05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3951 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að flm. þessarar till. ætla sér ekki að setja hömlur á skoðanakannanir. Það getur ekki verið að það vaki fyrir þeim, því að þá væru þeir að skerða prentfrelsi í landinu. Hvað sem líður reglugerðum eða athugunum nefnda í þessu sambandi hljóta dagblöð eftir sem áður að hafa frelsi til að efna til eigin skoðanakannana. Og í þessu sambandi verð ég að segja að það er rétt athugað hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að það fer eftir skynsemi almennings hvað hann tekur mikið mark á skoðanakönnun. En það kemur að sjálfsögðu ekki til mála að fara að setja bann við því að blöð efni til skoðanakannana. Þær geta orðið afskaplega langt frá því að þjóna neinum þörfum eða nýtum tilgangi og stundum verið fáránlegar. Eins og hv. 1. flm. þessarar till. sagði er tilgangurinn að sjálfsögðu fyrst og fremst sá að selja blöðin. Þar ræður sölumennska eins og víða annars staðar í þjóðfélagi okkar. Ef ekki er efnt til skoðanakannana um hver staða stjórnmálaflokkanna í landinu sé, þá eru starfsmenn viðkomandi blaðs látnir bragða á páskaeggjum og síðan birt sú niðurstaða af skoðanakönnuninni, að tiltekin páskaegg frá tiltekinni verksmiðju séu best. Það er ekki hægt að banna blöðum slíkt. Ég er ekki í neinum vafa um það, að nú þegar páskar nálgast hefur þetta orðið til þess að auka nokkuð sölu viðkomandi blaðs, að ég tali ekki um sölu þeirra páskaeggja sem fengu hæstar einkunnir.

Ég velti þessu máli dálítið fyrir mér. Eru menn að hugsa um einhverja opinbera stofnun sem eigi að lýsa yfir hvenær mark sé takandi á skoðanakönnun og hvenær ekki? Ég veit t. d. ekki hvort ríkisvaldið sé rétti aðilinn í þessu efni. Sú eina skoðanakönnun, sem ríkisvaldið getur efnt til að mínum dómi, eru kosningar. Það er sú skoðanakönnun sem við hljótum allir að taka mark á. Þess vegna segi ég það, að mér er ekki alveg ljóst hvað vakir fyrir flm. Ég vil hafa það fyrir satt sem þeir hafa lýst yfir sjálfir og trúi ekki að þeir ætli að fara að hefta skoðanafrelsi eða prentfrelsi í landinu.

Niðurstaða mín er sú, að þessi till. skipti ekki ýkjamiklu máli. Hún fer til athugunar í allshn. Kannske verður þá hægt að fá einhverjar fréttir af þeirri nefnd sem sett var um árið til að kanna þessi mál, en einn nm. lýsti reyndar yfir að hún væri dauð. Það hlýtur þó eitthvað að hafa gerst þar, eftir því sem hann sagði okkur áðan.