að þarna sé hreyft hinu merkasta máli og það beri að athuga þetta allt vandlega og jafnframt að gæta samræmis, bæði gagnvart öðrum málatilbúnaði, sem hér hefur verið vikið að og er á vegum hæstv. félmrh., og gagnvart öðrum þáttum í tekjuöflun hins opinbera.