04.04.1979
Neðri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3908 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi míns máls við þessa umr., að ég hef allmargar aths. að gera við það frv. sem við ræðum hér í kvöld. Sumar þessar aths. eru af því tagi að ég gæti út af fyrir sig þrátt fyrir þær veitt frv. stuðning, og það gildir reyndar um flestar þeirra, en fáeinar eru í mínum huga það alvarlega, að ég vil taka það,fram strax að ég treysti mér ekki til að veita frv. stuðning óbreyttu. Það er fyrst og fremst sá kafli, sem fjallar um verðbætur á laun, sem ég er ekki sáttur við, og mun ég koma að því nánar fljótlega í máli mínu.

Ég hygg að það geti verið rétt að líta aðeins aftur í tímann og rifja upp í örstuttu máli hver þróunin hefur verið í sambandi við kaupmátt launanna hjá verkafólkinu í þessu landi. Það er einmitt spurningin um sjálf launin sem viðkvæmust er í þeim efnum sem hér er verið að fjalla um.

Það er rétt að hafa það ríkt í huga, að að sjálfsögðu skiptir það harla litlu máli hvaða krónutala það er sem menn fá greidda ef hækkuð krónutala felur ekki í sér aukinn kaupmátt. Það er ég ekki síður sannfærður um en hæstv. forsrh., sem lagði áherslu á þann þátt mála í ræðu sinni áðan. Og ég hygg að það sé ekki réttmæli, þegar verkalýðshreyfingin er oft og einatt ásökuð um að horfa fyrst og fremst á krónutölu kaupsins, en ekki kaupmáttinn. Slík ásökun er að mínu viti ekki réttmæli í hennar garð. Ég hygg að verkalýðshreyfingin hafi löngum, og þá ekki síst á síðari árum, verið þess albúin að meta kaupmáttaraukningu af einhverju öðru tagi en fjölgandi krónur í launaumslögin að fullu til jafns við aukna krónutölu, ef slíkt hefði verið í boði, sem ekki hefur oft verið.

Ég minni á það, að þegar fyrri ríkisstj. núv. hæstv. forsrh. Ólafs Jóhannessonar var mynduð í byrjun þessa áratugs var það eitt meginstefnumið þeirrar ríkisstj. að kaupmáttur launa verkafólks skyldi aukinn um 20% á kjörtímabilinu. Mörgum þóttu þetta stór orð þá, og það skorti ekki yfirlýsingarnar frá talsmönnum Sjálfstfl. um að auðvitað yrði aldrei við þetta staðið. En það var staðið við þessa yfirlýsingu og meira til.

Ég tók með mér í ræðustólinn eintak af Fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar frá því í okt. í haust. Ef við lítum þar á bls. 19 fer ekkert milli mála að þar er m. a. vottað að kaupmáttur launa verkamanna, þ. e. a. s. meðaltímakaups þeirra án helgidagavinnu, hefði hækkað frá árinu 1971, þegar fyrri ríkisstj. núv. hæstv. forsrh. tók við, og til ársins 1973, tveim árum síðar, ekki aðeins um 20%, heldur um 23.5%. Það var mikill og myndarlegur árangur. Þessi kaupmáttur fór þó enn hærra á fyrri hluta árs 1974, eins og öllum er kunnugt sem fylgst hafa með málum á þessu árabili, og varð á fyrri helmingi árs 1974 37% hærri en árið I971, ekki einn dag, eins og stundum hefur verið minnst á, — þá væri hægt að nefna enn hærri tölu, — heldur að meðaltali yfir hálft ár. Þetta var mjög góður árangur á sínum tíma. Víst skal það tekið fram, að ytri aðstæður voru okkur hagstæðar á þessum árum, ekki skal dregin fjöður yfir það. En enginn vafi er á því, að sú markvissa stjórnarstefna, sem þá var haldið uppi, að vinna að bættum kjörum alþýðumanna, átti sinn stóra þátt í því, hvaða niðurstöður þarna náðust fram.

En hvað tók síðan við í þessum efnum? Ég lít hér enn á sömu töflu Kjararannsóknarnefndar, sem ég hygg að menn deili ekki um að sé eðlilegur dómari um rétt og rangt í þessum efnum, og hún segir okkur að kaupmáttur meðaltímakaups verkamanna hafi hins vegar strax á fyrstu mánuðum ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar síðari hluta árs 1974 verið skertur um 15–20%. Þannig stóðu málin óhaggað, ekki bara í fáeina mánuði, heldur var þetta varanleg skerðing. Og þegar kom fram á fyrri hluta ársins 1977 og hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafði setið hér að völdum hátt í þrjú ár stóð kaupmáttarskerðingin óhögguð og var á fyrri hluta árs 1977 — meðaltal af 1. og 2. ársfjórðungi — milli 18 og 19% frá því sem hún hafði verið þremur árum áður. (GH: Hvað með kaupmátt ráðstöfunartekna?) Ég vitna hér í skýrslu um kaupmátt tímakaups verkamanna og sá kaupmáttur skiptir ærið miklu máli. (GH: Ráðstöfunartekjur meira.) Ég vil benda hv. 4. þm. Reykv. á það, að hann á þess kost að vitna hér í kaupmátt ráðstöfunartekna, og gjarnan skal ég hlusta á mál hans í þeim efnum og ræða það við hann. En ég vil aðeins segja það, að þó menn vilji andmæla því að töflur Kjararannsóknarnefndar um kaupmátt tímakaupsins á hverjum tíma segi ekki meginsöguna í þessum efnum, þá hygg ég að það séu ekki aðrar upplýsingar sem geri það frekar. Ég vil að við höfum öll þetta baksvið í huga nú og ég kem reyndar nánar að því á eftir hvers vegna.

Síðan tókst í kjarasamningunum 1977, júnísamningunum þá, að lyfta kjörum almenns launafólks á Íslandi mjög verulega. Það hafði verið sagt að skýringin á kaupmáttarskerðingunni um 15–20% í tíð fyrrv. ríkisstj. væri sú, að þjóðartekjur okkar á mann hefðu farið minnkandi og þess vegna hefði þetta verið óhjákvæmilegt. Við höfum einnig upplýsingar Kjararannsóknarnefndar í þessum efnum og þær segja okkur að á þessum tíma, sem hér stóð kaupmáttarskerðing upp á 15–20%, í 3 ár, lækkuðu þjóðartekjurnar á mann aldrei meira en um 7–8% og það aðeins skamma hríð. Þessi samanburður segir okkur mikla sögu um stjórnarstefnuna sem þá var haldið uppi undir forustu Sjálfstfl., og það er ósköp skiljanlegt með þessar staðreyndir í huga að mikill fjöldi verkafólks leggi nokkuð upp úr því að sú ríkisstj., sem nú situr, tolli þó einhverja mánuði og kannske nokkur ár í stólunum frekar en að fá álíka stjórnarfar yfir sig á ný og hér ríkti á síðasta kjörtímabili.

Við vitum það, að eftir að kjarasamningar voru gerðir á árinu 1977 fengu þeir ekki að standa nema skamma hríð. Þeir voru skertir með febrúarlögunum á síðasta ári, 1978, og þau átök, sem hófust í framhaldi af þeirri árás á launakjörin, settu mjög svip á kosningabaráttuna á liðnu ári. Þar var ekki síst tekist á um það, hvort takast mætti að breyta þannig stjórnarfarinu í landinu að von væri til þess að þau lífskjör almennings yrðu tryggð sem þessir kjarasamningar höfðu gert ráð fyrir. Það voru vissulega af ærið mörgum bundnar miklar vonir við það í aðdraganda myndunar núv. ríkisstj. að þetta gæti tekist. En það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. Þess varð vart strax í stjórnarmyndunarviðræðunum á síðasta ári, að áhuginn fyrir því að þrýsta niður kaupmætti launanna hjá verkafólki og öllum almenningi í landinu var ekki aðeins fyrir hendi innan raða Sjálfstfl., heldur var einkar áberandi að Alþfl. alveg sérstaklega virtist ekki geta sætt sig við neitt annað en að núv. ríkisstj. hæfi feril sinn með verulegri kjaraskerðingu. Það gerðist síðan þegar leið á árið 1978, að Alþfl. birti á opinberum vettvangi, að vísu ekki hér á hinu háa Alþingi, heldur í Alþýðublaðinu, hið svokallaða frv. um efnahagsmál sem oft hefur verið vitnað til. Í þessu frv. var tekið fram skýrt og skorinort, að sett skyldu lög sem bönnuðu að laun hækkuðu í krónutölu um meira en 4% á þriggja mánaða fresti á árinu 1979, eða um 17% alls árið 1979, hvað svo sem verðlagsþróun liði. Allar spár um verðlagsþróun á árinu 1979 hafa gengið út frá því að hækkun framfærslukostnaðar yrði a. m. k. 30%, og oftast hafa menn reiknað með að hún yrði meiri, en segjum bara 30%, þá áttu launin að hækka í krónutölu samkv. frv. Alþfl. um 17% á sama tíma og verðlagið hækkaði um a. m. k. 30%. Það þarf að sjálfsögðu engra útskýringa við, hvaða kjaraskerðing hefði falist í slíkri lagasetningu.

Það varð ekki af því að þetta frv. Alþfl. yrði sýnt hér á hinu háa Alþingi. En hugmyndirnar um að knýja fram lækkun raungildis launanna héldu áfram að þróast. Og enda þótt þau frv.-drög, sem hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson lagði fram í ríkisstj. 12. febr. og nokkru síðar var dreift til allra alþm. og fleiri aðila, gerðu ekki ráð fyrir jafnalvarlegri árás á lífskjörin og frv.-nefna Alþfl. hafði gert voru engu að síður í þessum fyrstu drögum hæstv. forsrh. mjög alvarleg ákvæði um bindingu á launum sem óhjákvæmilega hefðu leitt til mjög mikillar skerðingar kaupmáttar. Þar var gert ráð fyrir að almenn laun mættu ekki hækka frá 1. júní og til ársloka nema um 5% á þriggja mánaða fresti, hvað sem verðlagsþróun liði, en það sem væri umfram 5% skyldi geymast í 9 mánuði og greiðast út þá fyrst. Í þessum drögum að frv., sem lagt var fram í ríkisstj. af hæstv. forsrh. 12. febr., var einnig að finna afturgöngur frá því frv. til febrúarlaganna á síðasta ári, sem lagt var fram af fyrri ríkisstj. í fyrra, m. a. að óbeinir skattar og niðurgreiðslur skyldu tekin út úr þeirri vísitölu sem mælir verðbætur á launin. Ég vil ekki fara að eyða hér tíma í að lýsa því, hversu alvarleg slík ákvörðun hefði verið fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu og umbjóðendur hennar enda er þetta ákvæði fyrir lögnu horfið úr þeim frv.-drögum sem nú hafa breyst í frv. það sem hér liggur fyrir.

Það er eitt atriði enn sem ég get ekki látið hjá líða að nefna, að í drögunum frá 12. febr., þeirri till. hæstv. forsrh., var að finna ákvæði um að það þak, sem sett hafði verið á hæstu launin í landinu, skyldi afnumið. Og ég vil segja það hér enn úr þessum ræðustól, að ég harma að slík till. skuli hafa komið fram og komist á opinberan vettvang úr þessum frv.-drögum. Ég hygg að sú staðreynd, að ákvæði var í frv.-drögunum — ákvæðið um afléttingu launaþaksins — og að það lá fyrir, að ekki aðeins flokkur hæstv. forsrh, var tilbúinn að samþykkja lög með þessu ákvæði, heldur einnig var um að ræða yfirlýsingu frá öðrum stjórnarflokki, þ. e. a. s. Alþfl., sama efnis kunni að hafa haft sín áhrif á niðurstöðu Kjaradóms í þessum efnum sem við öll þekkjum. Ég tek það fram, að ég tel að í því þófi, sem nú hefur staðið allmikið á annan mánuð frá því að frv.-drög hæstv. forsrh. frá 12. febr. voru fyrst lögð fram í ríkisstj., hafi náðst fram fjölmargar lagfæringar á frv.-drögum þessum fyrir einarða baráttu samningamanna Alþb. innan ríkisstj. og utan. Í ýmsum greinum skiptir þessi árangur mjög miklu máli. Hæstv. viðskrh. rakti hér flestar veigamestu breytingarnar í sínu máli fyrr í dag og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem þar kom fram, en segi aðeins að ég tel nær allar þær breytingar, sem á frv.- drögunum frá 12. febr. hafa verið gerðar vera til bóta.

Ég vil þá næst snúa mér að verðbótakafla frv. eins og hann er nú og gera lítillega grein fyrir þeim atriðum í kaflanum sem ég tel að ekki sé hægt að una við.

Ég nefni hér fyrst það sem stendur í verðbótakaflanum, að héðan í frá skuli miða verðbætur á laun við viðskiptakjaraþróun. Ég tek það fram, að ég tel út af fyrir sig eðlilegt að að slík viðmiðun sé í gildi og vera til bóta, ef rétt væri að því staðið hvernig slíkri tengingu skal komið á í upphafi. En ég hef þá alvarlegu aths. að gera, að nú þegar þessi tenging er tekin upp í fyrsta skipti er kveðið á um í frv. að sá grundvöllur, sem mælingin skal miðast við, skuli vera meðaltal viðskiptakjara á árinu 1978 öllu, sem þýðir, eins og kunnugt er, að dómi Þjóðhagsstofnunar að laun ættu að skerðast samkv. þessu einu út af fyrir sig um svo sem 3%. Ef hins vegar væri miðað við meðaltal viðskiptakjara undanfarið hálft ár, og væri þá grunnurinn síðasti ársfjórðungur 1978 og fyrsti ársfjórðungur 1979, það hálfa ár sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum, þá yrði skerðingin ekki 3%, heldur 0.3%. Þetta er ærinn munur.

Við vitum öll, sem fylgst höfum með þessum málum, að verkalýðshreyfingin hefur verið býsna treg að fallast á að viðskiptakjaraviðmiðun yrði tekin upp. Margir aðilar innan hennar hafa verið tortryggnir í þeim efnum og tregir. En það tókst að lokum að fá nokkuð gott samkomulag um það innan verkalýðshreyfingarinnar að vera til viðtals um þetta og ganga til samninga um það. Ég tel að það hafi mátt gerast fyrr — það tek ég fram, það er mín skoðun. En þegar sá árangur hafði náðst, að verkalýðshreyfingin vildi í alvöru ganga til samninga um að tengja verðbætur á laun við viðskiptakjaraþróun, hlaut það að skipta mjög miklu máli að mjúklega yrði að þessu farið og gengið þannig frá málum í upphafi að sem flestir innan verkalýðshreyfingarinnar gætu með góðu móti sætt sig við niðurstöður. En þetta, sem hér er lagt til, að velja leið varðandi viðmiðun sem kallar fram 3% skerðingu, en ekki aðra leið sem aðeiðs 0.3% skerðing fylgir, er að mínu viti alls ekki nógu gott. Ég minni a að þarna er ekki um neitt að ræða sem er bara spurning fyrir næstu vikur eða næstu mánuði, heldur er ákaflega hætt við því, að meðan það kerfi, sem nú er tekið upp um viðmiðun við viðskiptakjör, stendur, — ég býst við að það muni standa lengi, — þá verði launin ætíð sem svarar mismuninum milli 0.3% og 3% lægri en ella um alla þá framtíð sem sú ákvörðun fær að gilda sem nú er tekin upp í byrjun um viðmiðum við viðskiptakjör. Ég skal taka það skýrt fram, að ég hefði ekki gert að neinu úrslitaatriði að það væri miðað nákvæmlega við viðskiptakjör síðasta hálfa árið með aðeins 0.3% skerðingu, þó að ég telji að það hefði verið eðlilegast. Ég hefði vel getað hugsað mér til samkomulags um þessa hluti, að þarna væri mæst á miðri leið, ef önnur ákvæði hefðu verið skapleg að mínum dómi. En þess var ekki kostur og það var haldið fast við að viðskiptakjaratengingin skyldi verða með þeim hætti að hún fæli í sér jafnmikla skerðingu og þarna er um að ræða. Mér er fullkunnugt um að í mínum flokki, Alþb., var ekki síður vilji hjá öðrum þm. en mér til að haga þessu á annan veg, en þeir fengu því ekki ráðið, um það tókst ekki samkomulag.

Önnur atriði verðbótakaflans, sem ég vil drepa hér á, eru nokkur. Gert er ráð fyrir að tekjuöflun fyrir ríkissjóð, sem ganga á til þess að greiða bætur til þeirra heimila í landinu sem kynda með olíu vegna gífurlegra verðhækkana á olíu, — þetta eru um 25% heimila í landinu, — muni að óbreyttum lögum hækka verðbótavísitölu launa um ca. 0.5% samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar sem fyrir liggur, en í frv. er kveðið á um að þessar verðbætur upp á 0.5% verði ekki greiddar. Ég tel að þarna sé um sjálfsagt ákvæði að ræða. Ég tek það fram, að ég er ekki aðeins tilbúinn til að styðja það sem segir í þessum efnum, — það mun felast á bak við það áætlun um að ráðstafa u. þ. b. 1 milljarði kr. til að létta byrðar þessara heimila, en ég gæti hugsað mér að þarna væri ekki aðeins um milljarð að ræða, heldur 1.5 milljarða. Þessi tala væri því ekki bara 0.5, heldur jafnvel 0.7 eða 0.71/2. Ég mundi ekki kveinka mér neitt við að samþykkja það. Fyrir þessu er, að ég hygg, einnig góður skilningur innan verkalýðshreyfingarinnar almennt.

Næst vil ég lítillega koma inn á þá liði aðra sem frá er greint í 50. gr. frv. innan verðbótakaflans, sem lúta að breytingum í sambandi við útreikning hins svokallaða verðbótaauka og fleira, lúta að breytingum á útreikningum er varða frádráttarliði við verðbótavísitöluútreikning, svo sem launalið bónda í búvöruverði, áfengi og tóbak, sem nú er lagt til að verði tekið inn í grunn vísitölunnar á nýjan leik, en hefur verið þar fyrir utan. Auðvitað er það svo, að í sambandi við þessa ákveðnu liði er verið að hreyfa við gildandi kjarasamningum, og það er ekkert til að vera hissa á þó að slíkt sé viðkvæmnismál innan verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst þegar auðvelt er að sýna fram á að þær breytingar, sem lagðar eru til, verki til allnokkurrar skerðingar á kaupi verkafólks, eins og um er að ræða í þessu ákveðna tilviki. Það er ljóst að Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir því samkv. blaði, sem hún hefur dags. 15/3 og ég hef hér undir höndum, og þá er hún að sjálfsögðu að miða við frv. hæstv. forsrh. eins og það var lagt fram í þinginu, áður en á því voru gerðar breytingar, — þá gerir hún ráð fyrir að heildaráhrifin af frv. á launagreiðslur til lækkunar nemi miðað við júníkaup 5.1–6.1% og síðan bætist við síðar á árinu 0.5–1%. Mun þá láta nærri að þarna sé um að ræða að dómi Þjóðhagsstofnunar, miðað við frv. eins og það var lagt hér fram, um það bil 6% almenna skerðingu á kaupgreiðslum. Þar af eru samkv. þessu blaði Þjóðhagsstofnunar 2–3% vegna þeirra liða sem ég gat um áðan og varða breytingu á útreikningi verðbótaauka, breytingu varðandi uppsöfnun frádráttarliða: búvöruliðar, áfengis og tóbaks. Og ég kemst ekki hjá að segja það, að enda þótt það kynnu að hafa verið einhver rök fyrir því, að þarna gæti verið eins skynsamlegt að reikna einhverja þessa liði á þann veg sem frv. gerir ráð fyrir og eftir hinni aðferðinni, sem kjarasamningar gera ráð fyrir, þá er ekki því að neita að þegar þetta bætist við þá skerðingu sem kemur inn vegna tengingarinnar við viðskiptakjörin, þá er skerðingin, sem kemur út í heild, orðin það mikil að ég held að þess hafi tæplega verið að vænta að hægt væri með góðu móti að fá verkalýðshreyfinguna til að sætta sig við þessa heildarútkomu, enda er það staðreynd, að af hálfu Alþýðusambands Íslands hafa verið borin fram býsna ákveðin andmæli ekki síst við þessum liðum sem snerta beint kjarasamningana og lúta að öðru en tengingunni við viðskiptakjörin.

Ég kem þá að því atriði sem skiptir einna mestu máli í verðbótakaflanum. Það er kunnugt að í meðferð málsins tókst að knýja fram nýtt ákvæði inn í frv., ákvæði um ákveðnar láglaunabætur, upp á 2%, og einnig tókst að knýja það fram, að skerðingin vegna tengingar við viðskiptakjör kæmi ekki öll 1. júní, heldur kæmu 2% af þessum 3% 1. júní og 1% 1. sept. Þessar 2% láglaunabætur ná til fólks sem hefur dagvinnulaun innan við 210 þús. kr. á mánuði. Það sem mér er efst í huga í sambandi við þessar ákveðnu láglaunabætur, er spurningin um það, hvort þær eigi að fá að standa ekki aðeins nú allra næstu mánuði, heldur líka fram á næsta ár sem lágmark. Auðvitað væri það eina eðlilega að mínu viti það, að þær yrðu varanlegar. Það hefur e. t. v. ekki verið fyllilega ljóst hvort frv. í þeirri gerð, sem það liggur nú fyrir í þessari d., gerði ráð fyrir að þessar tiltölulega litlu láglaunabætur upp á 2% fengju að standa lengur en hálft ár eða hvort þær ættu að hverfa strax 1. des. n. k. Ég tek það skýrt fram, að mikil áhrif hefur haft á afstöðu mína til þessa máls einmitt það atriði að það skuli ekki hafa fengist fram ótvírætt að þessar láglaunabætur yrðu ekki teknar til baka. Ég vildi vita vissu mína í þessum efnum og spurðist fyrir um það nú í dag hjá Þjóðhagsstofnun hvernig þar væri litið á þessi mál, og ég er hér með skriflegt svar frá þeim, dags. 4. apríl. Þar segir m. a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Miðað við ákvæði frv. um stjórn efnahagsmála o. fl. eins og þau voru eftir afgreiðslu frá Ed. Alþ. má lauslega gera ráð fyrir eftirfarandi hækkun verðbóta á laun til ársloka 1979. Áætlunin er reist á lauslegri endurskoðun á áætlun Þjóðhagsstofnunar frá 16. mars s. l. um þróun verðlags, launa og kaupmáttar og kauptaxta 1969, sem verður endurskoðuð nánar á næstunni.“ Síðan segir um hækkun verðbóta, að þær eigi hinn 1. júní að hækka almennt um 7%, en láglaunafólksins um 9%. Þetta er ótvírætt. 1. sept. hækka síðan bæði almennu launin og láglaunin um 7–7.5%, en síðan 1. des. í ár, þegar kemur að því að greiða verðbætur á laun fyrir þær verðhækkanir sem átt hafa sér stað á næsta þriggja mánaða tímabili á undan, þá segir Þjóðhagsstofnun um almenna kaupið, að hærri launin muni fá verðbætur upp á 6.5%, en lægst launaða fólkið fái aðeins 4.5%. Skýringin er að sjálfsögðu sú, að Þjóðhagsstofnun telur að í frv. sé kveðið á um að láglaunabæturnar gildi aðeins frá 1. júní til 1. des. og hverfi þá að 6 mánuðum liðnum.

Ég vil ekki sætta mig við að standa að lagasetningu sem feli þetta í sér. Ég vil ekki bera ábyrgð á slíkum lögum. Mér finnst sanngirnismál að hér séu stigin skref í átt til launajöfnunar — varanleg skref og þess vegna er ég mjög hlynntur því að sérstakar láglauna- eða jafnlaunabætur séu leiddar í lög. En ég tel að ef það er gert, þá eigi ekki að lýsa því yfir um leið að þær verði teknar til baka eftir hálft ár. Ég kemst ekki hjá að minna á það, að ég skoða þetta mál í nokkru samhengi og í nokkrum samanburði við það sem gerðist þegar launaþakinu var lyft af með Kjaradómi fyrir skömmu. Við höfum sjálfsagt öll tekið eftir því, alþm., að laun okkar hækkuðu býsna mikið við þessa þaklyftingu og það verður ekki annars vart en reiknað sé með að sú hækkun standi áfram, líka eftir 1. des. Ég held að það sé hyggilegt fyrir núv. hæstv. ríkisstj. og fyrir okkur öll, sem hana viljum styðja til góðra verka, að láta það ekki henda okkur að setja í lög sérstakt ákvæði um að þessar tiltölulega litlu láglaunabætur skuli aftur teknar að hálfu ári liðnu. Ég hef reynt að grína í frv.-textann sjálfan í þessum efnum og spyrja þeirrar spurningar: Er öruggt að túlkun Þjóðhagsstofnunar í þessum efnum, sú sem kemur fram á því blaði sem ég hef í höndunum og hef lýst, sé sú eina sem til greina kemur út frá þessum texta? Mín persónulega skoðun á því, hvort svo sé, skiptir í sjálfu sér engu máli. En vegna þess að þetta atriði mun ráða miklu um afstöðu mína til þessa frv. vil ég leyfa mér að beina ákveðnum spurningum varðandi þetta til hæstv. forsrh. Ólafs Jóhannessonar.

Fyrsta spurningin er á þessa leið: Telur hæstv. forsrh. mögulegt að túlka það sem segir í ákvæði til bráðabirgða á eftir 52. gr. í frv. á þann veg, að láglaunabætur verði greiddar áfram eftir 1. des. samkv. þeim ákvæðum?

Önnur spurning sem er efnislega nánast um það sama, en aðeins öðruvísi orðuð til þess að mál mitt skiljist ótvírætt: Telur hæstv. forsrh. hugsanlegt að túlka þessi ákvæði á þann veg, að lægst launaða fólkið fái sömu verðbætur á laun 1. des. í ár og hinir, án þess að neitt falli niður þar á móti af því kaupi sem þetta láglaunafólk hefur fengið greitt samkv. frv. og samningum næstu 6 mánuði á undan?

Geti hæstv. forsrh. gefið mér jákvæð svör við þessum spurningum, þá mun ég meta það mjög mikils. Geti hann það hins vegar ekki tel ég að það, sem um þessi efni segir, sé óneitanlega einn allra versti, ef ekki versti galli sem á frv. er. Ef hæstv. forsrh. mót von minni getur ekki gefið jákvæð svör við þeim spurningum sem ég hef hér borið fram, þá vil ég leyfa mér að bæta við þriðju spurningunni og þeirri síðustu, sem er þessi: Telur þá hæstv. forsrh. af sinni hálfu koma til greina að breyta frv. þannig að láglaunabæturnar haldist áfram eftir 1. des.? — Mér þætti vænt um að fá svör við þessum spurningum.

Ég verð að segja það, að ef túlkun Þjóðhagsstofnunar á að standa verður skerðingin, sem um er að ræða í frv., komin fram að fullu undir lok þessa árs, líka gagnvart því fólki sem hefur um og innan við 200 þús. kr. í dagvinnulaun á mánuði. Hún kæmi ekki öll 1. júní, eins og upphaflega frv. gerði ráð fyrir, en hún yrði komin að fullu undir lok ársins. Og hver er þessi skerðing? Hún er samkv. tölum Þjóðhagsstofnunar kringum 6% í kaupgreiðslu. Og hvort sem hún verður 6% eða eitthvað annað, þá er ekki hægt að horfa fram hjá því, að hún bætist ofan á nokkra skerðingu sem átti sér stað 1. des. 1978, — skerðingu sem þá var af verkalýðshreyfingunni talin þolanleg ein út af fyrir sig, ekki síst vegna þess að á móti komu loforð og skuldbindingar um viss félagsleg málefni sem metin voru mikils. En ég minni á það, að gagnvart öllum meginþorra launafólks var skerðingin 1. des. s. l. varla minni en um það bil 4%. Ég þarf ekki að rekja hvernig það er reiknað út. Og ef við eigum að standa uppi með þessa skerðingu til viðbótar, sem

Þjóðhagsstofnun metur í kringum 6% og það að fullu gagnvart lægst launaða fólkinu í landinu eftir að kemur fram undir næstu áramót, þá er þetta að mínu viti orðið of mikið — óhæfilega mikið. Mér finnst að það sé skylda okkar, sem viljum styðja þessa ríkisstj. til góðra verka, að vernda a. m. k. nokkurn veginn, helst að fullu kjör lægst launaða fólksins í landinu, ekki aðeins hins allra lægst launaða, heldur þess fólks sem er með í dagvinnukaup 220 þús. og þar fyrir neðan — jafnvel fleiri. Og það dugir mér ekki í þessum efnum að menn segi sem svo, eins og hæstv. forsrh. tók réttilega fram í ræðu sinni, að verkalýðshreyfingin sé frjáls að því að vinna sig upp í kjarasamningum. Við vitum að erfiðleikar eru þar á veginum og auðvitað var það ekki nema sjálfsagt mál að verkalýðshreyfingin héldi sínu formlega frelsi í þeim efnum. Það var sjálfsagt mál. En það getur orðið þrautin þyngri að sækja réttinn eftir þeim leiðum, og ég hefði talið að núv. hæstv. ríkisstj. ætti í lengstu lög að forðast allt að því að egna verkalýðshreyfinguna til átaka með því að ganga of langt í skerðingarátt, en segja síðan: Gerið þið svo vel. Þið vinnið þetta upp aftur í samningum.

Það er líka stundum minnst á að þetta geti verið allt saman nokkuð gott vegna þess að við eigum e. t. v. von á batnandi viðskiptakjörum á næstunni. Ég tek það fram, að ég met ákaflega mikils að það skuli hafa tekist að setja inn í þetta frv. skýr ákvæði um að viðskiptakjaraviðmiðunin skuli gilda jafnt upp á við með verðbætur á launin, ef viðskiptakjör fara batnandi, á móti lækkandi verðbótum, ef viðskiptakjörin fara versnandi. Þetta er jafnt í frv. og er ekkert við það að athuga. Hins vegar er erfitt að spá hver þessi þróun verður, ef horft er fram í tímann, og um það vitum við harla lítið þannig að þar er um að ræða veiði sem er sýnd, en ekki gefin.

Ég kemst ekki hjá að minnast hér lítillega á þann mikla áróður sem haldið hefur verið uppi í svörum við kröfum okkar Alþb.-manna um verndun lífskjaranna. Svarið er jafnan: Þið eruð að heimta meiri verðbólgu. — Það er í raun og veru eina svarið. Gengið er út frá því, að það sé engin leið hugsanleg til að bæta kjör fólks, sem hefur jafnvel innan við 200 þús. kr. í dagvinnutekjur á mánuði, án þess að það auki svo og svo mikið verðbólguna í landinu. Ég vil vísa slíkum fullyrðingum algerlega á bug. Við erum rík þjóð í þessu landi og hér eru miklir möguleikar, ekki bara á því að auka okkar framleiðslu og auka okkar þjóðartekjur, sem gæti leitt til þess að allir fengju bætt kjör í svipuðum hlutföllum og skiptingin hefur verið milli manna hér, heldur líka miklir möguleikar til að breyta tekju- og eignaskiptingunni í landinu. Það er spurning um pólitískar ákvarðanir í þessum efnum sem sker úr. Þarna er ekki um að ræða nein sjálfvirk lögmál, heldur er spurningin um pólitískar ákvarðanir. Og ég tek það skýrt fram, að ég er ekkert hræddur við það, þó að lagðir væru nokkru meiri skattar á ýmsa aðila í þessu þjóðfélagi heldur en gert hefur verið, þá aðila sem hvað varðar bæði tekjuöflun og eignasöfnun hafa dregið til sín miklu stærri hlut en þeim ber, og það fjármagn sé notað til að bæta hag hinna sem við skarðan hlut búa.

Við höfum ágæta starfsmenn við okkar Þjóðhagsstofnun og þeir hafa mikilvægu hlutverki að gegna. En þegar þeir leggja fram útreikninga sína um það, hvað þetta og þetta mikil kaupmáttaraukning leiði af sér í verðbólgu, þá geta þeir auðvitað ekki með neinu móti sett inn í dæmið eitthvað sem segi okkur að þetta geti verið mismunandi mikið eftir því, hvers konar stjórnarfar sé í landinu. Þeir geta það að sjálfsögðu ekki. Þeir eru faglegir embættismenn. En ég held því fram að það sé ekkert sjálfvirkt lögmál sem þarna segir til. Ein ríkisstj. getur haft þá stefnu, að það sé eðlilegt að allar launahækkanir fari beina leið út í verðlagið jafnóðum og verði þar af leiðandi að engu. Önnur ríkisstj. getur haft þá stefnu að hamla af öllum mætti gegn því að launahækkanir fari út í verðlagið, og hún hefur þá um leið þá stefnu að auka kaupmátt launanna. Og ég vil treysta því, þrátt fyrir það að ég sé ekki ánægður með öll ákvæði þessa frv., að núv. ríkisstj. hafi bæði allgóðan vilja og nokkra burði til að verða verkafólki í landinu að liði frekar en hitt í þessum efnum. En þegar skoðaðar eru upplýsingar frá okkar ágætu Þjóðhagsstofnun um það, hvað mikil verðbólguhækkun hljóti að dynja yfir okkur ef eitthvað sé gengið vægar fram i skerðingu á kjörunum en gert er ráð fyrir í frv., þá verð ég satt að segja svolítið hissa. Og ég vil mælast til þess að menn hugleiði örstutta stund með mér hversu marktækar séu upplýsingar eins og þær sem ég vil nú minnast á og hef fyrir framan mig í blöðum frá Þjóðhagsstofnun, dags. 16. mars 1979. Þetta eru skýrslur, sem við höfum fengið í fjh.- og viðskn. Ed. og Nd.

Hér segir um kaupmátt launa, — og það er hann sem skiptir máli, það endurtek ég einu sinni enn, — að sé gengið út frá því að ársmeðaltal kaupmáttar kauptaxta allra launþega, eins og það er kallað, árið 1977 sé sett á töluna 100, þá megi búast við því að öllu óbreyttu, þ. e. verði ekkert frv. samþ., bara kjarasamningar gildi, að þá væri ársmeðaltal þessa kaupmáttar 1979, allt árið, 108.5 stig eða hefði hækkað um 8.5% frá 1977. Gott og vel. Síðan segir hér við hliðina, að ef frv. hæstv. forsrh. verði samþ., frv. eins og það var lagt fram 12. mars, þá muni kaupmátturinn, meðaltal ársins 1979, verða 107.9% eða aðeins tæplega 0.6% minni. Sem sagt, kaupmátturinn á að standa í stað að heita má þrátt fyrir það sem í frv. segir. En setjum nú svo, að verkalýðshreyfingin segði: Við gefum ekki eftir þessi tæplega 0.6 prósentustig í kaupmætti, við gefum þau alls ekki eftir, — og verkalýðshreyfingin ryddist hér um og kúgaði menn með illu eða góðu, þá sem frv. ætluðu að samþykkja, til að hafna því og hún fengi þannig fram kaupmáttaraukningu á þessu sem svarar að dómi Þjóðhagsstofnunar um 0.6% umfram það sem frv. gæfi, þá segir hér á næsta blaði að slík kaupmáttaraukning upp á um 0.6% mundi auka verðbólguhraðann svo mjög að framfærsluvísitala hækkaði frá 1. jan. til 31. des. 1979 ekki aðeins um 33%, eins og hún ætti að gera samkv. frv. óbreyttu að sögn Þjóðhagsstofnunar, heldur mundi hún hækka um 39–40%. Lítum á þetta: Út á 0.6% aukningu kaupmáttar á framfærslukostnaður að hækka um 6–7 prósentustig fram yfir það sem ella yrði. Við skulum nú segja að verkalýðshreyfingin segði: Það skal verða 1% kaupmáttaraukning ekki bara 0.6%, — þá yrði svarið væntanlega: Verðbólgan, herrar mínir, ef þið ætlið að knýja þetta fram, verður ekki aðeins 33%, hún verður þá ekki minni en svo sem 45%. — Eru þetta gild svör? Er engin leið að fá fram 1% kaupmáttaraukningu í landinu án þess að verðbólgan fari úr 33% upp í 45%? Auðvitað eru slíkar leiðir til. Það er ekki hægt að ganga út frá því sem einhverju sjálfvirku kerfi sem við séum dæmd til að lifa undir, að slík smávægileg breyting á kaupmætti, það hvað dregið væri úr kaupmáttarskerðingunni, hljóti undir öllum kringumstæðum samkvæmt einhverju sjálfvirku lögmáli að kalla yfir okkur slíka stóraukna verðbólgu. Við þyrftum þá enga menn í ríkisstj. hér, ef slík sjálfvirk lögmál væru í gildi. Við hefðum þá bara einhverja eilífðarvél, sem passaði upp á þetta fyrir okkur, einhverja tölvu. Þá væri hægt að hafa trékarla í ríkisstj., skipti engu máli hver væri hér forsrh. Þetta segi ég ekki til þess að niðra á nokkurn hátt okkar ágætu hagfræðinga. Þeir reikna út frá sínum forsendum og geta ekki tekið pólitíska þáttinn inn í dæmið. En að halda því fram, að það sé óhjákvæmilegt að 0.6% kaupmáttaraukning leiði til milli 5 og 6% hraðaaukningar verðbólgunnar, það er ekki sjálfsagt mál.

Ég gæti talað um þetta miklu lengur, en ég er nú að hugsa til þess að stytta mál mitt því að þetta er orðið langt. En ég held að það sé hollt fyrir alla, sem sinna því hlutverki að eiga að taka veigamiklar pólitískar ákvarðanir og þýðingarmiklar fyrir lífskjör fjölda manna, hvort sem það eru menn í forustuliði verkalýðshreyfingarinnar eða við sem sitjum hér á Alþ., að hugsa sjálfir, að vera ekki allt of bláeygir, ef svo má segja, gagnvart svona uppsetningu. Það þarf að mínu viti að snúast hart til varnar gegn þeim óhemjumikla áróðri sem í gangi er um það, að sérhver jákvæð hreyfing fyrir kaupmátt láglaunafólks í þessu landi sé verðbólguvaldurinn í okkar þjóðfélagi, sé það sem framar öllu verði að forðast. Hvar halda menn að verkalýðshreyfingin á Íslandi hefði staðið á liðnum áratugum ef slíkar röksemdir hefðu verið teknar gildar? Ég segi það, að hún væri þá ekki komin í þann áfangastað sem hún þó hefur náð í.

Ég vil í örfáum orðum drepa á atriði, sem ekki lúta að verðbótakafla frv., og það skal vera stutt. Ég hef alvarlegar aths. að gera við 9. gr. og vil láta það koma hér fram, það lýtur að niðurgreiðslunum. Þarna virðist allt í einu talið í lagi að setja inn lagagrein sem leiðir óhjákvæmilega af sér að verðlag í landinu hlýtur að hækka og verðbólgan að vaxa. Það er skoðun mín að það ætti að halda niðurgreiðslunum í meginatriðum á svipuðu stigi og þær eru, og ég tel að það þurfi ekkert að aumkast yfir það fólk, sem hér býr við góðan hag, bæði það fólk, sem hefur háar launatekjur, og það fólk, sem á miklar eignir og hefur af þeim mikinn arð, þó að því sé gert að borga allháa skatta, m. a. til að standa undir niðurgreiðslum, vegna þess að niðurgreiðslurnar eru kjarajöfnunartæki í þjóðfélaginu. En það er kunnugt að í þessari 9. gr. er gengið út frá því, að þær verði lækkaðar verulega með tilheyrandi hækkun á verðlagi, aukningu á verðbólgunni. Þetta á að gerast á þremur árum, og það kemur fram að það yrði um að ræða 5.4–6.7 milljarða lækkun niðurgreiðsla á þessum þremur árum, sem þýðir 2.8–3.5% hækkun verðbótavísitölu samkv. aths. með frv., en að vísu ekki allt á þessu ári, heldur dreifist þetta á 3 ár. Þarna hefði ég gjarnan viljað haga málum á annan veg, þó ég geri þetta eitt ekki að frágangssök, ef aðrar greinar frv. væru viðunandi.

Ég hef aths. að gera við 16. gr. frv., sem fjallar um lántökuheimildir, og þá er ég með greinanúmer upphaflega frv. Í þessari 16. gr. segir m. a.: „Lántökuheimildir eða ábyrgðarheimildir, sem veittar eru vegna opinberra framkvæmda eða fjárfestingarlánasjóða í lánsfjárlögum þessum, skulu skoðast sem hámarksákvæði á því fjárlagaári, sem þær eiga við.“

Ég er býsna hræddur um að það geti orðið erfitt að halda sig við þennan bókstaf, að þarna sé um algert hámark að ræða. Í aths. er talað um það með enn ákveðnara orðalagi, að þetta skuli vera algerlega bindandi. Ég leyfi mér í þessum efnum að minna á það, að á síðasta ári fóru þessar lántökur til opinberra framkvæmda hvorki meira né minna en 69% fram úr áætlun. Ég er ekki að segja að það sé til fyrirmyndar, en það getur verið erfitt að ætla að stökkva niður á jafnsléttu úr svo mikilli hæð í einum áfanga, og ég vara við þessu.

Hv. 1. þm. Reykn., fyrrv. fjmrh., Matthías Á. Mathiesen, drap á það í ræðu sinni áðan, að honum sýndist að það vantaði 10 milljarða upp á að lánsfjáráætlunin væri raunhæf. Ég vil gjarnan minna hann á það, að það var reyndar nokkru meira en 10 milljarðar sem farið var fram úr heimildum á lánsfjáráætlun á síðasta ári, þegar hann var sjálfur fjmrh. meira en helming ársins og átti þar vafalaust stóran hlut að, þannig að það fer honum ekki vel að býsnast yfir þessu. Hvað sem því liður, þá bendi ég á að lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir mjög óverulegri hækkun lántökuheimilda í krónutölu og mjög verulegri lækkun að raungildi, mjög verulegri. Ef síðan á einnig að gera þetta algerlega bindandi, þannig að ekkert megi hreyfa, þá mun einhvers staðar finnast fyrir því áður en þessu ári lýkur í atvinnulífinu í landinu, það vil ég staðhæfa. Og það kemur hér til viðbótar við sitthvað annað, t. d. opinberar aðgerðir sem verka til samdráttar og auka hættu á atvinnuleysi. Minni ég þá ekki síst á þá fáheyrðu reglugerð sem sjútvrh. gaf út fyrir nokkru um þorskveiðar og áður hefur verið rætt um hér. En nóg um það.

Í 20. gr. er það margumrædda ákvæði um að heildarfjármunamyndunin skuli vera innan við 25% af þjóðartekjum. Það er að vísu nú búið að þynna þetta þannig út, að það er útlátalaust að greiða atkv. með því. Ég vil hins vegar segja það um hinar miklu prédikanir, sem lengi hafa gengið, að það verði að knýja fjárfestinguna niður, og þá lítill greinarmunur gerður á því, hvaða fjárfesting það á að vera, — þessi áróður gengur of langt og það þarf að vinna á móti honum að mínu viti.

Það er fátt brýnna í þessu landi heldur en að auka fjárfestingu á vissum mjög mikilvægum sviðum, og ég nefni þar fyrst til tvö svið. Annars vegar er það úrvinnsla okkar sjávarafla. Þar er þörf á að margfalda fjárfestinguna. Hins vegar er það okkar orkuframleiðsla, þó ekki væri nema til að útrýma olíunotkun að svo miklu leyti sem mögulegt er, eins og verðlag hefur þróast á olíu og okkur er kunnugt um. Og auðvitað gildir það í opinberum rekstri nú eins og áður og í hvaða rekstri sem er, hvort sem það er heimili eða fyrirtæki, að það skiptir auðvitað máli hvort fjármagn er fest í þessu eða hinu. Allir geta tekið undir það, að lítið vit sé í að sóa fjármagni í fjárfestingar út í bláinn. Það þarf ekki mikla spekinga til þess. En menn verða að horfa á hitt, það sem er nauðsynlegt, og fátt er nauðsynlegra en að auka skynsamlega fjárfestingu. Hitt er ljóst, að þessi mikla binding og reglustrikuaðferð mun koma niður á fjárfestingum, m. a. þar sem síst skyldi, til skaða fyrir okkar þjóðarbúskap. En það er rétt, það er búið að opna hér útgöngudyr með viðaukum við greinina, eins og hv. 1. þm. Reykn. minntist á, og þess vegna kannske ekki ástæða til að gera mikið veður út af henni.

Ég held að ég sleppi nú að ræða aukningu peningamagns í umferð, það þarf ekki margt um það að segja. Vaxtamálunum sleppi ég líka tímans vegna að öðru leyti en því, að ég vil taka fram að ég tel mjög mikilvægt varðandi þau ákvæði sem frv. gerir ráð fyrir um verðtryggingu á bæði sparifé og útlánum, að gert er ráð fyrir að afurða- og rekstrarlán fái sérstaka meðferð og ríkisstj. muni sjálf taka ákvarðanir um hvernig með þau verði farið. Ég tel það mjög mikilvægt, vegna þess að þó vissulega megi segja að okkar mikla verðbólga, sem m. a. leiðir af sér möguleikar atvinnuveganna til að ná ódýru fjármagni út úr lánakerfinu, að borga skuldirnar svo og svo löngu síðar með verðminni krónum, — þó að þessi afleiðing verðbólgunnar hafi á margan hátt verkað eins og eiturlyf á atvinnulíf í landinu, það skal ég viðurkenna, þá getur verið hættulegt að taka þetta eiturlyf af sjúklingnum allt saman í einu. Hann þolir það ekki í þessu tilviki. Þess vegna held ég að fyrst sú ákvörðun er tekin, sem hefur verið að þróast i þá átt lengi, að stofnlán skuli að fullu verðtryggð og ég get út af fyrir sig ágætlega sætt mig við, þá held ég að það yrði of mikið að hafa fulla verðtryggingu á afurða- og rekstrarlánunum líka. Ég vara við því, en treysti því að ríkisstj. muni þar fara fram með gát.

Sú grein, sem skotið var inn sem 31. gr. við meðferð málsins í Ed., um að auka bindiskylduna hjá Seðlabankanum upp í 28%, er aðgerð sem ég er andvígur og tel að skapi hættu á meiri samdrætti í atvinnulífi og framkvæmdum en góðu hófi gegnir.

Að síðustu vil ég minnast á kaflann um verðlagsmál sem lítillega hefur verið breytt frá upphaflegri gerð frv. eins og það var lagt hér fram af hæstv. forsrh. Ég tel að þær breytingar skipti litlu máli til eða frá, en tek sérstaklega fram, að ég tel að það sé mjög ánægjulegt að sá kafli í frv. er með þeim hætti sem hann er og þar með í reynd komið í veg fyrir að viss ákvæði í verðlagslögunum, sem samþykkt voru á síðasta þingi, komist til framkvæmda.

Ég minni svo á það, áður en ég vík hér úr ræðustólnum, að meginaths. mínar eru við verðbótakaflann. Ég mun í fjh.- og viðskn. freista þess að fá fram breytingar á þeim kafla og gera upp mína endanlegu afstöðu til afgreiðslu málsins þegar það liggur fyrir, hvaða undirtektir aths. mínar fá, og þegar ég hef heyrt svör hæstv. forsrh. við spurningum mínum. En það er reyndar eitt ákvæði frv. utan þessa verðbótakafla ónefnt enn, sem mér er skylt að taka fram að ég get ekki stutt. Það er í 63. gr. upphaflega frv., og mér finnst satt að segja næsta furðulegt hvernig það er komið inn í þetta frv., jafnstórt mál og þar er á ferðinni. Eðlilepra væri að ræða það sérstaklega. En hér segir í 64. gr.: „ Í þessu sambandi verði m. a. heimilað að beita fjármagni sjóðsins“ — þ. e. Aflatryggingasjóðs — „til þess að bæta upp verð á þeim tegundum, sem vannýttar kunna að vera, og leggja í því skyni sérstakt gjald á afla af þeim tegundum, sem taldar eru ofnýttar“ — þ. e. þorskinn auðvitað fyrst og fremst. Ég hafði satt að segja haldið að nóg væri að gert með reglugerð hæstv. sjútvrh. gagnvart þorskveiðunum, þó að ekki væri farið að leggja á þær sérstakt aukagjald til viðbótar. Þessi grein er ekki mér að skapi og ég mun ekki styðja hana.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að mér er það síður en svo í hug sem þm. eins stuðningsflokka þessarar ríkisstj. að vilja bregða fyrir hana fæti, enda þótt ég geti ekki sætt mig við einstök ákvæði í þessu frv. Ég hef góðan og fullan skilning á því, að það eru heitar óskir — og þær koma víða að — um að þessi ríkisstj. fái að lifa, og þær eru ekki síst á ferðinni innan verkalýðshreyfingarinnar, vegna þess að fólk, ekki síst láglaunafólkið í landinu, óttast það stjórnarfar sem e. t. v. tæki við ef þessi ríkisstj. hyrfi frá. Og ég held að það sé heillaráð fyrir hæstv. ríkisstj. að minnast þeirra tengsla við þetta fólk í verkalýðshreyfingunni, þeirra tengsla sem hún á líf sitt undir. Og enda þótt ég vilji ekki sætta mig við ákveðin atriði í frv., ef þeim fæst ekki breytt, þá er ég að sjálfsögðu ekki áhugaminni en aðrir þm. stjórnarflokkanna um það að halda Sjálfstfl. frá stjórnarstólunum enn um sinn. En ég bendi á að það er ekki víst að leiðin til að halda Sjálfstfl. frá stjórnarstólunum felist í því að ganga jafnmikið á svig við verkalýðshreyfinguna og gert er með ákveðnum atriðum þessa frv. Og það er ekki að mínu skapi að láta sér nægja að segja sem svo: Það er rétt að sætta sig við þetta og það er rétt að sætta sig við hitt, vegna þess sé það ekki gert fáum við eitthvað annað yfir okkur í stjórn landsins miklu, miklu verra. — Ég held að enda þótt hugsun i þessa átt sé skiljanleg og þótt hún sé fyrir hendi víða innan verkalýðshreyfingarinnar í landinu, þá sé full ástæða til að hvetja til þess og minna á það, að verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur ekki bara það verkefni að biðja fyrir þessari á margan hátt ágætu ríkisstj. þótt sé gott og blessað að það sé gert, heldur þarf verkalýðshreyfingin líka að mínu viti að veita þessari ríkisstj. eins og öðrum hollt og ákveðið aðhald. Það er ekki bara verkalýðshreyfingunni fyrir bestu, heldur einnig ríkisstj. fyrir bestu.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.