04.04.1979
Neðri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3888 í B-deild Alþingistíðinda. (3062)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Frá því að frv. hæstv. forsrh. Ólafs Jóhannessonar var lagt fram í ríkisstj. 12. febr. s. l. og til dagsins í dag hafa átt sér stað á texta þess verulegar breytingar sem nauðsynlegt er að átta sig á um leið og umr. fer fram um málið hér á hv. Alþingi. Ég mun nú í fyrstu rekja nokkrar þýðingarmiklar breytingar á frv. þessu og á þeim atriðum, sem helst urðu ágreiningsefni á milli Alþb. annars vegar og hinna stjórnarflokkanna hins vegar.

Hæstv. forsrh. lagði frv. sitt fram í ríkisstj. 12. febr. og því var þá einnig útbýtt til opinberrar birtingar, m. a. á blaðamannafundum sem efnt var til, þannig að hér var um að ræða opinbert gagn sem allir áttu aðgang að sem vildu.

Þegar frv. þetta kom fram lýstum við ráðh. Alþb. yfir að í því væru veigamikil ákvæði sem við værum algerlega andvígir. Þar var einkum um að ræða þau ákvæði frv. sem snertu launamál og atvinnumál. Að því er atvinnumálin varðaði töldum við að í frv. væru fjölmörg samdráttareinkenni sem gætu haft í för með sér atvinnuleysi ef í framkvæmd kæmust, og við mótmæltum sérstaklega verðbótakafla þessa frv. Í bókun okkar í ríkisstj. 14. febr. s. l. lýstum við þessum viðhorfum okkar mjög rækilega, og sú bókun var birt opinberlega eftir að við höfðum gert grein fyrir henni innan ríkisstj.

Alþfl., annar samstarfsflokka okkar í hæstv. ríkisstj., sá hins vegar ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að gera alvarlegar aths. við þau frv.-drög, sem hæstv. forsrh. lagði fram 12. febr. Samþykkti þingflokkur Alþfl. að standa að frv. forsrh. óbreyttu, eins og það var í öndverðu. Frá þessum tíma, þ. e. a. s. frá 12. febr. og að segja má fram undir síðustu helgi, hefur frv. þetta verið í stöðugri óvissu og stjórnarsamstarfið oft og tíðum verið í verulegri hættu vegna ágreinings um ýmis atriði frv.

Það var ekki einasta Alþb. sem gagnrýndi og mótmælti ýmsum ákvæðum hinna upphaflegu frv.-draga. Verkalýðshreyfingin í landinu gerði mjög ákveðnar samþykktir, þar sem veigamiklum ákvæðum frv. var mótmælt. Eftir að þær umsagnir höfðu borist og eftir að Alþb. hafði beitt þeim ráðum sem það átti til þess að breyta frv. þessu, þá áttu sér stað með samkomulagi stjórnarflokkanna í ríkisstj. verulegar breytingar á þessum texta. Hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir þessum breytingum við 1. umr. máls þessa í Ed. fyrir nokkru og mun ég ekki fara ítarlega út í samanburð hér, en þó aðeins nefna nokkur atriði sem breyttust verulega og hafa breyst í meðferð stjórnarflokkanna á frv. þessu. Til þess að átta sig á breytingunum er brýn nauðsyn að hafa einnig í huga frv. það sem einn stjórnarflokkanna, Alþfl., birti landsmönnum í málgagni sínu, Alþýðublaðinu, í desembermánuði s. l. Ég tæpi hér á nokkrum meginatriðum.

Í frv. því, sem Alþfl. sýndi landslýð í Alþýðublaðinu í des., var gert ráð fyrir að stofnað yrði eins konar kjaramálaráð eða leitað yrði eftir kerfisbundnu samstarfi ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins, eins og það var orðað. Þessi stofnun átti að tryggja að allar fáanlegar upplýsingar um hagþróun, afkomu þjóðarbús og fyrirtækja og kaupmátt launa lægju fyrir með rúmum fyrirvara við gerð kjarasamninga, eins og það var orðað. Alþfl. kallaði þetta fyrirbæri í frv. sínu samstarfsstofnun. Þar sagði á þessa teið, með leyfi forseta:

„Þessi stofnun beiti sér fyrir samkomulagi um heildarendurskoðun á gerð kjarasamninga í því skyni að einfalda það kerfi og samræma“.

Hér var m. ö. o. komin tillaga um fyrirbæri sem stundum hefur verið kallað „hagráð“, og þá átti að yfirtaka hlutverk stéttabaráttunnar í landinu. Hér var sem sagt einn af stjórnarflokkunum kominn með tillögu um að búa til stofnun sem væri í raun og veru byggð á grundvallarhugmyndum Sjálfstfl. um „stétt með stétt“, og þeir möguleikar væru til að stéttirnar settust niður við borð og skiptu þjóðarkökunni á milli sín með einhverju sem kalla mætti „sanngjarn háttur mála“. Hér átti m. ö. o. að afhenda tiltekinni stofnun stéttabaráttuna í landinu.

Þegar hæstv. forsrh. lagði frv. sitt fram í ríkisstj. 12. febr. s. l. hafði þetta ákvæði tekið nokkrum breytingum frá því sem það var í frv. Alþfl, í des. En í upphaflegri gerð frv. forsrh. var einmitt oft og tíðum tekið mjög greinilegt mið af þeim vísindum sem Alþfl. hafði birt landsmönnum í desembermánuði. Þannig var að orði komist í frv. hæstv. forsrh. 12. febr.:

„Stofna skal kjaramálaráð“ o. s. frv. — „er sé vettvangur samráðs og samstarfs stjórnvalda og launafólks í efnahags- og kjaramálum“.

Hér var m. ö. o. komin sú stofnun sem Alþfl. gerði ráð fyrir í frv. sínu. Þessum ákvæðum var mjög harðlega mótmælt af samtökum launafólks í landinu og af Alþb. Þau mótmæli höfðu það í för með sér, að við núverandi gerð frv. eru ákvæði í þessa veru að okkar mati algerlega viðunandi, þar sem ekki er gert ráð fyrir slíkri stofnun, heldur flest einungis í ákvæðum frv. viljayfirlýsing um að efla reglubundið samráð og samstarf stjórnvalda og launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda í efnahags- og kjaramálum.

Í öðru lagi vil ég nefna það ákvæði í frv. hæstv. forsrh. og reyndar í frv. þeirra Alþfl.-manna líka, sem laut að niðurfellingu fastra framlaga úr ríkissjóði i ákveðna sjóði. Í frv. Alþfl. í des. hljóðaði þetta svo:

„Lagaákvæði, sem kveða á um framlög úr ríkissjóði eftir sjálfvirkum reglum, skulu falla úr gildi með lögum þessum, sbr. 28. gr“.

Síðan voru í þeirri grein taldir upp þeir sjóðir sem fella ætti niður framlög til. Í frv. hæstv. forsrh. í öndverðri gerð þess var slegið á mjög svipaða strengi og þannig komist að orði, að fyrir árslok 1979 skyldu ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða eða einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að framvegis skyldu fjárframlög til þessara þarfa ákveðin í fjárl. ár hvert. Hér var því sem sagt slegið föstu að að þessu marki skyldi fyrst og fremst stefna.

Í þeirri gerð frv., sem nú er til meðferðar hér i hv. Nd. Alþ., er hins vegar aðeins kveðið á um að þessi ákvæði skuli endurskoðuð fyrir árslok 1979 og kannað að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa verði framvegis ákveðin í fjárl. ár hvert o. s. frv. Hér er m. ö. o. um það að ræða að horfið hefur verið frá þeim yfirlýsta ásetningi, sem var í texta frv. 12. febr. og í upphaflegum till. Alþfl., að leggja þessi framlög niður, en því einungis lýst yfir, að þessi mál skuli tekin til endurskoðunar og kannað að hve miklu leyti fjárframlög til umræddra þarfa verði framvegis ákveðin í fjárlögum ár hvert. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að endurskoða þessi framlög, en hins vegar verði þar að fara að öllu með gát, þar sem hér er í ýmsum tilvikum um að ræða fjárframlög til sjóða sem samningar hafa verið gerðir um, t. d. við verkalýðsfélögin í tengslum við gerð kjarasamninga.

Þriðja atriðið, sem ég vil nefna hér, er eitt af mörgum prósentubindingaratriðum sem einn samstarfsflokka okkar, Alþfl., gerði kröfur um í frv. sínu í des. og raunar allt frá því að stjórnin var mynduð. Í frv. Alþfl. í des. var kveðið svo að orði um ríkisumsvif á árunum 1979 og 1980:

„Skylt er að halda heildartekjum og heildarútgjöldum ríkisbúskaparins innan marka 30% af vergri þjóðarframleiðslu á árunum 1979 og 1980“.

Í frv. hæstv. forsrh. 12. febr. var um mjög svipað ákvæði að ræða, þó að dregið væri úr því nokkuð. Í endanlegri gerð frv. er þessi texti hins vegar svona:

„Á árinu 1979 skulu ákvarðanir í ríkisfjármálum við það miðaðar, að heildartekjur og útgjöld á fjárl. haldist innan marka, sem svara til 30% af vergri þjóðarframleiðslu. Svipað markmið skal gilda fyrir árið 1980“. Síðan kemur þessi afdráttarlausi fyrirvari: „Frá þessu skal þó víkja, ef óvæntar og verulegar breytingar verða í þjóðarbúskapnum, og sérstaklega ef ætla má, að hætta sé á atvinnuleysi“.

Hér hefur m. ö. o. hættulegt samdráttarákvæði verið gert skaðlaust að mínu mati með þeim eindregna fyrirvara sem er í lok 11. gr. frv. eins og hún hljóðar nú.

Í fjórða lagi vil ég nefna hér annað prósentubindingarákvæði, sem hljóðaði svo í frv. því sem Alþfl. lagði fram í málgagni sínu í desembermánuði, með leyfi forseta:

„Í því skyni að markmið 17. gr. náist skal Seðlabankinn á árinu 1979 tryggja að aukning peningamagns í umferð fari ekki fram úr 24% yfir árið, að teknu tilliti til árstíðabundinna sveiflna. Samsvarandi markmið fyrir árið 1980 skal vera milli 18 og 20%“.

Í frv.-gerð þeirri, sem hæstv. forsrh. lagði fram í ríkisstj. 12. febr., hljóðaði textinn á þessa leið:

„Á árinu 1979 skal að því stefnt, að aukning peningamagns í umferð fari ekki fram úr 25% frá upphafi til loka árs, að teknu tilliti til árstíðabundinna sveiflna. Á sama hátt skal að því stefnt, að vöxtur peningamagns verði a. m. k. 5% hægari á árinu 1980 en á árinu 1979“.

Í umr. um þetta mál kom það margoft fram, að forráðamenn bankakerfisins í landinu töldu að útlokað væri að framkvæma lagagrein af þessu tagi og þeir lögðu á það áherslu að þeir hefðu í raun og veru engin tæki til þess að tryggja lagaframkvæmd með þessum hætti í jafnmikilli verðbólgu og hér er um að ræða. Þrátt fyrir þetta var haldið mjög fast við þessa prósentubindingu á aukningu peningamagns í umferð, og í endanlegri gerð frv. hljóðar textinn svo í 30. gr.:

„Á árinu 1979 skal að því stefnt, að aukning peningamagns í umferð fari ekki fram úr 25% frá upphafi til loka árs að teknu tilliti til árstíðabundinna sveiflna. Á sama hátt skal að því stefnt, að vöxtur peningamagns verði a. m. k. 5% hægari á árinu 1980 en á árinu 1979“. Síðan kemur þessi fyrirvari: „Frá þessum markmiðum má þó víkja, ef óvæntar breytingar verða á þjóðarbúskapnum, t. d. þannig, að atvinnuöryggi sé í hættu eða ef séð er, að forsendur þjóðhagsspár um verðþróun á árinu 1979 standist ekki“.

Hér er m. ö. o. kominn inn í frv.-textann mjög ákveðinn fyrirvari. Einn af félögum mínum í þingflokki Alþb. komst þannig að orði á dögunum, að eins hefði ríkisstj. getað botnað þessar prósentubindingargreinar með eftirfarandi ákvæði: „Frá þessum ákvæðum má þó víkja, ef heilbrigð skynsemi krefst þess“.

Einn þeirra ásteytingarsteina, sem var í sögulegu stjórnarsamstarfi okkar við framlagningu þessa frv., var um bindiskyldu í bönkunum. Í frv. Alþfl., en þangað má rekja margt af þessum þáttum, var þannig að orði komst í desembermánuði:

„Í framangreindu skyni skal Seðlabanka heimilt að hækka bindiskyldu innlánsstofnana frá Seðlabankanum þannig, að nemi allt að 40% af aukningu heildarinnstæðufjár innlánsstofnana án tillits til gildandi ákvæða um hámarksbindingu“.

Þessi grein hefði auðvitað haft í för með sér stórfellda skerðingu á fjármagni viðskiptabankanna og möguleikum þeirra á þjónustu við atvinnulífið, þegar þess er enn fremur gætt að viðskiptabankarnir hafa verið látnir taka á sig á undanförnum missirum hækkandi hlutfall viðbótarlána auk þess sem þeir taka áfram, þó í minnkandi mæli sé þátt í skuldabréfakaupum Framkvæmdasjóðs.

Í frv. hæstv. forsrh. 12. febr. var ákvæði um það, að innstæðubinding ætti hins vegar að hækka í 30% af heildarinnstæðufé frá hverri stofnun, en þetta hámark miðaðist nú við 25%, og síðan var ákvæði til bráðabirgða í frv. hæstv. forsrh. 12. febr., þar sem svo var að orði kveðið, að þar til öðruvísi yrði ákveðið ættu 35% af innlánsaukningu innlánsstofnana að vera bundin á reikningi viðkomandi stofnunar í Seðlabankanum.

Í núverandi gerð frv. er hins vegar, eins og kunnugt er, gert ráð fyrir, að innstæðubinding megi hæst nema 28% af heildarinnstæðufé hjá hverri stofnun, og síðan sagt, að Seðlabankinn geti ákveðið að tiltekinn hluti innlánsaukningar skuli bundinn á reikningi hjá honum, enda fari heildarinnstæða, sem viðkomandi stofnun sé skylt að eiga í Seðlabankanum, ekki fram úr því hámarki sem sett er í 2. mgr., þ. e. a. s. fram úr 28%. Síðan er í þessari grein, eins og hún lítur út núna, sagt að Seðlabankinn skuli setja nánari reglur um framkvæmd innlánsbindingar samkv. 2. og 3. mgr. að fengnu samþykki ríkisstj., en bindiskyldan skal vera hin sama fyrir allar stofnanir. Hér er sem sagt um það að ræða, að heimilt er að binda hæst 28% og tiltekinn hluti innlánsaukningarinnar skuli bundinn á reikningi hjá Seðlabankanum, en þó megi heildarinnstæðan aldrei fara fram úr 28% og þetta verði því aðeins framkvæmt að ríkisstj. samþykki.

Í frv. Alþfl., sem kynnt var í Alþýðublaðinu í desembermánuði, var skýlaust ákvæði um að allar fjárskuldbindingar skyldu vera verðtryggðar, þannig að á árinu 1980 yrði því marki náð að raunvextir yrðu jákvæðir, eins og það var orðað í plaggi Alþfl., og þótti mörgum nýjung að því orðalagi, því að lítið hefur frést til neikvæðra raunvaxta til þessa. Í frv. hæstv. forsrh. var síðan allmikill bálkur um verðtryggingu fjárskuldbindinga, eins og kunnugt er. Þar var í meginatriðum um að ræða rammaákvæði sem ríkisstj. og Seðlabankanum er síðan ætlað að fylla út í. Þar var þó ákvæði til bráðabirgða þar sem skýlaust var kveðið á um að ekki einasta skyldu lengri lán, heldur hreint öll lán bera verðtryggingu, til hvaða nota sem þau væru. Þar var t. d. að finna eftirfarandi setningu: „Þegar um lán til mjög skamms tíma er að ræða, þannig að torvelt er að koma við mati á verðtryggingu skal verðtryggingarþáttur vaxtakjara miðast við áætlaðar verðbreytingar“. Í endanlegri gerð frv., sem nú liggur fyrir hv. d., er þessi setning felld niður og þannig ekki kveðið á um það, hvernig skuli farið með skammtímalán. Við núverandi gerð frv. er auk þess sérstakt ákvæði um það, að með sérstökum hætti skuli farið með rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna. Í frv. hæstv. forsrh., sem lagt var fram í ríkisstj. 12. febr., var einnig ákvæði um að heimilt ætti að vera að miða við erlendan gjaldmiðil nánast allar innlendar skuldbindingar og viðskiptasamninga, en í núverandi gerð frv. hefur þetta ákvæði verið fellt niður, nema um sé að ræða sérstakar lagaheimildir í því skyni.

Ég vil þá einnig geta þess, að í frv. hæstv. forsrh. bæði fyrr og nú er ákvæði um sérstaka vinnumálaskrifstofu ríkisins. Í núverandi gerð frv. hefur verið bætt inn mjög mikilsverðum ákvæðum, sem ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á og fagna, en þau er að finna í 52. gr. Þar hefur verið bætt inn ákvæði, þar sem segir:

„Verkefni sín skal vinnumálaskrifstofan leysa í samráði og samvinnu við samtök launafólks og vinnuveitenda, eftir því sem kostur er“.

Síðar er komið inn í þennan sama kafla mikilsvert ákvæði um að atvinnurekendum sé skylt að tilkynna verkalýðsfélögum og vinnumálaskrifstofunni með tveggja mánaða fyrirvara ráðgerðan samdrátt eða aðrar breytingar á rekstri, er leitt gætu til uppsagnar fjögurra starfsmanna eða fleiri. Hér er um mjög mikilsvert ákvæði að ræða, sem við fögnum. Tilkynningarskylda til verkalýðsfélaganna er inn komin fyrir ábendingar umsagnaraðila, einkum Alþýðusambands Íslands. Ég tel að ég hafi í nokkrum orðum sýnt fram á að ýmis helstu samdráttarákvæði upphaflegs frv. hæstv. forsrh., eins og það var lagt fram í öndverðu, hafi breyst svo að það eigi ekki að vera hætta á að frv. í þeirri mynd, sem það liggur nú fyrir, hafi í för með sér hættu á atvinnuleysi. Einnig held ég að það sé ljóst, að það var vegna þrýstings verkalýðshreyfingarinnar að þessar breytingar fengust fram, því að báðir hinir stjórnarflokkarnir — og alveg sérstaklega Alþfl. — bitu sig fasta í upphaflegan texta forsrh. á þeim hálfa mánuði a. m. k. sem trúlofunarskeið þeirra stóð yfir, hv. 7. þm. Reykv. og hæstv. forsrh.

En ekki einasta hafa samdráttarákvæði af ýmsum toga verið gerð skaðlaus í frv. þessu, heldur er komið inn í frv. ákvæði sem við Alþb.-menn teljum afar mikilsvert, en það felur í sér viðurkenningu á nauðsyn eflingar atvinnuveganna og sérstöku átaki í því skyni. Hér á ég við V. kafla frv. um framfarir í atvinnuvegum og hagræðingu í atvinnurekstri. Þar er gert ráð fyrir að rn. einstakra atvinnuvega skuli hafa forgöngu um gerð atvinnuvegaáætlana hvert á. sínu sviði. Við áætlanagerðina á sérstaklega að miða að frekari vinnslu og bættri nýtingu innlendra hráefna og aukinni framleiðni atvinnuveganna og traustum rekstrargrundvelli þeirra. Jafnframt verði kannaðar hugmyndir og áætlanir um nýjar atvinnugreinar er treyst gætu undirstöðu þjóðarbúsins. Við undirbúning og skipulagningu áætlana á samkv. þessum kafla frv. að leggja sérstaka áherslu á skynsamlega og hagkvæma ráðstöfun auðlinda og skipulega landnýtingu til lengri tíma. Enn fremur skal hafa í huga æskilegt jafnvægi milli einstakra atvinnugreina auk þess sem áætlanir stuðli að skipulegri byggðastefnu og eflingu atvinnustarfsemi á félagslegum grundvelli.

Þá er í 23. gr. lögð áhersla á nauðsyn samræmingar við gerð atvinnuvegaáætlana og þessa samræmingu á að tryggja sameiginlega af ráðh. viðkomandi atvinnugreina ásamt forsrh. Jafnframt eiga þessir aðilar að sjá um að samræmi sé á milli atvinnuvegaáætlana og fjárfestingar- og lánsfjáráætlana, sem gert er ráð fyrir í IV. kafla frv., og áætlunar þeirrar um meginstefnu í ríkisbúskapnum, sem mælt er fyrir um í 7. gr. þessa frv.

Þá er gert ráð fyrir að fela megi opinberum stofnunum, sem starfa að áætlanagerð og tengdum verkefnum, vinnu við gerð atvinnuvegaáætlana, eftir því sem við á. Við undirbúning atvinnuvegaáætlana og hagræðingar í atvinnurekstri skal leita álits og tryggja samráð við samtök í viðkomandi greinum.

Í 24. gr. segir að ríkisstj. eigi að leggja atvinnuvegaáætlanir fyrir Alþ. sem þáltill. eða frv., eftir því sem við eigi hverju sinni.

Þá er að finna í þessum kafla mikilvægt ákvæði um að til stuðnings áætlanagerðar um atvinnuvegina skuli efla rannsóknastarfsemi í þeirra þágu með hliðsjón af langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins um þetta efni, eins og hún verður staðfest af stjórnvöldum.

Í 26. gr. er ákvæði um að til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins eigi að verja á árinu 1979 sérstaklega 1000 millj. kr., og á árinu 1980 er sagt að ríkisstj. eigi að beita sér fyrir sérstakri fjáröflun í sama skyni, að upphæð 2000 millj. kr.

Loks er að finna ákvæði í þessum kafla um að efla skýrslugerð um fjárfestingu í atvinnuvegunum og tengja hana fjárfestingaráætlun hvers árs og stefnumarkandi áætlunum fyrir atvinnuvegina. (Gripið fram í: Hvað þýðir að efla skýrslugerð?) Bæta skýrslugerð, Friðrik minn. (FrS: Það er allt annað mál.) Þú getur flutt brtt. Við Alþb.-menn teljum að hér sé um að ræða mjög mikilsverð ákvæði um atvinnumál, sem eigi að geta haft í för með sér jákvæða þróun fyrir íslenska atvinnuvegi á komandi árum. Enda þótt við hefðum gjarnan kosið að ganga lengra í þessum efnum að ýmsu leyti, einkum að því er varðar fjárfestingarstjórn, teljum við að hér sé stigið mjög veigamikið skref í rétta átt og þessum kafla í frv. í þeirri gerð, sem það er nú, fögnum við alveg sérstaklega.

Ég kem þá að verðlagsmálakafla frv. Í Þeirri gerð þess, sem lögð var fram í ríkisstj. 12. febr., var ákvæði um að lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti tækju gildi fyrr en ætlað hafði verið og lögfest hefur verið, þ. e. a. s. þau tækju gildi 1. sept. í stað 1. nóv. Erfitt átti maður með að finna eðlilegar eða rökrænar skýringar á þessu ákvæði um að flýta gildistöku þessara laga. Verða ekki hafðar hér uppi neinar getsakir í þá áa, hvaðan þessi texti kunni að hafa verið ættaður. En í þessum kafla var svo einnig ákvæði um það, að frá og með 1. sept. 1979 skyldu jafnframt felld niður úr lögum um kjaramál, sem sett voru í sept. s. l., ákvæði sem kveða á um heimild ríkisstj. til afskipta af samþykktum verðlagsnefndar. Við gagnrýndum þessi ákvæði frv. mjög eindregið, og í þeirri frv.-gerð, sem lögð var fyrir Alþ. af hæstv. forsrh., höfðu þessar greinar tekið mjög miklum stakkaskiptum. Þar var í fyrsta lagi ekki um að ræða ákvæði um að flýta gildistöku verðlagsmálalaganna, og í öðru lagi var þar ekki ákvæði um að fella niður íhlutunarrétt ríkisvaldsins um samþykktir verðlagsnefndar, heldur voru komnar inn tvær nýjar greinar sem vöktu mjög mikinn úlfaþyt, bæði hjá Sjálfstfl. og einnig skal viðurkennt að nokkru innan samstarfsflokka okkar. Í þeim samkomulagsumleitunum, sem fram fóru milli stjórnarflokkanna eftir að samstarf þeirra að þessu frv. rofnaði um sinn, hljóðaði þessi grein upp á það, að 8. gr. laga um verðlag o. fl. orðaðist svo:

„Þær samþykktir um hámarksálagningu, hámarksverð og aðra verðlagningu, sem í gildi eru þegar lög þessi koma til framkvæmda, skulu gilda áfram. Þegar samkeppni er nægjanleg getur verðlagsráð að fengnu samþykki ríkisstj. vikið frá þessum reglum og m. a. heimilað að fella einstaka flokka vöru og þjónustu undan einstaka verðlagsákvæðum. Hafi slík heimild verið veitt, getur verðlagsstofnun engu að síður skyldað hlutaðeigandi aðila til að tilkynna stofnuninni verðhækkanir.“

Það fór ekkert á milli mála við umr. um lögin um verðlag o. fl. á Alþ. fyrir tæpu ári, að það var 8. gr. frv. sem olli mestum deilum. Greinin er orðuð svo í textanum núna:

„Þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag, skal verðlagning vera frjáls. Nú er verðlagning frjáls og getur verðlagsstofnun skyldað hlutaðeigandi aðila til að tilkynna stofnuninni verðhækkanir“ o. s. frv.

Hér er um að ræða, eins og allir heyra, verulegan mun á þessum textum, annars vegar á lögunum og hins vegar frv. í núverandi gerð.

Þá felst sú breyting einnig í núverandi gerð verðlagsmálakaflans, að felld er niður síðari mgr. 12. gr. laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, en í núverandi gerð greinarinnar í frv. hæstv. forsrh. segir svo:

„Verðákvarðanir samkv. 8. gr. skulu miðaðar við afkomu fyrirtækja, sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu.“

Í lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti er að vísu kveðið eins að orði í fyrri mgr. 12. gr., en síðan bætt við eftirfarandi mgr.:

„Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er um getur í 1. gr., fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning, ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan hreinan hagnað, þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Eins og heyra má skiptir það verulegu máli, hvort verðlagsnefnd er uppálagt að fara eftir fyrri mgr. einvörðungu eða hvort henni er ætlað að fara einnig eftir ákvæðum seinni mgr. 12. gr., sem hér er gerð till. um að fella niður, en í þeirri mgr. er talað um að álagning þurfi ekki einasta að duga fyrir nauðsynlegum kostnaði við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning og sölu, heldur einnig fyrir afskriftum svo og sanngjörnum hreinum hagnaði þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu. Hér er um að ræða miklu strangara hagnaðarsjónarmið við ákvarðanir verðlagsnefndar en nokkru sinni hefur verið í lögum hér á landi. Það er mikill fengur að því, að breytingar þær skuli hafa náð fram að ganga í samningum stjórnarflokkanna sem koma fram í 57., 58., 59. og 60. gr. þessa frv.

Í umr. um þetta mál í hv. Ed. Alþingis var því haldið fram af talsmönnum Sjálfstfl., að með þessum breytingum á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti væri ég að ganga á bak þeirra orða sem ég hefði látið falla í Ed. þegar hv. d. samþykkti frestun laganna s. l. haust. Ég vísa þessum ásökunum mjög eindregið á bug. Í umr. um málið í hv. Ed. í nóvembermánuði s. l. lagði ég á það áherslu að undirbúa þyrfti miklu betur Verðlagsstofnunina undir það að taka við þeim nýju verkefnum, sem lögin gera ráð fyrir, og ég lýsti því yfir, að ég mundi beita mér fyrir því að hún yrði sem best undir slíkt búin.

Hvað sem liður efni 8. og 12. gr. verður um að ræða verulegar breytingar á starfsemi Verðlagsstofnunarinnar frá því sem nú er á verðlagsskrifstofunni. Einnig er gert ráð fyrir ýmsum nýjum stjórnvöldum í þessum lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, m. a. um samkeppnisnefnd, og þar er að finna sérstök ákvæði um neytendavernd og einnig gert ráð fyrir að verðlagsráð verði nokkuð breytt að skipan frá því sem nú er. Ég tel að verkefni Verðlagsstofnunarinnar verði síst minni og breytingar, sem gera þurfi á stofnuninni, verði síst veigaminni við samþykkt þess frv. sem hér liggur fyrir, því að auk þeirra ákvæða, sem ég hef nú getið um og lúta að breytingum á lögum um verðlag o. fl. frá s. l. vori, eru í frv. núna ákvæði sem gera ráð fyrir að verðlagsskrifstofan auki starfsemi sína í því skyni að tryggja sanngjarna verðlagsþróun, að hún eigi að rannsaka verð og álagningarhætti á einstökum vörum og vöruflokkum og birta greinargerðir og fréttatilkynningar þar um o. s. frv. Síðan er í 58. gr. að finna mikilvægt ákvæði þar sem segir:

„Skrifstofa verðlagsstjóra skal gera reglulega athuganir á innflutningsvöruverði og bera það saman við verð í öðrum löndum eftir því sem kostur er og birta niðurstöður slíkra athugana almenningi.“

Ég tel að kaflinn um verðlagsmál annars vegar og kaflinn um atvinnumál hins vegar séu að dómi okkar Alþb.-manna ákaflega mikilvæg viðurkenning á okkar pólitísku sjónarmiðum.

Þá kem ég að þeim kafla frv. sem mestum deilum hefur valdið. Það er kaflinn um verðlagsbætur á laun.

Í upphaflegri gerð frv. hæstv. forsrh. var gert ráð fyrir að gerðar yrðu verulegar breytingar á núverandi verðbótakerfi launa. Þar var í fyrsta lagi um að ræða þær breytingar, að búvörufrádráttur og verðbreytingar á áfengi og tóbaki söfnuðust ekki saman sem sérstakur vísitöluliður. Þar var einnig gert ráð fyrir að óbeinir skattar væru teknir út úr vísitölunni og að niðurgreiðslur, sem nú eru í hámarki, væru teknar út úr vísitölunni. Þar var og um að ræða ákvæði þess efnis, að viðskiptakjör gætu haft skerðingaráhrif á verðbótavísitölu. Loks var þar ákvæði sem gerði ráð fyrir að kauphækkanir mættu aldrei fara fram yfir 5% á þriggja mánaða fresti, það, sem umfram kynni að vera, átti að geyma í 9 mánuði, t. d. frá 1. júní 1979 til 1. mars 1980. Það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað þessi ákvæðu hefðu þýtt, og svo merkilegt sem það er hafa okkar reikningsglöðu sérfræðingar ekki sent frá sér nákvæmar tölur um þetta efni sem sýna málið eins og það er í raun vaxið. Ef við gerum hins vegar ráð fyrir að vísitala framfærslukostnaðar á yfirstandandi þriggja mánaða tímabili hækki um 10% hefði kaup samkv. febrúarútgáfu frv. hæstv. forsrh. átt að hækka í mesta lagi um 5%. Mismuninn átti að geyma til 1. mars 1980. Með sama hætti hefði kauphækkun 1. sept. ekki orðið meiri en 5% og mismunurinn geymdur til 1. júní 1980. Á þeim þriggja mánaða tíma, sem kauphækkun 1. sept. á að bæta, er gert ráð fyrir að verðlagshækkanir verði um 8%, og í desember hefði enn átt sér stað 5% kauphækkun enda þótt verðlagshækkanir hefðu orðið 6–7% á næstliðnu þriggja mánaða tímabili.

Þennan bakgrunn verða menn að hafa í huga þegar metin er sú niðurstaða sem nú liggur fyrir. Það var m. ö. o. við því að búast að á móti 24% hækkun framfærsluvísitölunnar 1. júní, 1. sept. og 1. des. 1979 hefði komið 12–15% kauphækkun, og þó er ekki endilega víst að það hefði komið út vegna þess að hækkanir skatta til ríkisins af hækkandi erlendu bensínverði hefðu ekki komið inn í vísitöluna, því að þær flokkast sem óbeinir skattar, sem átti að taka út úr vísitölunni, og enn fremur liggur fyrir, að á síðari hluta þessa árs verður að draga nokkuð úr niðurgreiðslum frá því sem var á síðasta hluta ársins 1978 og er enn. Samdráttur í niðurgreiðslum hefði vitaskuld haft í för með sér að kaupið hefði hækkað enn minna þrátt fyrir miklar verðlagshækkanir á þessum tíma.

Þegar þessi frv.-texti var lagður fram og kynntur hafði hann það í för með sér að fulltrúar verkalýðsstakanna í vísitölunefnd neituðu að starfa að þeim málum áfram og töldu að frv.-textinn væri sérdeilis ósanngjarn með tilliti til þess að þeir hefðu áður lýst sig reiðubúna til að ræða það að vísitalan yrði sett á 100, eins og það er kallað, frá 1. júní og gjarnan gerist við gerð nýrra kjarasamninga, og um leið hefðu þeir lýst sig reiðubúna til að ræða það, hvort og þá hvernig viðskiptakjaratenging yrði tekin með þegar verðbótavísitala yrði ákveðin.

Þegar frv. var lagt fram mánuði seinna, eða 12, mars, voru ákvæðin um í fyrsta lagi 5% hámarkshækkun á þriggja mánaða fresti og geymsla mismunarins í 9 mánuði fallin út. Í öðru lagi var ákvæðið um að taka óbeina skatta og niðurgreiðslur út úr vísitölunni fallið út úr frv. Hér voru m. ö. o. alvarlegustu skerðingarákvæði launanna farin út úr frv.-gerðinni. Inni stóðu þá ákvæði sem að mati Alþýðusambands Íslands hefðu haft í för með sér 5.5% skerðingu launa 1. júní frá því sem ella hefði átt að vera. Þau skerðingarákvæði, sem hér var um að ræða, voru einkum eftirfarandi:

1. Breyting á frádráttarliðum vísitölunnar upp á um það bil 1%.

2. Breyting á meðferð verðbótaauka sem hefði þýtt 1% 1. júní að mati Alþýðusambandsins.

3. Viðskiptakjaraskerðing upp á ca. 3%.

4. Breytingar á olíuverði vegna olíustyrkshækkana, sem gætu verið upp í 0.5%.

Hér væri að mati Alþýðusambandsins samtals um að ræða um 5% skerðingu.

Þegar þessi gerð frv. lá fyrir var því harðlega mótmælt af Alþýðusambandi Íslands í sérstakri ályktun miðstjórnar þess og því mótmælt sérstaklega að hróflað yrði við ákvæðum kjarasamninga um meðferð frádráttarliða, áfengis og tóbaks annars vegar og launaliðar bænda hins vegar. Þessi hluti af skerðingunni nam, eins og ég sagði, 1% eða svo. Í annan stað var gagnrýnt í ályktun Alþýðusambandsins, hversu farið væri með verðbótaaukann í frv. þessu og viðskiptakjaraviðmiðun svo og að ætlunin væri að lækka dýrtíðarbætur til fólks vegna ekki einasta hækkunar á olíustyrk, heldur einnig vegna annarra ráðstafana, sem gerðar kynnu að verða til þess að draga úr kostnaðarauka þeim sem þjóðarbúið kann að verða fyrir vegna olíuverðshækkananna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að samstarfsflokkar okkar í ríkisstj. höfnuðu því að ræða við alþýðusamtökin um þessi sérstöku mótmæli við verðbótakaflanum og þeir kröfðust þess að frv. yrði lagt fram óbreytt eins og forsrh. gekk frá því 12. mars s. l. Ég vil leggja á það áherslu, að það kom fram af hálfu samstarfsflokkanna mjög mismunandi vilji til þess að koma þarna til móts við verkalýðssamtökin. En að síðustu fór svo, að hæstv. forsrh. ákvað að leggja frv. fram sem alþm. í hv. Ed., en vitað var að fyrir lá stuðningur við frv. frá Alþfl. og Framsfl.

Skömmu eftir að það gerist heldur Verkamannasamband Íslands formannafund og leggur á það áherslu, að gera verði sérstakar ráðstafanir til þess að vernda lægri launin, og í öðru lagi, að koma verði til móts við þau sjónarmið sem fram komu í fyrrnefndri ályktun Alþýðusambands Íslands. Eftir að ályktun Verkamannasambandsins hafði verið gerð og birt almenningi var ljóst að unnt ætti að vera, ef heilindi byggju að baki þeirri ályktun af hálfu allra þeirra sem hana gerðu, að ná samkomulagi stjórnarflokkanna um ákveðnar breytingar á verðbótakafla frv. Í fyrstu leit það þó ekki vænlega út. Við Alþb.-menn lögðum fram till. um að annaðhvort yrðu teknar inn sérstakar bætur handa þeim sem hafa lægri launin, þ. e. a. s. föst krónutala handa öllum sem hafa í laun í mars 250 þús. kr. og þar fyrir neðan, eða gerðar yrðu aðrar ákveðnar breytingar á verðbótakaflanum, sem fólust m. a. í því að víð tókum undir ábendingar Alþýðusambandsins og Verkamannasambandsins, enda í samræmi við þá afstöðu sem flokkur okkar hefur ævinlega haft í þeim umr. sem staðið hafa yfir um þessi mál innan ríkisstj. og utan.

Um síðir tókst samkomulag um það sem hér liggur fyrir. Í því felast verulegar og þýðingarmiklar breytingar á verðbótakafla frv. frá því sem var 12. mars, sem þá hafði aftur gerbreyst frá því sem var mánuði fyrr, eins og ég rakti áðan. Veigamestu breytingarnar á þessum kafla og þær jákvæðustu að mínu mati og Alþb. eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi eru lægri laun en 210–220 þús. kr. á mánuði varin fyrir þeirri skerðingu sem frv. gerði óbreytt ráð fyrir. Samkv. þeim spám, sem nú liggja fyrir um að hækkun framfærsluvísitölu febr. — maí verði 10%, má gera ráð fyrir að lægri laun en áður nefnt mark segir til um svo og elli- og örorkulífeyrir hækki um 9%. Mismunurinn stafar annars vegar af því, að breytt er meðferð búvörufrádráttar í vísitölunni, og hins vegar af því, að gert er ráð fyrir að strax 1. júní hafi sérstakar ráðstafanir til hækkunar á olíustyrk áhrif til lækkunar á verðbótavísitölu. Ég tel að segja megi fullum fetum að kaupmáttur lægri launa sé varinn með þessum ákvæðum og viðskiptakjaraskerðingu á þessi laun skotið á frest. Von er til þess að breyting viðskiptakjara á síðari hluta ársins verði þannig, að skerðing vegna þeirra komi vart til framkvæmda 1. sept. og 1. des. Þetta er önnur meginbreytingin á verðbótakafla frv.

Hin meginbreytingin er sú, að laun, sem eru fyrir ofan þetta mark, 210–220 þús. kr. á mánuði, taka á sig 2/3 hinnar áætluðu viðskiptakjaraskerðingar 1. júní, en því, sem eftir er, 0.5–1%, yrði frestað til 1. sept. Með þessu móti hækka laun ofan við 220 þús. kr. a mánuði um u. þ. b. 7% 1. júní miðað við 10% hækkun framfærsluvísitölu febr.-maí. Skal tekið fram, að verulegur hluti þeirrar hækkunar er auðvitað hækkun á olíuvörum, en þess skal einnig getið að óbreytt vísitölukerfi hefði haft í för með sér 11–12% kauphækkun 1. júní á móti 10% verðlagshækkunum. Stafar mismunurinn af því, að gert er ráð fyrir sérstakri hækkun verðbótaaukans 1. júní. Hann er núna 1.5%, en því er spáð að hann geti farið í 2.5–3%, og í því liggur munurinn á kaupinu á þessari dagsetningu. Um verðbótaaukann er það aftur að segja, að frv. gerir ráð fyrir að hann verði í óbreyttri mynd frá því sem hann er nú fastur inni í kaupinu, þ. e. a. s. 1.5%, sem getur við hægara verðbólgustig haft í för með sér ávinning fyrir launafólk frá því sem óbreytt kerfi hefði gert ráð fyrir. A. m. k. virðist mega gera ráð fyrir að sú skerðing, sem hlýst af breytingu verðbótaaukans 1. júní, skili sér að nokkru eða verulegu leyti aftur 1. sept.

Þriðja og mikilvægasta breytingin á verðbótakafla frv. felst í ákvæði til bráðabirgða I, en þar segir:

„Ákvæði þessara laga breyta í engu rétti til að gerðir séu nýir kjarasamningar, jafnt um grunnlaun sem verðlagsbætur á laun.“

Það er því vitaskuld mikill misskilningur, sem 6v. 4. þm. Reykv. hélt fram áðan, að með frv. þessu og ákvæði þess sé verið að taka af mönnum samningsréttinn, eins og hæstv. forsrh. ítrekaði mjög rækilega og skýrt í framsöguræðu sinni áðan.

Þetta ákvæði til bráðabirgða, sem merkt er með I, er mjög mikilsvert að mati okkar Alþb.-manna. Ekkert slíkt ákvæði var að finna í þeim gerðum frv. sem oftlega hafa verið nefndar hér á undan og kenndar við dagsetningarnar 12. febr. og 12. mars. Þetta ákvæði er sérstaklega mikilsvert vegna þess, að í þessu frv. er enn að finna að okkar mati ákvæði sem hrófla við samningunum sjálfum sem gerðir voru 1977, þ. e. a. s. frádráttarliðum samninganna, og felst sú breyting í tölul. 1 og 3 í 50. gr. þessa frv.

Ég legg á það áherslu af hálfu Alþb., að Alþb. áskilur sér allan rétt til þess að berjast við hlið verkalýðshreyfingarinnar fyrir breytingum á þeim ákvæðum, sem hér er um að ræða, og vegna þessara ákvæða hefur komið fram frá verkalýðshreyfingunni mjög alvarleg gagnrýni á frv. þetta og verðbótakafla þess. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að miðað við það, sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frv. hæstv. forsrh., og miðað við það, sem launafólk í landinu ætti kost á ella, felist í þessu frv. ákvæði um kaup og kjör sem tryggi kaupmátt láglaunafólksins a. m. k. þetta árið, því að ef lítið er yfir kjaraákvæði þessa frv. og þá verðlags- og viðskiptaþróun, sem búast má við fram eftir þessu ári, hygg ég að þegar upp verður staðið verði unnt að halda því fram með fullum rétti að lægri launin hafi verið varin þennan tíma og þau muni fyllilega halda í við verðlags- og viðskiptakjaraþróun á þessu tímabili.

Ég sagði áðan að verkalýðshreyfingin í landinu hefði lýst sig reiðubúna til þess að ræða um það, hvort og hvernig tengja mætti viðskiptakjör verðbótavísitölu, um það að setja á 100, eins og það er kallað, og einnig hefur það legið fyrir af hálfu okkar Alþb.-manna, að við höfum jafnan verið reiðubúnir til þess að taka tillit til þess við útreikning verðbótavísitölu ef gerðar væru sérstakar ráðstafanir til þess að hækka olíustyrk. Ef þetta þrennt, sem við höfum rætt undanfarna mánuði, bæði Alþb. og verkalýðshreyfingin, er tekið til skoðunar og lagt saman hygg ég að út úr samningum um slík atriði við verkalýðshreyfinguna í landinu hefði aldrei komið minna en 2–3% breyting l. júní n. k., og því held ég þessu fram sem ég gerði áðan, að það sé fullkomlega stætt á því fyrir Alþb. að standa að samþykkt verðbótakaflans með þeim hætti sem hann er núna, þegar það bætist við að í honum er sérstakt ákvæði sem heimilar og bendir á að verkalýðsfélög geti hvenær sem er gert samninga um annað við atvinnurekendur sína ef þeir eru tilbúnir til að ganga til móts við launþegasamtökin. En því hafa þeir hins vegar neitað fyrir fram, eins og staðan er í dag, eins og hv. 4. þm. Reykv. ætti að vera kunnugt um eins og öðrum.

Þegar allt þetta er lagt saman og skoðuð þau ákvæði sem komist hafa inn í frv. fyrir okkar tilverknað og verkalýðshreyfingarinnar, að því er varðar að útrýma samdráttarákvæðum frv., að því er varðar verðlagsmál og á fleiri sviðum sem ég hef talið hér upp og loks að því er varðar breytingar á verðbótakaflanum, þá tel ég að það sé sjálfsagt og eðlilegt í þessari stöðu fyrir Alþb. að standa að þessu frv. Ég neita því hins vegar ekki og ég vil láta það koma hér hreinskilnislega fram af minni hálfu, að sú barátta við kauplækkunaröflin, sem staðið hefur yfir frá því að þessi ríkisstj. var mynduð, hefur verið miklu harðari og miklu ákveðnari en ég hafði áður átt von á. Ég geri mér ekki vonir um að þessari baráttu sé lokið. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að þessari baráttu kauplækkunaraflanna verður haldið áfram, og ég geri mér jafnframt grein fyrir því, að því aðeins náum við árangri í baráttunni gegn þessum öflum að verkalýðshreyfingin í landinu sé reiðubúin til þess að beita samtakamætti sínum til að sækja þann rétt sem hún á. (FrS: Hver eru kauplækkunaröflin?) Þú ættir nú að þekkja þau, Friðrik.

Ég vil sérstaklega á þessari stundu gagnrýna mjög harðlega það skilningsleysi sem komið hefur fram hjá ýmsum aðilum í umr. um þetta frv. í garð verkalýðshreyfingarinnar, því að ég minni á að verkalýðshreyfingin í landinu var, enda þótt hún væri með lausa samninga frá 1. des. s. l., reiðubúin til þess að halda óbreyttu grunnkaupi út árið 1979, og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna hafa einnig fallist á sömu stefnu, enda fái þessi samtök, sem ég nefndi síðar, fram tiltekin atriði í sínum samningsréttarmálum. Ég tel að verkalýðshreyfingin hafi í raun sýnt þessari ríkisstj. skilning og velvilja sem birtist í þessari afstöðu til grunnkaupsins á árinu 1979 og birtist kannske alveg sérstaklega í samþykktum sem gerðar voru vegna desemberráðstafana ríkisstj. Þessi afstaða verkalýðshreyfingarinnar hefur einnig komið mjög skýrt fram nú að undanförnu, því að verkalýðshreyfingin hefur þrátt fyrir kauplækkunarárásirnar, sem á hana eru gerðar, jafnvel á vettvangi stjórnarsamstarfsins, lýst sig reiðubúna til að reyna áfram að stuðla að því að þessi ríkisstj. geti starfað í landinu að þeim málum sem hana varða mestu og alla alþýðu.

Ég vil undir lokin fara til glöggvunar nánar yfir hugsanlega þróun verðlags og launa á árinu 1979, eins og það virðist líta út núna. Samkv. spám er gert ráð fyrir að framfærsluvísitalan hækki á yfirstandandi vísitölufjórðungi um 10%. Vegna þeirra verðhækkana mundu þeir, sem eru með laun undir 210 þús. kr., fá 9% kauphækkun 1. júní, en þeir, sem eru yfir 220 þús. kr., mundu fá um 7% kauphækkun 1. júní. Gert er ráð fyrir, að á næsta fjórðungi ársins verði hækkun framfærsluvísitölu 8%, og samkv. ákvæðum þessa frv. mundu vegna viðskiptakjaraskerðingarinnar aðeins koma til útborgunar 7–7.5% 1. sept. hjá bæði þeim sem eru undir og yfir áður nefndum launamörkum. Á síðasta vísitölufjórðungi þessa árs er því spáð, að verðlagshækkanir verði 7%, í gögnum Þjóðhagsstofnunar frá 16. mars s. l., og miðað við að sú skerðing, sem verður vegna frádráttarliða í búvöru, verði um 0.5%, yrði kauphækkun í þessu tilviki 1. des. 6.5% til allra.

Í heild líti dæmið þá þannig út, að framfærsluvísitalan hefði hækkað um 27% á 9 mánuðum. Lægri laun hefðu hins vegar fengið 24–24.5% kauphækkun og hærri launin fengju 22–23% launabætur. Í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir að viðskiptakjarabati geti komið launamönnum til góða á síðari hluta ársins 1979, sem margir telja þó vel hugsanlegt, og í þessu er ekki heldur gert ráð fyrir að sú breyting á meðferð verðbótaaukans, sem gert er ráð fyrir í frv., hafi í för með sér launabætur frá óbreyttu ástandi, en slíkt gæti mjög vel komið til, einkum á síðasta vísitölufjórðungi ársins.

Að öllu samanlögðu verð ég að segja það, að með tilliti til þess, sem verkalýðshreyfingin hafði lýst sig reiðubúna til að ræða um, og með tilliti til þess, að það er almennt viðurkennt að sérstakar ráðstafanir til hækkunar olíustyrks ættu ekki að koma til hækkunar verðbótavísitölu, — að þessu samanlögðu býst ég ekki við að launaskerðingin sem slík af þessum ástæðum hefði orðið minni, jafnvel þótt um hana hefði verið samið. Það, sem hins vegar er ámælisvert, eru vinnubrögðin, sem viðhöfð hafa verið, og það krukk í samninga sem fram kemur í 1. og 3. tölul. 50. gr.

Í þeim umr., sem fram hafa farið um þessi mál að undanförnu, hafa menn lagt á það mjög mikla áherslu að 1/2% kauphækkun til eða frá mundi þýða stórfellda verðbólguaukningu. Í þessum ummælum og afstöðu manna kemur greinilega fram, að margir virðast vera þeirrar skoðunar að launin ein ráði því, hvert verðbólgustigið er, og þar af leiðandi sé eina leiðin til að knýja verðbólgustigið niður að lækka launin. Þetta eru kenningar sem við könnumst við úr stéttabaráttu undanfarinna ára, en þetta eru hinar örgustu villukenningar. Við Alþb.menn teljum að það eigi að vinna gegn verðbólgunni með markvissum aðgerðum í fjárfestingarstjórn, með áætlunargerð og með samræmdri heildarstefnu í efnahagsmátum. Við teljum að kaupið hér á Íslandi sé ekki of hátt. Við teljum að kaupmátturinn sé ekki of mikill. Og við teljum að það sé nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin í landinu standi fast á rétti sínum, samningum og kaupi, því að slíkt er vitaskuld eina leiðin til þess að tryggja hér skapleg lífskjör. Það er um leið eini vegurinn til þess að unnt sé að skapa víðtæka pólitíska samstöðu um að taka á þeim milljörðum og aftur milljörðum sem runnið hafa til fárra fjárplógsmanna og braskara á síðustu árum.

Þeir, sem hæst hafa um baráttuna gegn verðbólgunni núna, gera það margir vegna þess að þeir vilja nota verðbólguna til að níðast á kaupinu. Þeir vilja notfæra sér verðbólguna. Þeir telja hana happafeng til þess að unnt sé að lækka kaupið. Þeir sjá engar aðrar efnahagsstærðir í þjóðfélaginu en kaupið. Vissulega er kaupið meiri hluti þjóðarteknanna. En í þjóðfélaginu á sér stað margvísleg, gegndarlaus sóun með fjármuni sem væri unnt að skera niður ef til þess næðist samstilling þeirra stjórnmálaafla sem best eru í núverandi stjórnarflokkum. Og ég hygg að ef þessi ríkisstj. ætli að rísa undir nafni vinstri stjórnar þurfi hún nú framar öllu öðru að snúa sér að því að skera niður þá fjármuni, sem enn í dag og enn um næstu framtíð renna að því er virðist óhindrað í vasa fjárplógsmanna og braskara í þessu þjóðfélagi. Beri ríkisstj. gæfu til þess að snúa sér að því verkefni samhliða eflingu íslenskra atvinnuvega mun hún ekki einasta ná góðu samstarfi um kjaramál við verkalýðshreyfinguna í landinu, heldur mun hún einnig ná samstarfi við verkalýðshreyfinguna um alhliða félagslega uppbyggingu íslenska þjóðfélagsins i atvinnumálum, í félagsmálum og í menningarmálum. Þar er ótalmörg verk að vinna. Á liðnum mánuðum þessarar ríkisstj. hefur lítill tími gefist til slíkra verka. Mikill tími hefur því miður farið í átök á milli stjórnarflokkanna. Vonandi verða næstu mánuðir í samstarfi núverandi stjórnarflokka þannig að það gefist tóm, tækifæri og umfram allt samstaða til þess að snúa sér að verkunum. Þau æpa á okkur úti um allt þjóðfélagið, og fótkið er reiðubúið til að styðja núverandi ríkisstj. með ráðum og dáð — yfirgnæfandi meiri hl. þessarar þjóðar og yfirgnæfandi meiri hl. íslenskra launamanna.