05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3944 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er í hæsta máta undarlegt að hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, skuli beita sér í dag fyrir því að fá mál, sem verið er að ræða í Sþ., út af dagskrá. Það kann e. t. v. að vera, að að baki þessari ósk liggi tilhneiging til þess að reyna að þagga niður umr. um það, hvort kjarnorkuvopn séu á Íslandi eða ekki. Það er algerlega tilefnislaust af þm. að óska eftir þessu, þar sem vitað er að þetta mál hefur verið lengi á dagskrá. Það hefur ekki komið fram nein ósk frá hæstv. utanrrh. né frá hv. þm. Einari Ágústssyni um það, að umr. um þetta mál verði frestað. Þar að auki hefur reynst nokkuð erfitt að ræða ýmis mál í vetur, sem heyra undir það rn. sem hæstv. utanrrh., Benedikt Gröndal fer með, vegna mjög tíðrar fjarveru hans úr þingsölum. Og það væri algerlega út í hött, miðað við mikilvægi þessa máls, að hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur og öðrum liðsmönnum NATO hér á Íslandi tækist með óskum af þessu tagi og í krafti þingskapa að koma í veg fyrir að Alþingi Íslendinga geti á eðlilegan og réttan hátt afgreitt það, að löggjafarsamkoman í þessu landi láti kanna hvort hér eru kjarnorkuvopn eða ekki. Ég vil í því sambandi benda hv. þm. á ummæli ýmissa þm., eins og t. d. hollenskra þm., sem hafa á undanförnum árum hvatt eindregið til þess að löggjafarþingin í NATO-ríkjunum tækju sér sjálfstætt hlutverk til þess að afla sér upplýsinga, vegna þess að ljóst sé að herveldi og herforingjaráð NATO-veldanna reyna að leyna þjóðþing upplýsingum af margvíslegu tagi. Ég tel það í hæsta máta vítavert, að hv. þm., sem er einn af ötulustu liðsmönnum NATO hér á þinginu, skuli beita þingskapaaðferð til þess að koma í veg fyrir þessar umr. hér.