06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4041 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vona að mér auðnist að opna hér munninn án þess að tala í marga klukkutíma. Það er til siðs hérna, bæði hjá stjórnarliðum og öðrum, að flytja langar og digrar ræður og er ekkert nema gott um það að segja.

Mér fannst það afhyglisvert, þegar ég hlustaði á þá grátbroslegu ræðu sem hv. síðasti ræðumaður var að flytja áðan, hvernig hann reynir með kattarþvotti að víkja sér undan þeirri ábyrgð sem því hlýtur að fylgja að vera stuðningsmaður þessarar ríkisstj. En þegar grannt er skoðað verður þetta ósköp eðlilegt. Það er nefnilega þannig, að Alþb. hefur sérstöðu meðal íslenskra stjórnmálaflokka. Sérstaðan lýsir sér í því, að þetta er samansafn margra óánægjuhópa í þjóðfélaginu — lítilla sérhagsmunahópa sem eru óánægðir með þetta og óánægðir með hitt og eiga í raun ekkert sameiginlegt nema óánægjuna.

Nú hefur það orðið hlutverk þess ágæta hv. þm. Kjartans Ólafssonar að koma hér upp fyrir einn óánægjuhópinn í hans flokki og lýsa óánægju sinni í annað skiptið, að ég held, í þessu máli í klukkutímalangri ræðu, þar sem aftur og aftur var sögð sama sagan. Aftur og aftur voru gerðir sömu fyrirvararnir, en þó mátti á milli heyra að hann taldi sig og hæstv. forsrh. vera sammála um alla skapaða hluti, enda var það einn þátturinn í leikriti þeirra áðan að „nikka“ hvor til annars, eins og þm. sáu sem hér voru staddir. Auðvitað ætlar hv. þm. ekki að greiða öllum liðum þessa frv. atkv., því að það getur verið gott fyrir Alþb., þegar vel stendur á og Alþb. þarf að losna undan klafa þessarar ríkisstj., að geta bent á að einn foringi bandalagsins, líklega æðsti maður þeirra á þingi í dag, að fjarstöddum hv. yfirráðh. ríkisstj., Lúðvík Jósepssyni, hafi haft fyrirvara, hafi kosið öðruvísi í þessu máli og þess vegna hafi Alþb. alls ekki verið eins slæmt og menn gætu álitið.

Svo varpaði hv. síðasti ræðumaður spurningu til Alþfl. Ég veit ekki hvort ég á að taka upp hanskann fyrir Alþfl., en það fer bráðum að líða að því að hann þurfi að fá sér talsmann úr öðrum flokkum. Reyndar hefur hann nú þegar dregið einn til sín, hv. þm. Bjarna Guðnason, sem kominn er í hans raðir og er nú eini þm. þar, sem þorir að opna á sér munninn við þessar umr., eins og áður hefur verið lýst.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson spurði að því, hvað Alþfl. ætlaði að segja við láglaunastéttirnar í landinu 1. des. n. k. þegar taka þarf 2% af láglaunafólkinu. Þetta er athyglisverð spurning, því að spurningin lýsir fyrirspyrjandanum miklu betur en þeim sem var spurður. Þetta lýsir nefnilega því hugarfari, að 1. des. n. k. eigi alls ekki að vera búið að ná neinum samningum við verkalýðsfélögin í landinu. Þetta er afhyglisvert, vegna þess að blað sem heitir Þjóðviljinn og er gefið út í þessari borg af hlutafélagi að sjálfsögðu, og sá, sem veitti blaðinu forstöðu á sínum tíma, var hv. þm. Kjartan Ólafsson, Þjóðviljinn birti nefnilega í fjögurra dálka fyrirsögn í gær að hæstv. viðskrh. hefði flutt ræðu á hv. Alþ. um það mál sem hér er til umr., og þar var slegið upp í fyrirsögn: „Samningsrétturinn er að fullu tryggður.“ (KÓ: Það þarf tvo til, ef á að ná samningum. ) Ég veit það. En til hvers er svona yfirlýsing, hv. þm. Kjartan Ólafsson? Er hún þá bara gaspur eitt? Það hefur reyndar þurft tvo til í samningum hingað til og það hefur oftast tekist að semja, sem betur fer. — Ég geri ráð fyrir að hér á eftir muni Alþfl. menn að sjálfsögðu svara þessum spurningum. Ég er kannske kominn inn á hættulega braut, þegar svo langt er gengið að ég er farinn að svara fyrir þá. En þetta vildi ég nú draga fram, einkum og sér í lagi vegna þess að það lýsti hugarfari fyrirspyrjandans og afstöðu hans og skilningi á stöðunni í dag í íslenskum stjórnmálum.

Ég man nú ekki lengur af hvaða tilefni hv. síðasti ræðumaður dró mig inn í umr. varðandi það sem ég hafði sagt fyrt á þingi í allt öðru máli, þar sem rætt var um hámarkslaun, þáltill á þskj. 72, flutta af hv. þm. Stefáni Jónssyni, en ég þóttist vita að hann væri að vitna þar til ákveðinna ummæla. Ég held að ég verði að fá leyfi hæstv. forseta til að lesa kafla þann, sem hann þóttist vitna til. Kaflinn er svo hljóðandi:

„Hitt er svo annað mál, að það getur verið að efni þessarar þáltill. sé ekki langt frá því að vera það sem gildir í dag, þegar allt er tekið saman. Ég væri fylgjandi því að gerð væri könnun á því, hver raunveruleg ráðstöfunarlaun þjóðfélagsborgaranna eru. Ég bendi á, að skattar hér á, landi koma ekki jafnt niður. Að sjálfsögðu borga þeir, sem eru mjög tekjuháir, hærri skatta. Ef þeir hafa eignast eitthvað fyrir tekjur sínar, eru þeir áfram látnir borga skatta af þeim eignum. Ég held að núv. hæstv. ríkisstj. hafi ekki verið eftirbátur annarra ríkisstjórna í að jafna kjör þjóðfélagsborgaranna með þeim hætti að leggja skatta á þegnana“. — Svo mörg voru þau orð.

Ég er eiginlega hissa á því, hve þetta er hógværlega orðað um þessa ágætu hæstv. ríkisstj. En ég held að allir skilji, að þótt hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi kannske helmingi hærri laun en ég — eða hæstv. ráðh. Svavar Gestsson — jafnast þessi munur að nokkru leyti vegna þess að þeir borga hærri skatta. Það var það sem við var átt. Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta. Ég dró þetta inn í þessar umr. að gefnu tilefni.

Það er sjálfsagt viðeigandi að óska hæstv. ríkisstj., hæstv. jafnlaunastjórn, til hamingju með þann áfanga að flugmenn fengu 15–24% kauphækkun. Það er full ástæða til þess nú og reyndar aftur og aftur að ítreka, því að það hefur vissulega gildi fyrir nútíðina og framtíðina, að það sem gerðist er bein afleiðing af kosningabaráttu vinstri flokkanna fyrir síðustu kosningar. Þetta er afleiðing af þeirri stefnu sem var í kosningabaráttunni hjá Alþfl., og Alþb., sem var rekin undir kjörorðunum: „samningana í gildi“, „kosningar eru kjarabarátta“ og „kjósið gegn kaupránsflokkunum“, svo að eitthvað sé nefnt. Það var af þessum sökum sem borgarstjórn Reykjavíkur varð að efna loforð sín. Það eru sömu flokkar sem ríkja þar og í hæstv. ríkisstj. Það voru Sigurjón Pétursson og Guðrún Helgadóttir meðal annarra, flokkssystkini hv. þm. Kjartans Ólafssonar, sem stóðu að þessari ákvörðun. Á þetta ber að minna enn og aftur. Það gerði reyndar hæstv. forsrh. réttilega fyrr í þessum umr., en það er eins gott að menn fari að átta sig á þessu. Það voru einmitt þessir atburðir sem voru forsenda kjaradómsins sem varð til þess að launaþakið flaug af. Þetta kemur reyndar engum á óvart, þegar vinstri stjórnir eiga í hlut. Vorið 1974 rifjaðist upp fyrir mönnum en aldrei var meiri munur á svokölluðum hálaunum og láglaunum en á því vori.

Það er alveg rétt, og ber að undirstrika það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að hækkun á launum flugmanna — aðeins hækkunin — er meiri en kaup þess fólks sem verið er að verja, ef nota má það orðalag, í því frv. sem hér er til umr. Flugmenn fá u. þ. b. 250 þús. kr. launahækkun, en hér er verið að reyna að verja laun sem eru 210 þús. Þetta er auðvitað afleiðingin af hiki, stefnuleysi og úrræðaleysi þessarar hæstv. ríkisstj., það sem stundum er kallað á þeirra máli „samræmd aðhaldsstefna í launamálum“ svo að vitnað sé beint í þeirra eigin orð.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. sem hér er til umr. Það hefur komið fram mjög greinilega í þessum umr., að stærsti hlutinn af frv. er sjálfsagðir hlutir, almennar stefnuyfirlýsingar, og sé eitthvað ákveðið sagt í einni setningunni er það slegið burt í þeirri næstu: undantekningar leyfðar, opið í báða enda, botnlaust. Tilgangurinn hefur áreiðanlega upphaflega verið tvíþættur. Í fyrsta lagi að lögbinda stefnuyfirlýsingu ríkisstj., því að það er full ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstj. og þá flokka, sem að henni standa, að lögbinda eigin samninga. Auðvitað treysta þeir ekki hver öðrum nema með því að binda í lög það sem þeir semja um. Það eina, sem vantar reyndar í þessi lög, er viðurlagabálkur, þar sem menn væru hnepptir í fangelsi eða látnir borga sektir ef þeir gengju á bak orða sinna. Þessi tilgangur hefur enga þýðingu eftir að botninn var sleginn úr öllum meiri háttar yfirlýsingum frv., sem heitir á máli Alþb. „að eyða skaðlegum áhrifum frv.“ Í öðru lagi, og það var hitt meginmarkmiðið, er verið að útbúa viðamiklar, stórar, skrautlegar umbúðir utan um enn eina kjaraskerðinguna, þyrla upp moldviðri, láta fólkið leita að gulli og gersemum í hisminu á meðan kjaraskerðingarákvæðinu verður smyglað inn á launþega.

Mér dettur í hug í þessu sambandi saga sem ég heyrði fyrir nokkrum árum og var á þessa leið: Fullorðinn maður vann á Keflavíkurflugvelli. Á hverju kvöldi, þegar hann kom úr vinnu, fór í gegnum hliðið og gekk fram hjá tollvörðunum, var hann með hjólbörur fullar af hálmi. Þegar hann var í hliðinu gættu tollverðirnir gjarnan í hálminn og leituðu og leituðu sem best þeir gátu til þess að átta sig á því hverju gamli maðurinn væri að smygla út af Keflavíkurvelli. En ekkert fannst. Í börunum var bara hálmur. Mörgum árum seinna, þegar maðurinn var hættur störfum, hitti hann þessa tollverði og þá gátu þeir ekki á sér setið og spurðu gamla manninn: „Nú verðurðu að segja okkur hverju þú varst að smygla?“ Þá svaraði gamli maðurinn: „Ég var að smygla hjólbörum“. — Mér sýnist eiginlega það sama vera að gerast í þessu frv. Það er verið að útbúa hálm og láta fólkið, launþegana, þá lægst launuðu leita í þessum hálmi á meðan verið er að smygla hjólbörum og kjaraskerðingu inn á þetta fólk.

Samband ísl. bankamanna hélt þing í Reykjavík í gær, og að sjálfsögðu voru þessar aðgerðir hæstv. ríkisstj. til umr. á því þingi. Bankamenn hafa eins og opinberir starfsmenn gert samninga til tveggja ára. Í þeim samningum var gert ráð fyrir grunnkaupshækkunum á tímabilinu. Þing bankamanna sendi hæstv. forsrh. bréf með áliti sínu og ályktun á þessu þingi. Í þessu bréfi, sem dreift hefur verið til þm., er rakið úr forsendum frv., þar sem valin eru ýmis orð og setningar, þ. á m. þessi gullvæga setning sem ég ætla að leyfa mér að lesa, ef hæstv. forseti leyfir, og er á bls. 17 í frv.:

„Þær aðgerðir og þá stefnumörkun, sem í þessu frv. felst, ber að skoða sem þriðja og um leið veigamesta áfangann á þeirri braut að móta og síðan fylgja samræmdri aðhaldsstefnu í launa- og verðlagsmálum í samhengi við heildarstefnuna í skattamálum og efnahagsmálum almennt“.

Sem sagt, „aðhaldsstefna í launamálum í samhengi við heildarstefnuna í skattamálum“. Mér verður nú að spyrja: Hver er þessi heildarstefna í skattamálum? Er þessi heildarstefna í skattamálum það, að ríkisstjórnarflokkarnir voru að klofna alveg nýlega — í síðustu viku — í nefndarstörfum í skattamálunum? Þeir voru að klofna um það, hvort hér ætti að vera virðisaukaskattur í stað söluskattsins og hvort afnema skyldi tekjuskattinn. Ég held að þetta sé rétt munað: Og ég spyr, og ég beini að sjálfsögðu spurningum mínum til fulltrúa Alþfl., þess föngulega hóps sem hér situr í hliðarsal: Er þetta heildarstefnan í skattamálum? Um leið og þeir hv. þm., sem þar sitja, svara spurningum frá hv. þm. Kjartani Ólafssyni þætti mér vænt um að þessari spurningu væri svarað.

Þá vík ég aftur að því sem þing hankamanna segir í áliti sínu. Þeir benda á hið óljósa ákvæði í frv. sem fjallar um rétt BSRB og BHM, þar sem segir m. a. að ákvæði þessara laga breyti í engu rétti til þess að gerðir séu nýir kjarasamningar, jafnt um grunnlaun sem verðlagsbætur á laun. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta, hjá Sambandi ísl. bankamanna: „Augljóst er, að þetta ákvæði vekur grundvallarspurningar, svo sem: a) Falla kjarasamningar SÍB og bankanna úr gildi við gildistöku ákvæðisins? b) Er eðlilegt að launþegasamtök þurfi að endursemja um þegar umsamdar áfangahækkanir á grunnkaup vegna afskipta ríkisstj. og Alþ.? c) Yrði síðast nefndur samningur til tveggja ára? d) Hvað gagnar umsaminn samningstími í kjarasamningi ef ríkisstj. með atbeina Alþ. getur rift slíkum ákvæðum samnings sem og öðrum hvenær sem er? e) Ef nýr kjarasamningur yrði gerður milli samningsaðila, er þá nokkur trygging fyrir því að slíkur samningur yrði virtur af ríkisvaldinu?“

Áfram segir í áliti bankamanna: „Ákvæði til bráðabirgða nr. I í VIII. kafla frv. á sér enga fyrirmynd í afskiptum stjórnvalda af kjaramálum launþegasamtaka. Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld leggja til atlögu við grunnlaun launþega og krefjast þess, að Alþ. lækki umsamin grunnlaun bankastarfsfólks nú um 3% og 3% þann 1/7 n. k. Við bendum á þá staðreynd, að bankastarfsmenn hafa unnið samkv. hækkuðum grunnlaunum frá 1/4 s. l., og lítum við svo á, að verði ákvæði um þetta samþ. óbreytt sé um hreina eignaupptöku að ræða hjá fámennum launþegahópi“.

Og í lokin er síðan ályktun þingsins:

„Þing Sambands ísl. bankamanna, haldið 5. apríl 1979, mótmælir harðlega þess háttar íhlutun Alþingis í frjálsan og lögvarinn samningsrétt sem fram kemur í frv. til l. um stjórn efnahagsmála o. fl. Fyrirhuguð eignaupptaka og kjaraskerðing á sér enga hliðstæðu og byggist ekki á rökstuðningi þeim sem fram kemur í frv., þar sem grunnkaupshækkun til bankamanna mun ekki hækka þjónustukostnað viðskipta við Landsbankann. Þingið lítur svo á, að lögfesting skerðingar á grunnlaunum einnar fámennrar stéttar launþega, eins og bankamanna, sé brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins. Bankastarfsmenn áskilja sér rétt til að leita úrskurðar dómstóla og jafnframt að heita mætti samtakanna gegn slíkum ólögum“.

Í þessari ályktun kemur fram, að það væti fyllsta ástæða til þess að spyrja hvort rétt sé, að þetta sé í fyrsta skipti sem stjórnvöld leggi til atlögu við grunnlaun launþega. Við vitum að sjálfsögðu, að áður hefur verið ráðist á verðbætur, — en er þetta í fyrsta skipti að átt er við grunnlaunin? Þessari spurningu væri gott að fá svarað, þegar hæstv. forsrh. kemur og svarar væntanlega í lok umr. þeim spurningum, sem til hans hefur verið beint, og þ. á m. þeim spurningum sem bankamannasambandið hefur beint til hans. Ég held að það væri fyllsta ástæða til þess, ef hann sér sér fært að svara þeim héðan úr ræðustól Alþingis.

Það er annað athyglisvert í þessu sambandi og varðar þennan fámenna hóp launþega, og það er, og á það ber að leggja áherslu, að bankarnir hafa í verði á þjónustu sinni nú þegar tekið tillit til þeirra kauphækkana sem nú verða og eiga eftir að verða á þessu ári. Með því að taka af þessa hækkun grunnlauna hlýtur að myndast munur eða ágóði hjá bönkunum sem spurningin er hver á. Ég álit að fyrst bankarnir eigi ekki að standa við umsamdar kauphækkanir beri þeim að lækka þjónustugjöld að sama skapi. Ekki get ég séð að annað sé sanngjarnt, því að auðvitað hefur verið gert ráð fyrir því að neytendurnir, þeir sem þurfa á þjónustu hankanna að halda; borgi brúsann.

Það er einn kafli í þessu frv. dálítið sérstakur. Það er kaflinn um verðlagsmálin. Með leyfi forseta langar mig til þess að lesa örstutt úr leiðara Þjóðviljans í morgun. Þar segir:

„Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir að frjáls álagning yrði grundvallarreglan í viðskiptalífinu. En því hefur nú fyrir tilstilli Alþb. verið umsnúið á þann veg, að sú regla er nú í fyrsta sinn numin á brott úr íslenskum lögum og íhlutunarréttur og úrslitavald verðlagsstofnunar og ríkisstj. í verðlagsmálum skýlaust viðurkennd“.

Hér á hv. Alþ. og reyndar í stjórnmálaumr. öllum á s. l. hausti var mikið rætt um verðlagsmál, sem eðlilegt er þegar hæstv. viðskrh. kemur úr Alþb. Umr. á s. l. hausti leiddu ýmislegt í ljós. Þær leiddu í ljós að álagning, sem leyfð er á Íslandi, er lægri en sem nemur dreifingarkostnaði. Reyndar er verið að lagfæra þetta núna, eins og við getum séð í blöðunum, þar sem verið er að hækka álagningarprósentuna. Í öðru lagi kom það glögglega fram í þeim umr., að verðlagseftirlit á Íslandi er eftirlit með reiknitölum vísitölunnar, en ekki til að tryggja neytendum lágt vöruverð. Í þriðja lagi var leitt í ljós, að verðlagshömlur á Íslandi leyfa ekki hagkvæm innkaup án þess að innflytjandinn tapi á þeim. Í fjórða lagi, að verðlagskerfið hefur leitt til hærra vöruverðs og þannig skaðað neytendur. Í fimmta lagi að sú verðhaftastefna, sem stjórnvöld hafa fylgt, hefur skert lífskjör á Íslandi. Og í sjötta lagi að verðlagshömlur hafa gert verslunarfólk að einni lægst launuðu stétt landsins.

Það er athyglisvert að átta sig á því við lestur þessa frv., að einn kaflinn gengur út á það að hverfa aftur í Íslandssögunni um nokkra áratugi. Undansláttarstefna Alþfl. og Framsfl. í þessu máli er alger. Þeir líta á verðlagsmálin, þessi mikilvægu mál eins og gjaldmiðil í hrossakaupum við kommúnista. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að lýsa ábyrgð á hendur forustumönnum Alþfl. og Framsfl. í þessu máli. Það væri vissulega þess virði að spyrja þá, sem eiga eftir að tala fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna hér á eftir, hvað hafi valdið þessu hughvarfi. Getur það verið rétt, að 14 þm. Alþb. hér á þingi — 14 af 60 — ráði alfarið stefnunni í verðlagsmálum? Getur það verið rétt, að þm. Framsfl., sem tóku þátt í því að móta stefnuna í verðlagsmálum á síðasta þingi, séu horfnir frá þeirri stefnu og noti verðlagsmálin aðeins sem gjaldmiðil? Getur það verið rétt, að Alþfl., flokkur frelsisins, flokkur lýðræðisins hér á þingi, hafi staðið að þessu og hann eigi þátt í þessari stefnumótun?

Ég veit það reyndar, að við þessu fást ekki svör. Hæstv. ríkisstj. vantreystir nefnilega fólkinu í þessu landi og valfrelsi þess. Þögnin, þögn hv. þm. Alþfl., sem höfðu mikið að segja fyrr á þessu þingi, verður æpandi nú. Eða má kannske draga þá ályktun að hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson sé farinn að tala fyrir hönd bæði sjálfs sín og hv. þm. Vilmundar Gylfasonar? Sé svo, þá hefur styst víkin milli vina.

Herra forseti. Mig langar aðeins í lokin til að draga saman örfá atriði varðandi það frv. sem hér er til umr. Í fyrsta lagi er hægt að slá því föstu, að eftir alla kynningarstarfsemina, sem hefur verið viðhöfð í sambandi við frv., er það hvorki fugl né fiskur. Það má vera að hugmyndin hafi verið góð í upphafi, en frv. er botnlaust eins og það lítur út nú. Ég bendi á það, og hef gert það í málflutningi mínum, að sú staða, sem nú er komin upp í stjórnmálunum, og það bil, sem myndast hefur á milli þeirra, sem hæst höfðu laun og lægst hafa launin, er bein afleiðing af kosningaúrslitunum síðustu. Það var í þeirri kosningabaráttu sem hv. þm. Kjartan Ólafsson og flokksbræður hans og systur í Alþb. fléttuðu sína eigin hengingaról. Þess ber þó að geta, að botninn er reyndar sleginn úr þessum málum líka, því að nú við síðustu breytingar er leyft í frv. — það er athyglisvert að hæstv. ríkisstj. leyfir fólkinu eitthvað í þessu landi — að efna til frjálsra samninga í landinu. En eins og hv. þm. hlustuðu á áðan hafa hv. þm. Alþb. ekki trú á því að slíkt verði reynt á næstunni, alla vega ekki fyrir 1. des. n. k.

Það eina, sem stendur eftir í þessu frv., er kaflinn um verðlagsmálin. Það verður minnisvarði yfir Alþfl. - eða yfir gröf Alþfl. öllu fremur, því að hann þegir nú eins og dauður maður og framliðinn.

Kaflinn, sem í þessu frv. fjallar um verðlagslöggjöfina, er með kreppubragði. Með þeim kafla sýnist manni sem ríkisstj. ætli sér í enn auknum mæli að verða yfirverðlagsráð í þessu landi, verða stjórn sem á hverjum einasta fundi sínum fæst við ákvarðanir um það, hvað Coca-Cola á að kosta, hvað smjörlíki á að kosta, hvað Dairy Queen ís á að kosta o. s. frv., o. s. frv.

Ég held að það sé kominn tími til þess að fólkið í þessu landi og fulltrúar þess, sem talað hafa mest um frelsi og lýðræði í þessu landi, fari að átta sig á því, að hægt er að taka skref fram á við ef menn hafa kjarkinn til þess. Það, sem menn verða þá að þora, er að treysta fólkinu sjálfu í þessu landi. Það þarf. Ef við höfum hugrekki til að treysta fólkinu sjálfu til að taka eigin ákvarðanir verður Alþingi Íslendinga treyst. En það er frumskilyrðið.