02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm., sem var að ljúka máli sínu, kom inn á ýmsa þætti þessa máls sem ég hafði hugsað mér að nefna, svo að ég get mjög stytt mál mitt. En nokkrum orðum vil ég fara um þá till., sem hér er flutt af átta hv. þm. Alþfl. og einum hv. þm. Alþb.

Ég veit ekki hvort það er tilviljun, að þm. úr þessum flokkum sameinast um flutning till. sem þessarar, eða hvort hér birtist hinn pólitíski ágreiningur um eignarréttinn eða þær heimildir sem menn megi hafa til þess að ráðstafa eignum sínum. Um þessi atriði er pólitískur ágreiningur, eins og allir vita, og ekki síst um réttindi yfir hliðstæðum gæðum og hér er um rætt. Um það ætla ég ekki að ræða sérstaklega. Mér sýnist markmið þessarar tillögu vera gjaldtaka: „gjald á leyfi, sem seld eru útlendingum til veiða í íslenskum laxveiðiám,“ eins og það er orðað í till. Þessi gjaldtaka er svo réttlætt með því, að gjaldinu verði varið til tilrauna með fiskrækt, en tilgangurinn sýnist mér hins vegar vera sá að bola útlendingum burt frá íslenskum veiðiám. Þannig get ég ekki betur séð en að ákveðin þversögn sé í þessari till. Ef tilgangurinn næst, þ.e.a.s. ef útlendingar veiða ekki í íslenskum veiðiám, þá verður ekkert gjald af þeim tekið og ekkert fjármagn rennur til þessara tilrauna úr þeim brunni. Ef till. sem þessi yrði samþ. hefur löggjafarvaldið komið í veg fyrir að menn fái að nýta eign sína eins og þeir telja sér hagkvæmast, löggjafarvaldið gripi þarna inn í.

Þetta er svo réttlætt með því, að erlendir menn séu að troða Íslendingum um tær og koma verði í veg fyrir það. Það er svo kafli út af fyrir sig, hvernig hinir erlendu áhugamenn um laxveiði mundu bregðast við ef skattlagningu sem þessari yrði komið á. Ég get ekki betur séð en að hagsmunum veiðiréttareigenda sé hér verið að fórna fyrir hugsanlega hagsmuni íslenskra veiðimanna. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að bera umhyggju fyrir íslenskum stangveiðimönnum. Ég er áhugamaður um laxveiðar og hef stundað þær í mörg ár, og ég tala hér sem slíkur, en ekki sem veiðiréttareigandi eða neinn sérstakur talsmaður þess að útlendingar fái að stunda veiði í íslenskum ám. Vegna þessa áhuga míns hefur þessi till. vakið athygli mína. Ég get fúslega viðurkennt það, að ég vil veiða fyrir sem allra minnst gjald. En í mínum huga er hins vegar spurning um það, hvort ég eigi einhverja kröfu á því, að löggjafarvaldið, hv. Alþ., veiti mér einhverja sérstaka aðstoð til þess að fá að veiða fyrir sem allra minnst fé. Ég tel að ég eigi ekki þessa kröfu, og ég byggi það á grundvallarreglum eignarréttarins, og þess vegna hlýt ég að frábiðja mér slíkan óumbeðinn erindrekstur sem rekinn er með flutningi till. sem þessarar. En þessi till. er sjálfsagt góð í augum sumra.

Eins og ég sagði áðan er málflutningur minn ekki miðaður við hagsmuni erlendra veiðimanna. Mér er í sjálfu sér alveg sama um hvort þeir veiða í íslenskum ám eða ekki. Ég legg hins vegar áherslu á hagsmuni veiðiréttareigenda, og þessir veiðiréttareigendur eru í langflestum tilfellum bændur þessa lands. Sá arður, sem þeir hafa af þessum hlunnindum, ræðst af framboði og eftirspurn. Með þessari till. er reynt að hafa áhrif á eftirspurnina. Það er reynt að hafa áhrif í þá átt, að eftirspurnin minnki, og þar með minnkar arðurinn. Það má svo velta því fyrir sér, hver þessi arður er. Það er sjálfsagt erfitt að gefa um það nákvæmar upplýsingar.

Hv. 1. flm. nefndi hér ýmsar athyglisverðar tölur, sem ég held að ég hafi náð nokkurn veginn réttum. Í heild er tilkostnaður í sambandi við þennan veiðiskap á árinu 1978 talinn liðlega 1.5 milljarðar króna, þar af er tilkostnaður erlendra veiðimanna 700 millj. Ég er ekki alveg viss um hvort ég skildi rétt þær ályktanir sem hv. flm. dró af þessum tölum. Mér sýnist þær sýna það svart á hvítu, hve miklir hagsmunir veiðiréttareigenda eru einmitt hér í húfi, hversu mikið það er sem erlendir veiðimenn greiða fyrir veiðileyfi. Þessir hagsmunir eru reyndar ekki eingöngu í höndum veiðiréttareigenda. Það er fleira, sem kemur þarna til, þ. á m. gjaldeyrisöflunin, og mér hefur skilist að við hefðum ekki yfirfljótandi nóg af gjaldeyri.

Það voru einnig athyglisverðar upplýsingar sem komu fram hjá hv. þm. Páll Péturssyni um fjölda jarða sem eru í tengslum við þessa hagsmuni, tæplega 4000 jarðir, og einnig þær upplýsingar sem fram komu um veiðidagana. 5000 veiðidagar af 33000 fara til útlendinga, en u.þ.b. 9000 veiðidagar nýtast ekki. Það væri að sjálfsögðu fróðlegt að vita í hvaða ám þeir veiðidagar eru sem nýtast ekki. Ég geri ráð fyrir að það sé í heldur lélegri ánum. Engu að síður sýnir það okkur að menn geta fengið veiðileyfi keypt þrátt fyrir það að útlendingar veiði hér í þeim mæli sem hér hefur verið upplýst.

Ég held, að það sé engum blöðum um það að fletta, að hagsmunir bænda séu svo miklir og mikilvægir að veruleg áhrif hafi á búskap í heilum héruðum. Það er því ábyrgðarhluti, ef Alþ. ætlar að taka sér fyrir hendur að skerða þessa hagsmuni með samþykkt till. sem þessarar.

Ég vil þó ekki gera of mikið úr þessum erlenda markaði, ef svo má segja. Ég hygg að hann sé fremur óviss og það sé kannske tiltölulega auðvelt að eyðileggja hann. Veiðiréttareigendur gera sér ljósa grein fyrir þessu, og þeir hugsa þess vegna um innanlandsmarkaðinn líka. Það er gert með ræktun veiðiánna. Það fellur einnig í hlut leigutaka að rækta upp árnar, og má líta á það sem hluta af leigugreiðslunni fyrir veiðirétt, því í þetta fer verulegt fjármagn beint frá veiðiréttareigendum. Þessi mikla ræktun, sem hér fer fram, veldur aftur því, að meira framboð verður á veiðileyfum og fleiri veiðimenn komast að.

Ég legg áherslu á að það á ekkert það að gera sem greini að hagsmunina sem í húfi eru, þ.e. að saman fari veiðiréttur og búseta. Þegar þar er skorið á, þá er hætta á að illa fari og þá er hætt við minnkandi veiði eða jafnvel lélegri búskap á viðkomandi svæðum eftir atvikum.

Í grg. með þessari till. er minnst á hvernig þessum málum er háttað í Bandaríkjunum. Þótt ég sé því miður ekki nægilega kunnugur þeim málum, þá hygg ég að hér sé ólíku saman jafnað. Við vitum að ár og vötn eru ríkiseign í Bandaríkjunum frá fornu fari. Ég kann ekki að segja þá sögu, hvers vegna svo er, en það hefur verið bent á þetta og mönnum þótt það einkennilegt vegna þess þjóðskipulags sem þar ríkir. En ég bendi þó á það, að ýmsar ár og jafnvel veiðiár þar hafa verið samgönguleiðir, og þegar af þeirri ástæðu hefur verið eðlilegt að þær væru í ríkiseign. Það mun hins vegar þekkjast í þeirri ágætu álfu, að landi, sem ríkið upphaflega tók, hafi verið úthlutað til einstaklinga, jafnvel á báðum bökkum ánna, og þá hefur orðið erfiðara fyrir þá, sem vilja veiða í ánum, að komast að, og slíkt hefur ekki verið hægt nema gegn gjaldi. Þá er orðin spurning um hver hagur er að þessari þjóðareign. Þar sem slitin eru sundur búsetan og veiðirétturinn hefur víða illa farið, og það er kannske skýringin á því, hversu veiðiám í hinum ýmsu löndum heims fer hrakandi. Það öfuga gerist hér. Hér fer veiðin vaxandi ár frá ári. Og ég fullyrði að ein skýringin á því sé einmitt áhugi veiðiréttareigendanna, sem ég hef margtekið fram að eru í flestum tilfellum bændurnir sjálfir. Það er áhugi þeirra á að fara vel með þessi gæði og rækta þau upp.

Hv. 1. flm. ræddi hér nokkuð um gjaldeyrisskil útlendinga vegna veiða þeirra hér í landi. (Gripið fram í) Ja, gjaldeyrisskil veiðiréttareigenda og annarra sem selja þá útlendingum veiðileyfi. Um það treysti ég mér ekki að ræða sérstaklega, mig skortir þar upplýsingar. En hv. 1. flm. kom hér með ýmsar athyglisverðar tölur. Þótt þarna skorti eitthvað á um að réttilega sé skilað, þá réttlætir það út af fyrir sig ekki athafnir sem gert er ráð fyrir í þessari till.

Hv. 1, flm. kom hér með tölur um arðskrá 10 veiðiáa. Lagði hann út af þessum tölum með nokkuð sérstæðum hætti, þótti mér. Hann lagði áherslu á fjölda arðtakanna, þeir væru 280, en mér hefði þótt fróðlegt að fá upplýst hversu margir væru á heimilum þessara arðtaka. Það vill svo til, að ég hef nokkra hugmynd um það, og ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að tæplega 1600 manns séu á heimilum þessara arðtaka sem hv. þm. nefndi. Hann lagði áherslu á hversu fáir þessara arðtaka fái mikinn hluta arðsins til sín. Þetta sýnist mér eiga að réttlæta það, að veiðiréttareigendur verði sviptir þessum réttindum, vegna þess hversu fáir fái mikið. Þetta kann að vera svo um einstakar ár, ég efast ekkert um það. Það er afskaplega misjafn réttur sem hinar einstöku jarðir, sem liggja að viðkomandi veiðiá, eiga. Þá þótti mér hv. ræðumaður gera nokkuð mikið úr því, að sumir þessir arðtakar væru eigendur sem búsettir væru í Reykjavík. Ég vil benda hv. þm. á það, að sú einkennilega regla gildir í tekjustofnalögum, að ef maður á jörð utan síns lögheimilis, þá borgar hann helmingi hærri fasteignaskatt en aðrir. Þarna er nokkuð vegið upp á móti því, að viðkomandi eigandi er ekki búsettur í sveitarfélaginu. En ég bendi einnig á það, að ef ábúandi viðkomandi jarðar nyti arðsins, þá má, held ég, gera ráð fyrir að afgjald jarðarinnar yrði verulega hærra, og þetta hefur að sjálfsögðu einnig áhrif.

Hv. þm. las hér upp ályktun frá fundi landssamtaka stangveiðimanna. Mér sýnist sá upplestur sýna framar öðru að hér er verið að ganga erinda landsamtaka stangveiðimanna fyrst og fremst. Það út af fyrir sig kann að vera góðra gjalda vert. En það er hins vegar hæpin leið að leita til löggjafarvaldsins um aðstoð til þess að stangveiðimenna fái notið tómstundagaman síns með sem allra minnstum fjárútlátum. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki að þm. væri í viðkomandi félagi. Ég sagði að hann væri að ganga erinda þess. En kannske er tilgangurinn með þessu öllu saman sá að stiga fyrsta skrefið í þá átt að taka allar ár í eign ríkisins. Slíkar till. hafa verið á sveimi á hv. Alþ. öðru hverju. Ef það tekst, þá geta fulltrúar í rn. dundað við að úthluta veiðileyfum til vina sinna og kunningja og auðvitað gætt þess að selja ekkert veiðileyfi til útlendinga.

Ég þarf ekki, herra forseti, að hafa miklu fleiri orð um þetta mál. Ég veit ekki hvort ég hef skilið hæstv. landbrh. rétt, en mér heyrðist þó á ræðu hans að hann væri samþykkur þeim sjónarmiðum sem koma fram í þessari till. Ef ég hef skilið hann rétt, þá held ég að það hljóti að vera býsna fróðlegt fyrir veiðiréttareigendur, bændur þessa lands, að kynnast þessari afstöðu hæstv. landbrh. Ég skildi það þó allavega rétt, að hann legði á það áherslu, að forgang íslenskra stangveiðimanna yrði að tryggja, þó með einhverjum öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir. Það verður fróðlegt að fylgjast með keppni hæstv. ráðh. og hv. 1. flm. þessarar, till. um frekari tillöguflutning um þessi efni.