04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3862 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

141. mál, fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Skömmu fyrir áramót var afgreidd í Sþ. ályktunartill., þar sem þingið heimilaði að staðfesta mætti fyrir Íslands hönd nýjan samning um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi. Þannig stóð á, að talið var nauðsynlegt að staðfesta þennan samning fyrir áramót vegna ákvæða sem eru í honum og hefðu frestað framkvæmd hans í heilt ár ef nægjanlegur fjöldi ríkja hefði ekki gert það. Þess vegna var málinu hraðað og engin fyrirstaða af hálfu þingheims að afgreiða það þá. Hins vegar er nauðsynlegt að til sé í lögum heimild fyrir sjútvrh. til þess að setja reglur um framkvæmd þessa samnings. Var ekki tími til þess að afgreiða lög með slíkum heimildum fyrir jólin. Þess vegna var frv. þetta aðeins lagt fram á þeim tíma og hefur nú hlotið afgreiðslu í Nd. Á þskj. 474 greinir frá því hvernig Nd. afgreiddi frv. frá sér. Hún gerði aðeins örlitla formbreytingu samkv. ábendingu sjútvrn., en ekki efnisbreytingu.

Það, sem hér er um að ræða, er ein af mörgum afleiðingum 200 mílna fiskveiðilögsögu sem flest nágrannaríki okkar hafa tekið sér. Í marga áratugi hafa verið tvenns konar samtök ríkja um fiskveiðar í Norður-Atlantshafinu, annars vegar á austanverðu hafinu, en hins vegar á vestanverðu hafinu, og höfum við verið aðilar að hvorum tveggja, þó að austanvert Atlantshafið sé að sjálfsögðu miklu nær okkur og við eigum nokkru minna erindi í samstarf ríkjanna við vestanvert hafið, sem eru fyrst og fremst ríki Norður-Ameríku. Aðild að þessum samningi eiga þó allflest fiskveiðiríki í Evrópu, jafnvel í austanverðri álfunni.

Herra forseti. Ég vil vænta þess, að hv. Ed. afgreiði þetta mál eins og hið fyrra og geri það í samræmi við þá ályktun Sþ. að Ísland sé aðili að þessum samningi.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.