03.11.1978
Neðri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Í framsöguræðu sinni fyrir því frv.; sem hér er til umr., í fyrradag var hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, svo vinsamlegur að vitna í grg. fyrir frv. sem ég hef leyft mér að leggja hér fram, — frv., sem fjallar um upplýsingaskyldu banka og innlánsstofnana. Hann vitnaði þar í þau ummæli í greinargerð, með frv. mínu, að verðbólgan hefði verið og væri aðalgróðamyndunarleiðin í íslensku þjóðfélagi. Hann lýsti stuðningi sínum við það sjónarmið og við það frv., sem ég hef lagt fram um upplýsingaskyldu, og ég vil þakka honum fyrir það. Við erum báðir, ég og hv. 7. þm. Reykv., eins og reyndar ýmsir fleiri, sammála um að verðbólgan sé aðalgróðamyndunarleiðin í þjóðfélaginu og ærin ástæða sé til að leitast við að kveða niður þá óðaverðbólgu sem hér hefur ríkt allt of lengi.

Frv., sem hér er til umr. gengur út frá þeirri forsendu, eins og 1. flm. þess greindi frá í sinni framsöguræðu, að sú stefna að taka upp raunvexti geti verið heppileg leið til þess að kveða verðbólguna niður, til þess að eyða forsendum verðbólgugróðans. Um þetta eru hins vegar ekki allir sammála, hvort það að taka upp raunvexti sé vænlegasta leiðin til þess að ráða við verðbólguna. Við Vilmundur Gylfason, hv. þm., erum sammála um að slíkar leiðir þurfi að finna, sammála um það markmið að vinna bug á verðbólgunni, en okkur greinir á um leiðirnar, vegna þess að ég get með engu móti fallist á þau rök, sem færð eru fram af flm. þessa frv., að stórhækkun vaxta og upptaka þeirrar reglu, að hér skuli jafnan gilda raunvextir, — sú stefna sé við þær aðstæður, sem hér eru fyrir hendi nú, líkleg til að kveða verðbólguna niður.

Það er hægt að taka undir það sem æskilegt markmið, að það ástand skapist í þessu þjóðfélagi, að hægt verði að taka upp raunvaxtastefnu. Það er hægt að taka undir það sem æskilegt markmið. En slíkri stefnu verður að mínu viti því aðeins komið í framkvæmd að tryggt sé fyrst að verðbólgustigið sé miklu lægra en hér er og hefur verið, árangur á því sviði sé forsenda þess, að hægt sé að taka upp raunvexti.

Það er margt búið að segja í þessum umr. því sjónarmiði til stuðnings sem ég held hér fram. Frá mínum bæjardyrum séð virðist augljóst mál, að langsamlega flestir þeirra sem ætlað væri að borga raunvexti, ef þeir væru teknir upp nú á næstu vikum eða mánuðum, hafa möguleika á að velta þessum vöxtum af sér út í verðlagið og gera það hiklaust. Þeir borga ekki hugsanlega vaxtahækkun úr eigin buddu. Þess vegna leiðir það óhjákvæmilega af verulegri vaxtahækkun, að veruleg verðlagshækkun og aukin verðbólga í stórum stíl fylgir í kjölfarið. Þeir aðilar, sem síst geta velt slíkum hækkuðum vöxtum af sér, þeir aðilar í atvinnulífinu, eru að sjálfsögðu útflutningsatvinnuvegir okkar. Ef þeim væri ætlað að taka á sig mjög aukna vaxtabyrði, þá hygg ég að ekki geti hjá því farið, að kröfur þessara aðila um gengislækkun vaxi og rök þeirra styrkist fyrir slíkum kröfum í réttu hlutfalli við hækkun vaxtanna. Og þá kemur að sjálfsögðu að því, að eftir því sem gengið er fellt meira og eftir því sem gengið er fellt oftar, þá bitnar sú aðgerð þeim mun sársaukafyllra á sparifjáreigendunum, þeim aðilum í þjóðfélaginu sem talað er um að sérstaklega eigi að vernda og koma til móts við þeirra hagsmuni með því að taka upp enn hærri vexti en nú er. Og þá erum við komnir í slíkan hring, ef þessa leið á að fara, að árangurinn hefur orðið allt annar en sá sem að er stefnt samkv. kenningu flm. frv.

Það er að vísu önnur leið hugsanleg af hálfu útflutningsatvinnuveganna en krafa um gengislækkun sé þeim gert að greiða mun hærri vexti en nú er, og sú leið er ósköp einfaldlega sú að lækka kaupið hjá því fólki sem við útflutningsatvinnuvegina vinnur. Við þekkjum það öll mætavel og það þekkir öll þjóðin, að þegar útflutningsatvinnuvegir okkar og aðrir atvinnuvegir koma með kröfur sínar á hendur ríkisvaldinu, hvort sem er í sambandi við gengislækkun eða kröfur af öðru lagi um að þeim sé skapaður sá rekstrargrundvöllur sem þeir telja sig geta við unað, þá byrja þeir jafnan á því að telja fram alla þá útgjaldaliði í rekstrinum aðra en launin og segja síðan: Vegna þess að þessir útgjaldaliðir eru þetta margir og þetta háir, þá er ekki meira eftir til að borga kaupið heldur en sá litli afgangur sem þá er oft talað um, og stundum er reyndar ekki nema núll eftir. Og það er enginn vafi á því, að þeir sem reka okkar útflutningsatvinnufyrirtæki, telja sig geta gert kröfu um að annaðhvort komi til ráðstafanir frá ríkinu þeim til bjargar ellegar bein kauplækkun á móti hverri þeirri krónu sem þeir kynnu að þurfa að greiða í hækkaða vexti.

Það er rætt um það í þessum umr., hvað valdi verðbólgunni í okkar þjóðfélagi, og hv. 4, þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, gerði mikið úr því í ræðu sinni áðan, að það væri misskilningur að gerðir einnar ríkisstj. og afgreiðsla á margvíslegum beiðnum um verðhækkanir í þjóðfélaginu, sem berast, skiptu svo sem engu máli í sambandi við verðbólguþróunina. Það var hans kenning. Hann hélt því fram, hv. 4. þm, Reykv., að sú ríkisstj., sem hér sat að völdum á síðasta kjörtímabili, hafi í rauninni aldrei heimilað nokkra einustu verðhækkun nema það hafi verið gersamlega óhjákvæmilegt, nema það að synja viðkomandi hækkunarbeiðni hefði þýtt tvímælalausa stöðvun á viðkomandi rekstri. Ég vil leyfa mér að halda því fram að svo hafi þetta ekki verið, að þvert á móti hefði sú ríkisstj., sem hv. þm. veitti forustu, átt að gera miklu minna að því en hún gerði að heimila verðhækkanir og hún hefði með þeim hætti og með meiri aðhaldssemi í þeim efnum átt að leggja fram nokkurn skerf til baráttunnar gegn verðbólgunni, sem hún ekki gerði.

Í þessu sambandi minntist hv. 4. þm. Reykv. á það, að hæstv. núv. ríkisstj. hefði með verkum sínum sýnt að hún hefði hið sama sjónarmið og sú fyrri ríkisstj., með verkum sínum veitt því viðurkenningu, að í rauninni hafi hækkunarbeiðnir, sem lagðar hafa verið fram, yfirleitt verið óhjákvæmilegar og ekkert við þær að gera nema samþykkja þær. Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi, og ég vil segja það, að það er von mín, þrátt fyrir nokkur vonbrigði á undanförnum dögum, að sú ríkisstj., sem nú er með völd, sýni miklu meira aðhald í þessum efnum varðandi það að hamla gegn verðhækkunum, varðandi það að synja ýmist eða fresta beiðnum um þau efni af ýmsu tagi sem fráfarandi ríkisstj. hins vegar löngum samþykkti án mikillar tregðu. Það er skoðun mín, að afstaða stjórnvalda í þessum efnum sé mjög stór þáttur í þeim átökum sem fram hljóta að fara um það, hvort takast eigi að draga úr verðbólguhraðanum eða ekki.

Ég vil enn fremur segja það vegna orða hv. 4. þm. Reykv., Geirs Hallgrímssonar, sem hér talaði áðan sem stuðningsmaður hávaxtastefnunnar og þess frv. sem hér liggur fyrir, að hann segir annars vegar: Fráfarandi ríkisstj., sem þessi hv. þm., veitti forustu, veitti aldrei neinar heimildir til verðhækkana nema þær sem voru óhjákvæmilegar. — Hugsum okkur, að það hefði gerst jafnframt meðan þessi hv. þm. gegndi embætti forsrh., að vextirnir hefðu verið færðir í það horf, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þá hefðu að sjálfsögðu þær beiðnir, sem bárust á borð fyrrv. ríkisstj. þessa hv. þm. um verðhækkanir, verið jafnmiklu og vaxtahækkuninni svaraði hærri en þær þó voru. Og ég tel að engin ástæða sé til að efast um það, a.m.k. ef miðað er við þau ummæli, sem hv. þm. viðhafði um að hans ríkisstj. hefði aldrei heimilað neinar verðhækkanir nema þær óhjákvæmilegu, að sú hæstv. ríkisstj., sem hann veitti forstöðu, hefði þá hiklaust og án dráttar heimilað að þessi vaxtahækkun færi að einu og öllu leyti beint út í verðlagið:

Hæstv. ríkisstj., sem hér sat á síðasta kjörtímabili, skildi þannig við, að verðbólgan í þjóðfélaginu nam um 50% á ári. En hvað halda menn að verðbólgustigið hefði verið, ef það hefði enn bæst ofan á að upp hefðu verið teknar þær reglur í vaxtamálum sem þetta frv., sem hér er til umr. gerir ráð fyrir?

Ég hafði hugsað mér, að fara hér nokkrum orðum um ástand í þessum efnum í nokkrum af okkar nágrannalöndum. Ég hef orðið var við það, að ýmsir virðast gera ráð fyrir að hin svokallaða raunvaxtastefna sé í gildi býsna víða í reynd í nágrannalöndum okkar eða öðrum þeim ríkjum, sem við teljum ástæðu til að bera okkur saman við, við séum í þessum efnum einhver alveg sérstök undantekning, eins og við reyndar erum í sambandi við verðbólguna. Ég bað hagfróðan mann að kynna sér þetta lítillega fyrir mig vegna umr. um þetta mál hér á hinu háa Alþ., og ég fékk frá honum í hendur tölfræðiárbók um alþjóðlegar hagstærðir af ýmsu tagi sem gefin var út í Wiesbaden í Vestur-Þýskalandi í ágúst á þessu ári og heitir á þýsku „Statistisches Jahrbuch 1978.“ Á bls. 666 og bls. 690–691 í þessu riti eru samanburðartöflur um annars vegar vaxtagreiðslur og hins vegar verðlagsþróun í ýmsum ríkjum heims. Ég hef athugað hvað þessar upplýsingar segja um ástandið varðandi samsvörun milli vaxta og verðbólguþróunar í 8 ríkjum utan Íslands. Þessi ríki, sem ég tók til samanburðar, eru: Belgía, Bretland, Frakkland, Holland, Sviss, Bandaríkin, Japan og Vestur-Þýskaland. Ef maður spyr: Hafa raunvextir verið í gildi í þessum ríkjum? þá kemur í ljós sem svar við þeirri spurningu, að á árabilinu 1972–1977 hafa vaxtagreiðslur aðeins náð að halda í við verðbólguna í einu þessara ríkja, þ.e. í Vestur-Þýskalandi. Öll hin ríkin sjö eru á sama báti og við hvað það varðar, að þar voru ekki greiddir raunvextir af lánum á þessu árabili, 1972–1977. Ég er þá, samkv. þessum tölum sem ég hef vitnað hér til, að miða við lán tekið á árinu 1972, en greitt til baka á árinu 1977. Miðað við lán tekið í Belgíu í ársbyrjun 1972 og endurgreitt á árinu 1977 vantaði 15% upp á að lántakandinn greiddi raunvexti. Í Sviss, sem mörgum þykir til fyrirmyndar um fjármálastjórn, vantaði 17.9% upp á raunvexti miðað við lán tekið og greitt á sama tíma — tekið 1972, greitt 1977. Í Japan vantaði 13.3% upp á raunvexti, í Holllandi 13.8% og í Bretlandi 22.9%. Manni getur komið í hug út frá þessum tölum og ef maður gerir ráð fyrir að raunvaxtastefnan feli í sér þann Kínlífselixír sem flm. þessa frv. vilja vera láta, að þá hefði kannske verið ástæða til að leggja tillögu þessa efnis fram á þingi Sameinuðu þjóðanna ekki síður en hér á Alþingi Íslendinga. Það skal tekið fram, að í Bandaríkjunum og í Frakklandi vantaði hins vegar mun minna upp á raunvexti á þessu árabili, eða 1.9% í Frakklandi og 4.6% í Bandaríkjunum. Í þessum samanburði, sem ég hef gert, er tekið mið af skráðum forvöxtum á hverjum tíma, en þeir reiknaðir til eftirágreiddra vaxta, sem eðlilegt þykir með tilliti til samanburðar við verðbólguna á hverjum stað.

Því skal ekki neitað, enda alkunna, að auðvitað vantaði enn meira upp á raunvexti hér á Íslandi á þessu árabili en í nokkru ríkjanna sem tekin voru hér til samanburðar, enda var verðbólgan hér langtum, langtum meiri en í nokkru þessara ríkja.

Sé þessum samanburði haldið svolítið lengra áfram koma hins vegar einnig mjög athyglisverðir hlutir í ljós. Við skulum hafa það í huga, að núv. ríkisstj. hefur sett sér sem markmið að ná verðbólgunni niður á næsta ári í svo sem 35%. Út af fyrir sig skal ekkert um það fullyrt hér, hvort það tekst, en þetta hefur verið talað um sem markmið (Gripið fram í: Það vantar Vestur-Þýskaland í upptalninguna). Nei, ég hef talið Vestur-Þýskaland upp. Ég get endurtekið það, fyrst um það er spurt, að af þessum átta ríkjum utan Íslands, sem ég tók til samanburðar, er Vestur-Þýskaland það eina sem þarna er með raunvexti og rétt rúmlega það, eitt af átta ríkjum, og það munu vera um 5% sem það var jákvætt hjá þeim. — En það, sem ég vildi benda hér á, er að ef við gerum ráð fyrir þeim möguleika að hér takist að ná verðbólgunni niður í 35% á ári, hvort sem það yrði á árinu 1979 eða 1980 og sé miðað við það verðbólgustig, tekið mið af víxilforvöxtum eins og þeir eru nú og þeir reiknaðir til eftirágreiddra vaxta, þá yrði niðurstaðan sú, að lán tekið með slíkum kjörum til eins árs og miðað víð þetta verðbólgustig sem að er stefnt, — slíkt lán yrði endurgreitt með 95.6% að raunvirði ári seinna en það var tekið, þannig að ekki vantaði nema 4.4% upp á fulla raunvexti. Ég vil sérstaklega undirstrika það, að þarna er miðað við víxilvexti, en auðvitað væri vaxtaaukalán, sem bera hærri vexti, enn þá nær því að ná fullum raunvöxtum, takist að lækka verðbólguna í 35%, eins og að er stefnt, og miðað við að vextir séu óbreyttir. Mér finnst þetta út af fyrir sig vera mjög athyglisvert og vil þess vegna nota tækifærið hér í umr. til að benda mönnum á þessar staðreyndir.

Ef við lítum aftur til þeirra ríkja, sem ég bar okkur saman við fyrr í mínu máli, kemur í ljós, að samkv. hinni þýsku tölfræðihandbók, sem ég hef mínar upplýsingar frá um vexti og verðbólgustig í þessum átta ríkjum, hafa lánakjör í flestum þessara ríkja ærið oft nú á þessum áratug, frá árinu 1970, verið álíka langt eða lengra frá því að ná raunvöxtum, miðað við lán tekið til eins árs, en svarar þeim 4.4% sem upp á mundi vanta hjá okkur miðað við óbreytta víxilvexti og verðbólgustigið 35% hækkun milli ára. Það kemur m.a. í ljós, að bæði í Bretlandi og í Japan hafa komið ár nú á þessum áratug þar sem full 10% hefur vantað upp á að raunvextir væru greiddir af lánum sem tekin væru til eins árs. Í Bretlandi hefur ástandið verið þannig síðustu 4 ár, að til jafnaðar hefur vantað 5.75% á ári upp á að lán tekin til eins árs væru endurgreidd með raunvöxtum. Hjá okkur mundi vanta 4.4% miðað við óbreytta vexti og ef verðbólgan væri komin niður í 35%. Í Belgíu má á síðustu 6 árum finna tvö ár þar sem meira en þessi 4.4% hefur vantað upp á raunvexti, og í Sviss gildir þetta um þrjú ár af síðustu 6 árum.

Þetta, sem ég hef hér rakið um ástand í öðrum ríkjum, eru aðeins nokkur dæmi til fróðleiks sem sýna hversu fjarri því fer, að raunvextir séu almennt greiddir af lánum í þeim ríkjum sem ýmsum þykja til fyrirmyndar um fjármálastjórn. En við þetta bætist síðan að sjálfsögðu að það þ jóðfélagsástand, sem við búum við, er á svo margan hátt gjörólíkt því sem um er að ræða í öðrum ríkjum, þeim sem tekin voru hér til samanburðar eða öðrum, og okkar efnahagslíf með býsna mikið öðrum brag. Þær sérstöku aðstæður, sem hér ríkja, gera það að sjálfsögðu að verkum, að það er mun hættulegri lækning hér hjá okkur gagnvart atvinnulífinu í landinu ef allt í einu ætti. að stíga það skref að taka upp raunvexti án þess að mjög verulegar breytingar eigi sér stað í öðrum efnum.

Ég lít svo á, að lausn vandamálsins hljóti að vera sú, að setja fram tillögur, alhliða tillögur um samræmda sókn gegn verðbólgunni, og vaxtaþátturinn hlýtur að koma inn í þá mynd sem einn af mörgum þáttum. Og ég vil gera mér vonir um að af hálfu þeirrar ríkisstj., sem hér fer með völd og hefur tekið við stjórnartaumum fyrir tveimur mánuðum, verði gengið til þess verks að móta heildartillögur um sókn til að kveða verðbólguna niður. En ég held að ef menn ætluðu sér að lækna þann verðbólgusjúkdóm, sem hrjáir þjóðfélag okkar, með nánast einu pennastriki, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., þá muni fara fyrir okkar efnahagslífi eins og sjúklingi sem verður fyrir því að fá eitthvert allt annað lyf við sjúkdómi en hæfir, stórhættulegt lyf sem getur jafnvel dregið hann til dauða.

Ég læt máli mínu lokið, herra forseti.