04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. 5. þm. Reykn. þykir mér rétt að undirstrika það, að ég hef upplýsingar um að frv. um málefni þroskaheftra var afhent 29. des. s. l. til viðkomandi rn. Það hefur því legið þar síðan. Í sambandi við það frv. vil ég fagna því sem kom fram í máli hans, að það muni sjá dagsins ljós hér á Alþ. jafnvel á morgun. Frv. þetta er samið í fullu samráði við samtök þroskaheftra og tekur fullt tillit til þess skipulags og þeirrar meðferðar á þeim málum sem það fólk vill og telur að komi þroskaheftum í þjóðfélaginu að mestum notum. Ég vil undirstrika að það er einmitt kostur á hinu væntanlega frv. að þeir, sem hafa fjallað um það og haft bein áhrif á gerð þess, standa einmitt daglega í því að meðhöndla þá sem þannig er háttað um, og eiga sumir einmitt við slík vandamál sjálfir að stríða. Þess vegna treysti ég því, eftir að hafa lesið frv. vandlega að þar sé á ferðinni löggjöf sem er merk að þessu leyti og örugglega kemur þessum þjóðfélagshópum að mestum notum.

Ég vil í sambandi við þetta mál einnig segja það eftir að hafa starfað í fjvn. á s. l. hausti og fjvn., eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl., leitaðist við að auka verulega fjármagn til þeirra hópa í þjóðfélaginu sem þarna er um að ræða, þá komumst við greinilega að þeirri niðurstöðu að samstarf eða samræmda löggjöf um þessi mál vantar í þjóðfélagi okkar. Þar rakst hvert á annars horn, og við urðum sannarlega vitni að því, að ekki fóru saman óskir þeirra sem voru að fjalla um vissa málaflokka í málefnum öryrkja, þroskaheftra og annarra. Þess vegna er það skoðun mín, að við þurfum að vanda vel meðferð þessara mála á hv. Alþingi.

Ég fagna því, að frv. um málefni þroskaheftra kemur á borðin á morgun, og vænti ég þess að hv. þn., sem fær þetta mál til meðferðar, sjái ástæðu til að skoða bæði málin í samhengi.