03.11.1978
Neðri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa fylgi mínu við þann megintilgang sem ég tel felast í frv. því till. um breyt. á l. um Seðlabanka Íslands sem nú er til umr. Ég hlýt þó að taka það fram, að ég kysi heldur að í stað þess að talað væri um vaxtakjör í 1. gr. væri talað um ávöxtunarkjör. Eins og vextir hafa verið skilgreindir, eru þeir endurgjald til þess, sem sparar, fyrir að fresta eyðslu tekna sinna um tiltekinn tíma og þá gengið út frá því að höfuðstóll skuldarinnar verði endurgreiddur með sama verðmæti og hann var í þegar lánið var veitt, en auk þess komi endurgjald fyrir lánið, vextir, sem þá yrðu vitanlega tiltölulega mjög lágir, 2–4% eða eitthvað þar um bil. Auðvitað er leið í þessu efni að fela inni í vaxtakjörum einnig verðtryggingu og tala um vexti í þeim skilningi. En ég tel að aðalatriðið sé að þess sé gætt, að þeir, sem inna það þjóðnýta hlutverk af hendi að leggja til hliðar nokkuð af tekjum sínum, fái þann hluta endurgreiddan, þegar þeir þurfa á að halda, með fullu verðgildi og auk þess mjög hóflegt endurgjald fyrir lánið. Þetta getur gerst með því að ákveða í fyrsta lagi vextina svo háa, að tryggt sé að verðgildið sé hið sama, í öðru lagi með því að beita verðtryggingarákvæðum til viðbótar vaxtagreiðslum og í þriðja lagi með því að gengistryggja höfuðstól skuldarinnar, og með þeim hætti gætu vextir einnig verið tiltölulega lágir. Ég tel rétt að þetta komi hér fram og verði til athugunar í þeirri n. sem fær þetta frv. til meðferðar.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, að það sé athugunarefni, hvort Seðlabankinn eigi að hafa jafnvíðtækt vald varðandi ákvörðun vaxtakjara og hann raunar hefur samkv. núgildandi lögum og gert er ráð fyrir í þessu frv., þótt hann sé með þessu frv. bundinn við að ákveða vaxtakjör a.m.k. jöfn verðbólgustigi á hverjum tíma. Þá á ég við hvort eðlilegra væri að Seðlabankinn tæki fyrst og fremst ákvörðun um vaxtakjör í viðskiptum Seðlabankans við viðskiptamenn sína, þ.e.a.s. aðra viðskiptabanka og aðra viðskiptamenn, en hins vegar sé það háð lögmálum framboðs og eftirspurnar á fjármagnsmarkaðinum hvernig ávöxtunarkjör fjármagns eru að öðru leyti.

Í þessu felst að ég tel nauðsynlegt að verðtrygging fjárskuldbindinga, bæði hjá bankastofnunum og lánastofnunum og í viðskiptum einstaklinga innbyrðis, sé frjáls.

Við erum víst sammála um það, að nauðsynlegt sé að stuðla að sparnaði í þjóðfélaginu og teljum það til helstu dyggða hjá mönnum að spara. Hins vegar er ekki unnt að segja að hlúð hafi verið að þessari dyggð undanfarið. Þróun mála hefur verið sú, að sparnaður hefur síður en svo verið verðlaunaður og því miður hafa sparifjáreigendur borið skarðan hlut frá borði í skiptingu þjóðartekna.

Þegar við teljum sparnað til höfuðdyggða er það auðvitað í ljósi þess, hvaða hlutverki fjármagnið, hið sparaða fjármagn, gegnir í tæknivæddu þjóðfélagi. Atvinnurekstri jafnt og einstaklingum er nauðsynlegt að eiga aðgang að fjármagni til margvíslegra athafna, til fjárfestingar og til rekstrar. Við verðum að horfast í augu við það, að fjármagn er í raun og veru eins og hver önnur vörutegund, hvert annað verðmæti, að þessu leyti, að það hverfur af markaðnum eða úr framboði þess dregur ef ekki er greitt rétt kostnaðarverð fyrir vörutegundina eða verðmætaþáttinn.

Það hefur verið sagt hér á öllum tímum og ég man það sérstaklega í tíð fyrrv. ríkisstj., að ríkisstj. ætti að grípa í taumana og banna hækkun vöruverðs, ríkisstj. ætti ekki að leyfa vöruverðshækkanir. Ekki síst gat að líta þessa röksemd í Þjóðviljanum á sínum tíma. Nú höfum við alþm. nýlega reynslu fyrir því, að fyrrv. ritstjóri Þjóðviljans og núv. hæstv. viðskrh. hefur þurft að ganga þvert á þessa skoðun sína, þegar hann nú nýverið samþykkti verðhækkun á gosdrykkjum, öli og smjörlíki. Þetta er óhjákvæmileg nauðsyn, aðeins viðurkenning á því, að þessar vörutegundir mundu ekki verða framleiddar, mundu hverfa af markaðnum, ef ekki væri greitt kostnaðarverð fyrir þær. Með sama hætti fer um fjármagnið, sparifé landsmanna, að ef ekki er greitt fyrir það rétt kostnaðarverð hverfur það smátt og smátt. Og rétt kostnaðarverð er a.m.k. að sparifjáreigendur fái tryggt verðgildi sparnaðar síns. Það er þess vegna ekki spurningin um það, hvort við viljum háa vexti eða lága vexti, sem hér er verið að ræða, heldur spurningin um það, hvort við teljum nauðsynlegt að fjármagn myndist í þjóðfélaginu, að sparnaður eigi sér stað eða ekki.

Á árum vinstri stjórnarinnar,1971–1974, var meira að segja gripið til vaxtahækkana, að mig minnir á árunum 1973 og 1974, sem nægðu þó engan veginn til að stöðva þá þróun, sem átt hefur sér stað, að sparifé landsmanna hefur minnkað að raungildi. Þá var hæstv. 1. þm. Austurl. viðskrh. og þar með bankamálaráðh. Hann hefur hins vegar afneitað vaxtahækkuninni 1974, að því er mig minnir, og talið Seðlabankann þá hafa farið sínu fram. En ekki hefur frést að þar væri neinn ágreiningur varðandi þá hækkun.

Síðan ríkisstj., er ég myndaði 1974, tók til starfa hafa vaxtamálin verið mjög til meðferðar, og ég er ekki að upplýsa hér neitt leyndarmál þegar ég segi frá því, að innan ríkisstj. voru skiptar skoðanir um stefnuna í vaxtamálum. Sá ágreiningur hefur komið fram hér bæði í orðræðum mínum og núv. hæstv. forsrh. Þó náðist samstaða um það, að á árinu 1976 voru teknir upp svokallaðir vaxtaaukareikningar, þar sem innstæður voru að vísu bundnar með 12 mánaða uppsagnarfresti, en þessi nýja sparifjárleið hafði þegar þau áhrif á árinu 1976 að stöðva rýrnun raungildis sparifjárinnistæðna í bankakerfinu.

Á árinu 1977, þegar komið var fram yfir mitt ár og kjarasamningar voru um garð gengnir, varð ljóst að verðbólgan færi vaxandi og þess vegna þörf á nýjum ráðstöfunum til þess að tryggja sparifjármyndun í landinu. Þá náðist samkomulag um að fallast á tillögur stjórnar Seðlabankans um verðbótaþátt vaxta til viðbótar grunnvöxtum er breyta skyldi á þriggja mánaða tímabili með hliðsjón af verðlagsþróun í landinu. Slík breyting átti sér stað í nóv. 1977 og febr. 1978 og hafði þau áhrif, að þegar miðað er við ársmeðaltöl innlána og vísitölu þjóðarútgjalda jukust innlán um 37% á árinu 1977, en það þýddi að raungildi innlánanna jókst um 4.5%. Á árunum 1976 og 1977 tókst þannig að stöðva þá óheillavænlegu þróun, að ráðstöfunarfé lánastofnana héldi áfram að minnka.

Á blaðamannafundi hæstv. fjmrh. nú um daginn hefur ráðh. sagt frá því, að ráðstöfunarfé lánastofnana hafi minnkað mjög undanfarin ár, árið 1970 hafi ráðstöfunarfé innlánsstofnana verið 45% af þjóðartekjum, en í ár aðeins 30% af þjóðartekjum, og ef miðað er við bankana eina hafi ráðstöfunarfé þeirra minnkað úr 40% af þjóðartekjum árið 1970 niður í 25% á þessu árabili. Dagblað eitt hér í bænum hefur eftir ráðh., orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Þetta er ein meginástæða þeirrar ofboðslegu lánsfjárkreppu sem er hér á landi.“

Ég held þess vegna að valið, sem við höfum, sé ekki um hvort vextir eigi að vera háir eða lágir, heldur í raun og veru hvort við viljum innlendan sparnað eða ekki, hvort við teljum innlendan sparnað nauðsynlegan eða ekki. Innlendur spámaður er, að ég hygg, grundvallarskilyrði þess, að við lifum innan marka tekjuöflunar okkar á hverjum tíma. Hann er nauðsynlegt skilyrði til þess að komast hjá erlendum lántökum og nauðsynlegt skilyrði til þess að koma í veg fyrir verðbólguþróun í landinu. Með þessu er ég ekki að segja, að raunvextir eða sparifjármyndun í landinu sé lausn allra okkar efnahagsvandamála, lausn á verðbólguvandanum t.d. Til lausnar verðbólguvandanum þarf margvíslegar samræmdar aðgerðir.

Hv. 1. þm. Austurl. sagði að háir vextir mundu ekki tækna verðbólguvandann, það sem ylli verðbólgunni, væri yfirdráttur hjá Seðlabanka, erlendar lántökur, yfirbyggingarkostnaður í bankakerfinu, of mikil fjárfesting eins og t.d. Kröfluvirkjun.

Við skulum nú athuga þessi atriði, sem hv. þm. nefndi, og að hvaða niðurstöðu komumst við þá?

Hann nefnir fyrst yfirdrátt hjá Seðlabanka. Hvernig myndast yfirdráttur hjá seðlabanka? Hann myndast annars vegar með því, að ríkissjóður stofnar til meiri útgjalda en tekjur ríkissjóðs segja til um. Hann getur líka myndast með því, að aðrir viðskiptamenn Seðlabankans taki meira út úr Seðlabankanum en það fjármagn er sem þar myndast. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að lágir vextir auka á eftirspurn eftir lánsfé og verða þess valdandi, að staða viðskiptabanka gagnvart seðlabanka versnar, þeir taka að skulda seðlabankanum í stað þess að eiga þar inni. Í þessu felst að í efnahagskerfið er dælt peningum sem engin verðmæti standa á bak við. Það er verið að prenta seðla til þess að auka peningamagnið í landinu, auka eftirspurnina, sem aftur hækkar verðlagið. Þetta er þess vegna ein afleiðingin af því að horfast ekki í augu við að nauðsynlegt sé að verðtryggja sparifé í landinu, að verðbólgan vex.

Við skulum athuga erlendu lántökurnar. Það má einnig brúa þetta bil, sem myndast með því að meiru er eytt en aflað er í ríkissjóð, að meira er lánað út en sparnaði nemur í lánastofnunum, með því að taka erlent lánsfé, sem við alþm. höfum keppst við að lýsa yfir að sé óheillavænlegt. En þetta erlenda lánsfé eykur einmitt eftirspurnina innanlands eftir vöru, vinnu og þjónustu og sprengir upp verðlagið í landinu.

Við skulum þá taka þriðja atriðið, yfirbyggingu bankakerfisins. Væri ekkí hugsanlega hægt að draga úr yfirbyggingu bankakerfisins, ef komið væri á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar lánsfjár? Ætli það minnkaði ekki vinnan og skriffinnskan í bönkunum ef skömmtunarvaldið væri tekið af bönkunum að þessu leyti í ríkara mæli a.m.k. en nú er, þegar slík lánsfjárskömmtun er þar sem raun ber vitni.

Við skulum taka fjórða atriðið, of mikla fjárfestingu. Ég held að núv. hæstv. ríkisstj. segi í samstarfsyfirlýsingu sinni, að mörkuð verði gerbreytt fjárfestingarstefna, með samræmdum aðgerðum verði fjárfestingu beint í tæknibúnað, endurskipulagningu og hagræðingu í þjóðfélagslega arðbærum atvinnurekstri. Síðan segir: Fjárfesting í landinu verði sett undir stjórn sem marki heildarstefnu í fjárfestingu og setji samræmdar lánareglur fyrir fjárfestingarsjóðina í samráði við ríkisstj.“ Loks segir: „Dregið verði úr verðþenslu með því að takmarka útlán og peningamagn í umferð.“

Við skulum íhuga þetta nánar.

Við getum verið sammála um að fjárfesting sé of mikil. Í vinnuplaggi, sem við Gunnar Thoroddsen lögðum fram við stjórnarmyndunartilraunir í sumar, var talið eðlilegt að dregið væri úr heildarfjárfestingu í landinu. Ég tel að fráfarandi ríkisstj. hafi gert ráðstafanir, sem urðu til þess að heildarfjárfesting minnkaði úr 33–34% af þjóðarframleiðslu í 27% af þjóðarframleiðslu, og út af fyrir sig sé ekki óeðlilegt að þessi fjárfesting dragist enn saman og verði um eða innan við fjórðung af þjóðarframleiðslu, miðað við það að skapa svigrúm fyrir einkaneyslu og samneyslu. En ég hygg að það verði ekki dregið úr fjárfestingu í landinu nema með tvennum hætti: annars vegar með því, að fjármagnið fái sanngjarnt endurgjald, að sparifjáreigendur fái sanngjarnt endurgjald, og hins vegar með þeim hætti, að komið verði á skömmtunarstjórn á fjárfestingu í landinu, það verði fjárfestingarhömlur, að menn þurfi að sækja um leyfi til þess að leggja í framkvæmdir. Ég þarf ekki að orðlengja það, að við sjálfstæðismenn erum algerlega andvígir leyfis- og skömmtunarkerfum af þessu tagi, boðum og bönnum, en teljum hins vegar eðlilegt að úr fjárfestingu verði dregið með því að þeir, sem festa fé, greiði rétt endurgjald fyrir það fjármagn sem þeir hafa að láni.

Ef við lítum á hvaða fjármagn það er, sem er til ráðstöfunar hér innanlands og menn fá að láni, þá er það fjármagn almennings í landinu, og ég held að menn séu almennt sammála um að það sé eign hins almenna launamanns frekar en nokkurs annars þjóðfélagshóps, vegna þess að atvinnurekendur t.d. nýta fjármagn sitt í eigin rekstri. Þegar við lítum þannig á málin, þá er það lánsfé, sem er til ráðstöfunar til fjárfestingar í landinu, í raun og veru geymd vinnulaun launþega í landinu. Þess vegna er verið að taka af launþegum hluta af aflafé þeirra með því að horfast ekki í augu við að þeir, sem taka að láni, verði að endurgreiða það með jafnverðmætum krónum þegar að greiðsludegi kemur.

Ég held líka að við hefðum tryggingu fyrir því, að betur væri með fjármagnið farið, ef greiða þyrfti raunverulegt endurgjald fyrir lánsféð. Hér hefur Kröfluvirkjun borið á góma sem dæmi um að það væri ráðist í óhagkvæma fjárfestingu, hvað sem liði fjármagnskostnaði. Ég er ekki sammála um það. Hér hefur verið bent á að fjármagnskostnaður vegna Kröfluvirkjunar sé áætlaður á næsta ári um 2000 millj. kr. Ég tel það af hinu góða, að þessi mælikvarði er til sem mælikvarði á hagkvæmni fjárfestingarinnar. Ég tek það skýrt og greinilega fram, að auðvelt er að segja þetta eftir á. Það voru færri þm., sem drógu úr að lagt væri í Kröfluframkvæmdirnar þegar það mái var á dagskrá og frv. um það flutt á þinginu 1973– 1974. Ég held að frv. hafi þá verið samþykkt samhljóða. Ýmislegt hefur boríð við síðan, svo sem náttúruhamfarir og annað, sem hefur gert þá fjárfestingu óhagkvæmari og ekki arðbæra, gagnstætt því sem vonir stóðu til. En það er hollt að mælikvarði sé til um það, hvernig fjárfestingar gefast í þjóðfélagi okkar.

Nú skal ég bæta því við, að á það hefur líka verið bent, að fjáröflun til Kröfluvirkjunar hafi yfirleitt verið annaðhvort með verðtryggðu lánsfé og/eða gengistryggðu lánsfé, þannig að þarna er um raunverulegan fjármagnskostnað að ræða, en ekki niðurgreiddan eins og í ýmsum öðrum fjárfestingum af opinberri hálfu.

Þegar hv. 1. þm. Austurl. segir, að ekki sé tekið tillit til fjármagnskostnaðar þegar ráðist er í opinberar framkvæmdir almennt, get ég vel verið honum sammála um að það er allt of lítið gert að því. Við eigum auðvitað að líta á þann þátt málsins, og ég held að viðurkenning á raunverulegum fjármagnskostnaði yrði til þess að við lítum betur á opinberar fjárfestingar, gerðum meiri samanburð á hagkvæmni og nytsemi einstakra opinberra framkvæmda ef fjármagnskostnaðurinn væri raunverulegur, sem hann því miður hefur ekki verið. Spurningin er því ekki eingöngu um að mynda sparifé í landinu, mynda fjármagn í landinu til þess að komast hjá erlendum lántökum, til þess að komast hjá því að láta prenta seðla sem ekkert verðmæti stendur bak við, heldur einnig um hvernig unnt sé að tryggja sem hagkvæmasta nýtingu þess sparnaðar sem á sér stað á hverjum tíma.

Það er auðvitað rétt, að um leið og við lítum á hag sparifjáreigenda er önnur hlið á málinu. Hver á að borga þá verðtryggingu sem þeim er veitt? Í sjálfu sér finnst mér það ekki breyta efni málsins. Mér finnst það liggja í augum uppi, að sparifjáreigendur eiga að fá tryggt verðgildi sparnaðar síns, það sé grundvallarforsenda fyrir heilbrigðum samskiptum manna á milli og heilbrigðu þjóðfélagi og efnahagslífi í landinu, þannig að við verðum í raun og veru að ganga út frá þessu sem föstu og síðan að laga okkur eftir því, þegar kemur til þess hver á að greiða þetta gjald. Það eru auðvitað lántakendurnir sem næst liggur að greiða þetta gjald, vegna þess að þeir hafa þetta fjármagn undir höndum og geta valið um að taka það að láni með þeim skilyrðum, sem því fylgja, og verða að ábyrgjast að það ávaxtist með þeim hætti að þeir séu skilamenn þegar að greiðsludegi kemur.

Vaxta- og fjármagnskostnaður er auðvitað ekki annað en einn af mörgum kostnaðarliðum í atvinnurekstri og lífi manna. Í fiskvinnslu hefur verið talað um að þessi kostnaðarliðum í atvinnurekstri og lífi manna. Í fiskvinnslu hefur verið talað um að þessi kostnaðarþáttur sé frá 5% og ef um mjög skuldug fyrirtæki er að ræða upp í 8% af heildarútgjöldum. Hv. 1. þm. Austurl. benti á það, í ræðu sinni hér í fyrradag, að það yrði, að mig minnir, að lækka launin um helming til þess að hækka vextina um helming eða eitthvað á þá lund og reiknar þá væntanlega með 10% vaxtakostnaði fiskvinnslufyrirtækja og 20% launakostnaði. En launakostnaður fiskvinnslunnar er nú í raun og veru meira en 20%. Hann hefur almennt verið talinn 25%. En þar að auki hreyfist hráefnisverðið mjög nálægt því með sama hætti og launakostnaður, og hráefnisverðið er 50% af útgjöldum fiskvinnslunnar, þannig að útgjaldaþættir, sem markast af launakostnaði, eru 75%, en vaxta- eða fjármagnskostnaður frá 5% og upp í 8%, svo að ég fari nú ekki upp í 10% sem 1. þm. Austurl. vill vera láta að sé.

Það er hætta á því, ef fjármagnskostnaðurinn er ekki viðurkenndur eins og hann er í raun og veru, að menn leiti of mikið til lánastofnananna, að menn byggi atvinnurekstur sinn of mikið á lánsfé.

Aðgerðir fráfarandi ríkisstj. í vaxta- og verðtryggingarmálum voru annars vegar bundnar við það að horfast í augu við nauðsyn raunvaxta, og hins vegar miðuðust þessar aðgerðir við að jafna vaxtakjörin í landinu þannig að atvinnuvegum í landinu væri ekki mismunað og fjármagnið leitaði þangað sem arðbærast væri fyrir þjóðarheildina. Tókst að ná mjög mikilvægum markmiðum hvað þetta hvort tveggja snertir. Ég get nefnt sem dæmi um það, að vaxtakjör viðbótarlána, sem sjávarútvegi og landbúnaði er séð fyrir frá viðskiptabönkunum til viðbótar við endurkeypt afurðalán sem Seðlabankinn endurkaupir, voru hækkuð og færð til samræmis við þau vaxtakjör er almennir útlánsvextir sögðu til um. Þetta hafði þá þýðingu, að ýmis þau frystihús, sem stóðu vel að vígi fjárhagslega, frystihús t.d. á Vestfjörðum og annars staðar á landinu sem höfðu afkomu í betra lagi, hættu að taka viðbótarlánin og þannig varð meira lánsfjármagn til ráðstöfunar fyrir aðra, bæði þá sem höllum fæti stóðu eða þurftu á fjármagni að halda í hagkvæmar framkvæmdir.

Ég legg auðvitað á það áherslu, að samfara raunvaxtastefnu þarf að vera raungengisstefna. Það verður að skrá gengið rétt. Þá erum við komnir að því, hvort raunvaxtastefna muni knýja á um áframhaldandi gengislækkanir. Ég er þeirrar skoðunar, að svo muni ekki vera, vegna þess að það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn eins og strúturinn og viðurkenna ekki réttan og raunverulegan kostnað við framleiðsluna, það þýðir ekki að líta fram hjá fjármagnskostnaði frekar en öðrum kostnaði, og gengið verður að skrá í samræmi við framboð og eftirspurn, í samræmi við framleiðslukostnað í landinu. Við getum ekki tryggt fulla atvinnu með öðrum hætti. Þá er það auðvitað almenn aðhaldssemi sem ein getur leitt til þess, að við hverfum af braut gengislækkana til þess að leiðrétta misvægi milli verðlags innanlands og erlendis. Það er algerlega útilokað annað en gengið falli hér á Íslandi sem nemur meiri verðbólgu hér en í öðrum löndum, að frádreginni þeirri auknu framleiðni sem okkur tækist að koma á hér á landi umfram það, sem öðrum tekst erlendis, og inn í það dæmi má auðvitað taka aukið aflamagn. Þetta er staðreynd sem við getum ekki lítið fram hjá. Í hverju á þá aðhaldssemin að vera fólgin? Hún á að vera fólgin í því að sníða einkaneyslu, samneyslu og fjárfestingu þann stakk sem heildartekjur þjóðfélagsins segja til um á hverjum tíma. Við eigum að hafa kjark til þess að gera okkur grein fyrir eðlilegu hlutfalli þessara þátta í þjóðarútgjöldunum, og við eigum að gera okkur grein fyrir því, með hvaða hætti við getum haldið þeim innan sanngjarnra marka. Ég tel að í þessum efnum sé stjórnvöldum einkum sú skylda lögð á herðar að setja þær almennu reglur sem takmarka fjárfestinguna: einkafjárfestinguna með almennum vaxtakjörum og opinberu fjárfestinguna með aðhaldssemi fjárveitingavaldsins, innan við 25% af þjóðarframleiðslunni. Ég tel að við verðum að stilla samneyslunni svo í hóf og að vísu þá um leið ýmiss konar þjónustu við almenning; að svigrúm sé fyrir þá einkaneyslu sem landsmenn geta sætt sig við.

Í sambandi við fjármagnskostnað er rétt að það komi hér fram, að vextir, verðtrygging og gengistrygging lána, raunvaxtastefna eða raunávöxtunarstefna, eru nauðsynlegur þáttur í baráttunni gegn verðbólgunni. Háir vextir eða hár fjármagnskostnaður er afleiðing verðbólgunnar, en ekki orsök, og fjármagnskostnaður eins og hann er í raun og veru, verðtrygging fjármagnsins er til þess fallin að það hagnýtist betur og til þess fallin að draga úr verðbólgunni, nauðsynlegur þáttur að þessu leyti. Þess vegna er það svo, að ef aðrar leiðir eru farnar í baráttunni gegn verðbólgunni ásamt með raunhæfum fjármagnskostnaði, þá mundi fjármagnskostnaður lækka verulega á tiltölulega skömmum tíma með auknu framboði fjármagns og minni verðlagsbreytingum. En þrátt fyrir það er rétt að það komi hér fram, að eins og hið opinbera ákveður ýmsar framkvæmdir án þess að hafa verðmælikvarða um arðsemi þeirra, vegna þess að þær eru taldar nauðsynlegar t.d. í félagslegum tilgangi eða menntunarlegum tilgangi eða varðandi heilbrigðisþjónustu, þá er og rétt að hafa svigrúm til nokkurra félagslegra lána, en greina þá skýrt á milli hinna félagslegu lána og þeirra lána sem hlita arðsemisjónarmiðum. Þegar ég ræði um félagsleg lán á ég m.a. við lán til húsbyggjenda sem eigi að hlíta nokkuð öðrum kjörum en almenn lánakjör í landinu e.t.v. segja fyrir um á hverjum tíma. En jafnvel lán til húsbygginga, íbúðabygginga, mundu með raunvaxtastefnu og öðrum ráðum í baráttunni gegn verðbólgu verða ungu fólki sem eldra viðráðanleg. Þá væri unnt að veita lánin til lengri tíma, dreifa endurgreiðslum á svo langan tíma og um leið færa vextina svo niður að hag manna ætti að vera betur borgið eftir en áður.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessa ræðu lengri, en vil þó, áður en ég lýk máli mínu, lýsa eftir stefnu hæstv. ríkisstj. í vaxta- og fjármagnskostnaðarmálum. Það eina sem segir í starfslýsingu ríkisstj., annað en það sem ég hef þegar nefnt varðandi fjárfestingarstefnuna og takmörkun útlána á peningamagni í umferð, er að bæta þurfi rekstrarafkomu útflutningsatvinnuvega um 2–3% af heildartekjum með lækkun vaxta af afurða- og rekstrarlánum og lækkun annars rekstrarkostnaðar. Þótt meira en tveir mánuðir séu liðnir frá því að þessi samstarfsyfirlýsing birtist hafa engar ákvarðanir verið teknar í vaxtamálum. Þess vegna er tími til kominn að spyrjast fyrir um hvaða ráðagerðir ríkisstj. hafi í þeim efnum. Fróðir menn segja að það sé á stefnuskrá ríkisstj. bæði að hækka vexti og að lækka vexti, hvernig sem það fæst samrýmt. Mér er þó tjáð að það megi gerast með því að hækka hina almennu innlánsvexti og jafnframt hina almennu útlánsvexti, en lækka vextina til útgerðarinnar og framleiðslunnar með því að gengistryggja lánin, þá sé hægt að lækka vextina. Eins og efnahagsstefna ríkisstj. er að öðru leyti er, eins og kunnugt er, stefnt í gengissig, í gengislækkun, og ekki þarf nema tiltölulega litla gengislækkun til þess að gengistryggð lán með lágum vöxtum verði dýrari en þau lán sem atvinnuvegirnir búa nú við eða jafnvel þyrftu að búa við með raunvaxtastefnu. Þetta er dæmigert um þá blekkingu sem núv. hæstv. ríkisstj. beitir gagnvart landsmönnum. Verst er þó, að í henni er fólgin sjálfsblekking sem hlýtur að verða hæstv. ríkisstj. að falli og ætti ég þess vegna e.t.v. ekki að segja: verst er þó, því að það er ekki það versta, heldur hitt: þær afleiðingar sem þessi stefna hefur fyrir þjóðarhag.