03.11.1978
Neðri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. er getið um það, að meginverkefni ríkisstj. skuli vera að leitast við að koma í veg fyrir auðsöfnun í skjóli verðbólgu. Einnig er rætt um það í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., að ríkisstj. muni leitast við það að jafna lífskjör, auka félagslegt réttlæti, uppræta spillingu, misrétti og forréttindi.

Það mál, sem hér er til umr., er e.t.v. fyrst og fremst flutt til að þjóna þessum markmiðum sem ég gat um í upphafi og má finna m.a. í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. Þegar hefur verið gerð grein fyrir þeim röksemdum, sem mæla með flutningi þessa máls, í framsöguræðu, en ég ætla að nefna í nokkrum orðum þá helstu þætti sem þar koma til.

Í fyrsta lagi ber brýna nauðsyn til að koma á raunvöxtum til að vernda sparifjáreigendur sem hafa tapað stórkostlegum fjármunum á undanförnum árum, — fjármunum sem brunnið hafa upp á verðbólgubálinu.

Í öðru lagi er verið að leiðrétta það misrétti sem felst í aðgangi að bankastofnunum og um leið aðgangi að ódýru fjármagni og veldur misrétti í þjóðfélaginu, misrétti um skiptingu fjármagnsins.

Í þriðja lagi er hér um að ræða baráttu gegn verðbólgu, — baráttu gegn þeirri óðaverðbólgu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum. Það er kaldhæðnislegt hlutskipti forustumanna Alþb. með hv. þm. Lúðvík Jósepsson, 1. þm. Austurl., að berjast gegn baráttu okkar Alþfl.-þm. til þess að leiðrétta þetta misrétti og koma í veg fyrir að braskararnir og stóreignamennirnir geti enn matað krókinn í skjóli lágvaxta í þjóðfélaginu. Þetta er kaldhæðnislegt hlutskipti sem Alþb. hefur tekið að sér, og hefði verið betur ef hér væri enn að finna í sölum Alþingis menn á borð við fyrrv. heilbrrh., Magnús Kjartansson, sem hefur tekið undir með okkur Alþfl.-mönnum um að þessu þurfi m.a. að breyta með raunvaxtastefnu.

Aftur á móti er alveg ljóst að setning laga um raunvexti eina leysir engan vanda. Það þurfa að koma til marghliða ráðstafanir, — ráðstafanir, sem þýða gerbreytta efnahagsstefnu sem miðar að því að eyða verðbólgunni. Einn þáttur þessarar gerbreyttu efnahagsstefnu eru raunvextir. Raunvextir einir sér leysa engan vanda, en raunvextir sem þáttur af meiði gerbreyttrar efnahagsstefnu mundu vinna að því að ráðast með árangri gegn þeirri verðbólgu sem við er að glíma.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, og það kemur fram í grg. fyrir þessu frv., að það sé nauðsynlegt að færa þessa stefnu fram í áföngum. Það verður ekki gert í einu vetfangi að koma á raunvöxtum, það verður að gera í áföngum á þann hátt, að barátta gegn verðbólgu og raunvextir mætist á einum stað. Það mætti t.d. hugsa sér að byrjað yrði á því að hækka vextina hvað varðar fjárfestingarlán. Þá þarf náttúrlega að taka til við að athuga húsnæðislánakerfið og breyta því og aðlaga það breyttum aðstæðum. Lúðvík Jósepsson, hv. 1. þm. Austurl., hafði af því áhyggjur í framsögu sinni, að húsbyggjendur og húskaupendur færu sérstaklega illa út úr þessu, og gaf okkur dæmi um að vaxtagreiðslur væru miklar á þeirra baki. Það er rétt að við gefum Magnúsi Kjartanssyni tækifæri til að svara hv. 1. þm. Austurl. hvað þetta varðar, með leyfi forseta — Magnús segir:

„Í þessu virðist koma fram stuðningur við þá skipan að hver ný kynslóð skuli geta greitt andvirði heillar íbúðar af launatekjum sínum á svo sem 10 árum, og minnir mig að það sé nýmæli að Þjóðviljinn“ — þetta er grein sem birtist í Þjóðviljanum — „taki sér þannig fyrir hendur að styðja stefnu Sjálfstfl. í húsnæðismálum.“ — Hér má segja að Magnús Kjartansson líki hv. 1. þm. Austurl. við það að styðja stefnu Sjálfstfl. í húsnæðismálum. Þetta eru efalaust mikil tíðindi hér í þingsölum. Magnús Kjartansson heldur áfram — með leyfi forseta — í grein sinni:

„Þessi skipan er heimskuleg. En það er engin lausn að gera vexti enn neikvæðari en þeir eru, heldur þarf að gera fólki kleift með tilfærslu á verðmætum að komast yfir íbúð, ekki með þjófnaði á sparifé, heldur fjármunatilfærslu sem styðst við rök. Vissulega hafa óðaverðbólga og neikvæðir vextir gert flestum kleift að eignast íbúð með raunverulegum þjófnaði af sparifé, þ. á m. mér, en það er nýmæli ef stefna Alþb. í húsnæðismálum er krafa um meiri þjófnað.“

Þetta voru merkilegar tilvitnanir í grein Magnúsar Kjartanssonar sem ég hef lesið hér upp. Hann líkir sem sagt stefnu Alþb. í vaxtamálum og að nokkru leyti meginkjarna stefnu Alþb. í efnahagsmálum sem þjófnaðarstefnu, sem sagt Alþb. styðji það enn að rétt sé að halda áfram stórþjófnaði í landinu sem lágvaxtastefna hefur í för með sér.

Í sambandi við umr. um vaxtamálin er rétt að við minnumst örlítið á þá fjárfestingarþróun sem átt hefur sér stað hér á landi í skjóli þeirrar óðaverðbólgu sem hér hefur geisað s.l. ár. Við skulum athuga þrjú lítil nýleg dæmi.

Ekki alls fyrir löngu báðu smjörlíkisframleiðendur og ölgerðir hér í landi um að ríkisstj. og verðlagsnefnd heimilaði hækkanir á framleiðslu þessara fyrirtækja. Öllum er kunnugt hvernig að þessum málum var staðið og hver endirinn varð: Það var ýmislegt fróðlegt sem kom upp á borðið þegar menn ræddu þessi mál og þegar upplýsingar frá viðkomandi stofnunum fóru að berast. T.d. upplýsti einn forsvarsmaður smjörlíkisgerðarinnar að hagkvæmara væri að borga starfsfólkinu kaup og stöðva reksturinn heldur en að framleiða á því verði sem ríkisstj. óskaði eftir að gert yrði. Þetta er eitt lifandi dæmi um það, hvernig komið er í þessu samfélagi okkar, þegar slíkar yfirlýsingar þykja góðra gjalda verðar, að það sé hægt að græða meira á því að stöðva reksturinn heldur en halda rekstrinum áfram. Getur þetta ekki minnt okkur á það, hvað hér er uppi á teningnum? Það, sem er uppi á teningnum, er efalaust það, að það er jafngott að taka því meiri lán og fjármagna reksturinn með þeim mismun sem felst í neikvæðum vöxtum.

Í einu dagblaðinu, þegar skýrt var frá upphafi þessa stríðs, var haft viðtal við einn forsvarsmann ölgerðarinnar, þar sem hann kvartaði mjög yfir því, að nú þyrfti meira fjármagn til að koma fyrir selda þjónustu og selda vöru, en á sömu síðu í sama dagblaði gat hann þess, að nú væri hugmyndin sú, að viðkomandi ölgerð skyldi ráðast í eins og svona eitt stykki nýja fjárfestingu upp á 1.5–2 milljarða kr. Það virðist ekki vera jafn taktur í þeim yfirlýsingum sem þessir aðilar gefa um það sem fyrirtæki þeirra standa að. Á sama tíma og verið er að stöðva framleiðsluna til þess að biðja um hærra verð fyrir framleiðsluna eru gefnar út yfirlýsingar um að nú sé tími til þess að fara út í það að fjárfesta fyrir eins og 1.5–2 milljarða kr. Það er von að einhver spyrji hér í þingsölum: Hvaðan átti það fé að koma sem átti að greiða þessa fjárfestingu, sem örugglega átti að rísa á 1–2 árum? Það skilja allir. Fólk skilur það á götunni, fólk skilur það á vinnustöðum, hvernig þessa fjárfestingu átti að fjármagna. Hana átti að fjármagna með aðstöðu og aðgangi í bankakerfinu, í hinum og þessum sjóðum sem lána með neikvæðum vöxtum, að braska í verðbólgunni vegna neikvæðra vaxta. Ég vil enn benda á að það er kaldhæðnislegt hlutskipti. Alþb.-manna, málsvara stundum verkalýðs og þjóðfrelsis, að þurfa að verða málsvarar þessara fjárfestingarbraskara í þjóðfélaginu.

Það má geta þess hér, að viðkomandi ölgerð er ekki sú stærsta, vegna þess að sú stærsta, sem um getur í samfélaginu, ræður líklega um 80% ölgerðarmarkaðarins, þannig að það mætti reikna með því, að viðkomandi ölgerð mundi ráða um 10%. Samkv. því mætti búast við að sú stærsta stæði í fjárfestingu upp á 10–15 milljarða, ef ekki meira.

En varðandi þá vaxtastefnu, sem Alþb. hyggst halda áfram að styðja og viðhalda, þá þýðir hún það, að haldið mun verða áfram að færa til fjármagn til þeirra sem aðstöðuna og aðganginn hafa að bankakerfinu og sjóðakerfinu án þess að nokkur vinna sé lögð af mörkum. Það er sem sagt ekki vinnan sem er grundvöllur skiptingar á þjóðarkökunni, heldur er það aðstaðan og misréttið. Og ég vil enn benda á að það er kaldhæðnislegt hlutskipti Alþb. að þurfa að vernda þetta skipulag.

Hv. 1. þm. Austurl. ræddi um það, að við Alþfl.–menn hefðum viljað fylgja gengislækkunarleiðinni í stjórnarmyndunarviðræðunum í sumar og neytt þá forustumenn Alþb. til að fylgja þeirri stefnu einnig. Í þessu sambandi er rétt að upplýsa það, að engan Alþfl. þurfti til að fylgja einni eða annarri gengisfellingarstefnu. Gengisfellingin var orðin. Spurningin var eingöngu sú, hvort stjórnmálamenn vildu horfast í augu við staðreyndir og kaldan raunveruleika heldur en flýja og hlaupast frá honum. Vandamálið var að reyna að horfast í augu við staðreyndirnar og reyna að taka þær föstum tökum og leysa þann vanda sem að höndum bar. Því spyr ég hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson: Er hv. þm. Lúðvík Jósepsson tilbúinn að taka undir með okkur Alþfl.-mönnum að nota það svigrúm, sem brbl. ríkisstj. gáfu til þess að taka upp gerbreytta efnahagsstefnu, eins og málefnayfirlýsing ríkisstj. kveður á um, fyrir næsta ár og þau næstu, til þess að ráðast að verðbólgunni og til þess að koma í veg fyrir að við þurfum að standa aftur að gengisfellingum, án þess við getum nokkuð að gert, þannig að gengisfellingin verði þegar orðin? Þetta eru orð í tíma töluð, þegar bent er á að við tökum nú höndum saman í ríkisstj. sem annars staðar til að ná fram samræmdum aðgerðum til að vinna bug á verðbólgunni.

Það var einnig talað um það í umr. um þessi mál, að hávaxtastefnan eða raunvaxtastefnan væri við það að ganga af íslenskum iðnaði dauðum. Það er rétt að við athugum þessi mál öllu nánar. Ætli það séu ekki ýmsar aðrar ástæður, sem eru að ganga af íslenskum iðnaði dauðum, heldur en vaxtakjör í þjóðfélaginu? Ætli séu ekki möguleikar til þess, að sú lágvaxtastefna, sem ríkt hefur í landinu á undanförnum árum, hafi þýtt það, að fjármagn, sem lánað hefur verið til uppbyggingar í framleiðslu í iðnaði, hafi farið í allt aðra hluti, óarðbærar fjárfestingar eins og verslunarhallir og annað álíka? Kann ekki að vera, að iðnfyrirtækjum, sem hafa fengið fjármagn að láni til þess að styðja og styrkja framleiðsluna, hafi á einn eða annan hátt þótt skyndilega betra vegna verðbólgunnar og kannske vegna þess að það mundi ávaxta sig betur að eyða fjármagninu í óarðbæra fjárfestingu eins og verslunarhallir og annað húsnæði? Einnig hefur hinn hömlulausi innflutningur á fullunnum vörum, sem hér hefur verið á undanförnum árum, leitt til þess, að hér ríkir óeðlilega mikil samkeppni við íslenskan iðnað á markaðnum, sem þýðir það að íslenskur iðnaður á í höggi við niðurgreiddar innfluttar iðnaðarvörur. Enn kemur það til, hvaða stefnu stjórnvöld hafa fylgt á undanförnum árum gagnvart iðnaðinum varðandi það að kaupa fullunna vöru að langmestu leyti utanlands frá, en sniðgengið íslenskan iðnað.

Hér hef ég nefnt þrjár ástæður sem fyrst og fremst hafa valdið því, að íslenskur iðnaður stendur jafnhalloka og hann gerir í dag. Þetta eru allt atriði sem þarf að taka föstum tökum. Það eru ekki háir vextir í þjóðfélaginu sem fyrst og fremst fara illa með iðnaðinn, heldur eru það fyrst og fremst þessi þrjú atriði, sem ég var að benda á. Og síðast en ekki síst hefur verðbólgan þýtt það, að hún brenglar allt verðmætamat í fyrirtækjum þannig að fjármagnið fer allt aðra leið en það á að fara, og ein ástæða þess er sú, að fjármagnið er fengið með tombóluvaxtakjörum.

Hv. 1. þm. Austurl. velti því einnig mikið fyrir sér, hverjir það væru fyrst og fremst sem fyndist þeir þurfa að spara. Hann benti síðan á að til væru ýmsar leiðir í þjóðfélaginu til að spara utan þess að leggja fé inn á almennar sparisjóðsbækur með almennum vöxtum. Svo virðist sem hv. 1. þm. Austurl. hafi ýmsar leiðir til að benda fólki á, hvernig hægt sé að spara, — leiðir sem flestum séu ókunnar, — og hann tekur sig nú e.t.v. til og ritar kynningarbækling um það til þess að mögulegt verði að upplýsa fólk öllu betur um hvaða leiðir það getur farið til að spara. Það fólk, sem ég þekki, þekkir ekki þær leiðir til að spara sem lágu í orðum hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Það sniðgengur það að spara vegna þess að sparnaður þýðir tap. Það fólk, sem aftur á móti er alið upp við það að spara, er gamalt fólk, sem hefur viljað lifa sjálfstæðu lífi og eiga fyrir sínum þurftum og hefur viljað standa á eigin fótum í ellinni. Þetta fólk hefur lítið á bankastofnanir sem geymslu á peningum til að nota síðar. En hvernig er farið með það fjármagn sem þetta fólk leggur þannig til hliðar? Það er brennt á báli verðbólgu eða brennt í óarðbærri braskfjárfestingu stóreignamanna í landinu, en hagsmuni þess hóps ber Alþb. sérstaklega fyrir brjósti. Aftur á móti höfum við Alþfl.-menn borið hagsmuni þessa gamla fólks sérstaklega fyrir brjósti og viljum vernda sparifé þess. Við berum ekki hagsmuni stórbraskara fyrir brjósti. Það hefur venjulega verið hlutskipti Sjálfstfl. að gera það. En það virðist eins og Sjálfstfl. sé að bætast þarna bandamaður.

Herra forseti. Ég taldi ástæðu til að vekja athygli á nokkrum atriðum þessa máls. Sérstaklega vildi ég vekja athygli á vonbrigðum mínum með Alþb. varðandi þetta mál. Hér komum við inn á hina almennu baráttu fyrir kjörum verkafólks, fyrir því að misréttið verði upprætt og fyrir því að jafnrétti megi sín einhvers í þessu landi. Spurningin fjallar einnig um það að hefta á allan mögulegan hátt aðgang braskaranna, aðgang stóreignamannanna að fjármagninu til þess að þeir geti haldið áfram að efla sitt ríkidæmi. Ég hefði fremur kosið að eiga Alþb. sem bandamann á þessum vettvangi eins og oft áður í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum verkafólks og annarra launþega. Ég vona að það þurfi ekki að koma oftar til hér, að Alþfl. og Alþb. greini á um jafnmikilvæg grundvallaratriði og í þessu efni. Ég vonast aftur á móti til þess, að þessum tveimur öflum megi auðnast að ná góðu samstarfi saman í ríkisstj. um þær leiðir sem þarf að fara til þess að ná árangri gegn óðaverðbólgu sem nú geisar. Það má vel vera, að þær leiðir séu margar sem megi athuga. En eitt er víst, að eina von launþega í þessu landi, til þess að verðbólguna megi hemja, er sú, að Alþb. og Alþfl. nái samstarfi og nái árangri. Þetta eru þau grundvallaratriði sem við skulum hugleiða nú á þessari stundu og á næstu dögum. Ég vona að þessum tveimur öflum megi auðnast að ná þessu samstarfi og finna þær réttu leiðir sem duga til að hemja þá verðbólgu, sem hér geisar, og styðja og styrkja kjör hinna lægst launuðu og þeirra, sem á einn eða annan hátt hafa orðið undir í samkeppninni um aurana á undanförnum árum.