04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3859 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

247. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Helgi P. Seljan:

Herra forseti. Það er erfitt að mæla þegar röddin er ekki betri en þetta, en það er þó huggun harmi gegn að maður er ekki eins langorður.

Ég hlýt að fagna mjög framkomnu frv., sem er tvímælalaust mjög til bóta, og ég hlýt að þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hafa komið því inn í þingið á þann hátt sem hann hefur nú gert.

Ég hef nokkrum sinnum vakið athygli á málefnum þessarar stofnunar í fsp.-formi hér á þingi og hafði hugsað mér að flytja um það ákveðna þáltill., sem væri byggð á þeim meginatriðum sem koma fram í frv. Mér hefur lengi verið ljóst að þeir menn, sem hafa starfað og viljað vinna af samviskusemi að þessum málefnum, hafa að mörgu leyti verið illa í stakk búnir til þess, vantað til þess nægilegt sjálfstæði, haft þröngan fjárhag, skort einnig nægilegt öryggi til að framfylgja því sem þeir vildu framfylgja í þessum efnum, sem svo sannarlega er þörf á að vel sé að búið.

Ég komst fyrst í kynni við hið alvarlega ástand þessara mála þegar svokölluð „gamalskoðun“ fór fram í minni heimabyggð. Þar komu í ljós óteljandi atriði sem hefðu getað leitt til stórslysa. Var auðvitað mesta mildi að þau höfðu ekki orðið. Mér varð þá þegar ljóst og af viðtölum við þann ágæta mann, sem starfar að þessum málum eystra, að hér var sannarlega mikilla úrbóta þörf. Og ég hreyfði því þá þegar við hæstv. þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, að hann tæki þessi mál til gaumgæfilegrar endurskoðunar. Þetta var síðla á valdatíma hans og hann hóf þetta starf, en kom því ekki í framkvæmd af ástæðum sem allir þekkja — ríkisstj. fór frá — og síðan varð nokkurt hlé á framkvæmdum í þessu máli.

Ég bar svo tvívegis fram fsp. um það til hæstv. fyrrv. iðnrh., hvað áætlað væri að gera í þessum efnum. Þar benti ég á ýmis þau atriði, sem nú eru komin inn í þetta frv. og mér hefur verið bent á af þeim mönnum, sem að þessu hafa starfað og hafa sýnt sérstaklega lofsverðan áhuga á því að geta rækt störf sín af samviskusemi og koma því til leiðar t. d. að afstýra slysum og auka þekkingu manna almennt á þessum málefnum. Þeir bentu á að Rafmagnseftirlit ríkisins yrði aldrei hlutverki sínu vaxið fyrr en það væri orðið algerlega sjálfstæð stofnun, sem heyrði beint undir iðnrn. og hefði fjárhagslegt sjálfstæði sem byggðist annars vegar á þeim tekjustofnum, sem Rafmagnseftirlitið á í raun að hafa, og tekjustofnum, sem Rafmagnseftirlitið hefur að vísu haft heimild til, en ekki hafa innheimst, en nú er bætt við. Þeir lögðu áherslu á fræðsluhliðina ákaflega mikið, bæði í grunnskólum og öfluga fræðslu í fjölmiðlum fyrir almenning. Þeir lögðu áherslu á að tryggt yrði að ekkert raforkuvirki yrði tekið í notkun fyrr en Rafmagnseftirlitið hefði að fullu viðurkennt það. Auðvitað ætti þetta að vera sjálfsagt. En spurningin er: Hefur það verið sjálfsagt?

Varðandi raffangaprófunina á tímum hins mikla innflutnings á alls konar raftækjum hefur auðvitað verið lögð áhersla á að Rafmagnseftirlitið gæti fylgst sem nánast með öllum innflutningi raffanga svo að þar yrðu ekki af meiri háttar óhöpp eða slys. Í þessu sambandi sá ég lista hjá þessum starfsmönnum — ömurlegan lista — um slys af þessum ástæðum og mörgum fleiri, sem beinlínis má rekja til þess að rafföngin hafa verið flutt inn án þess að Rafmagnseftirlitið hefði getað komið við nægu eftirlíti með þeim. Þeir lögðu einnig á það ríka áherslu, og það er auðvitað ekki hvað síst, að tryggt yrði að nægur mannafli væri hjá Rafmagnseftirliti ríkisins til að virku og eðlilegu aðhaldi væri haldið uppi hvarvetna um land. Þeir bentu einnig á að þessi eftirlitsstörf krefðust æ víðtækari sérþekkingar, svo að ráðning hæfra manna í störfin þyrfti að vera sem öruggust og um sumt jafnvel lögbundin. Einnig tóku þeir fram, sem eðlilegt er, að það væri nauðsynlegt að skýr ákvæði væru sett um valdsvið þessarar stofnunar og möguleika hennar til að beita nauðsynlegum aðgerðum til þess að lögum um rafmagnseftirlit sé framfylgt að fullu jafnt hjá raforkuvirkjunum sem í raffangaprófunum.

Nú er eftir að sjá hvernig til tekst um framkvæmd hinna einstöku atriða, sem ég hef hér bent á og komin eru beint frá þessum starfsmönnum, þegar lagafrv. þetta er orðið að lögum, sem við skulum vona að verði á þessu þingi og að það geti gengið hratt í gegn, því að hér er ekki um neinn flokkslegan ágreining um málið að ræða, miklu frekar almenna flokkslega samstöðu um þetta hvar í flokki sem menn standa.

Mér hefur lengi verið ljóst, að það væri óeðlilegt með öllu að Orkustofnun hefði með yfirstjórn þessara mála að gera — ætti sem sagt að hafa Rafmagnseftirlitið sem undirstofnun til þess að hafa eftirlit með sér. Það hlýtur að vera vægast sagt óeðlileg aðferð og í raun og veru óviðunandi starfsaðstaða fyrir alla þá sem þar að vinna. Það hefur líka komið glögglega í ljós, að Orkustofnun hefur látið þessa undirdeild sína í þessu tilfelli mæta mjög afgangi, svo að ekki sé meira sagt. Það ef óhætt að benda á nokkur atriði í því sambandi, t. d. nauðsynlega reglugerðarsetningu, sem hefur dregist áratugum saman, og einnig má benda á það sem er kannske alvarlegast af þessu öllu hundsun ýmissa rafmagnsveitna á að fara eftir settum ákvæðum með þær „gamalskoðanir“, sem ég minntist á áðan, þar sem í liggja hinar válegustu hættur. Þetta hefur viðgengist áratugum saman.

Það var áðan minnst á innflutningsgjald upp á 3/4% í sambandi við rafföngin, sem hefur verið í lögum og lagt er til að haldi áfram að vera í lögum. Þetta gjald hefur ekki verið innheimt í langan tíma. Raffangainnflytjendum hefur verið hlíft við þessu gjaldi. Orkustofnun hefur greinilega ekki séð neina ástæðu til þess að ljá Rafmagnseftirliti ríkisins þennan nauðsynlega fjárhagsstofn. Og það er alveg óhætt að segja að margt bendi til þess, að Rafmagnseftirlitið hafi verið hornreka hjá þessari stofnun og því sé full ástæða til að fagna því að Rafmagnseftirlitið verði, eftir að þessi lög eru komin til framkvæmda, sjálfstæð stofnun með eigið ákvörðunarvald.

Mér þótti það sannast sagna broslegt þegar ég heyrði á síðasta ári að þessi stofnun, Orkustofnun, sem hefur orð á sér fyrir annað en ráðdeild og sparnað, hvað mikið sem hæft er nú í því, hefði jafnvel látið þau boð út ganga til rafmagnseftirlitsstjóra að það yrði helst að stöðva allar eftirlitsferðir hjá Rafmagnseftirliti ríkisins. Ef þetta er rétt, sem ég efast ekki um að sé, hefur verið betur gætt að ráðdeild og sparnaði hjá þessari undirdeild Orkustofnunar en hjá ýmsum öðrum deildum hennar, svo að ekki sé meira sagt.

Önnur dæmi mætti rekja hér um það, sérstaklega þá á þann hátt að Orkustofnunin, eins og ég benti á áðan, getur auðvitað ekki skoðast sem hlutlaus aðili gagnvart Rafmagnseftirlitinu varðandi rafvirki eða gufuveitur, jarðboranir og annað því um líkt. Það er alveg útilokað. Þarna hljóta hagsmunir að rekast á. Það er útilokað að hægt sé að samræma þá. Hlutleysi og sjálfstæði Rafmagnseftirlitsins er því nokkuð sem verður að teljast hornsteinn þess sem það hlýtur að geta byggt starf sitt á. Ég vil því fagna eindregið framtaki hæstv. iðnrh. og ég veit það af kynnum mínum við þá menn, sem að þessum málum hafa starfað, að þeir munu enn frekar fagna þessu. Ég býst við að þeir muni koma einhverjum aths. á framfæri við iðnn. um ýmis atriði sem þeir vilja leggja frekari áherslu á.

Ég bendi aðeins á eitt sem þeir hafa bent mér sérstaklega á, og það er varðandi reglugerðina í j-lið á bls. 3 í frv., það er í sambandi við ákvæði um fræðslu og upplýsingar til almennings um hættur af rafmagni og leiðir til að verjast þeim. Þar stendur „má“, en mér finnst sjálfsagt að þar standi: „skal setja ákvæði um fræðslu“ — og gæta þess að reglugerð fylgi stöðugt eftir æskilegri þróun og þörf á hverjum tíma.

Um þetta mætti hafa miklu lengra mál og rekja enn frekar þá nauðsyn sem til þess ber að þetta lagafrv. verði sem fyrst að lögum og það verði síðan tryggt að þeir tekjustofnar, sem Rafmagnseftirlitinu eru tryggðir með lögum þessum, verði nýttir til hins ítrasta og þar með að starfsmönnum Rafmagnseftirlitsins verði gert sem best kleift að sinna sínu mikilvæga hlutverki. En ég get ekki stillt mig um það í leiðinni að minna á það, sem ég hef sagt áður hér á Alþ. og raunar víðar, að vissulega þyrfti að samræma um margt alla þætti öryggismála okkar, varðandi eftirlit þeirra almennt, jafnvel setja um það eina heildarlöggjöf, þar sem hinir ýmsu þættir eftirlitsmála okkar í sambandi við öryggismál á vinnustöðum almennt, brunaeftirlit og margt fleira væru allir saman samræmdir betur en nú er og samstarf milli þessara aðila gæti verið betra og öruggara. Það er mál sem bíður síns tíma, en er vissulega vert að taka til nánari athugunar.