07.04.1979
Neðri deild: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Halldór Blöndal:

Ég minni á það, að grundvöllur í þeim efnahagsráðstöfunum sem síðasta ríkisstj. beitti sér fyrir, var að kaupmáttur hinna lægstu launa skyldi uppi borinn. Þegar þessi ríkisstj. tók við lækkuðu lægstu laun í landinu í krónutölu, en önnur laun hækkuðu upp í 12% þannig að launamunur óx. Þegar 5% skerðing kaupgjaldsvísitölu átti sér stað í des. voru engar láglaunabætur. Þær láglaunabætur, sem hér eru veittar, eru ónógar, ófullnægjandi og lýsandi fyrir hæstv. ríkisstj. Eins og allt er í pottinn búið treysti ég mér ekki til þess jafnvel að greiða þessu atkv. Ég kýs að skipta mér ekki af þessu máli og greiði ekki atkv.