04.04.1979
Neðri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3864 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið afgreitt í hv. Ed. með nokkrum breytingum.

Það hefur nú þegar verið rætt allmikið um aðdraganda þessa frv., bæði innan þings og utan, og ég ætla því að sleppa því að gera grein fyrir honum.

Í framsöguræðu minni í hv. Ed. gerði ég nokkra grein fyrir þjóðhagshorfum, en ég ætla að láta nægja nú að vísa til almenns inngangs í aths. með frv. um það efni og snúa mér að því að gera grein fyrir efni frv. eins og það nú liggur fyrir.

I. kafli frv. fjallar um almenna stefnumörkun í efnahagsmálum, þar sem annars vegar er kveðið svo á að ráðstafanir stjórnvalda í efnahags- og fjármálum skuli jafnan miðaðar við helstu markmið efnahagsstefnunnar án þess að jafnvægi sé raskað eða öryggi teflt í tvísýnu. Það hefur verið gerð aðeins örlítil orðalagsbreyting á 2. mgr. 1. gr. frv. í hv. Ed., en það haggar ekki við henni. — Hins vegar er svo í I. kafla kveðið á um skipulega gerð þjóðhagsáætlunar á hverju ári til viðmiðunar við stefnumótandi ákvarðanir í efnahagsmálum.

Forsrh. mun fyrir hönd ríkisstj. gera grein fyrir þjóðhagsáætlun þeirri eða þjóðhagshorfum, sem ríkisstj. leggur til grundvallar stefnu sinni í efnahagsmálum, á sama tíma og stefnuræða hans er flutt á Alþ. Með þessu móti fæst skýr undirstaða undir umr. og ákvarðanir á einstökum sviðum efnahags- og fjármála í störfum þingsins.

II. kafli frv. fjallar um samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Í þessum kafla er mælt fyrir um reglubundið samráð stjórnvalda við samtök launafólks sjómanna, bænda og atvinnurekenda í efnahags- og kjaramálum. Er það í samræmi við þá meginstefnu ríkisstj., að árangursríkri og farsælli stjórn efnahagsmála verði ekki komið á nema í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Meginverkefni á samráðsfundum yrði að fjalla um helstu þætti efnahagsmátanna og mörkun efnahagsstefnunnar í því skyni að leggja grundvöll að samræmdum ákvörðunum um efnahagsmál. Þá yrði einnig fjallað um þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir hins opinbera, tekjustefnu og forsendur þeirra. Loks yrði fjallað um önnur þau atriði sem horfa til framfara á sviði atvinnu- og kjaramála og raunar efnahagsmála almennt.

Gert er ráð fyrir að nánari reglur um samráðið verði settar í reglugerð eftir því sem þurfa þykir.

Þessi kafli tók ekki breytingum í hv. Ed., en hins vegar var honum nokkuð breytt frá því sem var í upphaflegum till. að frv.-gerð, þar sem gert var ráð fyrir sérstöku kjaramálaráði sem færi með það hlutverk sem þarna er um að tefla. Breytingar á till. þessum voru gerðar samkv. ábendingum umsagnaraðila og þá einkum Alþýðusambands Íslands. Það má e. t. v. segja að þessi kafli sé ekki í jafnföstum skorðum með þessum hætti og gert var ráð fyrir í upphafi, en á móti kemur það hins vegar að ekki er þarna um neina nýja stofnun að tefla, og þeirri stefnu má segja að sé fylgt allar götur í frv. að ekki er um að ræða neinar nýjar stofnanir til að annast þau verkefni sem fjallað er um í frv.

III. kaflinn fjallar um ríkisfjármál. Ákvæði hans skiptast í þrjá þætti: í fyrsta lagi ákvæði er lúta að gerð fjárl. og heildarstjórn ríkisfjármála, í öðru lagi eru ákvæði um beitingu ríkisfjármála á árunum 1979–1980 í því skyni að setja ríkisumsvifum hæfileg mörk til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og þar með draga úr verðbólgu, í þriðja lagi eru ákvæði er varða eftirlit með framkvæmd fjárl. og hagsýslustarfsemi í því skyni að auka aðhald og hagkvæmni í ríkisrekstri svo og draga úr útgjöldum.

Gerðar voru orðalagsbreytingar í hv. Ed. varðandi ákvæðin í þessum kafla, bæði að því er varðar 6. gr. og 7. gr. og reyndar líka 9. gr., en þær hafa ekki í för með sér efnisbreytingar í raun og veru.

Í kaflanum er lagt til að með fjárlagafrv. ár hvert verði lögð fram áætlun til næstu þriggja ára eftir lok þess fjárlagaárs sem fjárlagafrv. tekur til. Áætlun þessi skal vera vísir að langtímafjárlögum. Ekki er þó ætlast til að áætlunin verði bindandi, heldur er henni ætlað að sýna þá meginstefnu sem móta á í ríkisfjármálum og fjárlagafrv. er hluti af. Með þessum hætti fengist betri yfirsýn yfir stefnuna í ríkisfjármálum, sem styrkir þær ákvarðanir er varða tekjuöflun og skiptingu útgjalda á fjárl. Jafnframt verður gleggra hvaða mörk verði að setja í ríkisfjármálunum og hvaða svigrúm er fyrir hendi til framkvæmda, uppbyggingar og endurbóta á sviði opinberrar þjónustu. Áætlunargerð sem þessi er að auki ein meginforsenda þess, að raunhæft sé að taka á föstum og reglubundnum eða sjálfvirkum fjárframlögum samkv. öðrum lögum en fjárl. svo og mörkuðum stofnum, eins og till. er gerð um í 8. gr. Í 8. gr. er lagt til að tekin verði til endurskoðunar á þessu ári helstu lagaákvæði af því tagi. Þessi till. miðar fyrst og fremst að því að auka svigrúm ríkisstj. og Alþ. til þess að hafa áhrif á fjárfestinguna í landinu. Þau sjálfvirku framlög og þær mörkuðu tekjur, sem hér um ræðir, hafa í reynd nokkuð bundið hendur fjárveitingavaldsins og skert möguleika þess til að marka og framfylgja ákveðinni stefnu í efnahagsmálum og fjárfestingarmálum — sérstaklega með virkri beitingu ríkisfjármálanna. Hér er því stefnt að því, að ákvarðanir um þessi fjárframlög verði teknar til endurskoðunar og það kannað, að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa skuli framvegis ákveðin með fjárl. ár hvert og til frambúðar í langtímaáætluninni, sem gert er ráð fyrir í 7. gr.

Þau fjárframlög, sem verið hafa lögbundin og hér um ræðir, nema samtals 14.2 milljörðum kr. á fjárl. ársins 1979. Þeir tekjustofnar, sem ráðstafað hefur verið til sérstakra þarfa, nema alls 18.1 milljarði kr. á fjárl. ársins 1979. Eru þá undanskilin ýmis framlög og stofnar og má þar nefna framlög atvinnurekenda til almannatrygginga og gjaldskrár þjónustufyrirtækja.

Í greininni er lögð áhersla á að tillit sé tekið til félagslegra markmiða og samráð haft við hagsmunaaðila við endurskoðunina.

Með aths. með frv. er lögð fram skrá yfir helstu framlög og tekjustofna sem hér er um að ræða. Þegar menn athuga þá skrá geri ég ráð fyrir að margir muni komast að þeirri niðurstöðu, að ýmsum þeirra lagaákvæða verði ekki breytt. En á því á sem sagt að gera könnun. Það er ekki með ákvæði þessu sagt neitt um það, hvaða lagaákvæði af þessu tagi skuli niður falla eða verði breytt. En ég vil segja það, að ég get ekki fallist á þá skoðun sem heyrst hefur, að það væri einhver goðgá að nema þessar föstu fjárveitingar úr lögum eða mörkuðu tekjustofna og ætla Alþ., sjálfu fjárveitingavaldinu, að ákveða þær eins og aðrar fjárveitingar, allra helst þegar gert er ráð fyrir að með langtímaáætluninni sé þetta fest betur með því að gera ráð fyrir tillögum til fjögurra ára. Það er lítilsvirðing við hv. Alþ., við hv. fjárveitinganefnd, að ganga út frá því sem gefnu að það muni misfara með þetta vald sitt. Það er fjárveitingavaldið sem hefur þetta vald í höndum sér, og það er auðvitað undantekning að þetta vald sé tekið af því af almenna löggjafanum og hendur fjárveitingavaldshafans bundnar.

Þá er í þessum kafla einnig gerð till. um að niðurgreiðslum landbúnaðarafurða verði sett ákveðið hámark fyrir hverja afurð og miðist hámarkið við verð til framleiðenda. Ljóst er að niðurgreiðslur fela gjarnan í sér röskun á verðhlutföllum gagnvart öðrum vörum, auk þess sem mismiklar niðurgreiðslur á einstökum búvörum raska verðhlutföllum innbyrðis. Í þessu er fólgin sú hætta, að hvatt sé til framleiðslu á vörum, sem offramboð er á, og að niðurgreiðslurnar seinki og torveldi þær breytingar, sem þurfa að eiga sér stað í samsetningu framleiðslunnar eigi hún að geta staðist til lengdar. Með þessari till. er leitast við að ráða hér nokkra bót á, bæði hvað snertir röskun verðhlutfalla gagnvart öðrum vörum og eins gagnvart öðrum búvörum. Er gert ráð fyrir að þessu markmiði verði náð í áföngum á árunum 1979, 1980 og 1981.

Sú viðmiðunarregla, sem hér er gert ráð fyrir, er einföld í meðförum þegar um er að ræða afurðir svo sem mjólk og kjöt, þar sem unnt er að hafa beina viðmiðun við verð til bænda. Um aðrar afurðir, sem meira eru unnar, svo sem rjóma, smjör og ost, er þetta ekki eins einfalt. Helst hefur verið gert ráð fyrir að niðurgreiðslur megi mest nema sama hlutfalli af heildarkostnaðarverði og á mjólk og kjöti. — Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að fjárhæðum, sem verja skal til niðurgreiðslna á þessu ári samkv. fjárl., verði ekki breytt.

Það er ein af þversögnunum í íslenskri sögu, að þjóð, sem árum og jafnvel öldum saman svalt og bjó við matvælaskort, hafi nú þær áhyggjur einna helstar að of mikið framboð sé á matvælum. Sjálfsagt er að viðurkenna að hér er í svipinn um að ræða a. m. k. nokkurt vandamál, sem verður að snúast við af skynsemi, en án þess þó að fara út í öfgar.

Í 10. gr. frv. er að finna ákvæði um framkvæmd þeirrar lækkunar ríkisútgjalda um 1000 millj. kr. sem heimild var veitt til í fjárl. Gert er ráð fyrir að rn. geri till. um lækkun útgjalda hvert á sínu sviði til fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem síðan móti endanlegar till. til ríkisstj. í samráði við fjvn. og undirnefnd hennar. Tímatakmörkunum, sem sett voru í þessu efni, er af eðlilegum ástæðum breytt nokkuð með þeim breytingum sem gerðar voru á frv. í hv. Ed.

Í 11. gr. er stefnumarkandi ákvæði um heildarumfang ríkisfjármálanna á árunum 1979 og 1980. Lögð er áhersla á að við núverandi efnahagsástand verði ríkisfjármálunum beitt til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum, en með fyllsta tilliti til atvinnuástands.

Loks er í 12. og 13. gr. till. um endurbætur á eftirliti með framkvæmd fjárl. og aukna hagsýslustarfsemi í því skyni að auka aðhald í ríkisrekstri og tryggja sem hagkvæmasta meðferð opinberra fjármuna. Þessi ákvæði eru til fyllingar gildandi ákvæðum laga nr. 61/1931, um ríkisendurskoðun, og laga og reglugerðar um Stjórnarráð Íslands frá 1969. Gert er ráð fyrir að ríkisendurskoðun fylgist með framkvæmd fjárl. í umboði Alþingis. Í framhaldi af þessari till. hyggst ríkisstj. beita sér fyrir því, að sett verði ný lög um ríkisendurskoðun sem feli í sér grundvallarbreytingu á stöðu stofnunarinnar og hlutverki hennar. Gert er ráð fyrir að ríkisendurskoðun starfi í nánum tengslum við fjvn. og undirnefnd hennar. Þar er lögð aukin áhersla á hagsýslustarfsemi ríkisins í því skyni að auka hagkvæmni og sparnað í ríkisrekstri. Tillögur þessara greina munu hafa í för með sér til muna aukin umsvif þeirra stofnana, sem í hlut eiga, og getur þess vegna komið til þess að til þessara verka þurfi að ráða sérmenntað starfsfólk, en ávinningurinn réttlætir trúlega þann kostnaðarauka sem það hefur í för með sér. — 13. gr. hefur aðeins verið breytt í hv. Ed., en þar er þó ekki um neinar umtalsverðar breytingar að tefla.

Í IV. kafla frv. er fjallað um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir ríkisstj., er lagðar skulu fyrir Alþ. í tengslum við fjárlagafrv. Verða þær lagðar fram samtímis og væntanlega í einu lagi, eins og gert var fyrir þetta ár. Í kaflanum er ákvæði um að í fjárfestingar- og lánsfjáráætlununum skuli settar fram heildaráætlanir um opinberar framkvæmdir og fjármögnun þeirra og ákvarðanir um framkvæmdaframlög og framlög til fjárfestingarlánasjóða og útlánaáætlanir fjárfestingarlánasjóða, auk þess sem ákvæði eru um undirbúning áætlananna og nauðsynleg atriði vegna framkvæmdar þeirra. Einnig eru í kaflanum ákvæði sem ætlað er að leggja áherslu á nauðsyn þess að draga úr fjárfestingarútgjöldum og þau verði innan við fjórðung af þjóðarframleiðslu á þessu ári. Einnig eru ákvæði er stefna að meira aðhaldi í erlendum lántökum en verið hefur á undanförnum árum. Í kaflanum eru einnig ákvæði um að útlánareglur og lánskjör fjárfestingarlánasjóða verði samræmd.

Það er æskilegt að fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir séu lagðar fram um leið og fjárlagafrv., til þess að fyrir liggi heildaryfirlit yfir fjármunamyndun og fjármögnun í samhengi þjóðhagsáætlunar þegar fjárlagafrv. er til meðferðar á Alþ. Áætlanirnar eru gerðar til eins árs í senn, en þegar fram í sækir er nauðsynlegt að þær verði gerðar til nokkurra ára í senn, en verði jafnframt endurskoðaðar árlega. Að þessu verður stefnt á árunum 1979 og 1980. Þá er gert ráð fyrir að áætlununum fylgi stefnumótun í meginatriðum fyrir næstu þrjú árin eftir gildistíma þeirra, og er þetta til samræmis við ákvæðin um langtímafjárlög í 7. gr. frv.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja ákvæði 15. og 16. gr., heldur vísa til ákvæða frv. og aths. sem þeim greinum fylgja. — Það hafa verið gerðar breytingar varðandi 16. gr. frá upphaflegu frv., en þó ekki breytingar sem raunverulegu máli skipta. Breytingarnar er að finna í þskj. 511.

Það er mjög aðkallandi að efla áætlanagerð um einstakar greinar opinberra framkvæmda. Í 17. gr. er ákvæði þess efnis, að einstök rn. undirbúi slíkar áætlanir hvert á sínu verksviði, en fjárlaga- og hagsýslustofnun samræmi undirbúning og gerð þessara áætlana. Aðrar stofnanir, svo sem Framkvæmdastofnun, Orkustofnun og Þjóðhagsstofnun, munu einnig geta lagt lið í þessum efnum, en frumkvæðið er hjá rn. og það vil ég undirstrika. Nauðsynlegt er að því verði sem fyrst komið á, að áætlanir hvers árs verði gerðar innan ramma áætlana til nokkurra ára, til þess að unnt verði að marka stefnu í fjárfestingarmálum og ríkisfjármálum til lengri tíma en eins árs. Samhliða þarf að leggja áherslu á að bæta tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning einstakra verka.

Í 18. gr. er hins vegar fjallað um atvinnuvegaáætlanir. Áætlanir um þróun einstakra greina atvinnulífsins eru á verksviði Framkvæmdastofnunar samkv. núverandi skipulagi, en frumkvæði og þátttaka frá hlutaðeigandi rn. er hér einkar mikilvæg. Þróun atvinnulífsins er í ríkum mæli háð stefnu og aðgerðum stjórnvalda, ekki síst þar sem lánveitingar bæði til stofnlána og rekstrarlána eru að mestu leyti á vegum banka og fjárfestingarlánasjóða í opinberri eigu. Mikilvægt er að settir séu upp könnunarreikningar um þróun einstakra greina á næstu árum til þess að taka megi ákvarðanir um lánveitingar og önnur atriði, er hagi atvinnugreina varða, með yfirsýn yfir stöðu og þróun greinanna og gildi einstakra verka og framkvæmda. Nokkurt starf hefur þegar verið unnið á þessu sviði, bæði af Framkvæmdastofnun, Rannsóknaráði ríkisins og einstökum rn. Virðist eðlilegt að frumkvæði og ábyrgð á áætlanagerð um einstakar atvinnugreinar sé hjá viðkomandi rn. í samvinnu við samtök greinanna sjálfra, en þau njóti aðstoðar Framkvæmdastofnunar og Þjóðhagsstofnunar við verkið. Hlutverk Þjóðhagsstofnunar yrði þá fyrst og fremst að láta í té upplýsingar og sjónarmið varðandi almenna efnahagsþróun og tengja áætlanirnar annarri áætlunargerð. Verkefni Framkvæmdastofnunarinnar væri hins vegar að gera sérstakar kannanir og áætlanir fyrir einstakar greinar, en einnig að semja í samvinnu við Seðlabankann fjáröflunar- og útlánaáætlanir fyrir fjárfestingarlánakerfið, sem gera mætti markvissari væru þær tengdar atvinnuvegaáætlun.

Í 19. gr. er fjallað um undirbúning lánsfjár- og fjárfestingaráætlana Fjárfestingaráætlanir og fjárfestingarstjórn eru svo almenns eðlis, að þær verða ekki slitnar frá almennri stjórn efnahagsmála, og því eðlilegast að slíkar áætlanir séu unnar á vegum ríkisstj. sjálfrar. Flest þeirra áhrifatækja, sem fjallað er um í 15. gr., eru á vegum fjmrn. og því virðist eðlilegast að undirbúningur fjárfestingar- og lánsfjáráætlana sé á vegum ríkisstj. og Þjóðhagsstofnun, fjárlaga- og hagsýslustofnun, Seðlabanki og Framkvæmdastofnun ríkisins í samvinnu við einstök rn. annist nauðsynlega undirbúningsvinnu.

Í 20. gr. er heildarfjárfestingu sett mörk á árinu 1979. Í samræmi við þau markmið í efnahagsmálum, sem ríkisstj. hefur sett sér, að draga úr verðbólgu og ná afgangi í viðskiptum við útlönd og tryggja þannig fjárhagslega stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum, er nauðsynlegt að draga úr heildarfjárfestingu á árinu 1979 frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Til þess að leggja áherslu á þetta markmið er í þessari grein mótuð sú stefna, að fjárfestingarútgjöld verði innan við fjórðung af vergri þjóðarframleiðslu á árinu 1979. Á s.l. ári er talið að fjármunamyndunin hafi verið tæplega 27% af þjóðarframleiðslu og árin á undan var hlutfallið enn hærra og fór hæst árið 1975 eða í 34%. Ákvæði þessarar greinar ber að skoða með tilliti til núverandi aðstæðna í þjóðarbúskapnum og gæti því þurft að taka til endurskoðunar ef aðstæður breyttust að marki, t. d. þannig að ætla mætti að hætta væri á atvinnuleysi.

21. gr. frv. fjallar um útlánareglur og lánskjör fjárfestingarlánasjóða, en þær ráða miklu um framgang stefnunnar í fjárfestingarmálum og því er nauðsynlegt að marka skýra stefnu í þessu efni, sem miði að því að einfalda og samræma öll lánskjör sambærilegra lána, einkum að því er varðar nafnvexti, verðtryggingu og lánstíma. Með ákvæði 21. gr. er stefnt að því að ljúka því starfi á þessu ári. Starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna hefur einkennst af því, að útlán þeirra hafa í of ríkum mæli ráðist af sjálfvirkum reglum, t. d. sem ákveðinn hundraðshluti af framkvæmd, ef vissum formlegum skilyrðum er fullnægt, en í of litlum mæli af kröfum um arðsemi einstakra framkvæmda. Þessu verður að breyta með því að afnema, eftir því sem fært þykir, hinar sjálfvirku útlánareglur, en koma í staðinn á samræmdum reglum um arðsemimat o. fl. á einstökum framkvæmdum. Með sama hætti þarf að kanna lagaákvæði um framlög ríkissjóðs til fjárfestingarlánasjóða eftir sjálfvirkum reglum og athuga hvort ekki eigi að taka upp í staðinn beinar fjárveitingar á fjárlögum. En í því sambandi þarf auðvitað að skoða verkefni einstakra sjóða og þá sérstaklega með tilliti til félagslegra markmiða.

Í V. kafla frv. eru ákvæði um atvinnuvegaáætlanir til nokkurra ára í senn og frumkvæði rn. um gerð þeirra. Mælt er fyrir um, hvernig samræma skuli áætlanagerð, form áætlananna á Alþ. og rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Þá eru og ákvæði um fjáröflun til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins og skýrslugerð um fjárfestingu í atvinnuvegum, — Þessi ákvæði geta orðið mikilvæg þegar til lengri tíma er lítið.

Ég vil sérstaklega benda á 22. gr., sem er höfuðákvæðið í þessum kafla. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneyti einstakra atvinnuvega skulu hafa forgöngu um gerð atvinnuvegaáætlana hvert á sínu. sviði. Við áætlanagerðina skal sérstaklega miða að frekari vinnslu og bættri nýtingu innlendra hráefna og aukinni framleiðni atvinnuveganna og traustum rekstrargrundvelli þeirra. Jafnframt skulu kannaðar hugmyndir og gerðar áætlanir um nýjar atvinnugreinar, er treyst gætu undirstöðu þjóðarbúskaparins. Við undirbúning og skipulagningu áætlana skal leggja áherslu á skynsamlega og hagkvæma ráðstöfun auðlinda og skipulega landnýtingu til lengri tíma. Enn fremur skal hafa í huga æskilegt jafnvægi milli einstakra atvinnugreina auk þess sem áætlanir stuðli að skipulegri byggðastefnu og eflingu atvinnustarfsemi á fétagslegum grundvelli.“

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því frumkvæði, sem meiningin er að haft sé með þessari áætlanagerð, að stuðla að nýjum atvinnugreinum, en auk þess vil ég einnig undirstrika það, sem er tekið fram í greininni, áætlanirnar eiga einmitt að miða að traustum rekstrargrundvelli atvinnuveganna. Það er m. a. ástæðan til að þetta ákvæði sérstaklega kom þarna inn, að í áliti Vinnuveitendasambandsins var sérstaklega vikið að nauðsyn þess að rekstrargrundvöllur atvinnuvega væri tryggður. Öllum þm. er að sjálfsögðu ljós nauðsyn þess.

Annars var spurt talsvert í Ed. eftir fyrirmyndum að þessum kafla. Það var eins og menn héldu þar að Íslendingar væru orðnir svo ófrjóir að þeim gæti alls ekki dottið neitt nýtt í hug — það yrði alltaf að fá einhverjar fyrirmyndir annars staðar frá sem þyrfti að apa eftir. En ef grannt væri að gáð og litið aftur í íslenska sögu mætti finna a. m. k. spíruna að hugmyndinni að þessum kafla. En hann er jafngóður fyrir því, hvort sem hann á sér fyrirmyndir annars staðar eða ekki.

Efni VI. kaflans er tvíþætt. Í fyrsta lagi eru settar fram almennar viðmiðanir fyrir stjórn peningamála og ákvörðun gengis og vaxta. Í öðru lagi eru gerðar till. um hvernig beita skuli stjórntækjum peningamála gegn verðbólgu til jafnvægis í efnahagsmálum á þessu og næsta ári.

Í 28. og 29. gr. er áréttuð sú skylda Seðlabankans að vinna að því, að peningamagn í umferð og heildarútlán séu í samræmi við stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum. Þá er ákveðið að Seðlabankinn skuli gera áætlun til tveggja ára um breytingar á helstu peningastærðum og um lánamarkaðinn í heild á grundvelli þjóðhagsáætlunar, sbr. I. kafla þessa frv.

Í 30. gr. er gerð till. um viðmiðun fyrir aukningu peningamagns á næstu tveimur árum. Vegna þess að ýmsar utanaðkomandi breytingar geta haft áhrif á þessa stærð verður hér að vera um stefnuyfirlýsingu að ræða frekar en alveg ákveðið mark. Hins vegar er það ákveðinn vilji ríkisstj., að peningamálum verði beitt á virkari hátt en verið hefur til viðnáms gegn verðbólgu. Til þess að svo megi verða þarf að gera breytingar á nokkrum helstu stjórntækjum peningamála, auk þess sem jafnvægi í ríkisfjármálum er mikilvæg forsenda þess, að aukning peningaframboðs sé hófleg. — Í lok greinarinnar er settur sá fyrirvari, að víkja megi frá markmiðum hennar ef óvæntar breytingar verði í þjóðarbúskapnum.

Þau andmæli hafa heyrst gegn þessari grein líka, að það þekktist hvergi á byggðu bóli að sett væru svona ákvæði í lög. En ég verð að segja það sama um þetta og ég sagði um ákvæðið áðan, að það ætti ekki að vera nein goðgá þó að það væru einhver ákvæði í lögum hér sem ekki fyndust neins staðar annars staðar. Yfirleitt halda menn helst til fast við að það verði að finnast fyrirmyndir að öllu hjá öðrum og það geti ekkert frumlegt verið í löggjöf okkar. En hvað um það, eins og ég sagði er hér samkv. eðli málsins fyrst og fremst um stefnumarkandi markmið að tefla.

Við meðferð málsins í hv. Ed. var svo skotið inn nýrri grein, 31. gr., og hún er um aukna bindiskyldu í Seðlabankanum, um að hækka heimild til bindiskyldu af innstæðufé viðkomandi stofnunar úr 25%, eins og hún er nú, upp í 28%. Eru svo önnur ákvæði í greininni tilheyrandi þessu.

Greinatalan breytist í samræmi við að þessari grein er skotið inn, þannig að sú grein, sem áður var 31. gr., er nú 32. gr. Þar eru ákvæði um það, hvaða viðmiðun eigi að hafa við gengisskráningu íslensku krónunnar á hverjum tíma. Þykir nauðsynlegt að þessi almenna viðmiðun sé bundin í lög þegar um jafnmikilvægt hagstjórnartæki og gengisskráningu er að tefla.

Í 33. gr., sem nú er orðin, er gerð till. um að tekin verði upp í áföngum á þessu og næsta ári almenn verðtrygging, en vextir verði jafnframt lækkaðir verulega. Hin öra verðbólguþróun hérlendis að undanförnu hefur eðlilega leitt til þess að leitað er leiða til þess að leiðrétta skekkju af völdum verðbólgunnar á ýmsum sviðum efnahagslífsins. En tilfærsla eigna frá þeim, sem skulda í peningum, með vöxtum, sem liggja undir hraða verðbólgunnar, til hinna, sem geyma fé sitt á vöxtum undir verðbreytingum, er e. t. v. einn alvarlegasti fylgikvilli verðbólgunnar. Auk eignatilfærslu fylgir því ástandi, sem hér hefur ríkt, óhófleg eftirspurn eftir lánsfé og jafnframt brenglar verðbólgan mat á framtíðargildi fjárfestingar þegar raunverulegur vaxtakostnaður kemur ekki fram í lánskjörum. Leiðirnar til þess að verjast þessu eru tvær: Hækkun vaxta eða verðtrygging með lágum vöxtum. Hækkun vaxta og lækkun eftir verðbólgustigi hefur ýmsa ókosti sem verðtrygging hefur ekki, einkum ef hraði verðbólgunnar er breytilegur. Á hinn bóginn er ljóst að verðtrygging eftir á hentar ekki í öllum lánsviðskiptum til skamms tíma. Í þessari grein er lagt til að stefnt verði að verðtryggingu — og þar með jákvæðum, en lágum raunvöxtum — með vaxtaákvörðun Seðlabankans á næstunni. Hér er um vandasamt verk að ræða sem hlýtur að taka nokkurn tíma að koma á, en í þessu frv. er mörkuð skýr stefna í því efni.

Þeirri stefnu er svo sérstaklega fylgt eftir í VII. kafla frv. sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Það er eitt af markmiðum ríkisstj. í peningamálum að tryggja örugga ávöxtun sparifjár með því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Í lögum um verðtryggingu fjárskuldbindinga, nr. 71/1966, er gert ráð fyrir verulegum takmörkunum á notkun verðtryggingarákvæða í lánsviðskiptum. Í till. þessa kafla felst að þau ákvæði, sem hér er gert ráð fyrir, komi í stað laga nr. 71/1966.

Það er meginstefna þessara till., að tekin verði upp sem almennust verðtrygging á inn- og útlánum. Með samþykkt þeirra væru því sett almenn lagaákvæði um ákvörðun verðtryggingar, bæði í viðskiptum innlánsstofnana og utan þeirra, en nánari reglur varðandi verðtrygginguna yrðu settar af Seðlabankanum með sama hætti og vextir eru ákveðnir.Gert er ráð fyrir að verðtrygging útlána verði einkum með þeim hætti, að verðbólguþáttur vaxta leggist við höfuðstól láns í lok hvers vaxtatímabils. Þetta hefur þau áhrif, að raunverulegri greiðslubyrði afborgana og vaxta er dreift sem jafnast á lánstímann. Þessi aðferð er þó ekki framkvæmanleg að því er varðar viðskiptavíxla og verður því að taka tillit til verðtryggingarinnar við ákvörðun forvaxta og verðbótakaflans.

Þau lánskjör, sem þannig yrðu ákveðin fyrir innlánsstofnanir, yrði einnig heimilt að nota í öllum sambærilegum viðskiptum aðila utan bankakerfisins. Í reynd yrði því heimilt að taka upp almenna verðtryggingu í lánsviðskiptum, t. d. sem tengd eru kaupum og sölu á fasteignum, framleiðslutækjum eða öðrum varanlegum verðmætum. Slík verðtryggð viðskipti yrðu háð þeim reglum sem Seðlabankinn setur um þau efni. Í till. er gert ráð fyrir sérstökum reglum um lánskjör fjárfestingarlánasjóða og um heimildir lífeyrissjóða til að veita verðtryggð lán, en lífeyrissjóðum yrði að sjálfsögðu einnig heimilt að veita lán með sömu kjörum og innlánsstofnanir.

Í till. eru almenn ákvæði um helstu skilyrði sem reglur um verðtryggingu verða að fullnægja. Gert verður ráð fyrir því sem meginstefnu, að verðtrygging miðist við opinbera skráða vísitölu, en einnig yrði heimilt að leyfa að verðtrygging miðist við gengi erlends gjaldeyris, þar sem það er annars heimilt og nánar er mælt fyrir í tiltekinni grein frv.

Meðal formskilyrða, sem sett eru fyrir verðtryggingu, má nefna að verðtryggt sparifé, kröfur og skuldbindingar séu ætíð skráðar á nafn og að getið sé verðtryggingar þegar skuldbindingar eru færðar í veðmálaskrár og á veðbókarvottorð. — Það er sem sagt meginstefna frv. — kaflans að heimila verðtryggingu sparifjár og lánsfjár eftir þeim reglum sem koma fram í till. og ætlað er að tryggja sanngjarna og örugga framkvæmd.

Hugtakið verðtrygging er tekið í víðtækri merkingu og á við hvers konar tilvik þar sem um er að ræða að greiðsla eða fullnæging fjárkröfu sé tengd breytingu á verðvísitölu og gengi gjaldeyris, þegar það á við í endurlánum eða annarri viðmiðun. Að öðru leyti eru tillögur þessa kafla að miklu leyti tæknilegs eðlis, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja nánar. Rétt þykir mér þó að vekja athygli á því sérstaka ákvæði sem er um rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna, sem breytt var að formi til — og með réttu — í hv. Ed., en hefur sama efni og áður. Það er Seðlabankinn sem setur reglur um það efni að fengnu samþykki ríkisstj.

Í VIII. kafla er svo fjallað um greiðslu verðbóta á laun. Tillögur þessa kafla voru byggðar á aths. viðnámslagafrv. frá í nóv. 1978, á starfi vísitölunefndar og samráði við samtök launafólks. Einmitt eftir ábendingum frá samtökum launamanna voru felld niður ákvæði, óbreytt, sem höfðu verið í upphaflegum till. að frv. þessu. Var gert ráð fyrir því í frv. að settar væru almennar reglur um verðbreytingu launa, en á hinn bóginn gert ráð fyrir því sem sjálfsögðu, að um grunnkaup yrði samið í kjarasamningum. Kveðið er á um greiðslu verðbóta á þriggja mánaða fresti miðað við breytingar sérstakrar verðbótavísitölu sem reiknast eftir framfærsluvísitölu. Er þetta ekki breyting frá því sem verið hefur, þó að ýmsir hefðu talið æskilegt að það tímabil væri lengt sem liggur á milli útreikningsdagá. Þá var gerð sú breyting frá því skipulagi, sem gilt hefur, að frá framfærsluvísitölu er dregin sú hækkun hennar eða lækkun er leiðir af breytingum búvöruverðs vegna breytinga á vinnulið verðlagsgrundvallar búvöru, breytingum vegna áhrifa olíuverðshækkana, eins og nánar segir í því ákvæði sem þar er um, og breytingum á áfengis- og tóbaksverði.

Um þetta eru ákvæði í 50. gr. Þau eru óbreytt frá því sem þau eru lögð fram að öðru leyti en því, að felld var niður setning í 2. tölul., sem fjallaði um olíuverðsákvarðanir eða breytingar sem stöfuðu af þeim. Setning þessi stóð í upphaflegu frv.-gerðinni og var svona: „eða til annarra ráðstafana til þess að milda áhrif hækkunar olíuverðs innanlands“. Þetta var fellt niður í hv. Ed.

Aðalatriðið í þessum kafla er hins vegar það nýmæli, að gert er ráð fyrir sérstökum tímabundnum frádrætti frá breytingum verðbótavísitölu ef viðskiptakjör þjóðarbúsins rýrna frá viðskiptakjarastigi ársins 1978, en frádráttur þessi fellur niður ef viðskiptakjör batna og gæti þá snúist í viðbót. Við gerð þessa kafla var tekið verulegt tillit til ábendinga, eins og ég sagði áðan, frá samtökum launafólks og skriflegra umsagna um frv.drög sem tekin voru saman. En á sjálfum ákvæðum þessa kafla voru ekki, þegar frá eru skilin bráðabirgðaákvæðin, gerðar breytingar í hv.Ed. umfram það sem ég minntist á áðan, breytinguna á 50. gr. varðandi 2. tölulið.

Það er rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 51. gr., sem hér er höfuðnýmælið og að mínum dómi aðalatriðið, af því að þar er það viðurkennt — sem er nýmæli — að það eigi og skuli taka tillit til viðskiptakjara við ákvörðun viðskiptaverðbótavísitölu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Rýrni viðskiptakjör þjóðarbúsins á gildistíma þessara laga frá viðskiptakjarastigi ársins 1978, þannig að innflutningsverð hækki umfram útflutningsverð, skal draga frá hækkun verðbótavísitölu 30% þeirrar hlutfallstölu, sem viðskiptakjararýrnuninni nemur. Við mat á viðskiptakjaraviðmiðun verðbóta frá 1. júní 1979 skal byggt á viðskiptakjaravísitölu Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar fyrir fyrsta ársfjórðung 1979 að 2/3, en að 1/3 á mati á viðskiptakjörum á grundvelli dagverðs á helstu útflutnings- og innflutningsvörum eftir miðjan apríl 1979. Hliðstæð tímaviðmiðun skal gilda fyrir viðskiptakjaramat við síðari verðbótaútreikning.

Á sama hátt og í 1. mgr. segir skal viðskiptakjarabati koma til hækkunar verðbótavísitölu við verðbótaútreikning. Ekki skal taka tillit til breytinga á viðskiptakjörum samkv. þessari grein, nema breytingin nemi 1% eða meira milli útreikningsdaga verðbótavísitölunnar.“

Í 52. gr. er kveðið á um að Kauplagsnefnd skuli setja nánari reglur um framkvæmd 48.–51. gr. Það er rétt að undirstrika það, að Kauplagsnefnd hefur mjög mikið vald í þessum efnum og þar hefur enginn neitt yfir henni að segja. Sum þau atriði, sem þarna er um að tefla, eru undir mati hennar komin.

Það þarf ekki að rekja það hér eða fjölyrða um það, að um þessi ákvæði hefur verið nokkur ágreiningur. M. a. vegna ábendinga, sem komu fram hjá Verkamannasambandi Íslands, hefur verið gerð breyting á ákvæðum til bráðabirgða. Þær breytingar koma fram í þeim bráðabirgðaákvæðum sem nú fylgja frv.

Í fyrsta lagi er nú ákveðið þar að verðbætur samkv. ákvæðum þeim, sem á undan eru komin, greiðast á grunnkaup sem svo er ákveðið: Greitt kaup í mars 1979, þ. e. grunnkaup, verðbætur og verðbótaauki samkv. þágildandi samningum og lögum, telst grunnkaup við upphaf gildistíma þessara laga.

Síðan er ákvæði um að grunnkaup þetta skuli haldast óbreytt þar til um annað hefur verið samið. Á þessu var við 3. umr. í hv. Ed. gerð sú breyting að á eftir þessum orðum skyldi koma inn setning þar sem segir: Að því er varðar félagsmenn í BSRB og BHM fer þó eftir samkomulagi því, sem gert hefur verið við fjmrn. Í framhaldi af því heldur svo bráðabirgðaákvæði nr. I áfram:

„Ákvæði þessara laga breyta í engu rétti til að gerðir séu nýir kjarasamningar, jafnt um grunnlaun sem verðlagsbætur á lun.“

Þetta er mjög þýðingarmikið atriði og rétt að staldra aðeins við það. Lagaákvæði þau, sem fjalla um verðbótakaflann, eru með þessu ákvæði gerð það sem kallað er „frávíkjanleg lög“. Það er hægt að semja sig frá þeim og samningar ganga framar lögum. Þetta gildir ekki aðeins um grunnkaupið, heldur líka um vísitölubæturnar eða verðbætur. Þess vegna fæ ég ekki skilið þá ályktun sem gerð var af Vinnuveitendasambandinu og birt var í morgun, þar sem talað er um að þetta atriði sé bundið að einhverju leyti, og það vill af þeim ástæðum ekki ganga til samninga. Það er alls ekki rétt. Þetta er algerlega óbundið og þeir, sem hafa lausa samninga, geta samið á hvern hátt sem þeir vilja.

Það er skoðun margra, og það er mín persónulega skoðun, að það sé full ástæða til þess að gera greinarmun á grunnkaupi og verðbótum í þessu sambandi. Ég tel sjálfsagt að grunnkaupið sé háð samningum og fari algerlega eftir samningum. Ég tel hins vegar persónulega jafneðlilegt og sjálfsagt að löggjafinn setji ákveðnar reglur um verðbætur, sem aðilar séu bundnir af. Það má auðvitað gera á margvíslegan hátt og hefur verið gert á margvíslegan hátt, bæði hér á landi og annars staðar, því að í framkvæmd hefur þetta „prinsip“ í raun og veru verið viðurkennt í löggjöf hér. Æ ofan í æ hefur löggjafinn gripið inn í kjaramál með þeim hætti að hagga við grunnkaupi. Þetta sýnir að löggjafinn hefur hér eins og annars staðar gert sér grein fyrir því, að það væri eðlismunur á grunnkaupi og verðbótum.

Auðvitað er ekkert í veginum fyrir því út af fyrir sig að verðbætur væru ákveðin krónutala, hin sama á öll laun. Það er því ekki sjálfgefið, það er ekkert lögmál, að það þurfi að miða við þá stighækkandi prósentutölu á grunnkaup sem nú er gert. En þó að ég hafi þá persónulegu skoðun, sem ég hef lýst, eru lagaákvæðin um þetta, sem sett eru núna, alveg skýr, að það á sama regla að gilda um grunnkaupið og verðbæturnar, hvort tveggja er eftir sem áður samningsatriði og menn geta samið um hvort tveggja á þann veg sem samningsaðilum kemur saman um, ekki bundnir á neinn hátt af þeim ákvæðum sem á undan eru komin um tilhögun verðbótanna. Ég fer ekki dult með að í sjálfu sér þykir mér þetta galli, þó að ég hafi sætt mig við þessa breytingu.

Í bráðabirgðaákvæði II er höfuðregla líka sem er komin inn fyrir ábendingu frá Verkamannasambandinu sérstaklega. Þar er dreift þeim áhrifum, sem viðskiptakjararýrnunin átti að hafa og hefur, yfir á lengra tímabil, þannig að hún kemur fram í fleiri áföngum. Ef ég má lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta, þá er í fyrsta lagi að geta reglu sem gildir um öll laun:

„Þrátt fyrir ákvæði 51. gr. skal frádráttur frá verðbótavísitölu hinn 1. júní 1979 vegna rýrnandi viðskiptakjara hæst nema 2% af verðbótavísitölu þann dag. Það, sem umfram 2% frádrátt kann að reynast, skal tekið til greina þegar reiknuð verður verðbótavísitala frá 1. sept. 1979.“

Síðan kemur svo önnur regla, sem má teljast undantekningarreglan eða sérreglan í þessu sambandi, sem á við um laun innan við ákveðið mark. Þar segir:

„Þó skal frádráttur frá hækkun verðbóta samkv. ákvæðum 50. gr. ekki breyta rétti til verðbóta hinn 1. júní 1979 á laun, sem lægri eru en 210 þús. kr. á mánuði fyrir fulla dagvinnu, sbr. 1. mgr. þessara ákvæða til bráðabirgða. Hinn 1. sept. 1979 skal breyting verðbóta frá 1. júní vegna viðskiptakjaraáhrifa vera hin sama fyrir þessi laun og aðra launataxta.“ En síðan segir svo: „Hinn 1. des. 1979 skal síðan gilda sama vísitala við ákvörðun verðbóta á öll laun eins og hún verður ákveðin samkv. ákvæðum 48.–51. gr.“ — Síðan eru nánari ákvæði um hvað telja skuli dagvinnu og því um líkt. En sú er grundvallarreglan, að þetta á að vera jafnað út 1. des. þetta ár.

Eftir þann tíma á að greiða eftir sömu vísitölu á öll laun, með þeim fyrirvara auðvitað að ekki hafi verið samið um annað.

Í III. er svo ákvæði um að gilda skuli hliðstæðar reglur um elli- og örorkulaun og laun undir 210 þús. kr. á mánuði.

Eins og ég sagði áðan hefði ég persónulega talið að það hefði verið æskilegt að hægt hefði verið að haga ákvæðum þessum á þá lund að náðst hefði meiri árangur í þá átt að verðbólgan hefði hjaðnað. En það hefur verið farinn þessi meðalvegur og það hefur verið gert samkv. ábendingum sem komið hafa fram frá þeim samtökum launamanna, sem ætla má að þetta snerti mest. Ég fyrir mitt leyti sætti mig við að gera þá breytingu á frv. og láta hér við sitja, af því að mér er ljóst að það verða ekki gerðar á þessu breytingar nema í þolanlegu samkomulagi við þá aðila sem hér eiga hlut að máli. Það þýðir ekki að vera að setja um þessi efni ákvæði sem verða dauður bókstafur. En vitaskuld verður að játa það hreinskilnislega, að með þeirri skipan, sem nú er gert ráð fyrir í frv. þessu varðandi þessi mál, er ekki náð því markmiði sem ríkisstj. hafði sett sér um hjöðnun verðbólgu og fram kom í aths. við frv. um viðnám gegn verðbólgu frá því í nóv., en þar hafði verið sett það mark að koma verðbólgunni niður í eða niður fyrir 30% á þessu ári. Það er auðvitað ljóst að það mark næst ekki.

Svo eru menn með spádóma um það hvar markið verði. Þjóðhagsstofnun nefnir samkv. nýjustu tölu, sem ég hef frá henni, 35. Vinnuveitendasambandið hefur reiknað út að hún verði 40. Það er í rauninni fróðlegt að fá slíka útreikninga, en reyndin verður að skera úr því, hver niðurstaðan verður. Og þref um eitt eða tvö prósentustig til eða frá held ég að almenningur skilji tæpast. Allir spádómar í þessu efni geta brugðist, hversu vel sem til þeirra er vandað, og það af ýmsum ástæðum. En þetta er það sem menn komast næst. Samkvæmt nýjasta útreikningi, sem ég hef frá Þjóðhagsstofnuninni, er gert ráð fyrir að eins og þetta lítur út núna og í þeirri mynd sem frv. er í nú verði almenn prósentuhækkun verðbóta 1. júní 7%, en á launum undir 210 þús. 9%. En að öllu 6breyttu hefði Þjóðhagsstofnunin reiknað með 11–12% — kannske eitthvað meira.

Auðvitað er ekki ástæða til þess að fara í felur með það, sem liggur í augum uppi, að af þessum ákvæðum leiðir að menn fá færri krónur en þeir hefðu fengið 1. júní og svo áfram á þessum tímabilum. Krónutöluhækkunin verður kaupmáttarrýrnun fyrst í stað. Það leiðir af fækkandi krónum fyrst í stað. Hins vegar geta menn svo haft reynsluna í huga og athugað hversu drjúg krónutöluhækkunin hefur reynst þeim til kaupmáttaráhrifa á þriggja mánaða tímabilinu. Ég hygg að reynslan sýni að áhrifin af krónutöluhækkun hafi ekki dugað nema svo sem 1–2 mánuði, þá eru þau búin. Og ég hygg að það sé sannast, þegar lítið er til ársins í heild, að ekki sé þarna um kaupmáttarrýrnun af þessum ástæðum að ræða — eða a. m. k. svo litla að það sé ekki orð á gerandi. Ég veit ekki betur en að svo sé. En það er náttúrlega orðið trúaratriði hjá mörgum, að það sé aðalatriðið að fá krónutöluhækkun. Þess vegna er mikil tregða á því að gefa nokkuð eftir í þessum efnum eða slaka á eða prófa nýjar leiðir. Þó hygg ég að þetta sé að breytast og þeir menn séu alltaf að verða fleiri og fleiri meðal allrar þjóðarinnar sem gera sér grein fyrir því, að krónutalan ein hefur ekki allt að segja — aðalatriðið er kaupmátturinn — og gera sér grein fyrir þeirri staðreynd, að þó að svo og svo mikil krónutöluhækkun hafi komið dugar hún ákaflega stutt. Áhrif hennar eru komin út í veður og vind eftir stuttan tíma og þá hafa þeir lítið borið úr býtum, en fengið hins vegar í meðgjöf alla þá óþurftarkvilla sem verðbólgunni fylgja. Ef marka má orð manna er það svo, að fleiri og fleiri eru farnir að átta sig á þessari staðreynd og fleiri og fleiri tala um hvílíkur bölvaldur verðbólgan sé, hvílík nauðsyn sé að reyna að ráða niðurlögum hennar og gera ráðstafanir. En þegar á að hefjast handa og gera ráðstafanir í þá átt reynir fyrst á hver hugur fylgir máli.

Það er skiljanlegt að þessi mál séu viðkvæm, og það verður að fara með þau sem slík. Það er takmarkað hvað hægt er að komast áfram í þessum efnum með hreinu valdboði. Þess vegna verður að reyna að fá samkomulag um þessi efni eftir því sem kostur er. Það eitt getur tryggt að ákvæði af slíku tagi verði meira en bókstafurinn einn. Ég vona að í þessu efni hafi okkur tekist að komast niður á þann grundvöll. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þennan kafla.

Í IX. kafla frv. er fjallað um vinnumarkaðsmál. Þar er kveðið á um stofnun sérstakrar vinnumálaskrifstofu innan félmrn., þar sem samræmd verði upplýsingasöfnun og skýrslugerð um atvinnumál launafólks á landinu öllu. Enn fremur beiti vinnumálaskrifstofan sér fyrir ráðstöfunum í því skyni að greiða fyrir tilfærslum starfsmanna milli atvinnugreina, veiti öryrkjum og unglingum aðstoð við að finna vinnu við þeirra hæfi og geri tillögur um úrbætur á sviði atvinnumála. Ég held að þetta sé ekki lítilvægt hlutverk. Loks er það nýmæli í þessum kafla, að afvinnurekendum er gert skylt að tilkynna vinnumálaskrifstofunni og viðkomandi verkalýðsfélagi með fyrirvara ráðgerðar breytingar í rekstri er leiði til uppsagnar starfsfólks. Að því er þetta ákvæði varðar er hægt að hugga menn með því, að það er fyrirmynd til fyrir því, en hefur ekki fyrst verið hugsað hér á Íslandi. Það er í sænskum lögum svipað ákvæði. Þá er vinnumálaskrifstofunni falið að fylgjast náið með þróun atvinnumála og gera tillögur um úrbætur í þeim efnum. Þannig er í þessari grein sumpart um að ræða nánari útfærslu á starfi sem þegar hefur verið hafið, en einnig kveðið á um ýmis nýmæli á þessu sviði í því skyni að koma á samræmdri og bættri skipan atvinnumála.

Í X. kafla er fjallað um verðlagsmál, þar sem fyrst og fremst eru gerðar tillögur um hvernig styrkja megi verðlagseftirlit og verðskyn neytenda jafnframt því sem lagaákvæði eru sett um athuganir á innflutningsverðlagi. Þessar tillögur eru liður í undirbúningi að gildistöku laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.

Þá er um nokkrar breytingar að tefla á 8. og 12. gr. þessara verðlagslaga sem eiga að koma til framkvæmda 1. nóv. n.k. Eftir þær breytingar, sem hv. Ed. hefur gert á þeirri grein frv. sem svarar til 8. gr. í verðlagslögunum, held ég að segja megi að þar sé ekki um mjög verulega breytingu að ræða frá 8. gr. í lögunum. Um það skal ég ekki fjalla nánar. Ég skal ekki heldur ræða neitt sérstaklega um XI. kaflann, varðandi jöfnunarsjóðina, Verðjöfnunarsjóð og Aflatryggingasjóð, heldur vísa til aths. þar um. XII. kaflinn þarfnast ekki neinna skýringa.

Herra forseti. Ég hef þá gert grein fyrir efni þessa frv. í einstökum atriðum. Ég held að óhætt sé að segja, að þetta frv. feli í sér markverða tilraun til að ná tökum á verðbólgunni og þeim óstöðugleika sem einkennt hefur íslenskt efnahagstíf, um leið og komið er á skipulögðu samráði við samtök launafólks, bænda, sjómanna og vinnuveitenda og lagður grunnur að skynsamlegri áætlanagerð á sviði efnahagsmála. Auk þess felur frv. í sér tilraun til þess að taka með nýjum tökum á þeim sérstöku vandamálum, sem að okkur steðja þessa dagana, þar sem er bæði hin stórfellda olíuverðshækkun og eins takmörkun sem talin hefur verið nauðsynleg á sókn fiskiskipa í ofveidda fiskstofna.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. segir m. a. að vinna skuli að gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar, sem marki stefnuna í atvinnumálum, fjárfestingarmálum, tekjuskiptingu og kjaramálum. Jafnframt verði mörkuð stefna um hjöðnun verðbólgu í áföngum og ráðstafanir ákveðnar sem nauðsynlegar eru í þessu skyni, m. a. endurskoðun á vísitölukerfinu, aðgerðir í skattamálum og mótun nýrrar stefnu í fjárfestingar- og lánamálum. Þær ráðstafanir, sem gripið var til í sept., voru má segja fyrsti áfangi þessa verks, og þær ráðstafanir, sem gerðar voru samkv. viðnámslögunum í nóv. voru þá annar áfanginn. Hér er um þriðja áfangann að ræða. Og ég leyfi mér að fullyrða að hann sé byggður á og sé í samræmi við samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna.

Meginefni frv. er að marka stefnu í efnahagsmálum til næstu ára, að bæta skipulag og stjórntæki efnahagsmála í landinu, að grípa til ráðstafana þegar í stað á sviði fjármála, peningamála, lánamála, verðlagsmála og sveiflujöfnunar í s jávarútvegi sem svari kalli á líðandi stund, að búa í haginn fyrir efnahagslegar framfarir og bætt lífskjör í landinu á grundvelli auðlinda lands og sjávar.

Frv. fjallar þannig um marga mikilvæga þætti efnahagsmála. Auðvitað eru margir þættir þar fyrir utan. T. d. verður sjálfsagt á það bent, að þarna sé ekki að finna ákvæði um skattamál, þarna sé ekki að finna ákvæði um innflutnings- og gjaldeyrismál. Ég vil segja það, að á næstunni verður flutt frv. um innflutnings- og gjaldeyrismál og unnið er að endurskoðun skattalaga. Auðvitað eru þetta hvort tveggja mikilvægir þættir í mótun stefnunnar í efnahagsmálum. Ég verð að endurtaka, að með þessu frv. er verðbólguhjöðnunarmarkmiðum viðnámslaganna frá því í nóv. ekki náð. Það er sumpart af því að það hefur verið tekið tillit til ábendingar umsagnaraðila, en sumpart af því að atvinnuöryggi hefur verið sett í efsta sæti. En ég vil eindregið vara við því, þegar þetta frv. er metið og áhrif þess, að einblína bara á verðbótakaflann. Það eru mýmörg önnur ákvæði í frv., t. d. varðandi stjórn efnahagsmála, sem geta haft þýðingu og geta, ef framkvæmd á þeim tekst vel, eins og ætlunin er, haft mjög mikilvæg áhrif.

Það er alveg tvímælalaust forsenda þess, að unnt verði að koma á bættri skipan við stjórn efnahagsmála, að dregið verði úr verðbólgunni með samræmdum aðgerðum, sem þannig séu valdar að hvorki sé atvinnuöryggi teflt í tvísýnu né efnahagslegu jafnvægi eða fjárhagslegu öryggi þjóðarinnar út á við raskað. Til þess að slíkar ráðstafanir beri tilætlaðan árangur þarf skilning og víðtækt samráð og samstarf allra þeirra sem hlut eiga að máli. Verðbólgan hefur á undanförnum árum fært íslenskt efnahagslíf og ýmsan opinberan rekstur svo úr skorðum að lífskjör hafa ekki batnað í kjölfar bættra ytri skilyrða, þar sem hún rýrir beinlínis vöxt þjóðartekna og þar með þjóðarhag og til lengdar geta kjör launþega því aðeins batnað að þjóðartekjur vaxi. Við viljum halda því aðalsmerki íslenskra efnahagsmála á undanförnum árum að allir hafi næga atvinnu. Það tekst okkur ekki ef verðbólgan fær óáreitt að naga að rótum þjóðlífsins og atvinnuöryggis. Úr henni verður að draga.

Afleiðingar verðbólgunnar bitna á þjóðfélaginu í heild. En þegar til lengdar lætur bitnar hún þó þyngst á þeim launþegum, sem lakast eru settir, og á sparifjáreigendum.

Að sjálfsögðu er mér ljóst að í þessu frv. kunna að vera ákvæði sem orka tvímælis, og auðvitað er ekkert óeðlilegt við það, þó að skoðanir um það geti orðið skiptar og menn kunni að verða á móti því, ég tala ekki um stjórnarandstæðinga. en slíkt gæti jafnvel hent einhverja stjórnarliða. Við þessu er ekkert að segja. Við höfum allir rétt til þess að fara eftir okkar sannfæringu og samvisku. Það eru ákaflega dýrmæt réttindi að hafa slíkt frelsi. Það eru svo dýrmæt réttindi að þau eru kaupandi því verði, þó að þau leiði til þess að stöku sinnum fari einstaka maður sér að voða vegna þess.