06.04.1979
Efri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3117)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Jón Helgason:

Herra forseti. Það hefur komið hér fram, að þetta mál er búið að vera lengi til umr. hjá landbn. Alþ., og ég skal reyna að tefja ekki mjög umr. nú. En ég held að í umr. í landbn. eins og víðar hafi það komið fram, að það eru mjög skiptar skoðanir um málið, og það byggist að einhverju leyti á misskilningi. Mönnum eru ekki fyllilega ljósar allar hliðar málsins. Og það var ein setning hjá frsm. meiri hl., hv. 3. þm. Austurl., sem mér fannst sýna nokkurn misskilning. Hann sagði, að bændur hefðu ákveðið að taka á sig tekjuskerðingu vegna mörkunar á útflutningsbótum. Þessi misskilningur felst í því, að menn gera sér ekki fyllilega ljóst hver staða bændanna er. Um kjör þeirra er fjallað í lögum um Framleiðsluráð o. fl., og þar segir að verð á landbúnaðarafurðum skuli miðast við það að bændur hafi sambærilegar tekjur og aðrar stéttir. Síðan bera bændur sjálfir ábyrgð á því að fá þetta verð fyrir vöruna eftir að búið er að skrá það. Eina tryggingin, sem þeir hafa, er síðan 10% útflutningsbótatrygging miðað við heildarframleiðsluverðmætið. Það er vegna þess, að bændur hafa ekki aðra ábyrgð en þessa, að þeir hafa komist í vanda. Framleiðsluráði er falið það vandasama verkefni eftir núgildandi lögum, ef allir fá ekki viðunandi verð fyrir vöruna, allir seljendur á útflutningsmörkuðum, að viðbættri þessari ábyrgð, að grípa til þess óvinsæla verkefnis að jafna á milli og deila hallanum á bændur. Og það hljóta allir að skilja að það er ekki skemmtilegt verkefni eða auðvelt viðfangs, og það er með tilliti til þess, eins og hv. síðasti ræðumaður rakti, að fyrir löngu fóru samtök bænda að vekja athygli á þessum vanda, sem þarna blasti við, og að það þyrfti að gera einhverjar ráðstafanir til að grípa í taumana svo að við lentum ekki í þeim erfiðleikum sem við erum í í dag. Því miður voru þarna allir ekki á sama máli, eins og hv. síðasti ræðumaður rakti. Þetta fékkst t. d. ekki samþykkt hér á Alþ. á sínum tíma þegar það var lagt fram, og það hefur viða komið fram hörð andstaða gegn því siðar. En það er tvímælalaust, að ef einhver úrræði hefðu verið til þess að hafa þarna áhrif á, þá stæðum við ekki í þessum vanda núna. En að mínu mati er það versti kosturinn að þurfa að jafna þessum halla niður á bændur eftir á. Þá eru þeir búnir að leggja það á sig að kaupa rekstrarvörur. Þeir eru búnir að láta vinna þetta í vinnslustöðvum. Ef síðan hið raunverulega söluverð gefur ekki einu sinni vinnslukostnaðinn í vinnslustöðvunum þannig að bændur þurfa til viðbótar rekstrarvörunum, sem það kostar að framleiða þetta, að greiða einhvern hluta af vinnslukostnaðinum, þá eru bændur þarna að taka á sig útgjöld sem þeir gætu komist hjá ef þeir hefðu framleitt heldur minna.

Þetta er, held ég, ástæðan fyrir því, að bændasamtökin hafa lagt áherslu á að reyna að finna leiðir til þess að við lentum ekki í þeim vandræðum sem allir eru sammála um að við stöndum frammi fyrir núna. Og ég held að það sé ákaflega mikil ósanngirni að segja að bændur eða fulltrúar þeirra vilji leggja einhverjar klyfjar á bændur. Allir vilja reyna að leita að þeim leiðum sem geri þeim auðveldast að losna út úr stöðunni eins og hún er í dag og eins og hún hefur blasað við að undanförnu.

Ég skal ekki fjölyrða mikið um þetta frv. Það hafa komið fram ásakanir um það eða fullyrðingar hér hjá sumum ræðumönnum, að þetta væri ekki nógu markvisst, og aðrir hafa svo gefið sínar skýringar á því. Það, sem ég óttast einna helst, er að menn hafi ekki gert sér nægilega góða grein fyrir því, hvernig ætti að framkvæma allar þær hugmyndir sem þarna eru settar á blað. Það verði bæði nokkuð dýrt og ýmis önnur framkvæmdavandamál. En Alþ. hefur sett þetta fram, og þá held ég að Alþ. hljóti að vissu leyti að hafa tekið á sig nokkra ábyrgð að standa á bak við það að þetta sé framkvæmanlegt. Ég vil sem sagt gera þann fyrirvara á samþykki mínu og vekja athygli á því, að það geti verið nokkuð vandasamt að framkvæma sumt af þessu.

Það, sem mér hefur þótt vera mikill galli þegar rætt er um ýmsar leiðir í sambandi við þetta, er ef sjálf framkvæmdin hefur mikinn kostnað í för með sér, því að það eru peningar sem bændur njóta ekki. Það verða einhverjir að greiða þann kostnað. Annaðhvort verða bændur að taka hann á sig eða ríkið og það hefði þá verið miklu betra ef hægt hefði verið að láta það renna beint til bænda heldur en fara í slíkan kostnað sem ríkið greiddi. Ég held að það sé þess vegna áríðandi að reyna að koma þessu eins vel fyrir og hugsanlegt er. En það virðist vera orðið samdóma álit allra, sem þarna eiga hlut að máli, að það þurfi einhverjar ráðstafanir að gera, og innan þess ramma, sem er kominn fram í þessu frv., er um ýmsar leiðir að velja. Þess vegna hljóta þeir, sem vilja reyna að koma bændum úr þessari erfiðu aðstöðu til þess að þeir síðan hafi betri stöðu til að vinna að því að kjör þeirra verði viðunandi og sambærileg við aðra, að fagna því að þarna er sett í lög heimild til þess að leita nýrra leiða. Og eins og hv. síðasti ræðumaður gat um hlýtur að þurfa að endurskoða þetta fljótlega, og það er vitanlega alltaf möguleiki að gera það. Það er sjálfsagt þegar reynslan fer að skera eitthvað úr um hvernig þetta reynist.

Ég vil leggja áherslu á það, að æskilegast væri að gera þetta á jákvæðan hátt, ef svo má að orði kveða, þannig að bændur finni nýjar framleiðslugreinar eða bæti við þær, sem fyrir eru og ekki eru fyllilega nýttar hvað markaðsmöguleika snertir, og geti beint starfi sínu að því að vinna að slíkri framleiðslu, svo að ekki þurfi að hverfa að neikvæðum aðgerðum sem hvers konar hömlur hljóta vitanlega að teljast.