06.04.1979
Efri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Út af ummælum, sem hafa fallið um bráðabirgðaákvæði í frv. eins og það liggur fyrir núna, vil ég taka það fram sem mína skoðun, að ég tel að bráðabirgðaákvæðið sé óhjákvæmilegt, það sé óhjákvæmilegt sem fyrsta aðgerð, eins og staðan í þessum málum er í dag. Ég tel að það sé búið að dragast allt of lengi að hefjast handa um að hægja á framleiðslunni, við getum ekki dregið það lengur, og þess vegna er það mín skoðun að þetta sé óhjákvæmilegt.

Það er alveg gefið að Íslendingar hafa ekki áður staðið frammi fyrir vanda í landbúnaði af því tagi og í þeirri mynd sem hann er í dag. Við getum ekki lengur afsett landbúnaðarvörurnar á skráðu verði, og það munar miklu, það munar 5 milljörðum að áætlað er, á framleiðslu þessa árs sem vantar til þess að útflutningsbætur hrökkvi til að verðbæta landbúnaðarvörurnar að fullu. Þetta er miklu stærri vandi af þessu tagi en við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir, um 5 milljarða, og það er talað um að vanti fjárhæðir sem nemi 1–1.5 millj. á hvern bónda. Þetta er nýtt og þetta er staðreynd, að við stöndum frammi fyrir því að geta ekki leyst þetta þannig að bændur fái að fullu skráð verð fyrir allar sínar vörur.

Til rökstuðnings fyrir þeirri staðhæfingu, að við getum ekki leyst vandann nú eins og þetta hefur verið leyst áður, vil ég minna á tvennt: Annars vegar það, að hæstv. landbrh. hefur skýrt frá tillögugerð sinni um að leysa þennan vanda að 2/3. Það hefur verið rætt í ríkisstj. og verður væntanlega skýrt frá því, að það hefur ekki náðst samstaða um það innan ríkisstj., a. m. k. ekki enn þá, að leysa 2/3 og þá held ég að sé óhætt að slá því föstu, að við munum ekki á þeim grundvelli, sem við störfum á núna, geta leyst þetta að fullu.

Þá finnst mér einnig till. minni hl. um nýtt bráðabirgðaákvæði staðfesta þessa fullyrðingu, að þetta verði ekki leyst að fullu. Í þessari till. er sagt að á árinu 1979 sé heimilt að leggja fram nauðsynlegt fé úr ríkissjóði til þess að greiða fyrir sölu á óverðtryggðri framleiðslu búvara á þessu verðlagsári og birgðum búsafurða sem til eru í landinu þegar lög þessi öðlast gildi. En hvernig þetta ber að hér finnst mér benda til að þetta verði ekki leyst með öðru stjórnarsamstarfi o. s. frv., því það er ekkert minnst á tekjuöflun, eins og hæstv. ráðh. minntist á. Þetta er líka í algeru ósamræmi við stefnu Sjálfstfl. á meðan hann var í ríkisstj. Það þarf enginn að segja mér neitt um það. Ég starfaði i þeirri ríkisstj. og veit að það var ekki stefnan þar þá að greiða ótakmarkað það sem vantaði á útflutningsbætur — alls ekki. Ég held því að við stöndum alveg tvímælalaust frammi fyrir því, að þetta verður ekki leyst á sama hátt og áður með því að grípa til buddunnar, þ. e. a. s. að greiða út úr ríkissjóði einfaldlega það sem á vantar, eins og gert hefur verið s. l. tvö ár, þ. e. a. s. 1977 og 1978, eftir æðimikið samningaþóf innan stjórnarflokka, innan þess samstarfshóps, sem var í meiri hl. í sitt hvort skiptið.

En ég vil vekja athygli á því, að þó að þessi staða sé ný, við höfum ekki áður staðið frammi fyrir þessum vanda á þennan hátt, þá hefur þetta vandamál verið viðfangsefnið áður, legið við dyrnar alllengi, sbr. það að síðustu tvö árin þurfti beinlínis að grípa til aukagreiðslna, 10% útflutningsbæturnar nægðu ekki, einnig með vísun til þess, að oft áður hefur staðið mjög tæpt að þetta tækist, og ætla ég ekki að fara út í það. Vandamálið er þess vegna ekkert nýtt þannig séð. Það hefur áður verið framleitt meira af landbúnaðarvörum en tekist hefur að afsetja á hinu skráða verði.

Skoðun mín er sú, að hvernig sem við veltum þessu fyrir okkur, þá er eitt sem stendur og verður ekki á móti mælt, að það, sem óseljanlegt er á skráðu verði, er framleitt á innfluttu fóðri, — fóðri sem við höfum upp á síðkastið fengið á mjög hagstæðu verði og er tvímælalaust hagstætt fyrir einstaklinginn að nota það. En þegar á heildina er litið veldur það framleiðslu sem ómögulegt er að selja á skráðu verði. Auðvitað verkar þarna fleira inn í. Framleiðslan er mikil af fleiri ástæðum, það vitum við allir, þ. á m. vegna nokkuð góðs árferðis að undanförnu og það hefur ákaflega mikið að segja.

Ég vil líka vekja athygli á því, að bændasamtökin hafa gert sér þetta ljóst fyrir löngu og það eru ein 7 eða 8 ár síðan þetta var tekið nokkuð föstum tökum í bændasamtökunum og gerðar voru ákveðnar till. um aðgerðir í þessu efni. Þá var sett stjórnskipuð n. til þess að endurskoða framleiðsluráðslögin. Hún samdi frv. og það frv. var lagt fram á Alþ. En það var ekki samkomulag um að afgreiða þetta frv., því miður. Það var um allsherjarendurskoðun á framleiðsluráðslögunum og margt fleira gagnlegt sem í því fólst, heldur en ákvæði í þá veru að gera mögulegt að skipuleggja framleiðsluna betur en gert hefur verið. En ég ætla ekki að fara lengra út í það. En ég minni á það, að bændasamtökin höfðu gert sér grein fyrir þessu og málið hefur verið á Alþingi fyrr, og það er vissulega illt til þess að vita, að ekki skyldi þá vera í raun hlustað á þessar raddir og tekið tillit til þeirra og þá þegar tekið upp eitthvert það skipulag sem gerði mönnum mögulegt að hafa hönd í bagga með framleiðslunni. Síðan bændur voru með þennan málatilbúnað eru liðin tvö kjörtímabil. Það hafa tvær ríkisstj. setið að völdum og hvorug treyst sér til að taka á þessu máli í þá veru að gera mögulegar aðgerðir til stjórnunar sem þurft hefðu að vera miklu ákveðnari en nú eru á döfinni, en þær eru mjög veikar. Ég er ekki að segja að þær séu engar. En nú er sem sagt svona komið, eins og ég drap á i byrjun þessara fáu orða, að það verður ekki lengur vikist undan aðgerðum og allir hv. alþm. eru sammála um það, þó að menn greini á um hvernig að skuli standa.

Undanfari þessa frv., sem við höfum haft hér til meðferðar nokkuð lengi í þingi eins og hv. síðasti ræðumaður rakti, eru till. svokallaðrar sjömannanefndar sem var stjórnskipuð og í áttu sæti fulltrúar frá bændum. Ég vil láta það koma fram hér, að í höfuðatriðum var ég meðmæltur þeim till. og hefði talið rétt að Alþ. hefði afgreitt þær í höfuðatriðum eins og þær komu frá þessari n., enda álit ég að þær hafi verið unnar af mönnum, sem hafa mjög náinn kunnugleika á þessu í gegnum sitt starf og höfðu tekið sér æðirúman tíma til að vinna þessar tillögur. En mönnum hefur nú sýnst annað, og m. a. hafa menn viljað taka tillit til ýmissa sjónarmiða sem hafa komið fram, t. d. úr röðum bænda utan forustuliðsins, þ. e. fulltrúa Stéttarsambandsins og stjórnar þess. Við því er auðvitað ekkert að segja út af fyrir sig. En ég vil láta koma fram hér, að ég er ekkert viðkvæmur fyrir aðfinnslum einstakra hagsmunahópa, þó að i bændastétt séu, sem treysta sér ekki til að fylgja þeirri stefnu sem kjörnir fulltrúar þeirra hafa mótað. Ég er ekkert viðkvæmur fyrir því. Mér er ekkert síður kunnugt um það heldur en sumum öðrum þm., hvernig bændasamtökin eru byggð upp. Þau eru byggð upp á breiðum grunni, og þá á ég við kjarasamtökin, Stéttarsambandið. Þeir, sem þar veljast til að mæta á aðalfundum og skipa stjórn, eru menn sem eru kosnir á fulltrúafundum bændanna sjálfra og yfirleitt starfandi í bændastétt. Og þeir, sem sitja í Framleiðsluráði og í stjórn, fá nokkru víðari yfirsýn yfir málin almennt heldur en einstakir hændur, m. a. vegna þess að þeir starfa á þeim slóðum þar sem málum er ráðið til lykta o. s. frv. Ég árétta að ég er ekkert sérstaklega viðkvæmur fyrir aðfinnslum einstakra manna og einstakra hagsmunahópa. En það er hins vegar ekkert við því að segja þótt aðrir líti öðruvísi á það og vilji taka meira tillit til þess heldur en ég tel skynsamlegt. En hvað sem því líður, þá stend ég með þessu frv. eins og það liggur fyrir og vil afgreiða það óbreytt úr því sem komið er.

Við stöndum frammi fyrir nýjum viðhorfum að þessu leyti. Þetta er ill staða. Hún er ill vegna þess að frá upphafi Íslandsbyggðar hefur það verið keppikefli að framleiða sem mest af matvælum og ull til fata o. s. frv. Nú getum við ekki lengur haldið þessa stefnu, sem er eðlileg og jákvæð, heldur verðum að huga að möguleikunum til þess að afsetja þessa vöru. Og ég held að það sé mjög jákvætt og ég er því mjög svo meðmæltur, að í þessari erfiðu stöðu veiti Alþ. bændasamtökunum og viðkomandi rn., landbrn., nokkuð víðtækar heimildir til að glíma við þetta. Það er áreiðanlega alveg laukrétt, sem fram kom t. d. í hv. landbn. og e. t. v. í þessum umr., að það er varla hugsanlegt að þau ákvæði, sem verða sett á þessu þingi undir þessum kringumstæðum, — við erum þarna að takast á við ný viðfangsefni, — þurfi ekki að endurskoða alveg á næstunni. M. a. þess vegna er ég sjálfur persónulega ekki mjög viðkvæmur fyrir því, þó þarna sé ekki hvert einstakt atriði nákvæmlega eins og ég hefði helst kosið að hafa það.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umr.