06.04.1979
Efri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (3114)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að þakka hv. landbn. fyrir skjóta meðferð þessa máls. Ég skal í upphafi svara því sem kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. n. Hann ræddi nokkuð um ákvæði til bráðabirgða, sem heimilar að lagður verði á fóðurhætisskattur, sem hefur oft verið nefndur eða tollur, en endurgreiddur síðar skv. ákvæði b-liðar. Ég er nokkuð efins um fóðurbætisskömmtun þá sem nú er komin inn í frv., fyrst og fremst vegna þess að hún er nokkuð viðamikil í framkvæmd og það tekur tíma að afla nauðsynlegra gagna sem gert er ráð fyrir að aflað verði frá skattstjórum, undirbúa skömmtunarseðla o. s. frv. Því tel ég mikilvægt, til þess að draga megi úr fóðurbætisnotkun, að slíkt ákvæði er í frv. eins og það kemur frá Nd. Hins vegar er mér að sjálfsögðu fullkomlega ljós vilji hins háa Alþingis í þessu máli og því mun öllum undirbúningi undir skömmtunina, ef ég má kalla það svo, verða hraðað og þetta ákvæði eingöngu notað eins skamman tíma og frekast verður komist af með. Ég vona að þetta svari þeirri spurningu hans.

Út af ræðu hv. frsm. minni hl. skal ég ekki segja mörg orð. Mér finnst að hv. frsm. geri of mikið úr ágreiningi hans og meiri hl., t. d. um brtt. við 1. gr. Nefndi hv. frsm. sérstaklega að minni hl. vildi að í a-lið stæði að ákveða skyldi mismunandi verð á búvöru til framleiðenda „á þann hátt“ en ekki „m. a. á þann hátt“. En svo segir í tillögu minni hl. strax á eftir: „Enn fremur er heimilt, ef þörf krefur, að innheimta verðjöfnunargjald til verðjöfnunar sem má vera mishátt“. Þá eru þær heimildir báðar komnar inn sem eru í till. meiri hl. Því hlýt ég að segja, að ég sé ekki mikinn ágreining á milli þessara tveggja nefndarhluta.

Um 3. mgr. vil ég upplýsa það, að sú mgr., sem gerir ráð fyrir að heimila sérstakar aðgerðir til að auka búvöruframleiðsluna, var í 3. gr. þess frv. sem ég lagði fram, en var felld niður af hv. landbn. á þeirri forsendu að þetta ætti fremur heima í almennri endurskoðun framleiðsluráðslöggjafarinnar. Þetta mun ég taka til greina. Slíkt frv. verður væntanlega lagt fram strax eftir páskana og þá verður sú grein þar inn tekin.

Um 2. brtt. hef ég það að segja, að sannarlega kemur til greina og reyndar ekkert sem bannar að allríflegur fóðurbætisskammtur sé veittur fyrir minni búin. Þarna er hins vegar gert ráð fyrir að 600 ærgilda bú hafi gjaldfrítt hæfilegt magn kjarnfóðurs. Hvað er átt við með hæfilegu magni kjarnfóðurs? Hver á að ákveða það? Ég held að svona ákvæði þurfi langtum nánari skilgreiningar við. Ég er hræddur um að þetta gæti leitt til þess, að kjarnfóður gengi kaupum og sölum á milli þeirra, sem fá þetta hæfilega magn, og hinna, sem fá það ekki. Ég held að þetta sé ákaflega vafasamt. Ég efast um að nokkur treysti sér til að framkvæma slíkt.

Þá vil ég segja um það sem hv. þm. sagði um minni búin, að ég hef hvað eftir annað lagt á það áherslu í ræðum mínum um þessi mál, og það kemur reyndar fram í till. og málflutningi annarra einnig, að að því er stefnt að draga úr framleiðslu stærri búanna. Ég tek undir það með hv. ræðumanni, að að því verður að stefna að draga úr framleiðslu stærri búanna, m. a. vegna þess að við viljum fylgja þeirri byggðastefnu sem hefur verið unnið að undanfarin allmörg ár. Hitt, að efla stærri búin, gengur þvert á þá byggðastefnu, og víða er ástatt þannig að engin röskun má verða umfram það, sem nú er orðið, án þess að valdi stórkostlegum háska í byggðamálum. Ég lít hins vegar svo á, að í till. meiri hl. landbn. felist rúm og fullnægjandi ákvæði einmitt til að haga þessu verðjöfnunargjaldi þannig að minni búin beri byrðarnar léttast, þ. e. a. s. lagt verður meira á stærri búin.

Þá kemur að ákvæði til bráðabirgða. Hv. þm. taldi furðulegt að ég vildi ekki þiggja slíka heimild. Ég hef aldrei neitað því, ef þarna fylgdi jafnframt heimild til að afla tekna. Þetta er hrein markleysa, verð ég því miður að segja, eins og er. Ríkissjóður hefur ekkert annað fjármagn en tekjur hans leyfa. Og mér hefur heyrst það á hv. stjórnarandstæðingum, að ekki muni verða mikill tekjuafgangur í ár. Ef hv. flm. vilja bæta við þessa till. ákvæði um heimild til að afla tekna eftir einhverjum ákveðnum leiðum, þá skulum við skoða málið, þá erum við að tala um alvörumál. Það er af þeirri ástæðu sem ég hef lagst gegn þessu. Ég vil hins vegar segja það, að ég hef ekki treyst mér til að flytja till. um að greiða þennan halla landbúnaðarframleiðslu með því að leggja á víðbótarskatta. Ég er þeirrar skoðunar, að skattheimtan í þjóðfélaginu sé orðin æðimikil og ekki á hana bætandi. Því hef ég ekki treyst mér til þess. Þess vegna hef ég valið þá leið að leita eftir samkomulagi meðal stjórnarflokkanna um lántöku i þessu skyni sem síðan yrði greidd á 5 árum, ekki síst með þeim sparnaði sem ég geri ráð fyrir að verði af útflutningsbótum á þessu 5 ára tímabili. Ég hef metið það svo, að þetta væri raunhæfari leið til að hlaupa undir bagga með þessa miklu erfiðleika bænda. Þess vegna hef ég lýst þeirri till. og það hefur komið fram bæði hér og í hv. Nd., að tveir stjórnarflokkanna hafa þegar samþ. hana. Þriðji stjórnarflokkurinn er með þetta í athugun. Hins vegar hafa fjölmargir þm. þess flokks lýst einnig yfir þeirri skoðun sinni, að þarna beri að hlaupa undir bagga að verulegu leyti, og ég get lýst þeirri sannfæringu minni, að full samstaða muni nást um það mál.