06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4014 í B-deild Alþingistíðinda. (3149)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Enginn vafi er á því, að þegar ferill þessarar ríkisstj. verður skráður í annála mun það frv., sem hér er til umr., aðdragandi þess og innihald, verða besta sýnishornið um vinnubrögð, samstarf og árangur af sérkennilegasta stjórnarfari sem ríkt hefur um langan tíma hér á landi. Enn nú á síðasta stigi málsins geisa deilur á meðal stjórnarsinna og mismunandi skilningur þeirra á ákvæðum þessa frv. Frv. hefur opinberað einstæða sundrung og tortryggni þeirra manna sem hafa þó bundist samtökum um að stjórna landinu í sameiningu. Það er skjalfest sönnun á hringlandahætti og skoðanaleysi Framsfl., algerri niðurlægingu Alþfl. og ótrúlegri óskammfeilni og undirferli Alþb. Þetta eru stór orð, en því miður sönn. Og það, sem er þó enn verra og dapurlegra, er að afleiðingin af refskák, ráðabruggi og rýtingsstungum stjórnarflokkanna er frv. sem engum árangri mun skila og litlu til leiðar koma.

Meginmarkmið þessarar ríkisstj. voru tvíþætt: Annars vegar að sjá til þess, að gerðir kjarasamningar væru virtir, og hins vegar að dregið skyldi úr verðbólgu. Allt frá því að ríkisstj. settist í valdastólana hefur hún að nafninu til þóst vera að kljást við að hrinda þessum stefnumálum sínum fram. Það hefur verið gert af misjafnlega miklum ákafa eftir því hvaða flokkur á í hlut, með fjölbreytilegum aðferðum í málflutningi, eins og alþjóð hefur orðið vitni að, og nýstárlegum vinnubrögðum, svo að ekki verði meira sagt. Niðurstaðan kemur fram í þessu frv. Hún leiðir í ljós, svo að ekki verður lengur um villst, að hvoru tveggja markmiðið, samningana í gildi og hjöðnun verðbólgunnar, er svikið. Kjarasamningar eru augljóslega skertir og verðbólgan mun geisa áfram nær óhindrað.

Sagt er að frv. sé þriðji áfangi í píslargöngu ríkisstj. í verðbólguslagnum. Mun þá vera átt við ráðstafanirnar 1. sept. og 1. des. og svo nú þetta frv. Mér telst hins vegar til að það frv., sem hér liggur fyrir í endanlegri gerð, sé 8. útgáfan af till. stjórnarflokkanna í efnahagsmálum frá því í des. s. l. Fyrst er þá að telja frv. Alþfl. sem birtist í Alþýðublaðinu í des., till. Framsfl. og Alþfl. sem lagðar munu hafa verið fram í jan., till. ráðherranefndar frá því í lok jan., frv. forsrh. sem lagt var fram 12. febr. s. l., frv. Alþb. sem enginn mátti sjá og merkt var trúnaðarmál, frv. forsrh. sem lagt var fram í mars og svo nú þetta frv. eins og það liggur fyrir eftir verulegar breytingar að höfðu margfrægu samráði við Guðmund J. Guðmundsson, lögskipaðan skapara og verndara þessarar ríkisstj.

Nú skal tekið fram að mín skoðun er að það hafi verið og sé virðingarverð tilraun af hálfu ríkisstj. að grípa til samræmdra aðgerða í baráttunni gegn verðbólgu. Það má ekki gera lítið úr þeirri staðreynd, að án viðtækra aðgerða, sem snerta fleira en launa- og verðlagsmál, verður litlum árangri náð. Að þessu leyti er tilraun til frv.-smíða góðra gjalda verð. Gallinn er hins vegar sá, að stjórnarflokkarnir hafa of ólík viðhorf til lausnar til að geta náð saman, þeir bera of lítið traust hver til annars til að tala saman af hreinskilni og þeir eru of háðir hagsmunasamtökum og eigin yfirlýsingum til að þeir hafi þrek eða aðstöðu til að gera það sem gera þarf. Útkoman verður því sú moðsuða sem hér hefur birst.

Nú væri í sjálfu sér saklaust og mönnum að meinalausu ef frv. gerði engan skaða. En staðreyndin er því miður sú, að stjórnarflokkarnir eru hæði viljandi og óviljandi búnir að flækja sig inn í þetta frv. og telja sjálfum sér trú um að frv., hversu vitlaust sem það sé, verði að afgreiða. Það kom meira að segja upp sú furðulega staða um það leyti sem frv. Ólafs Jóhannessonar var lagt fram í síðasta mánuði, að Framsfl. og Alþfl. hugðust fylgja því frv. fast eftir, enda þótt þeir hefðu nauðugir viljugir gengið til ímyndaðs eða raunverulegs samkomulags um það frv. með skírskotun til þess samkomulags sem átti að hafa átt sér stað í ríkisstj. við Alþb. En á sama tíma sem þessir tveir flokkar, Framsfl. og Alþfl., hengdu sig svo fast í þetta frv. vegna þess samkomulags kannaðist Alþb. ekkert við það samkomulag og hafði stór orð um að það gæti ekki stutt frv. í þeirri mynd sinni. Engu að síður töldu Alþfl.-menn og framsóknarmenn svo mikilvægt að fá frv. samþykkt, hvernig sem það svo efnislega liti út, að þeir voru að því er virtist viljugir og fúsir til að greiða atkv. með ýmsum ákvæðum þess frv. sem stangast gersamlega á við stefnu þessara flokka í hinum ýmsu málaflokkum. Þetta er að hafa oftrú á frv. og lagagerð frv. vegna, en ekki vegna þess sem í því stendur. Og þetta er að taka verkefnin fram yfir efnið, enda í stíl við ýmis þingstörf önnur hér í vetur.

Einn af burtreiðarsveinum Alþfl. kallaði þetta frv. „viðreisn til vinstri“ — og í hverju skyldi sú viðreisn vera fólgin? Í því að draga úr niðurgreiðslum og hækka búvöruverð um a. m. k. 1/3? Í því að efla vald ríkisstofnana og ráðuneyta? Í því að stórhækka vaxtakostnað hjá þeim þúsundum ungs fólks sem leggur nótt við nýtan dag til þess að koma sér upp íbúð? Í því að skerða kjarasamninga og styðja þá kauplækkunarstefnu sem Alþb. hyggst taka upp baráttu gegn? Eða er viðreisnin til vinstri fólgin í því að auka skattpíningu á allan almenning og sauma svo að atvinnufyrirtækjum að atvinna dragist saman? Er það kannske viðreisn til vinstri að lögfesta nú verðbólgu sem ekki verður lægri en 35 og sennilega 40% á þessu ári? Hæstv. viðskrh. hélt því fram í ræðu á miðvikudaginn, að frv. í sinni upphaflegu mynd hefði i raun og veru kveðið á um að stéttabaráttan væri tekin úr höndum verkalýðshreyfingarinnar og færð svokölluðu kjaramálaráði. Skyldi þetta hafa verið viðreisnin til vinstri? Því geta þeir svarað sem hafa smekk og geð í sér til að bendla þetta frv. við viðreisn. Hins vegar tel ég að lýsing á frv. væri betur skýrð með því að nefna það afturhvarf til ofstjórnar. Að svo miklu leyti sem það felur í sér nýmæli og áþreifanlegar aðgerðir einkennist frv. af aukinni miðstýringu, meiri áætlunarbúskap, blindri trú á úrelt verðlagskerfi, vaxandi valdi embættismanna og útþenslu ríkisbáknsins, svo að ekki sé talað um afskipti af gerðum kjarasamningum.

Ég hóf mál mitt með því að lýsa því yfir sem skoðun minni, að þetta frv. skjalfesti hringlandahátt og skoðanaleysi Framsfl. Hæstv. forsrh., fráfarandi formaður Framsfl., talaði áðan og kvartaði undan því, að gagnrýni stjórnarandstöðunnar væri með daufara móti. Ég held að það sé því full ástæða til þess að fara nokkrum orðum um þátt Framsfl. í sambandi við þetta frv. og aðdraganda þess.

Framsfl. stóð að og studdi febrúarlögin 1978 svo og brbl. frá því í maí sama ár. Þessi tvenn lög fólu i sér skerðingu á verðbótaákvæðum launasamninga í þeim tilgangi að stemma stigu við verðbólgu. Í þessu sambandi er það aumkunarverð tilraun af hálfu Tímans og þeirra framsóknarmanna að varpa ábyrgð á þeim lögum yfir á Sjálfstfl. einan. Framsfl. átti þar fullan hlut að máli. Hann verður að axla þá ábyrgð og taka afleiðingunum af því, hvort sem honum líkar betur eða verr. Framsfl. lét sig síðan hafa það að loknum síðustu kosningum að ganga til samstarfs við þá flokka sem fordæmt höfðu þessi lög og unnið sinn kosningasigur út á svigurmæli í garð fyrrv. stjórnarflokka vegna þessara laga. Framsókn lét nota sig í þeirri ríkisstj., sem nú situr, til þess að búa til gervistefnu í sept. s. l. sem knúði samninga aftur í gildi að nokkru leyti. En 4 mánuðum síðar leggur fyrrv. formaður Framsfl. fram frv. sem felur í sér afnám verðbóta og freklegri skerðingu á samningum en febrúar- og maílögin fólu nokkurn tíma í sér.

Í því frv., sem hæstv. forsrh. lagði fram og merkt var honum sérstaklega á sínum tíma, er ein grein sem fjallar um verðbótaákvæði. Ég mun ekki fara nákvæmlega yfir þann kafla, en þar er ákvæði til bráðabirgða sem hefst með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla skal hækkun verðbóta hverju sinni hinn 1. júní,1. sept. og 1. des. 1979 ekki fara fram úr 5% . Fari réttur til verðbóta samkv. 42. og 46. gr. fram úr þessum mörkum, skal sá hluti verðbótahækkunar, sem umfram kann að vera, frestast í 9 mánuði frá hverjum framangreindra daga.“

Það fer ekki milli mála, þegar þetta ákvæði er lesið, að hér er um freklega skerðingu á kjarasamningum að ræða, sem gengur mun lengra en frv. gerir í núverandi mynd, hvað þá maílögin frá 1978 gerðu. Þessu ákvæði hefur nú verið breytt í það horf sem þskj. 453 kveður á um, eftir að Framsfl. og Alþfl. höfðu neitað að taka til greina kröfu Alþb. og Alþýðusambandsins um breytingar þar á. En þrekið og sannfæringin var ekki meiri en svo, að eftir að forusta Verkamannasambandsins hafði fengið sér pylsu niðri í Austurstræti og komið við í ráðherraskrifstofunni í stjórnarráðinu kyngdi forsrh. hæði pylsunum og fyrri staðfestu og breytti þeim ákvæðum sem snúa að verðbótum á laun, með þeim afleiðingum að það litla, sem í frv. stóð um viðnám gegn verðbólgu, er nú horfið. Í öllum þessum hringsnúningi dansar allur Framsfl. eftir nótum þeirrar stefnu að haga seglum eftir vindi og hafa það eitt að markmiði að sitja í stjórn hvað sem það kostar. Og svo eru þeir framsóknarmenn hissa á því þó að fylgi hrynji af flokknum!

Ég lýsti því áðan jafnframt yfir, að ég teldi að frv. opinberaði algerlega niðurlægingu Alþfl. Alþfl. hefur óneitanlega haft hæst um nauðsyn viðnáms gegn verðbólgu. Engin ástæða er til að efast um heilindi og einlægni þeirrar viðleitni. Að vísu eru fyrirvararnir orðnir of margir til að fólk taki mark á þeim og yfirlýsingarnar of barnalegar til að hægt sé að fara eftir þeim, en engu að síður hefur þessum hávaða fylgt hressileiki sem nokkrar vonir hafa verið bundnar við. Þeir Alþfl.-menn hafa vitnað til grg. með frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu sem síns markverðasta sigurs í baráttunni gegn verðbólgunni. Þetta frv. var lagt fram í nóv. s. l., en í grg., sem þeir Alþfl.-menn hafa sí og æ vitnað til sem merkasta áfangans í þessari baráttu, segir m. a.:

Ríkisstj. mun m. a. beita sér fyrir eftirgreindum aðgerðum:

1. Stefnt verði að því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að verðlags- og peningalaunahækkanir 1. mars 1979 verði ekki meiri en 5%.

2. Leitast verði við að ná svipuðum markmiðum fyrir önnur kaupgjaldsbreytingatímabil á árinu 1979, þannig að verðbólgan náist niður fyrir 30% í lok ársins.“

Allir vita að þessu markmiði verður ekki náð. Hæstv. forsrh. hefur viðurkennt í þessum umr., að verðbólgan náist ekki niður fyrir 30%. Þjóðhagsstofnun hefur lagt fram útreikninga um að verðbólgan verði u. þ. b. 35%. Vinnuveitendasamband Íslands hefur spáð því, að verðbólgan muni verða 41%. Ég hygg að sú spá sé næst lagi. Samkv. upplýsingum frá Hagstofu hefur vísitalan frá mars 1978 til mars 1979 verið á bilinu 34–35%. M. ö. o. lögbindur frv. þetta hækkun á vísitölu frá því sem nú er, hvað þá að það nái því marki sem stefnt er að með grg. með frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu.

Varðandi launahækkanir, þar sem sagt er að þær skyldu ekki verða meiri en 5% 1. mars, veit alþjóð auðvitað að það markmið náðist ekki. Launahækkanir urðu 6.18%. Samkv. þeim upplýsingum, sem fram hafa komið í þessum umr., er gert ráð fyrir að laun undir 210 þús. muni hækka 1. júní um 9% og önnur laun um 7%, en síðan er gert ráð fyrir að 1, sept. muni laun undir 210 þús. hækka um 7.5% og önnur laun um 6.5%. Þessar tölur tala skýrustu máli um þá uppgjöf sem ríkisstj. verður að horfast í augu við, þegar frv. þetta er nú komið á lokastig, — uppgjöf í baráttunni gegn verðbólgunni.

Hverju hefur svo Alþfl. fórnað til þess að knýja fram aðgerðir sem lögbinda a. m. k. 35–40% verðbólgu? Jú, hann hefur þurft að gefa eftir af þeirri kröfu sinni, að aukning peningamagns fari ekki fram úr 25–28%, með því að samþykkja þá viðbót sem segir í 30. gr. þessa frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á árinu 1979 skal að því stefnt, að aukning peningamagns í umferð fari ekki fram úr 25%“ — brtt. var flutt um að það verði 28% — „frá upphafi til loka árs að teknu tilliti til árstíðabundinna sveiflna. Á sama hátt skal að því stefnt að vöxtur peningamagns verði a. m. k. 5% hægari á árinu 1980 en á árinu 1979.“ Og síðan kemur rúsínan í pylsuendanum: „Frá þessum markmiðum má þó víkja, ef óvæntar breytingar verða á þjóðarbúskapnum, t. d. þannig, að atvinnuöryggi sé í hættu, eða ef séð er, að forsendur þjóðhagsspár um verðþróun á árinu 1979 standist ekki.“

Þetta kalla þeir Alþb.-menn að ákvæði sé gert skaðlaust. Þetta er árangurinn af baráttu Alþfl. fyrir því að festa í lög takmörkun á peningamagni í umferð.

Annað atriði, sem Alþfl. hefur lagt höfuðáherslu á, er að ákvarðanir i ríkisfjármálum séu við það miðaðar að heildartekjur og útgjöld á fjárl. haldist innan ákveðinna marka. Hafa þeir talað í því sambandi um 30%. Þetta ákvæði er komið inn í frv., sbr. 11. gr., en með þeirri viðbót sem hér greinir:

„Frá þessu skal þó víkja, ef óvæntar og verulegar breytingar verða i þjóðarbúskapnum, og sérstaklega ef ætla má, að hætta sé á atvinnuleysi.“

Þetta telja þeir Alþb.-menn að hefði mátt orða einfaldlega með því að segja: Ef heilbrigð skynsemi krefst annars. — Og þarna er þá enn aftur kominn árangurinn af baráttu Alþfl. til þess að festa i lög ákveðna viðmiðun varðandi ákvarðanir í ríkisfjármálum. Þessu tvennu og mörgu fleira hefur Alþfl. þurft að fórna til að fá fram frv. sem lögbindur allt að 40% verðbólgu. Og hann hefur keypt það enn dýrara verði. Hann hefur þurft að kyngja auknum völdum Seðlabanka, vaxandi miðstýringu hjá rn. og afturhvarfi til úreltrar verðlagslöggjafar.

Alþfl. hefur eitt haldreipi, og það er kaflinn um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. En hvað segir um þetta efni í 36. gr. frv.? Þar segir, með leyfi forseta:

Ríkisstj. ákveður hvaða reglur skuli gilda um rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna að fengnum till. Seðlabankans.“

M. ö. o. er allur kaflinn meira og minna háður því, hvort ríkisstj. samþykki að framkvæma það sem stefnt er að i frv. Það liggur fyrir eftir ræðu m. a. hæstv. ráðh. Alþb., að þeir einblína einmitt á þetta ákvæði til þess að gera kaflann að öðru leyti að engu. Nú vita allir að m. a. fyrrv. ríkisstj. stefndi sömuleiðis að þeim markmiðum sem koma fram í VII. kafla frv. Það stóð í sjálfu sér ekki svo mjög á lagaheimildum í því sambandi, heldur pólitísku samþykki ákveðinna stjórnmálaflokka. Það pólitíska samþykki liggur ekki fyrir enn, enda hefur Framsfl. verið bæði hrár og soðinn í þessu máli, og allir vita um afstöðu áhrifamanna í Alþb., ekki síst eftir að hafa hlýtt á ræður þeirra í sambandi við þetta frv. nú. Ef frá er talið almennt snakk um vinnubrögð í hagsýslustofnun og Þjóðhagsstofnun, almenna áætlanadeild í rn. og lögbindingu á skipun starfshópa stendur lítið sem ekkert eftir í þessu frv sem máli skiptir samkv. fyrri yfirlýsingum Alþfl. Niðurlæging Alþfl. er alger í þessu máli.

Þáttur Alþb. er afar sérstakur í öllu þessu „tragikomíska“ sjónarspili. Kjörorð þeirra: „samningana í gildi“ er svikið með þessu frv. Alþb. á aðild að þessari ríkisstj., en Þjóðviljinn lýsir því hvað eftir annað yfir að bandalagið sé að vinna alls kyns varnarsigra gegn öðrum vondum öflum innan ríkisstj. Þetta er rétt eins og knattspyrnulið, sem tapað hefur með 0:8 mörkum, héldi því fram að það hefði unnið ákveðinn varnarsigur vegna þess að það hefði ekki fengið á sig 10 mörk.

Ég held að fleiri en ég og við í stjórnarandstöðunni veltum því fyrir okkur, hvers vegna Alþb. situr áfram í ríkisstj. sem neitar að taka tillit til þeirrar aðalkröfu þessa flokks og Alþýðusambands Íslands að taka samningana í gildi. Forsrh. stóð hér upp fyrr í dag og lýsti því mjög skilmerkilega hvernig skerðingin kæmi á hærri laun fyrir 1. des., en eftir 1. des. kæmi skerðing á alla jafnt. Með þessum kjaraskerðingarákvæðum, með lögbindingu á þessu frv. hyggst Alþb. greiða atkv. Þeir málsvarar Alþb., sem mestu ráða vegna setu sinnar í ríkisstj., lýsa yfir að þeir muni greiða atkv. með þessu kjaraskerðingarfrv., en þeir muni hins vegar hefjast þegar handa um hatramma baráttu gegn kauplækkunaröflunum. Vitaskuld eiga þeir við hina flokkana í ríkisstj. þegar þeir tala um kauplækkunaröflin. Ég efast um að hægt sé að ímynda sér ómerkilegri málflutning. Allt sem slæmt er í þessu frv. er hinum að kenna, allt gott er okkur að þakka, segir Alþb.

Alþfl. og Framsfl. hafa haldið því fram, að verðbótakaflinn í frv. réði úrslitum í baráttunni gegn verðbólgunni. Það er nokkuð til í því. En nú er svo að skilja og heyra að Alþb. muni hefja sérstaka varnarbaráttu til að fá þessum kafla breytt. Ef þessum stjórnarflokki, sem hingað til hefur ráðið allmikið ferðinni, tekst að ná fram því ætlunarverki sínu, stendur ekkert eftir í þessu frv. sem er til viðnáms gegn verðbólgu.

Hæstv. viðskrh. hældi sér af því að koma kjaramálaráði — og þá væntanlega kjarasáttmála Alþfl. — fyrir kattarnef. Hann hefur haldið því fram tæpitungulaust, að heilbrigð skynsemi hefði orðið ofan á í stað villukenninga krata í sambandi við veigamestu ákvæði frv. Hann dró ekki fjöður yfir það, að Alþb. hefði gert hugmyndir Alþfl. skaðlausar varðandi ríkisfjármálin, varðandi peningamagn í umferð. Hæstv. viðskrh., hældi sér sérstaklega af því að hafa komið í veg fyrir að nútímalegri verðlagslöggjöf tæki gildi sem fyrst. Það var reyndar afar fróðlegt að hlusta á velþóknun ráðh., þegar hann tíundaði það skilmerkilega að honum hefði tekist að breyta því ákvæði í verðlagslögunum sem gerði ráð fyrir að álagning og verðlagsákvarðanir tækju mið af því að fyrirtækin gætu skilað hagnaði. Hans skoðun er auðvitað sú, að hagnaður sé af því illa. Það verður að beita valdi til að koma í veg fyrir að fyrirtæki á Íslandi hagnist. Fyrirlitning þessa ráðh., skilningsleysi og lífsskoðun kom hvergi betur fram en í þeim kafla ræðu hans þegar hann fjallaði um verðlagslögin.

Nú liggur fyrir, eftir þá ræðu sem hæstv. viðskrh. flutti fyrr í vikunni, að markmið æðsta manns í viðskiptamálum á Íslandi er að koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki skili hagnaði. Hvernig þau eigi að standa undir framleiðslu- og fjármunaaukningu, skattgreiðslum, sem reiknast af veltu, en ekki tekjum, aukinni atvinnu, hvort eigandi fyrirtækis fær umbun fyrir áhættu og eigin vinnu, — þetta allt skiptir engu máli, því að verðlagning má undir engum kringumstæðum taka mið af því að rekstrarafgangur verði hjá fyrirtækjunum. Þetta er trúaratriði þeirra kreddukomma og atvinnupólitíkusa sem nú ráða ríkjum í Alþb. Þetta láta Framsfl. og Alþfl. ofan í sig ganga til þess eins að fá fram frv. sem lögbindur 35–40% verðbólgu. Lítið er geð guma.

Herra forseti. Af því, sem að framan er sagt, er ljóst að það er skoðun mín að frv. þetta leysi engan vanda. Það ber vott um máttleysi þessarar ríkisstj. og hnykkir aðeins á þeim ofstjórnar- og miðstýringarhugmyndum sem bögglast svo mjög fyrir brjóstinu á þeim sem engan skilning hafa á atvinnumálum og vilja sölsa allt vald undir pólitíska kommissara. Frelsisriddarar og siðgæðispostular Alþfl., sem hafa haft hátt hér í vetur, hafa beðið algeran ósigur.

Það þarf enginn að vera hissa á því, hver afstaða Sjálfstfl. er til þessa frv. Því hefur verið rækilega lýst hæði í nál. og í ræðuflutningi af hálfu stjórnarandstöðunnar. Þar með er ekki sagt að við sjálfstæðismenn álítum að hvert einasta ákvæði í þessu frv., hvert einasta orð sé haldlaust. Við getum út af fyrir sig fallist á að það þurfi að setja lög um aðgerðir gegn verðbólgu, Í því sambandi höfum við fyrst og fremst lagt áherslu á afskipti af sjálfvirkum vísitölu- og verðbótahækkunum. Við getum líka fallist á að það þurfi að efna til víðtækra aðgerða, en það hefur verið tíundað af mér m. a. í þessari ræðu.

Verðbótakaflinn, sem í frv. felst, hefur verið helsta bitbein stjórnarflokkanna sjálfra. Þeir deila raunverulega ekki lengur um það, hvort skerðing eigi að eiga sér stað á verðbótum, heldur hversu veruleg hún eigi að vera. Í raun og veru liggur það alveg ljóst fyrir, að í eðli sínu er hér efnislega um að ræða sams konar aðgerð, sams konar kjaraskerðingar, sams konar afskipti ríkisvaldsins og löggjafarvaldsins af kjarasamningum og fráfarandi ríkisstj. beitti sér fyrir með febrúarlögunum og maílögunum á síðasta ári. Sjálfstfl. hefur þess vegna ekki þá stefnu að vera á móti ákvæðum sem ganga í þessa átt. hann heldur því hins vegar fram, að þetta þurfi að gerast ásamt með öðru, og hann heldur því fram, að þetta ákvæði, eins og það nú liggur fyrir, sé tiltölulega máttlaust í þeirri viðleitni, sem vakir fyrir mönnum, að draga úr verðbólgu hér á landi.

Það er í sjálfu sér hlægilegt af hæstv. forsrh. að lýsa því yfir við umr. um þetta mál, að á sama tíma sem verðbætur eru skertar og grunnkaupið bundið sé opin leið fyrir aðila vinnumarkaðarins að ganga til samninga um breytingar á kjörum og launum. Hvað halda menn að séu miklar aðstæður til. þess fyrir atvinnureksturinn og yfirleitt í þjóðfélaginu að ganga til samninga um hækkanir á launum sem einhverju máli skipta, á sama tíma sem ríkisstj., sem þykist vera vinveitt launþegum, neyðist til þess að grípa til ráðstafana af þessu tagi? Það sýnir auðvitað líka hræsnina í þessu máli öllu og haldleysi allra slíkra aðgerða, að á sama tíma sem verið er að bítast um þetta og deila um hvort kjaraskerðingin eigi að vera meiri eða minna, hvort láglaunabætur eigi að vera verndaðar eða ekki, hvort kaup eigi að hækka um 9% eða 10%, þá eru gerðir samningar við eina launahæstu stéttina í þessu landi, flugmenn, um að laun þeirra hækki um hvorki meira né minna en 200 þús. kr. á hverjum mánuði. Hvaða vit er í svona stjórn í landinu, og hvaða samræmi er í þessum ráðstöfunum þegar slíkir atburðir eiga sér stað nákvæmlega á sama tíma?

Það væri út af fyrir sig ástæða til að spyrja um það, hvernig eigi að líta á þá samninga sem tilkynnt var að hefðu verið gerðir milli Flugleiða og flugmanna í gær eða í nótt, hvort þeir samningar stangist ekki á við þau lög sem hér er verið að samþykkja, þegar á það er að líta að grunnkaup, eins og það liggur fyrir núna, á að binda fast.

Verðbólgan mun geisa áfram þrátt fyrir að þetta frv. verði samþ. Það gefur auga leið að Sjálfstfl. er andvígur frv. Hann mótmælir vinnubrögðunum. Hann lýsir vanþóknun sinni á þeim málflutningi og þeim deilum sem risið hafa á milli stjórnarflokkanna í sambandi við afgreiðslu á þessu máli. Sjálfstfl. mun greiða atkv. gegn frv., þó ekki væri nema vegna þess einfaldlega að það leysir engan vanda og gengur að langmestu leyti í herhögg við grundvallarstefnu Sjálfstfl.