06.04.1979
Efri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3991 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ef svo hrapallega skyldi nú til takast að hin ágæta brtt. sjálfstæðismanna yrði ekki samþ. og hins vegar kæmi flatur skattur á fóðurbæti, þá langar mig til að spyrja hæstv. landbrh. hvort haft hafi verið samráð við fulltrúa fugla- og svínaframleiðenda sem eiga allt sitt undir þessari afgreiðslu. Þeir eru einir af þeim fáu sem ekki þurfa á aðstoð ríkisins að halda til þess að framleiða sína vöru. Ég held að grundvöllinn þurfi e. t. v. að endurskoða með tilliti til þess, að við neytum örugglega orðið meira nú af kjúklingum og svínakjöti heldur en reiknað var með þegar vísitölugrundvöllurinn var gerður, og á þann hátt mætti e. t. v. spara nokkurt fjármagn. Nú langar mig til að fá að vita hvað verður gert hvort þeir fái endurgreiðslu þannig að þeir geti haldið áfram sínum rekstri án þess að kjöt þeirra sé niðurgreitt og hvað hæstv. ráðh. geti sagt mér í því efni.

Enn fremur langar mig til að spyrjast fyrir um hjá hæstv. ráðh. hvort nokkuð hafi verið athugað um skyndilega takmörkun á smjörframleiðslu á þann hátt að mjólkurbúin gerðu samninga við bændur um að þeir minnkuðu fóðurbætisgjöf og litið yrði til þeirra á einhvera hátt í því sambandi, vegna þess að ég held að eitt mesta vandamál, sem verið er að fást við núna í þessum efnum, sé einmitt smjörbirgðirnar. Í staðinn fyrir að selja smjörið út á 300-400 kr. kg væri öllu heillavænlegra að minnka framleiðsluna og bæta bændum skaðann og éta okkar smjörbirgðir sjálfir frekar en að draga þetta úr hófi fram og safna alltaf meiri og meiri birgðum.