05.04.1979
Neðri deild: 72. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3963 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið hér til nokkurrar umr. að undanförnu og komið fram margvísleg sjónarmið varðandi afgreiðslu á því og enn fremur brtt. Það voru látin þau orð falla, að ráðh. ættu ekki að setja lög með reglugerðum. Í því sambandi er ekki úr vegi að rifja upp hvernig þetta hefur verið að undanförnu.

Árið 1972 var þannig frá þessum málum gengið, að ráðh. hafði með alla úthlutun gengismunarsjóðsins að gera og um að fjalla. Voru engin ákvæði í þeim lögum um það, hvernig skipta skyldi fénu, og ráðh. fór einfarið með það vald, þannig að það mundi þá frekar eiga við varðandi þessa ráðstöfun 1972 að þar hafi ekki verið sett lög, heldur hafi það verið ákvörðun ráðh. eins hvernig með þetta fé skyldi farið.

Það hefur líka verið talað um að þeir fjármunir, sem hér var um að ræða, mættu alls ekki fara í að greiða rekstrarskuldir. Ég hef hins vegar gert grein fyrir því og gert ráð fyrir því, að hluti af þessu fé færi til fjárhagslegrar endurskipulagningar, og þannig hefur verið frá málunum gengið í þeirri reglugerð sem ríkisstj. hefur samþykkt og sett um þetta efni og ég fyrir hennar hönd. Líka varðandi þetta atriði eru fordæmi fyrir hendi. Í brbl. um ráðstafanir í sjávarútvegi og ráðstöfun gengishagnaðar frá árinu 1974 er sérstaklega tekið fram í 9. gr., í c-lið, að fé af þessu tagi skuli varið til þess að greiða fram úr greiðsluvandræðum fiskvinnslufyrirtækja sem átt hafa í erfiðleikum á árinu 1974. Í lögum frá 31. des. voru taldir upp ýmsir liðir, en eftirstöðvar settar til ráðstöfunar samkv. nánari ákvörðun sjútvrh. Þar var um verulega fjárhæð að ræða, þannig að ég tel líka að í þeim efnum sé um fordæmi að ræða.

Það, sem kannske er nærtækast í þessum efnum, er hins vegar frv. til l. frá því að gengisbreyting var gerð í febrúarmánuði 1978, og má segja að það frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, sé að öllu leyti sniðið eftir því frv. Í því frv. er ráðstöfunin nákvæmlega eftir því mynstri sem hér er gert ráð fyrir. Í því frv. er gert ráð fyrir, að 65% fari í Verðjöfnunarsjóð og 35% af því, sem kemur i gengismunarsjóðinn, skuli varið að hluta til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði og að hluta til að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa. Prósentutölurnar eru nokkuð aðrar, en formið er nákvæmlega það sama. Og eins er í 4. gr. gert ráð fyrir að ríkisstj. setji reglugerð um framkvæmd þessara laga. Ég tel þannig að undanfarandi ríkisstj., sem allir þingflokkar hafa átt aðild að og þá m. a. fulltrúar þá þeirra þingflokka sem hafa verið að gagnrýna þetta mál, hafi einmitt farið þá leið sem hér er farin. Er því ekki verið að fara inn á neina nýja braut. Farið hefur verið eftir sama mynstri og það sem nýjast er í þessum efnum.

Það hefur verið talað um að ekki mætti fara fé í að greiða rekstrarskuldir. En ég held að það sé augljóst mál, að það sé nauðsynlegt að tryggja hinn fjárhagslega grundvöll áður en lagt er í tæknilegar endurbætur. Það, sem gert er hér, er að það er opinskátt sagt að þetta þurfi að gera, enda mun reynslan hafa verið sú, að þar sem nefnd voru hagræðingarlán og áttu að fara til tiltekinna verkefna, þá fóru þau ekki til þeirra nema að mjög takmörkuðu leyti vegna þess að rekstrargrundvöllurinn var ekki fyrir hendi, hin fjárhagslega undirstaða var ekki nægilega traust.

Ég held að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um stöðu frystihúsanna, þegar þessi lög voru sett, og nauðsyn þess að treysta hinn fjárhagslega grundvöll þeirra. Það hefur verið starfað á þessum grundvelli. Ég leyfi mér að segja, að undirbúningur hafi verið vandaður. Það var þegar í upphafi skipuð n. til þess að safna gögnum um stöðu frystihúsanna og líta á hina tæknilegu hlið jafnóðum og hún hefur skilað áliti, sem síðan fór til frekari úrvinnslu hjá þeim aðilum sem hafa með þessi mál að gera. En eins og kunnugt er er það Fiskveiðasjóður sem sér um úthlutunina sjálfa að því er varðar það hagræðingarfé sem hér er um að ræða, og hins vegar er það Byggðasjóður vegna sérstakrar fjárveitingar sem gert er ráð fyrir honum til handa í þessum efnum. Niðurstaðan varð sú að skipta þessu verkefni að því er varðar fjárhagslega endurskipulagningu á þessa aðila sem ég nefndi: á Fiskveiðasjóð að því er varðaði gengismunarféð, á Byggðasjóð að því er varðaði hans hluta, á viðskiptabankana að hluta og loks á sveitarfélögin.

Það, sem hér er um að ræða, eru um 2000 millj. kr. í heild og þar af eru 500–700 millj. kr. sem koma í hlut gengismunarsjóðs, um 660 millj. kr. í hlut Byggðasjóðs og síðan er viðskiptabönkunum ætlað að bera tæpar 600 millj. kr. og sveitarfélögunum um 240 millj. kr., eins og staða málsins er úr höndum þessa starfshóps. Það hefur sem sé verið lögð áhersla á samvinnu allra þessara aðila til þess að ná sem bestum heildarárangri. Augljóslega skiptist þetta fé víðs vegar um landið. Staða fiskvinnslufyrirtækja er misjöfn og það á við í öllum landshlutum. Ég tel að það hafi verið reynt að tryggja með þessum hætti að það væri einungis takmarkaður hluti þessa fjár sem færi til fjárhagslegrar endurskipulagningar, það væri reynt að tryggja samvinnu allra þeirra aðila sem inn í þetta dæmi kæmu. En það að halda hinum fjárhagslega þætti í skefjum hyggist auðvitað á nauðsyn þess, að sem drýgstur hluti geti farið í hinar tæknilegu endurbætur sem verða að teljast mjög nauðsynlegar.

Það hafa komið fram nokkrar brtt. við þetta frv. til laga. Ég hef í rauninni gert nú þegar grein fyrir afstöðu minni til einnar þeirra, sem fjallar um það að óheimilt sé að veita lán til greiðslu rekstrarskulda, eins og það er orðað, þó að það sé náttúrlega ekki nákvæm skilgreining. Ég tel að það sé nauðsynlegt, að það verði mögulegt að verja hluta af þessu fé til fjárhagslegrar endurskipulagningar, — það hafi verið gert áður og sé ekki siður nauðsynlagt nú.

Önnur brtt. fjallar um það, að í stað þess að verja sérstökum fjármunum til að auðvelda útvegsmönnum að hætta rekstri úreltra fiskiskipa skuli þessir fjármunir renna í Aldurslagasjóð. Um þetta er það að segja, að meginhugmyndin með þessum ákvæðum, sem sett eru í reglugerðina, er að sjóðnum verði beitt til þess að stuðla að því að ekki verði lagt í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á skipum sem fjárhagslega a. m. k. væri hagkvæmara að hætta rekstri á, og það verður þá að líta á þennan sjóð sem viðauka eða frekara framhald af Aldurslagasjóði fiskiskipa. Ég skrifaði sjómannasamtökunum og L. Í. Ú. á sínum tíma varðandi þennan sjóð, og það kom umsögn frá L. Í. Ú. um þetta atriði, þar sem stjórn L. Í. Ú. er sammála um þann tilgang sem kemur fram í bréfi mínu til stjórnarinnar um ráðstöfun á fé úr sjóðnum og ég rakti hér áðan. Og þar er einmitt bent á það, að með tilvísun til þess að bætur úr Aldurslagasjóði eru bundnar ákveðinni krónutölu á rúmlest skips, þá sé nauðsynlegt að binda ekki bætur af gengismunarfé með sama hætti, því að nokkur sveigjanleiki sé nauðsynlegur þegar semja þurfi við skipseiganda um hvort hann leggur skipi sínu eða lætur framkvæma meiri háttar lagfæringar á skipinu.

Ég hef starfað i samræmi við þetta og bendi á að lög um Aldurslagasjóð binda allverulega hendur manna í þessum efnum. Það eru margvísleg skilyrði fyrir bótum og það er jafnframt tekið fram, að bætur verði ekki greiddar að fullu fyrr en bolnum hefur verið eytt. Hitt er þó augljóst, að bæði þessi sjóður, sem hér um ræðir og ég hef skipað sjóðsstjórn í, og Aldurslagasjóðurinn gegna sama hlutverki og má vel vera að það megi samræma þetta síðar, en ég te1 að á þessu stigi sé eðlilegt og sjálfsagt að samþykkja lögin eins og frá þeim hefur verið gengið og án þess að binda hendur með sama hætti og gert er að því er Aldurslagasjóðinn varðar.

Loks hefur komið fram till. um það, að áður en fé komi til skipta skuli greiða ákveðna upphæð til Lífeyrissjóðs sjómanna og til að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur og aðrar tryggingabætur sjómanna og enn fremur ákveðna upphæð til orlofshúsa sjómannasamtakanna. Samkv. till. er gert ráð fyrir 175 millj. kr. til að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur, sem renni til Lífeyrissjóðs sjómanna, og þá 25 millj. til orlofshúsa sjómannasamtakanna. Ég tel að þessi till. sé í sjálfu sér að mörgu leyti góðra gjalda verð. En í þessu sambandi er á það að benda, að í þeim lögum, sem sérstaklega voru höfð sem fyrirmynd við þá lagasetningu sem hér er til umr. og varðar gengisbreytinguna frá því í febr. 1978, var ekki gert ráð fyrir neinu slíku. Ef mig misminnir ekki var það einmitt hæstv. fyrrv. sjútvrh., hv. þm. Matthías Bjarnason, sem hélt því fram, að þetta hefði ævinlega verið gert, en þessi lög eru þó frá stjórnartíma hans. Ég sagði að ég gæti í sjálfu sér tekið undir það sjónarmið sem felst í þessari till. Hins vegar verðum við að líta á það annars vegar, að þessir sjóðir hafa styrkst mjög á undanförnum árum, og hvað eina sem við tökum til greiðslna í þessa sjóði mun skerða möguleikana til þess að sinna öðrum verkefnum. Ég held líka að í þessu sambandi væri þá ekki síður ástæða til þess að verja ákveðinni fjárhæð til öryggismála sjómanna og það sé ákaflega áhugavert og mikilvægt verkefni. Ég er þess vegna fyrir mitt leyti tilbúinn að flytja till. um nokkurt framlag til þessara þriggja þátta, þannig að samtals komi um 100 millj. kr. til þessara þriggja þátta og þá 75 millj. til að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur, sem greiðist Lífeyrissjóði sjómanna, og 15 millj. til orlofshúsa sjómannasamtakanna, en enn fremur 10 millj. til öryggismálasjóðanna samkv. nánari ákvörðun sjútvrh. og samgrh., en eins og kunnugt er heyra öryggismálin undir samgrh.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Ég er sem sagt með till. um þetta atriði. Að öðru leyti get ég ekki fallist á þær hugmyndir, sem hér hafa komið fram, né heldur tel ég að sú gagnrýni, sem komið hefur fram, eigi við rök að styðjast. Ég tel að allur undirbúningur þessa máls hafi verið eins góður og hægt er að ætlast til og leitast hafi verið við að sjá til þess, að úthlutun þessara fjármuna væri á faglegum grundvelli og í annan stað að það væri takmörkuð fjárhæð sem færi til hinnar fjárhagslegu endurskipulagningar, en reynt að halda í sem stærstan hluta í tæknilega þáttinn, sem ekki er síður mikilvægur, þó að augljóst sé að hinn fjárhagslegi grundvöllur verði að vera traustur til þess að treysta atvinnuöryggi á hverjum stað og það hafi verið nauðsynlegt að hafa nokkra fjármuni til ráðstöfunar til að ná þeim árangri sem nauðsynlegur er til að treysta hinn fjárhagslega grundvöll, enda margvísleg fordæmi fyrir hendi í þeim efnum.