04.04.1979
Neðri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3930 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það var dæmalaust gaman og gamalkunnugt að heyra hv. síðasta ræðumann fleyta kerlingar eins og hans er vandi yfir stór og mikil málefni. Það var ekki verið að fara djúpt ofan í málefnin eða brjóta þau til mergjar. Hann lætur sér nægja að fullyrða að besta ráðið til að tryggja hag láglaunafólks sé að draga úr verðbólgunni og flökrar ekki við því í því sambandi fyrir hönd Alþfl. alls að ætla láglaunafólki, elli- og örorkulífeyrisþegum að bera sömu byrðar og jafnvel meiri en öðrum, eða ég get a. m. k. ekki skilið hann öðruvísi.

Ef við drögum rökréttar afleiðingar af málflutningi hv. síðasta ræðumanns, þá væri áreiðanlega öruggast og best fyrir þjóðfélagið og láglaunafólkið í landinu að hafa hreint ekki neitt til að lifa af. Þannig kæmum við líklega verðbólgunni best og hraðast niður.

Annars var erindi mitt hér í ræðustól að ræða eitt atriði í verðbótakafla þessa frv-. Hv. 3. þm. Vestf., Kjartan Ólafsson, bar fram fsp. til forsrh. í ræðu sinni áðan um það, hvernig verðbætur yrðu reiknaðar út fyrir fólk með laun undir 210 þús. kr. og elli- og örorkulífeyrisþega eftir 1. des. 1979. Tilefni þessara fsp. voru upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun á þá leið, að láglaunafólkið yrði 1. des. svipt þeim 2% sem það fær að halda núna 1. júní, með þeim afleiðingum að hækkun verðbóta til þessa fólks verður ekki nema 4.5% meðan aðrir fá 6.5% verðbótahækkun 1. des. Það var ætlun mín að leggja þessa sömu fsp. fyrir hæstv. forsrh. og mér þætti fróðlegt að fá svar við henni. Ég tel rétt að skýra frá því hér strax við 1. umr., að ef skilningur Þjóðhagsstofnunar er réttur, ef það er svo að þessi 2%, sem láglaunafólk og elli- og örorkulífeyrisþegar fá að halda 1. júní, hverfa 1. des., með þeim afleiðingum sem ég áðan greindi og Þjóðhagsstofnun skýrir frá, þá treysti ég mér ekki til að styðja þetta frv. og mun greiða atkv. gegn verðbótakaflanum nema þá að til komi í meðferð fjh.- og viðskn. eitthvert það ígildi þeirrar verndar sem ráð er fyrir gert í frv. að standi til 1. des.

Ég get ekki fallist á að það sé ráð gegn verðbólgu að skerða kjör fólks sem hefur lægstu launin, skerða kjör ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega, og ég tel ekki sæmandi fyrir þessa ríkisstj. ef útkoman verður sú, að það eigi að lofa þessum 6 mánaða sárabótum til þess eins að svipta það þeim aftur eftir 1. des. Og ég tel það nokkurn mælikvarða á það, hvernig tekst til með þessa ríkisstj. í framtíðinni, hvort tekst að ná samkomulagi við Alþfl, og Framsfl. í fjh.- og viðskn. um annaðhvort að hrekja skilning Þjóðhagsstofnunar eða setja einhverja þá tryggingu, sem hægt væri að sætta sig við fyrir því, að þetta fólk, sem ég hef nú talað um, láglaunafólk, gamla fólkið og öryrkjar, fái eitthvert ígildi þeirra bóta áfram sem það fær nú 1. júní.