04.04.1979
Neðri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3927 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það er nú að hefjast nýr dagur svo ég heiti því að vera stuttorður.

Það var alls ekki ætlun mín að taka til máls við þessa umr., ekki síst vegna þess að ég á sæti í fjh.- og viðskn., sem mun fjalla um frv. sem hér liggur fyrir, og ekki síður vegna hins, að þetta frv. er krógi sem hefur orðið til við tangafæðingu stjórnarflokkanna og er kannske blár og marinn og það er ekki vert að vera neitt að eiga við krógann í því ástandi, sem hann er, svo að við viljum veg hans hinn besta og láta hann lifa eins og hann liggur fyrir.

Hins vegar gerðist það, að hæstv. viðskrh. tók hér til máts og hann hafði þau orð um frv. og orð um Alþfl., að ég sá mig neyddan til að taka hér til máls, og síðar um kvöldið tók flokksbróðir hans, hv. 3. þm. Vestf., einnig til máls og hjá þeim báðum kom fram að mínu viti slíkur grundvallarmisskilningur að ég fæ ekki orða bundist. Þeir hafa ekki skilið það og ekki Alþb., að frv., sem hér liggur fyrir, er tilraun til að vinna bug á verðbólgunni, þetta er hjöðnunarfrv. Þess vegna kom það undarlega fyrir sjónir þegar hæstv. viðskrh. fór mörgum orðum um það, að þeim Alþb.-mönnum hefði auðnast að draga úr samdráttareinkennum hins upphaflega frv. sem hefði komið frá Alþfl. Auðvitað er það samdráttur að draga úr verðbólgu. En Alþb. vill engan samdrátt, vill láta reka á reiðanum á öllum sviðum, og þess vegna er það alls ekki að standa að frv. sem á að draga úr verðbólgunni, heldur er það að standa að frv. þar sem allt á að vera óbreytt í 40–50% verðbólgu. Af þessari meginástæðu stafar það, hversu illa hefur gengið að koma þessu heim og saman.

Ég skal aðeins víkja nokkrum orðum að verðbólgunni sjálfri.

Þd. er ljóst að á s. l. 7 árum hefur verið hér verðbólga sem hefur verið á milli 30 og 50%. Þetta hefur leitt til þess, að þjóðartekjur aukast ekki eins og skyldi á milli ára og þar af leiðandi verður lítill kaupmáttarauki hjá launþegum. Erlendar skuldir hafa aukist gífurlega, og með þessu framhaldi er varla vafi á að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar er stefnt í voða. Það er ekki hægt að mínu viti að halda uppi menningar- og athafnalífi á Íslandi með 40–50% verðbólgu til langframa, meðan okkar nágranna- og viðskiptaþjóðir hafa verðbólgu sem er á milli 7 og 12%. Þess vegna er það höfuðkrafa þjóðarinnar til forráðamanna hennar að stjórnmátamennirnir taki höndum saman til að vinna bug á verðbólgunni, þessu brýnasta vandamáli íslensku þjóðarinnar.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er merkilegt í sjálfu sér. Að því er ég best veit hefur ekki nú um langt skeið verið gerð samfelld tilraun til aðgerða í efnahagsmálum. Ég tel þess vegna þetta frv. merk tímamót í vinnubrögðum hér á Alþ. til þess að reyna að takast á við þann vanda sem fyrir er í þjóðfélaginu. Hitt er svo kannske annað mál, að deila má um einstök efnisatriði og einstakar greinar. En sú viðleitni og þau vinnubrögð, sem þarna koma fram, get ég ekki annað en lofað og metið að verðleikum.

En svo að ég víki örlítið að forsögu málsins, þá er ljóst að Alþfl. á dálítinn hlut að þessu máli, því að Alþfl. gerði sér ljóst strax við síðustu kosningar, og það var baráttumál Alþfl., að við svo búið mátti ekki lengur standa, það yrði að gera allsherjarátak gegn verðbólgunni, og ég hygg að einmitt þetta heit Alþfl. hafi veitt honum þann byr í síðustu kosningum sem raun varð á. Þess vegna skýtur það nokkuð skökku við þegar hæstv. viðskrh. notar hluta af ræðu sinni til þess að beina spjótum sínum að Alþfl. sem í raun og veru hefur staðið fyrir þessu frv. að verulegu leyti þó að forsrh. sjálfur eigi þarna auðvitað hlut að máli og þetta sé hans frv. Í staðinn ætti ráðh. að vera bljúgur og auðmjúkur, því að ég hygg að það sé einmitt frv. af þessu tagi, þar sem boðaðar eru samræmdar aðgerðir í efnahagsmálum, sem gæti hugsanlega veitt þessari stjórn langlífi. Ef stjórnin stæði ekki að slíku yrði ekki ráðið við efnahagsmál þjóðarinnar, og þess vegna tel ég að þetta frv. sé undirstaða þess að hægt sé að ná tökum á þessum miklu vandamálum.

Mig langar aðeins út af ummælum viðskrh. að benda á nokkur atriði til þess að vekja athygli hv. deildar á að það vakir alls ekki fyrir Alþb. að reyna að vinna bug á verðbólgunni.

Hæstv. viðskrh. minntist á till. Alþfl, eins og þær birtust í Alþýðublaðinu í des. Þar gagnrýndi hann t. d. eftirfarandi atriði: Alþfl. hafði lagt til, að komið yrði á fót kjaramálaráði þar sem aðilar vinnumarkaðarins gætu með aðstoð haggagna reynt að gera sér grein fyrir eðlilegri launaskipan og launabótum í landinu. Þetta taldi hæstv. viðskrh. alveg fráleitt, í staðinn fyrir að honum þótti það mikill kostur að kominn væri inn annar kafli frv. sem er svo sem ekki neitt, því að þar er kveðið á um samskipti launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda, sem er auðvitað sjálfsagt mál. Ég hygg að engin ríkisstj. mundi standa að neinum verulegum hlutum, sem snerta þessa hagsmunaaðila, án þess að ræða við þá áður, þannig að þetta er orðið í raun og veru pjatt, en sjálfsagt á það að vera eitthvað mikið.

Hæstv. viðskrh. var mjög óánægður með það, að Alþfl. hafði krafist skilyrðislaust uppskurðar á svokölluðu fjárfestingarsjóðakerfi þannig að þar fengist hagstjórnarleið til þess að framkvæmdastjórnin, ríkisstj. og Alþ., gæti reynt að leysa sig frá þessari sjálfvirkni sjóðanna. Þá benti viðskrh. á að þetta væri eiginlega úr sögunni því að í 8. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „og það kannað, að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa verði framvegis ákveðin með fjárl. ár hvert.“ M. ö. o.: viðskrh. fagnaði því að þetta yrðu nánast orðin tóm.

Þá bar Alþfl. fram þá till., að heildarútgjöld fjárl. og tekjur yrðu 30% af þjóðartekjum. Þetta taldi viðskrh. alveg fráleitt og taldi mikinn ávinning að hafður var fyrirvari í 11. gr., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Frá þessu skal þó víkja, ef óvæntar og verulegar breytingar verða í þjóðarbúskapnum, og sérstaklega ef ætla má, að hætta sé á atvinnuleysi.“ M. ö. o.: hæstv. viðskrh. taldi þarna komna klausu til þess að lítið yrði aðhafst.

Í öðru lagi taldi hann fráleitt að hafa peningamagn í umferð bundið og fagnaði því, að Alþb. hefði tekist að setja fyrirvara inn í 30. gr. þar sem bindiskyldan var 25%, en hefur víst verið aukin upp í 28% í meðferð Ed. Þar er kominn fyrirvari. Segir í þessari 30. gr., að sé atvinnuöryggi í hættu eða ef séð verði að forsendur þjóðarhagsspár um verðþróun á árinu 1979 standist ekki, þá megi víkja frá þessum markmiðum.

Hæstv. viðskrh. virðist ekki skilja þá einföldu staðreynd, að til þess að ná einhverjum tökum á verðbólgunni þarf að draga úr peningamagninu í umferð, þarf að hafa tök á ríkisfjármálunum, þarf að hafa tök á fjárfestingunni. Þetta eru allt eðlilegir og nauðsynlegir þættir. Þetta kallar hæstv. viðskrh. samdráttareinkenni. Auðvitað eru þetta samdráttareinkenni. En hvernig væri að hæstv. viðskrh. fræddi okkur um það, hvernig hann ætlar að fara að vinna bug á verðbólgunni nema með hjöðnun? Hitt er svo annað mál, að það vakti aldrei fyrir Alþfl. að ganga þannig fram í þessum málum að það kæmi til atvinnuleysis. Það var skýrt tekið fram og aldrei ætlunin. Og ég veit að Framsfl. hefur heldur aldrei látið sér detta í hug að gengið yrði svo langt í þessu að kæmi til atvinnuleysis. Slíkt var ekki fyrir hendi. En staðreyndin er sú, að Alþb. hefur ekki skilið hvað um er að ræða, og það er allur sannleikurinn.

Ég skal aðeins nefna eitt atriði og það er verðtrygging sparifjár og lánsfjár. Nú er það þannig að Alþb. hefur fram að þessu ekki tekið í mál að verðtryggja sparifé og útlán. Flokkur sá, sem þykist vera að berjast fyrir láglaunafólk, stendur að slíkri vaxtapólitík sem hugnar eingöngu gróðamönnum sem hafa tækifæri til þess að fá lán í bönkum til þess að græða á verðbólgunni, en gengur gegn sparifjáreigendum, gegn gamla fólkinu, gegn láglaunafólkinu. Þessi flokkur, sem telur sig vera sérstakan fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og sérstaklega láglaunafólks, hefur barist fyrir þeirri stefnu í lána- og vaxtamálum sem gengur þvert á hagsmuni láglaunafólks og sparifjáreigenda í landinu. En ég tel að einmitt ákvæðið í VII. kafla frv. um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sem er nýjung í efnahagsmálum þjóðarinnar, eigi e. t. v. eftir að verða það ákvæði sem þyngsta hlassið dregur í baráttunni við verðbólguna.

Alþfl. og Framsfl. hafa reynt að standa saman að frv. sem ynni gegn verðbólgunni. Alþb. hefur aldrei skilið þetta og vill þetta ekki, og þess vegna eru öll þessi vandræði.

Varðandi launamálin er það að segja, að Alþfl. og Alþb., sem eru helstu verkalýðsflokkar þessarar þjóðar, eru auðvitað sammála um að það verði ekki ráðist gegn verðbólgunni nema tryggja hag láglaunafólksins. Spurningin er hvernig eigi að fara að því. Alþfl. er sannfærður um að besta kjarabót til handa láglaunafólkinu er að draga úr verðbólgunni þannig að verkafólk og launafólk fái raunverulegar kaupbætur, þ. e. a. s. það fái kaupmáttaraukningu, en ekki sífelldar krónutöluaukningar sem hverfa um leið og þær koma. Þess vegna hefur Alþfl. tekið þá afstöðu að leggja allt kapp á að reyna að koma verðbólgunni niður til þess að geta aukið þjóðartekjurnar og um leið til þess að geta veitt launafólkinu meiri tekjur og að geta eflt atvinnulífið. En við stöndum núna frammi fyrir því, að fjöldamörg fyrirtæki berjast í bökkum, að hinn almenni launþegi hér á Íslandi fær tvisvar til þrisvar sinnum minni laun en starfsbróðir hans á Norðurlöndum, og það er ekki hægt að ráða verulega bót á þessum vandræðum nema koma verðbólgunni niður. Mesta kjarabótin fyrir verkafólkið, fyrir launafólkið og fyrir heilbrigt atvinnulíf er að buga verðbólguna. Þess vegna tel ég fráleitt að vera að velta sér upp úr gífurlegum prósentutölum. Sannleikurinn er ósköp einfaldur: Samkv. þessu frv. halda launamenn sama kaupmætti á þessu ári og á því ári sem er að líða. Það tel ég mikinn ávinning miðað við það að þjóðartekjur vaxa nánast ekkert á þessu ári, a. m. k. er allt í óvissu um það í sambandi við þá olíuverðshækkun sem nú er fram undan. Ég tel mjög vel gert að ætla sér að draga úr verðbólgunni og geta þó haldið kaupinu á sama kaupmáttarstigi. En ég endurtek: Það verður aldrei hægt að veita launþegum verulega kaupmáttaraukningu nema dregið sé úr verðbólgunni, og þetta er grundvallaratriði.

Ég skal nú ekki hafa mörg orð um þetta. En hv. 3. þm. Vestf. komst réttilega svo að orði, að það væri höfuðatriði að vernda kjör hinna lægst launuðu. Í þessu margháttaða frv., sem hér er lagt fram, er einn meginþátturinn fólginn í því að vernda kjör hinna lægst launuðu.