05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3948 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við að bæta það sem kom fram hjá frsm. þessarar till. Ég vil aðeins taka fram í sambandi við ummæli hv. 7. þm. Reykv., að við erum alls ekkí með þessari till. að mæla gegn frjálsri skoðanakönnun, síður en svo. Hins vegar er alveg ljóst, hvað sem hv. þm. segir, að það er brýn nauðsyn að setja löggjöf um skoðanakannanir, ekki aðeins að því er varðar stjórnmál, heldur ekki síður um ýmis þjóðmál sem eru til meðferðar meðal þjóðarinnar hverju sinni. Ég tel að opinber stofnun, t. d. Reiknistofnun Háskóla Íslands, Hagstofan eða einhverjar slíkar, gæti hæglega annast slíka skoðanakönnun sem væri talin opinber. En það er alger misskilningur að það eigi að koma í veg fyrir frjálsa skoðanakönnun annarra aðila í þjóðfélaginu. Slíkt er alger útúrsnúningur.

Ég taldi rétt að láta þetta koma fram. Eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram er engu slegið föstu í þessari þáltill., heldur gerð tilraun til að hafa áhrif á að sett verði löggjöf um þetta efni.