07.04.1979
Neðri deild: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þessi grein gerir ráð fyrir því að setja í lög að endurskoða skuli lög um Aflatryggingasjóð, sem ég tel óþarft að lögfesta, endurskoðun laga sem þegar er búið að taka ákvörðun um. Hitt er aðalatriði málsins, að hér er um stefnuyfirlýsingu að ræða þar sem er lýst yfir því, að heimild er gefin ráðh. að leggja sérstakt gjald á afla á þeim fisktegundum sem taldar eru ofnýttar. Í næsta kafla þessa frv. er reglugerðarheimild fyrir sjútvrh. til þess að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa kafla. Ég tel vafalaust að sú reglugerðarheimild verði samþ. af handjárnuðu stjórnarliði. Hins vegar tel ég fróðlegt að sjá og hafa skjalfest hvaða þm. það eru, sem ætla að votta á þann hátt sjútvrh. traust sitt og sérstaka virðingu eftir útgáfu þorskveiðibannanna fyrir nokkru og veita honum heimild til þess að skattleggja þær tegundir fiskveiða sem þegar hafa verið takmarkaðar með þeim hætti að varla verður nokkurt skip gert út á þessu ári nema með tapi. Því segi ég nei.