06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3997 í B-deild Alþingistíðinda. (3146)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um stjórn efnahagsmála o. fl. Eins og hér hefur komið fram varð n. ekki sammála um afstöðu til málsins. Fulltrúar stjórnarflokkanna styðja frv., en starfandi formaður n. þó með fyrirvara sem hann mun gera hér grein fyrir. Við fulltrúar Sjálfstfl. í n. skilum séráliti sem ég mæli hér fyrir. Það álit er á þskj. 530.

Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl. n., að frv. þetta hefur verið mikið til umfjöllunar bæði innan þings og utan, og af þeim sökum þótti honum ekki ástæða til að fara um það mörgum orðum. Þetta er nú einmitt einkennandi fyrir hin nýju vinnubrögð á Alþ., að málin eru rædd úti í bæ og ákvarðanir um þau jafnvel teknar þar áður en þau koma til umr. hér í þinginu. Ég get nefnt dæmi um þá óvirðingu, sem einn af meðlimum fjh.- og viðskn. Ed. sýndi n. þegar mál þetta var til umfjöllunar á sameiginlegum fundum nefndanna.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason sýndi nefndinni og Alþingi óvirðingu með því að mæta aðeins á einum hinna sameiginlegu funda. Ég held að honum hafi þótt mikilvægara að sitja fundi úti í bæ um þetta frv. með félaga sínum og vini og koma þá kannske við í pylsuvagninum. Fyrir þessum vinnubrögðum standa þeir menn sem boðuðu siðvæðingu í störfum þingsins, breytta starfshætti, sem auka skyldu veg þess og virðingu. Ef þeir halda að þetta sé leiðin til þess, þá fara þeir villir vegar.

Þetta frv. á sér sögulegan og óvenjulegan aðdraganda. Það er komið frá hv. Ed. sem gerði á því nokkrar breytingar sem ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að fara hér sérstaklega út í, enda hefur verið gerð nokkur grein fyrir þeim. Það eru reyndar ekki einu breytingarnar sem orðið hafa á vegferð frv. Frá fyrstu drögum hefur það tekið veigamiklum breytingum. Sumar þeirra, sem gerðar voru í Ed., kunna að vera til bóta, aðrar eru til þess að draga úr málskrúðinu og enn aðrar eru einskis virði og virðast gerðar til þess eins að sætta til málamynda hin mjög svo ólíku sjónarmið stjórnarflokkanna. Ég held að það skýri kannske nokkuð þetta mál ef ég geri nokkra grein fyrir breytingum á frv.-drögunum frá því sem þau voru í febr. og frv. eins og það var lagt fyrir Alþ. Ég kem þá kannske að einhverju leyti inn á breytingarnar sem gerðar voru í hv. Ed.

I. kaflinn er óbreyttur. En eins og margnefnt hefur verið er sá kafli óþarfur og unnt að framkvæma allt, sem þar er sagt, án lagafyrirmæla.

II. kafla hefur hins vegar verið breytt í verulegum atriðum. Kjaramálaráð, sem gert var ráð fyrir í fyrstu frv.-drögum, fellur niður og óákveðið samráð við aðila vinnumarkaðarins kemur í staðinn. Þessum breytingum hefur t. d. Vinnuveitendasamband Íslands mótmælt og telur ákvæði þessa kafla algerlega óviðunandi. Segir í ályktun þess: „Með tilliti til fenginnar reynslu er líklegt, að þau séu eingöngu sett í því skyni að útiloka raunverulega aðild Vinnuveitendasambandsins að þeirri umfjöllun um kaup- og kjaramál, sem fara ætti fram á þessum vettvangi.“ — Allt er þetta hins vegar þóknanlegt Alþýðusambandi Íslands, enda komið beint til móts við óskir þess þegar kaflanum var breytt. Og eins og segir í ályktun þess virðist í þessari nýju útgáfu fyrirkomulag samráðsins komið í viðunandi horf.

III. kaflanum, um ríkisfjármál, var allnokkuð breytt, reyndar mikilvægar orðalagsbreytingar gerðar á 8. gr. Þær breytingar draga hins vegar mátt úr ákvæðunum. Áður stóð ákvæði í lögunum um að skyldur ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða eða sérstakra verkefna skyldu tekin til endurskoðunar í því skyni að framvegis skyldu framlögin ákveðin í fjárl. ár hvert. Nú stendur: „tekin til endurskoðunar, og það kannað, að hve miklu leyti fjárframlög“ o. s. frv. Frekari viðbótarfyrirvara er svo hætt inn síðar í greinina. Annars má segja um ákvæði þessa kafla, að flest af því, sem þar er nefnt, sé unnt að gera án sérstakra lagafyrirmæla. Þessi ákvæði um endurskoðun lagaskyldu um fjárveitingar eru orðin svo máttlaus, að þau skipta ekki lengur máli. Slíka endurskoðun má framkvæma án lagafyrirmæla og engin ákvörðun felst í 8. gr. Svo var í þessum kafla hið dæmalausa ákvæði um eignakönnun, en það var hins vegar fellt niður.

Breytingarnar voru ekki verulegar á IV. kaflanum, en ákvæði þessa kafla eru að miklu leyti lýsing á vinnubrögðum sem þegar eru viðhöfð, og að því leyti sem um nýjungar er að ræða er óþarfi að setja um þær lagafyrirmæli.

V. kaflinn er nýr frá fyrri drögum, en er einstaklega óskýr. Það kerfi áætlana, sem þar er gert ráð fyrir, er svo flókið að það hlýtur að verða óframkvæmanlegt í reynd. Það er ekki ljóst hvaða tilgangi þessar áætlanir eiga að þjóna, hvort þær eiga að vera vísbendandi. Ef svo er þarf engin lagaákvæði um þær, og miklu auðveldara fyrirkomulag er unnt að hafa. Eigi þær hins vegar að vera fyrirskipandi, en til þess benda ákvæði ýmissa annarra greina, t. d. eftirlit Framkvæmdastofnunar með framkvæmdaáætlunum í 27. gr. frv., þá þurfa ákvæðin þar um að vera skýr. Það er ekki kunnugt að nein svipuð ákvæði um áætlanagerð sé að finna í löggjöf nágrannalanda okkar né að neitt slíkt fyrirkomulag tíðkist.

VI. kaflinn, sem fjallar um peninga- og lánamál, hefur nokkuð breyst. Það er bætt í hann mjög veikjandi málsl. í 30. gr., sem gerir ákvæðin um aukningu peningamagns i umferð nánast marklaus. Annars er þessi kafli í heild með öllu tilgangslaus. Þar eru sett fram stefnumið sem annaðhvort er þegar að finna í seðlabankalögum eða ríkisstj, getur sett sér og Seðlabanka hvenær sem er án lagasetningar. Tveggja ára áætlanir um útlán og þróun lánamarkaðar er unnt að gera án lagasetningar. Eina ákvæði þessa kafla í upphaflegu drögunum, sem lagasetningu þurfti um, er heimild til aukinnar bindingar. Það hefur verið fellt niður í núverandi útgáfu. Einnig hefur ákvæðið um aukningu peningamagns, sem raunar á alls ekki heima í lögunum, verið útþynnt svo mjög í sinni núverandi mynd að það má teljast nánast markleysa.

Þá kemur VII. kaflinn, um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Þessi kafli er í meginatriðum óbreyttur frá upphaflegu frv. hæstv. forsrh. Samkv. áliti Seðlabankans var mikilvægt að koma að þremur atriðum í sambandi við verðtryggingu til þess að gera hana framkvæmanlegri en hún er samkv. núv. heimildum í lögum nr. 71/1966. Fyrsta atriðið er að verðtrygging skuli almennt heimil í skriflegum skuldbindingum manna á milli þar sem skuldarinn greiði peninga. Þessi ákvæði eru í 34. gr. frv. Til þess skorti heimild í lögunum frá 1966, og framkvæmd slíkrar verðtryggingar, einkum í sambandi við sölu nýbygginga, hefur byggst á úrskurðum dómstóla. Þessi breyting er því mikilvæg. Annað atriðið er að lögin frá 1966 settu ýmsar takmarkanir á verðtryggingar, — takmarkanir sem eru til óþæginda við almenna framkvæmd verðtryggingar, þ. á m. um tímalengd lána og tegund veða. Samkv. þessum kafla falla slíkar takmarkanir niður. Þriðja atriðið er að samkv. lögunum frá 1966 var alls ekkí gert ráð fyrir að verðtrygging næði til skammtímalána, svo sem stuttra víxla. Af þessum sökum varð Seðlabankinn að byggja ákvarðanir sínar um verðbótaþátt vaxta í reglum sínum frá 1977 á almennum vaxtaákvæðum í seðlabankalögunum. Þetta var erfitt í framkvæmd og lagagrundvöllur auk þess hæpinn. En nú koma ákvæði um verðbótaþátt vaxta beinlínis fram í 39. gr. frv.

Um kaflann í heild má annars segja að hann sé allflókinn og hefði sjálfsagt verið unnt að gera hann einfaldari. Þar við bætist að framkvæmd almennrar verðtryggingar hlýtur að vera mjög erfið og varasöm, eins og reynsla annarra þjóða hefur sýnt. Ef framkvæma á almenna verðtryggingu er forsendan sú, að hún nái til allra lána, til skamms jafnt sem langs tíma, og engin tegund lána sé undanþegin. Að öðrum kosti má gera ráð fyrir að alvarlegt misvægi myndist á milli verðtryggðra innlána bankanna annars vegar og óverðtryggðra útlána hins vegar.

VIII. kaflinn fjallar svo um verðbætur á laun. Þessi kafli setur lagaákvæði um verðbætur, þar sem aftur á móti er gert ráð fyrir að grunnlaun séu ákveðin með samningum. Frádráttarhliðin varðar breytingar búvöruverðs vegna vinnuliðar verðlagsgrundvallar búvöru og breytingar á áfengis- og tóbaksverði eins og áður. Við bætast svo áhrif skatta til niðurgreiðslu á olíu eða útgjöld vegna hennar án skattbreytingar, enn fremur 1/3 hluti breytingar vísitölu viðskiptakjara. Niður falla hins vegar fyrri ákvæði frv.-draganna um áhrif breytinga á óbeinum sköttum og niðurgreiðslum og um frestun hækkana umfram 5%. Sú breyting var einnig gerð í hv. Ed. á 2. tölul. 49. gr., að þar falla niður orðin „eða til annarra ráðstafana til þess að milda áhrif hækkunar olíuverðs innanlands“. Þessi hreyting varðar atvinnureksturinn og er auðvitað í samræmi við þá stefnu hæstv. ríkisstj. að gera atvinnurekstrinum í landinu eins erfitt fyrir og mögulegt er.

IX. kaflinn er svo um vinnumarkaðsmál. Með 52. gr. er sett á stofn ný ríkisstofnun sem gæti orðið heilmikið bákn. Ákvæðin um tilkynningarskyldu vegna fækkunar starfsmanna hljóta að verða mjög íþyngjandi fyrir atvinnuvegina. Vinnuveitendasambandið bendir á að slík ákvæði séu óframkvæmanleg með öllu. Slíkt ákvæði takmarkar um of svigrúm til virkrar stjórnunar fyrirtækja og er óframkvæmanlegt, svo sem í fiskiðnaði, byggingariðnaði og eflaust fleiri atvinnugreinum.

Þá kemur næst að kaflanum um verðlagsmál. Hann hefur að vísu tekið verulegum breytingum í hv. Ed., eins og ég sagði. Verðlagsstjóri kom á fund n. og gerði þar grein fyrir skoðunum sínum þegar sá kafli var ræddur. Ég verð að fara nokkrum orðum um núverandi 59. gr. frv. eins og hún var í upphaflega frv., sérstaklega vegna þess að fulltrúar Alþb. í fjh.- og viðskn, lýstu þar þeirri skoðun sinni að allt væri þar til bóta frá gildandi lögum. Mér sýnist þess vegna rétt að rekja með nokkrum orðum í hverju aðdáun þeirra er fólgin, eins og ætlunin var að þessi grein færi í gegnum þingið.

Verðlagsstjóri tók fram á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn., að ekkert samráð hefði verið við hann haft um gerð þeirra breytinga á lögun nr. 56/1978, um verðlag og samkeppnishömlur, sem X. kafli frv. þessa fjallar um. Í 58. gr. frv. var kveðið á um að það skyldi vera meginregla að vöruverð væri háð verðlagsákvæðum. Enn fremur kom fram í sömu grein, að frá þessari reglu mætti ekki víkja nema með samþykki ríkisstj. Ef framfylgja ætti svona ákvæði samkv. orðanna hljóðan verður ekki betur séð en ekki sé aðeins verið að ganga þvert á það sjónarmið sem lá að baki samþykkt laganna frá því í maí 1978, heldur væri gengið mun lengra í átt til opinberrar verðákvörðunartöku en felst í þeim lögum um verðlagsmál frá árinu 1960 sem enn er starfað eftir. Breytingin virðist stefna að því, að tekið verði upp sama verðákvörðunarkerfi og notast var við á stríðsárunum og næstu ár á eftir, þegar vöruskortur og skömmtun var ríkjandi. Aðrir kaflar frv. taka mið af allt öðrum þjóðfélagsaðstæðum. Auk þeirrar breyttu stefnumörkunar að láta verðmyndun undir opinberu eftirliti víkja fyrir opinberum verðákvörðunum að öllu leyti fólst í 58. gr. innbyrðis mótsögn, jafnframt því sem greinin svo breytt yrði í algeru ósamræmi við aðrar greinar laganna um verðlag og samkeppnishömlur.

Að því er lýtur að fyrra atriðinu, þ. e. innbyrðis mótsögnum í 58. gr., var í 2. mgr. talað um að meginreglan skyldi vera verðlagsákvæði, en í 3. mgr. tekið fram að verðlagsákvæðum skyldi aðeins beitt við sérstakar aðstæður.

Um síðara atriðið er það að segja, að breytingin gengur þvert á ýmsa kafla laganna frá 1978. Það má benda á það atriði því til staðfestingar, að í II. kafla verðlagslaganna er kveðið á um að ákvörðunartaka í öllum málum skuli vera í höndum samkeppnisnefndar og verðlagsráðs. Með breytingunni, þ. e. að samþykki ríkisstj. þurfi að koma til, er gengið gegn því ákvæði. Í III. kafla laganna er gert ráð fyrir að Verðlagsstofnun eigi að örva verðskyn neytenda, efla verðsamkeppni o. fl. Það er ekki ljós tilgangur þess að örva verðskyn og samkeppni á sama tíma og njörva skal niður allt vöruverð með miðstýrðum ákvæðum. IV. kafli laganna frá 1978 fjallar eingöngu um samkeppnismál. Ekki verður séð hver þörf er fyrir slíkan kafla ef breyting sem þessi ætti að verða gerð.

Með breytingum á lögum nr. 56/1978 í samræmi við 58. gr. frv. verður að líta svo á að allar forsendur laganna séu raunverulega brostnar og því tilgangslaust að láta þau taka gildi. Höfuðatriðið er að hér átti að sameina í einum lagabálki tvö gagnstæð sjónarmið sem engan veginn fara saman. Ef það er vilji Alþingis í svona máli að stefna í aðra átt en gert var í fyrra væri auðvitað eðlilegast og réttast að semja nýja löggjöf í samræmi við breytt sjónarmið.

Verðlagsmál hafa á undanförnum áratugum mótast um of af pólitískum ákvörðunum. Pólitískar verðlagsákvarðanir hafa ekki haft að markmiði að halda verðlagi í skefjum þegar til lengri tíma er litið, heldur byggst á vísitöluleik frá degi til dags og sjónhverfingum gagnvart neytendum. Þessi vinnubrögð hafa haft mjög óheillavænleg áhrif á þróun verðlagsmála og í sumum tilvikum sett þau í algerar ógöngur, svo sem í innflutningsversluninni, útseldri vinnu iðnmeistara, en mörg fleiri dæmi mætti nefna. Með þessu er ekki verið að segja að Alþ. og stjórnvöld eigi ekki að marka heildarstefnu í verðlagsmálum okkar í tíma. Hins vegar eiga verðákvarðanir að öðru leyti að byggjast á faglegu mati, eins og þekkist meðal allra okkar nágrannaþjóða. Ef þau sjónarmið væru höfð í fyrirrúmi gæti verðlagseftirlit náð meiri árangri en nú er.

Ég held að það, sem ég hef verið að segja, sé mjög í samræmi við þær ábendingar sem komu fram hjá verðlagsstjóra á fundi fjh.- og viðskn. En það virðist sem meiri hl. eða fulltrúar stjórnarflokkanna hafi ekki treyst sér til að bera fram kaflann óbreyttan. Því hafa þeir gert breytingar á 58. gr., sem nú verður 59. gr., en meginbreytingin stendur þó óbreytt, þ. e. að Alþ. lætur sér ekki nægja að móta stefnuna í verðlagsmálum og fela síðan faglegri nefnd að útfæra hana, heldur er kveðið á um að ríkisstj. skuli hafa veruleg bein áhrif á ákvörðunartöku verðlagsráðs. Hver hefur reynsla okkar orðið af slíkum afskiptum ríkisvaldsins á verðákvarðanatökur? Í stuttu máli hefur reynslan orðið sú, að afskipti ríkisvaldsins hafa orðið hemill á eðlilega verðmyndun. Verðákvarðanir hafa dregist og jafnvel verið orðnar óraunhæfar þegar þær loksins hafa komið.

Við höfum dæmi um hvernig pólitísk afskipti hafa á klaufalegan hátt sett ýmsar afgreiðslur í hnút. Verðlagsstjóri hefur gert grein fyrir hvernig komið et fyrir innflutningsversluninni, útseldri vinnu iðnmeistara og sumra iðnfyrirtækja. En á þetta er ekki hlustað. Það er sorglegur misskilningur ríkisstj. að gleyma því, að verðlagsyfirvöld eru að fást við afleiðingar, en ekki orsakir. Það dregur ekki úr verðbólgunni þótt einstakir ráðh. og síðan ríkisstj. eyði dýrmætum tíma sínum í að ræða um verðhækkanir. Störf verðlagsnefndar felast fyrst og fremst í því að fást við afleiðingar af gerðum sem þegar eru orðnar að staðreyndum. Ég nefni sem dæmi launahækkanir, erlendar verðhækkanir, gengisfellingar, gengissig, vaxtahækkanir og fleiri orsakir, sem óhjákvæmilega hafa áhrif til hækkunar á verðlagi. Nefndinni er ætlað að veita nauðsynlegt aðhald til þess að hamla gegn því, að umræddar kostnaðarhækkanir fari meira út í verðlagið en brýn nauðsyn krefur. Á hinn bóginn er það ekki nema að mjög litlu leyti á valdi verðlagsnefndar eða annarra verðlagsyfirvalda að vega að sjálfum rótum verðbólguvandans, sem vitaskuld er mest aðkallandi úrlausnarefnið. Það er að mestu leyti á valdi allt annarra aðila í þjóðfélaginu en verðlagsyfirvalda að leysa það verkefni.

Samkv. verðlagslögunum frá í fyrra var ákveðið að verðlagsráð starfaði á faglegum grundvelli, óháð geðþóttaákvörðunum ríkisstj. Mér sýnist að með breytingum á þeim lögum, sem nú á að fara að samþykkja, eigi að halda áfram pólitískum afskiptum af störfum verðlagsráðs. Þessu er ég algerlega andvígur og tel að það standi þeirri ríkisstj. nær, sem er að lögbinda 40% verðbólgu á þessu ári, að ráðast eingöngu að orsökum þeirrar verðbólgu í stað þess að krukka á handahófskenndan hátt í einstakar verðákvarðanir sem neytendur verða síðan að gjalda fyrir í hærra vöruverði.

XI. kafli frv. fjallar um jöfnunarsjóði sjávarútvegsins, þ. e. Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og Aflatryggingasjóð. Þar hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frá fyrri drögum, sem ég hirði ekki um að rekja, enda ekki stórvægilegar. Hins vegar eru gerðar tvær veigamiklar breytingar á lögum um Aflatryggingasjóð. Það er í fyrsta lagi, að heimilt skuli vera að taka tillit til sóknartakmarkana við ákvörðun meðalveiðimagns og sömuleiðis til langvarandi aflaleysis vegna breytinga á fiskigengd og veiðisókn. Í öðru lagi, að heimilað skuli vera að beita fjármagni sjóðsins til þess að verðbæta vannýttar tegundir og leggja gjald á ofnýttar tegundir. Þetta á þó að gerast með endurskoðun laga um Aflatryggingasjóð. Þess vegna er hér í raun aðeins um stefnuyfirlýsingu að ræða. Þessi atriði hæði kynnu að geta orðið til góðs. Það ætla ég ekki að leggja neinn dóm á. En það eru hins vegar engar áætlanir fyrirliggjandi um hvað þau gætu þýtt í reynd.

Ég bendi sérstaklega á í þessu sambandi að fulltrúi Sjómannasambandsins og reyndar Farmanna- og fiskimannasambandsins einnig, sem komu á fund n., bentu á að ekkert samráð hefði verið haft við samtök þeirra um þessar breytingar, þær breytingar, sem þarna voru ráðgerðar, hefðu farið um annarra hendur en hagsmunaaðila. Þessu mótmæltu þessir fulltrúar harðlega. Þeir bentu sérstaklega á að Aflatryggingasjóður væri eign sjómanna og reglur um Verðjöfnunarsjóð hefðu verið settar með samþykki sjómanna, þessir sjóðir hefðu verið stofnaðir með samþykki þeirra. Þess vegna mótmæltu þeir því harðlega, að nokkrar breytingar yrðu þarna gerðar án samráðs við þessi samtök.

Í sem stystu máli má segja að fyrstu 6 kaflar frv. séu með öllu óþarfir. Þar er um að ræða atriði sem þegar eru framkvæmd eða unnt er að framkvæma án lagasetningar, og um er að ræða hreinar stefnuyfirlýsingar sem lagaákvæði eiga ekki við um. Það má raunar segja að með þessum ákvæðum í köflunum og raunar ýmsum fleiri sé verið að „súrra saman“ stjórnarsamstarfið, setja í lög loforð um að þetta og hitt skuli gert. Manni sýnist að lítið vanti raunar annað í frv, þetta en ákvæði um það, hvaða refsingum eigi að beita þá stjórnarliða sem víkjast undan því að standa við það sem þetta frv. setur á loforðalistann.

Í öðru lagi má nefna það, að nauðsynlegt er að endurskoða lögin frá 1966 um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Það hefði best verið gert með sérstakri lagasetningu um verðtryggingu. Frágangur VII. kaflans, um verðtryggingu, eins og hann er nú, er að ýmsu leyti mjög varasamur, svo að ekki sé meira sagt.

Í þriðja lagi nefni ég að um verðbætur á laun, sem VIII. kaflinn fjallar um, þarf nýja lagasetningu, ef á að ákveða verðbætur með lögum. Hin leiðin er þó einnig til, að verðbætur ákveðist með nýjum samningum á milli aðila.

Í fjórða lagi má nefna, að kaflinn um vinnumarkaðsmál — IX. kaflinn — er nýjung sem orkar mjög tvímælis. Miklu eðlilegra væri að setja sérstaka löggjöf um þessi mál en að meðhöndla þau sem hluta af fjölþættri löggjöf.

Í fimmta lagi nefni ég svo kaflann um verðlagsmál, sem þrátt fyrir breytingar kollsteypir í raun þegar samþykktum lögum um verðlagsmál. Eðlilegast hefði verið að breyta þeim lögum sérstaklega, ef vilji er fyrir hendi til þess.

Og í sjötta lagi nefni ég svo það sem segir um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í XI. kaflanum. Það felur i sjálfu sér ekki í sér neina marktæka breytingu frá núverandi lögum, heldur stefnumið.

Að því er snertir Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins er bersýnilega um mikilvægar nýjungar að ræða og þess vegna nauðsynlegt að endurskoða sjálf lög sjóðsins, eins og raunar er gert ráð fyrir í frv., og umfram allt að hafa um það samráð við samtök sjómanna.

Ég hef hlaupið á helstu atriðum frv. og gert nokkurn samanburð á því og fyrri drögum og lauslega drepið á sumar þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í hv. Ed. Það voru haldnir nokkrir sameiginlegir fundir fjh.- og viðskn. beggja d., eins og hér hefur komið fram. Á þá sameiginlegu fundi komu til viðtals við nm. fulltrúar ýmissa samtaka, svo sem Vinnuveitendasambandsins, Verslunarráðs, Sjómannasambandsins, Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sambands ísl. bankamanna, ASÍ, BSRB og BHM, og auk þess kom verðlagsstjóri á fund n., eins og ég áður hef greint frá: Það var nokkuð sameiginlegt í frásögn þessara aðila, að ýmist ekkert eða lítið samráð hefði verið haft við þá um gerð frv. Hins vegar hefur misjafnlega mikið tillit verið tekið til aths. sem þessir aðilar, a. m. k. sumir hverjir, kannske allir, sendu hæstv. forsrh. við hin fyrri drög frv. Það er táknrænt, að ríkisstj., sem haft hefur uppi yfirlýsingar meiri en nokkrar aðrar ríkisstjórnir um nauðsyn samráðs við aðila vinnumarkaðarins, skuli ganga þannig til verks og þannig á bak orða sinna, þegar unnið er að hinum mikilvægustu málum, sem varða hag þessara aðila meira en nokkuð annað.

Fram hjá þeim óþægindum, sem því fylgja að leggja fram frv. án samráðs við þessa aðila, et auðvelt að ganga með því að hæstv. forsrh. flytji frv. í eigin persónu. Það er ekki flutt sem stjfrv. Þegar það svo var flutt af hæstv. forsrh. var hafður uppi töluverður hávaði, einkum af hálfu Alþb. Alþfl. ákvað hins vegar strax að styðja frv. óbreytt og hefur lagt áherslu á að koma því sem hraðast í gegnum þingið, þótt það hafi ekki gengið eins og hann helst óskaði: Nú er sem sagt allt fallið í ljúfa löð að því er virðist, frv. verður samþ. af fulltrúum stjórnarflokkanna. Það er látið í veðri vaka, einkum af hálfu Alþb., að því hafi tekist að gera á frv. veigamiklar breytingar til hagsbóta fyrir umbjóðendur þess, sem það kallar svo, þótt staðreynd sé að hreytingarnar, sem gerðar voru í hv. Ed., séu flestar hverjar hinar smávægilegustu.

Þeir aðilar, sem á fund nefndanna komu og ég hef hér greint frá, höfðu flestir margt við frv. að athuga og lýstu eindregnum mótmælum við ýmis ákvæði þess. Á þessi mótmæli var að sjálfsögðu lítið sem ekkert hlustað. En sumir þessara aðila hafa ótrúlega mikið langlundargeð og teygjanlegt, þegar í landinu situr ríkisstj. sem ber hlýjan hug til þeirra, þótt hún í verki breyti þvert á gefin loforð. Það er býsna einkennilega komið fyrir íslenskri verkalýðshreyfingu. Hún gefur út yfirlýsingar í síbylju um að núv. ríkisstj. megi ekki fara frá vegna þess að hún hafi verið mynduð til þess að tryggja hag verkalýðsins í landinu. Það skiptir sem sagt ekki máli þótt ríkisstj. vinni þvert gegn því sem hún hefur heitið þessum sömu aðilum, hún á bara að sitja. Það er ekki deilt um það lengur, hvort fremja eigi kauprán. Það er deilt um hversu mikið það eigi að vera. Raunar hillir nú undir fullt samkomulag í þeirri deilu.

Þetta frv. er annars sönnun fyrir gjaldþroti þeirrar stefnu sem ríkisstj. hóf störf sín með. Hún byrjaði á því að hækka laun, en síðan lækkaði hún þau aftur og dró úr vísitölugreiðslunum. Niðurgreiðslur voru auknar fyrst í stað. Nú á að draga úr þeim í áföngum. Skattheimtan var aukin strax á fyrstu dögum stjórnarinnar og við það stefnumið er dyggilega staðið.

Frv. þetta stefnir frjálsu athafnalífi í meiri hættu en áður hefur verið gert. Það gerist með ákvæðum frv. um aukin ríkisafskipti af atvinnulífinu, fyrirskipandi áætlanagerð og afskiptum ríkisstj. af verðlagsmálum. Sá vottur af samræmdri stefnu í efnahagsmálum, sem fannst í fyrri frv.-drögum, hefur verið úr lagi færður með veikara orðalagi í ýmsum liðum. Ríkisstj., sem er sjálfri sér sundurþykk, getur ekki framfylgt heillegri stefnu í efnahagsmálum, ef slík stefna væri þá til. Það skiptir þá ekki máli hvaða lagaákvæði kunna að verða sett um slíka stefnu — henni verður aldrei framfylgt. Þetta frv., ef að lögum verður, er þess vegna ekki líklegt til að færa okkur nær því marki að sigrast á verðbólgu eða auka jafnvægi í efnahagsmálum og auka hagvöxt. Það eykur hins vegar ríkisafskiptin og miðstýringuna og grefur undan frjálsu afhafnalífi. Það er svo í samræmi við þá stefnu stjórnarflokkanna að skilja eftir sig sterkari ríkisafskipti, en veikara atvinnulíf.

Minni hl. n. flytur ekki brtt. Slíkt er tilgangslaust þar sem stjórnarflokkarnir hafa þegar ákveðið að samþykkja frv. eins og það er komið frá hv. Ed. Eins og hefur komið fram í nál. meiri hl. hafa einstakir stjórnarliðar fengið heimild til þess að greiða atkv. gegn einstaka greinum frv. Það gera þeir auðvitað til þess að sýna sjálfstæði sitt og síns flokks gegn kaupránsliðum frv. Ég hef grun um að aðrir muni ekki tjá sig. Þeir hafa reyndar sumir hverjir gert það í dagblöðunum, en þeir eru ekkert að hætta á það í þinginu. Hér eru nú viðkvæmir tímar og líf stjórnarinnar hangir á bláþræði. En e. t. v. geta þessir aðilar þó ekki stillt sig.