04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3851 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

243. mál, jarðræktarlög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. sagði í ræðu sinni áðan, að hann teldi jarðræktarlögin eina merkustu löggjöf þessarar þjóðar, eins og hann orðaði það. Ég er honum sammála um að svo er og um mikilvægi jarðræktarlaga fyrir landbúnaðinn í landinu. En einmitt vegna þess að svo er, þá þarf vel að vanda þegar sett eru jarðræktarlög og einnig þegar jarðræktarlögum er breytt. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að þessa hafi verið nægilega gætt við samningu þess frv. sem hér liggur fyrir. Það má segja að það sé á vissan hátt bæði að forminu til og efnislega. Þó má raunar segja að hvort tveggja séu efnisástæður.

Það sem ég kenndi einnig við formið er það ákvæði í þessu frv. sem er grundvöllur þess, að veita landbrh. heimild til að ákveða tilgreind frávik frá ákvæðum jarðræktarlaganna. Ég tel að með þessum hætti sé farið út á mjög varhugaverða braut, hver svo sem sá ráðh. kann að vera sem ætlað er að fara með það vald. Ég tel að hér sé um svo þýðingarmikil atriði að ræða að eðlilegt sé að ákvörðun um þau sé ekki í hendi framkvæmdavaldsins eða ráðh., eins og gert er ráð fyrir hér í frv. Og það breytir engu í mínum huga í þessu efni þó að gert sé ráð fyrir að landbrh. skuli beita þeirri heimild, sem honum er veitt samkv. lögum, í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Þetta er fyrsta aths. sem ég geri við þetta frv., og hún er í mínum huga mjög mikilvæg.

Hæstv. ráðh. sagði að þetta frv. hefði verið lagt fyrir Búnaðarþing nú í vetur og það hefði mælt með samþykkt þess — eða meiri hluti Búnaðarþings. Það var ágreiningur á Búnaðarþingi um þessi mál. Ég hygg að það hafi ekki verið að ófyrirsynju. Það kemur ýmislegt til í því efni.

Í þessu frv. er t. d. gert ráð fyrir að framlög samkv. jarðræktarlögum eigi að miða við stærðarmörk Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þetta fyrirkomulag orkar tvímælis og það af fleiri en einni ástæðu. Lánareglur Stofnlánadeildar landbúnaðarins fjalla ekki einungis um sömu þætti og jarðræktarlögin. Auk þess eru þessi stærðarmörk Stofnlánadeildarinnar háð ákvörðunum stjórnar Stofnlánadeildarinnar hverju sinni. Ef einhver þörf er á stærðarmörkum varðandi einstaka liði jarðræktarlaganna, þá er eðlilegast að kveða á um það í reglugerð eða í lögunum.

Við endurskoðun jarðræktarlaganna árið 1972 var leitast við að einfalda framkvæmd þeirra, m. a. með því að fella niður ýmis skerðingarmörk sem í framkvæmd höfðu leitt til verulegs misræmis. Samkv. a-, b- og c-liðum 3. gr. frv. á nú að miða upphæð framlaga við ákveðna túnstærð. Þó hefur það verið svo að undanförnu, að leitast hefur verið við að auka hagræðingu t. d. við framræslu, m. a. með því að bjóða út þau verkefni sem um er að ræða. Sú breyting, sem felst í frv. því sem hér er til umr., er andstæð þessari viðleitni. Framræsla mun því dragast saman, verkefni verða smærri og dreifðari og mikil vandkvæði eru á hvar draga á skerðingarmörk. Af þessu mun leiða að allur rekstrargrundvöllur við framræslu verður stórum verri. Það veldur um leið auknum tilkostnaði við framræsluna.

Hæstv. landbrh. vék einnig að þeim lið sem viðkemur grænfóðri og fór nokkrum orðum um þau mál. Ég vil í því sambandi benda á að ræktun grænfóðurs er einn veigamesti þáttur í hagræðingu í landbúnaði. Með ræktun þess sparast erlent kjarnfóður, beitartími er lengdur, beitarálag á úthaga minnkar, slátrun sauðfjár getur að bagalausu staðið lengur, auk þess sem ræktun grænfóðurs er veigamikill þáttur í framleiðslu graskögglaverksmiðja. Það eru þessar staðreyndir og ýmsar fleiri sem menn verða að hafa í huga þegar gildi grænfóðursræktar er metið.

Þá er það enn eitt atriði sem frv. þetta varðar. Það er hirðing búfjáráburðar. Nýtingu búfjáráburðar hefur um langt skeið verið mjög ábótavant. Við endurskoðun jarðræktarlaganna árið 1972 var framlag til áburðargeymslna nokkuð aukið til hvatningar fyrir bættri nýtingu búfjáráburðar. Því marki er þó engan veginn náð. Auk þess hefur verð á tilbúnum áburði stórlega hækkað. Eru því nokkuð vandfundin þau rökin sem færð eru fram fyrir skerðingu á framlagi til áburðargeymslna eins og nú er ástatt.

Hæstv. ráðh. ræddi um þau ákvæði frv. sem varða ráðstöfun þess fjár sem ætlað er að spara við skerðingu framlaga til jarða- og húsabóta. Í frv. er um að ræða almennt orðalag um þessi efni, og því miður var það, sem hæstv. ráðh. sagði, einnig að mestu almennt orðað. Ég efast ekki um að það sé þörf á fjármagni til ráðstöfunar til lausnar þeim helsta vanda sem landbúnaðurinn á við að stríða í dag. En ég leyfi mér a. m. k. að efast um ýmsar þær leiðir sem þetta frv. gerir ráð fyrir til þess að afla fjár til að leysa þennan vanda. Í fyrsta lagi óttast ég að þau ráð, sem frv. býður upp á, geti í ýmsu aukið á vanda íslensks landbúnaðar í dag. Í öðru lagi hygg ég að ekki muni, þegar öll kurl koma til grafar, verða um mikið fjármagn að ræða sem upp verður skorið af þessum ráðstöfunum.

Hæstv. ráðh. sagði, eins og ég hef áður bent á, að jarðræktarlögin væru hin merkustu lög þjóðarinnar. Það hefur verið haft í huga þegar lögum þessum hefur verið breytt og þau endurskoðuð á undanförnum árum. Á síðasta aldarfjórðungi hafa jarðræktarlögin verið endurskoðuð nokkuð reglulega á 5–7 ára fresti. Í slíka endurskoðun hefur jafnan verið lögð mikil vinna, nefndir starfað milli þinga og leitast við að ná sem víðtækastri samstöðu um málið með því að leita eftir tillögum og umsögnum ýmissa fétagssamtaka í landinu. Ég hygg að ef slíkum vinnubrögðum væri beitt af nægilegri kostgæfni væri vel hugsanlegt að samkomulag næðist um endurskoðun og breytingar á jarðræktarlögunum. En á vissan hátt er með frv. þessu venju brugðið. Frv. er snöggsoðið. Það er um að ræða snöggsoðið frv. til breytinga á jarðræktarlögunum. Ég vil nú, fyrst þetta frv. er komið fram, vonast til þess að það takist í meðförum þingsins að athuga það vel og freista þess að ná breytingum á frv., en miklu má breyta að mínu viti til þess að fært sé að fylgja því eins og það er nú.