07.04.1979
Sameinað þing: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4056 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

231. mál, framkvæmdir í orkumálum 1979

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Þáltill. þessi, sem hér er til umr., er flutt af mér ásamt 11 öðrum sjálfstæðismönnum. Þessi þáltill. fjallar um að fela ríkisstj. að endurskoða fyrirætlanir um framkvæmdir í orkumálum á árinu 1979 til þess að hraða megi sem mest að 1) innlendir orkugjafar komi í stað olíu, 2) nýttur verði ódýrari innfluttur orkugjafi í stað dýrari og 3) hagnýtt verði betur afgangsorka. Gert er ráð fyrir því í till. þessari, að endurskoðunin skuli sérstaklega ná til eftirfarandi verkefna:

1. Hraðað verði lagningu aðalháspennulína rafmagns til að draga úr vinnslu raforku með dísilvélum og hagnýta megi meira en orðið er rafmagn til upphitunar húsa.

2. Hraðað verði styrkingu rafdreifikerfis í sveitum, svo að það megi anna aukinni rafhitun.

3. Lokið verði við sveitarafvæðingu.

4. Aukin verði jarðhitaleit og hagnýttir verði til fulls jarðborar ríkisins í því skyni.

5. Hraðað verði framkvæmdum við hitaveitur og fjarvarmaveitur.

Þá gerir þáltill. þessi ráð fyrir, að fjármagn það, sem þarf á árinu 1979 til aukinna framkvæmda í orkumálum, skuli fengið með lántökum og beinum framlögum úr ríkissjóði, enda verði beitt niðurskurði á öðrum útgjöldum ríkissjóðs í því skyni.

Till. þessi er flutt vegna válegra atburða í orkumálum landsins. Þar er um að ræða hina gífurlegu verðhækkun á olíu sem nú hefur skollið á. Markaðsverð á olíu í Rotterdam, sem ræður innflutningsverði til Íslands, var í febr. s. l. 100-150% hærra en að meðaltali árið 1978. Þó að vonir standi til að verðið lækki þegar á árið liður, er við því að búast að verulegur hluti hækkunarinnar verði langvarandi:

Það gefur auga leið að þessi mikla hækkun olíuverðs hefur margháttuð og alvarleg áhrif. Viðskiptakjörin versna og slíkt skerðir þjóðartekjurnar. Harðast kemur þetta niður á fiskveiðum og þeim fjórðungi þjóðarinnar, sem kyndir hús sín með gasolíu.

Ég vil leyfa mér að fara nokkru nánar inn á það, hvaða þýðingu olíuverðið hefur fyrir þá sem kynda hús sín með gasolíu. Í því sambandi vil ég leyfa mér að vekja hér athygli á því, að landshlutasamtök sveitarfélaganna á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi hafa sent hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. sérstaka skýrslu um þessi mál, sem unnin hefur verið af framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfjarða, Jóhanni Bjarnasyni. Þessi skýrsla gefur glögga hugmynd um það, hvað hér er um að ræða.

Varðandi verðhækkanir á olíu er í stuttu máli það að segja, að verð á gasolíu til húshitunar hefur hækkað úr 5.30 kr. hver lítri hinn 1. júlí 1973 í 68.90 kr. hver lítri hinn 1. mars s. l. Það hefur hækkað úr 5.30 í 68.90. Hækkunin nemur 1200%, þ. e. a. s. verðið hefur þrettánfaldast. Og það er ekki öll sagan sögð með þessu. Spáð er að verð á gasolíulítra geti komist í 92 kr. áður en langt um líður. Fari svo kemur verðhækkunin til að nema 16~8%, eða meir en sautjánföldun á verði frá 1. júlí 1973. Þetta segir í þessari skýrslu. Ég get þó bætt því við, að ég hygg að í síðustu áætlun Þjóðhagsstofnunar sé reiknað með að gasolíulítrinn fari hærra á þessu ári en í 92 kr., eða í um 100 kr. — En hvernig kemur svo þetta heim og saman við annað sem er eðlilegt að bera þessa hækkun við? Tökum fyrst kauphækkun. Á sama tíma og þetta hefur skeð hefur tímakaup verkamanna í fiskvinnu á Ísafirði, það er miðað við þann stað, hækkað úr 135.70 kr. hinn 1. júlí 1973 í 981 kr. hinn 1. mars 1979. Þessi hækkun á tímakaupi verkamanna nemur 623% eða 7.25-földun á kaupinu á tímabilinu — rúmlega sjöföldun á kaupinu meðan olían hækkar sautjánfalt.

Víkjum þá að öðru atriði sem skiptir ekki litlu máli í þessu sambandi. Það er hinn svokallaði olíustyrkur. Ég bið menn að muna það, og ég veit að menn muna það, að vegna aðsteðjandi verðhækkunar á olíu var talið nauðsynlegt að setja á sínum tíma lög á Alþingi til þess að draga úr áhrifum af olíuverðshækkuninni á kostnað við að hita íbúðarhúsnæði. Þau lög voru nr. 5 frá 1974 og giltu til eins ár, en hafa síðan verið endursamþykkt á hverju ári. Reglugerð um greiðslu olíustyrks er frá 1974 og auk þess voru sett lög nr. 47 1974 um greiðslu olíustyrksins. Lögin nr. 5 frá 1974 fjalla um að lagt skuli 1% gjald á söluskattsstofn í þeim tilgangi að draga úr áhrifum olíuverðshækkunar á kostnað við að hita upp íbúðarhúsnæði. Í upphafi var olíustyrkurinn ákveðinn 1800 kr. á ársfjórðungi fyrir hvern mann sem notar olíu til upphitunar íbúðarhúsnæðis, en þar til fyrir skemmstu var þessi styrkur 2600 kr. á íbúa. En þrátt fyrir þessa hækkun úr 1800 í 2600 og þrátt fyrir að álagningarstofninn, sem gjaldið er lagt á, hið svokallaða olíugjald, hafi margfaldast á tímabilinu hefur styrkurinn einungis hækkað um 44% miðað við 2600 kr. styrk á hvern mann. Þetta hefur gilt þótt fjölmenn byggðasvæði hafi horfið frá olíuhitun og tekið í notkun hitaveitur, sem hefði átt að gera mögulegt að gera betur við þá sem enn voru háðir olíu til upphitunar. Þetta er miðað við styrk að upphæð 2600 kr. Nú fyrir skemmstu hefur ríkisstj. ákveðið og hefur þegar hækkað þennan styrk upp í 5000 kr. á mann — úr 2600 í 5000. En þó að þetta hafi verið gert hefur styrkurinn hækkað frá upphafi einungis um 178%, eða tæplega þrefaldast, á sama tíma sem olíukostnaðurinn hefur sautjánfaldast og verkamannakaup hefur rúmlega sjöfaldast. Sjá menn hversu æpandi þessar staðreyndir eru.

Við skulum víkja nokkru nánar að því, hvað þetta þýðir fyrir fólkið sem býr við þær aðstæður að þurfa að hafa olíukyndingu. Ég hef til glöggvunar á þessu máli beðið Orkustofnun að gera nokkra útreikninga á þessu dæmi. Þar er gerður samanburður á rafmagni til upphitunar, beinni rafhitun, hitaveitum og olíu. Það er fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu. Auðvitað höfum við allir haft hugmynd um það, en ég held að þessi tölulegi útreikningur sé þess eðlis að sjálfsagt sé að hann komi fram. Þetta er gert m. a. með því að bera saman kostnað á kwst. Þegar það er gert, og við tökum fyrst rafmagnið og tökum Reykjavík, er kostnaður á kwst. 5.22 kr. Þegar við tökum RARIK-svæðið, og það er hliðstætt svæði Orkubús Vestfjarða, er kostnaður á kwst. 8.94 kr. Þetta er rafmagnið. En tökum hitaveiturnar. Ég hef hér fjóra staði með hliðstæðum útreikningum um hitaveitur, þ. e. a. s. hvað kwst. kostar: Í Reykjavík 2.42 kr., á Selfossi 2.89 kr., á Suðurnesjum 5.15 kr. og á Akureyri 6.29 kr. En hvað kostar olían á kwst.? 10.85 kr. Þessi samanburður kemur betur út ef við gefum okkur að olían sé 100. Þá er rafmagnskostnaður í Reykjavík 48, á RARIK-svæðinu og hjá Orkubúi Vestfjarða 82, hitaveitu í Reykjavík 22, á Selfossi 27, Suðurnesjum 47, Akureyri 58. Það er fimm sinnum meiri hitunarkostnaður hjá því fólki, sem býr við olíuupphitun, en hjá Reykvíkingum, sem njóta hitaveitunnar. Ég hygg að þetta sé nægilegt til þess að leggja frekar áherslu á hve þýðingarmikil þessi mál eru fyrir þann fjórðung þjóðarinnar sem verður að búa við olíuupphitun á húsum sínum.

Auðvitað er það svo, að þessi alvarlega olíuverðshækkun, sem ég áður vék að, kallar á margvísleg viðbrögð sem þurfa að miða að því að draga úr áhrifum verðhækkunarinnar á almenna verðþróun í landinu. Skattlagningu ríkisins á olíu þarf að breyta svo að hún nái ekki til þeirra verðhækkana á olíu sem nú hafa orðið. Olíustyrki til þeirra, sem búa við olíukyndingu, þarf að hækka jafnvel umfram það — og að sjálfsögðu umfram það sem ríkisstj. hefur þegar gert, svo að þeir, sem búa við þær aðstæður að nota olíu til upphitunar, standi a. m. k. ekki verr að vígi en fyrir olíuverðshækkunina síðustu, það er lágmark. Það verður að gera sérstakar ráðstafanir til þess að gera útgerðinni kleift að rísa undir hækkun olíuverðsins, en í því efni hefur þegar komið til aðgerða svo sem kunnugt er og skal ég ekki víkja nánar að því. Það þarf að gera átak til orkusparnaðar frekar en orðið er, bæta nýtingu orkugjafa, skipta á ódýrari innfluttum orkugjafa fyrir annan dýrari, hagnýta afgangsorku, bæta einangrun húsa o. fl., o. fl. Í tilefni af olíuverðshækkuninni nú ættu olíuviðskiptasamningar landsins og ákvæði þeirra um verðtengingu og afhendingu að koma til endurskoðunar þegar við næstu samningsgerð. Þannig mætti áfram telja þau verkefni sem eru mörg óleyst á þessum vettvangi, og eru þá ótalin, herra forseti, viðfangsefni þau sem þáltill. þessi, sem hér er til umr., fjallar um og varða grundvöllinn í orkubúskap Íslendinga.

Till. þessi til þál., sem hér er lögð fram, snýr að tilteknum verkefnum í orkumálum þjóðarinnar og varðar framkvæmdir á árinu 1979, þessu ári sem er að líða. Ég mun nú gera nokkra grein fyrir einstökum liðum tillögunnar.

Ég tek þá fyrst fyrir 1. liðinn, sem fjallar um að hraðað verði lagningu aðalháspennulína rafmagns til að draga úr vinnslu raforku með dísilvélum og hagnýta megi meira en orðið er rafmagn til upphitunar húsa.

Eitt meginverkefnið í orkumálum á undanförnum árum hefur verið samtenging landsins í eitt raforkukerfi. Af hagkvæmni- og öryggisástæðum þarf að tengja saman orkuver landsins í eitt aðalorkuflutningskerfi og reka þau í fullkomnum samrekstri með fyllstu nýtingu orkugjafa, mesta rekstraröryggi og lægsta vinnslu- og flutningskostnað fyrir augum. Mikið hefur áunnist í þessum efnum með tilkomu Norðurlínu og Austurlínu. En mikið er enn ógert er varðar aðalorkulínur í einstökum byggðarlögum. Allur dráttur í þessum efnum veldur miklum þjóðhagslegum skaða og leggur óheyrilegar byrðar á íbúa einstakra byggðarlaga. Keyrir um þverbak í þessum efnum við olíuverðshækkunina, sem nú er orðin, eins og ég gerði glögga grein fyrir hér áður. Gleggsta einstaka dæmið um þetta er drátturinn á tengingu Vestfjarða við aðalorkukerfi landsins með lagningu Vesturlínu. Við stofnun Orkubús Vestfjarða árið 1977 var gert ráð fyrir að Vesturlínu yrði lokið 1. okt. 1979. Nú er ætlunin að víkja frá þessari tímasetningu og framkvæma verkið á lengri tíma. Miðað við að þessu verki verði lokið í árslok 1980 er áætlað að kostnaður Orkubúsins vegna dísilkeyrslu, sem komist hefði verið hjá ef verkinu hefði verið lokið á tilsettum tíma, nemi nálega 1500 millj. kr. miðað við verð á gasolíu í lok febr. s. l. Þá er auðvitað ótalið það tjón fyrir íbúa þessa landshluta að vera án þess rafmagns sem Vesturlína hefði getað flutt á þessum tíma til fjarvarmaveitna og annarrar upphitunar húsa. Það eru slíkar staðreyndir sem þessi sem krefjast að allt kapp sé lagt á að hraða lagningu aðalháspennulína.

Mér þykir rétt, af því að ég hef tekið Vesturlínu sem sérstakt dæmi um mikilvægi þessara mála, að láta það koma fram, að búið er að ganga frá pöntun á öllu línuefni í Vesturlínu, þ. e. a. s. staurum, þverslám, einangrun og vír fyrir línukaflann frá Hrútatungu að Glerárskógum, sem ætlunin er að ljúka við í sumar og það er þegar búið að reisa rúmlega 1000 staura. Ég vil enn fremur láta það koma fram, að það er búið að panta spenna og spennistöðvarefni fyrir Hrútatungu og Glerárskóga og Mjólká. Efnið í spennistöðvarnar í Hrútatungu og Glerárskógum kemur til landsins í sumar, en Mjólkárspennirinn næsta vor. Það er búið að panta þetta. Hvað er eftir að panta? Það er eftir að panta línuefnið í línukaflann frá Glerárskógum að Mjólká. Væntanlegur afgreiðslufrestur á því er 3–4 mánuðir, en sæstrengi yfir Gilsfjörð og Þorskafjörð mun líklega taka 6 mánuði að útvega. Þetta er allt sem eftir er og afgreiðslufresturinn á mestu af efninu 3–4 mánuðir. M. ö. o. er hægt að flýta þessu verki. Ef brugðið er skjótt við í þessum efnum er því hægt að panta þetta efni, sem gæti haft mikla þýðingu, því það mætti vinna úr því síðla í haust. Ég er ekki að gera því skóna, að úr því sem komið er sé hægt að ljúka línunni á þessu ári. En ég vil aðeins segja það, að ég óttast að það verði ekki hægt að ljúka við þessa línu á þeim tíma sem ríkisstj. nú hyggst, ef það verða ekki gerðar frekari ráðstafanir til að flýta verkinu á þessu ári. Þessar upplýsingar, sem ég hef gefið um efnið í Vesturlínu, virðast mér sýna að það, sem ég hef talað um og við flm. þessarar till., er algerlega raunhæft, að það er hægt að flýta þessu verki ef sérstakar ráðstafanir eru gerðar.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um 1. liðinn í framkvæmdum sem við viljum að verði endurskoðaðar. Ég vík að 2. liðnum, en hann fjallar um að hraðað verði styrkingu rafdreifikerfis í sveitum, svo að anna megi aukinni rafhitun.

Hér er um að ræða mál sem er ákaflega mikilvægt fyrir strjálbýlið í landinu, auk þess sem það snertir tvö af helstu efnahagsvandamálum okkar Íslendinga nú, þ. e. a. s. olíuverðshækkunina og offramleiðslu í landbúnaði. Með styrkingu rafdreifikerfisins væri unnið að því að spara innlenda orkugjafa og með því að auka möguleika á léttum iðnaði og aukabúgreinum í sveitum gæfist bændum kostur á að draga úr landbúnaðarframleiðslu og fara í aðrar atvinnugreinar. Orkuráð samþykkti einróma á fundi sínum 1. mars s. l. að leggja til við hæstv. iðnrh., að á næstu 8 árum yrði árlega varið fjárhæð, sem að framkvæmdamætti jafngilti 1100 millj. kr. á verðlagi í byrjun þessa árs, til þess að styrkja rafdreifikerfið í strjálbýli hér á landi. Þetta er gert til þess að það geti flutt rafmagn er nægi til almennra heimilisnota í sveitum, fullrar hitunar húsa með rafmagni og búnota hvers konar svo og til margvíslegra annarra nota í strjálbýli, svo sem þjónustu og minni háttar iðnaðar, eins og ætla má að þessi notkun verði eftir svo sem einn áratug. Lagt er til að styrkingin verði gerð með svonefndri þrífösun, þ. e. einfasa línum verði breytt í þrífasa línur á um 65% af heildarlengd dreifikerfisins. Með því móti ættu 70–80% íbúa sveitanna aðgang að þrífasa rafmagni. Þrátt fyrir styrkinguna leyfir dreifikerfið ekki staðsetningu stórra iðnaðarnotenda, eins og heykögglaverksmiðja með rafþurrkun, hvar sem er í sveitum. Ekkert dreifikerfi leyfir slíkt ef kostnaður þess á að vera viðráðanlegur.

Verk það, sem till. Orkuráðs tekur til, er áætlað að kosti 8 800 millj. kr. á verðlagi í byrjun ársins 1979. Í samþykkt Orkuráðs er lagt til að styrkingin verði fjármögnuð með óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði, en síðan kosti Orkusjóður framkvæmdirnar á sama hátt og hann hefur kostað rafvæðingu sveitanna til þessa. Samþykkt Orkuráðs var gerð á grundvelli ítarlegrar athugunar á dreifikerfi sveitanna og leiðum til að auka flutningsgetu þess sem ráðið lét gera og byrjað var á síðla árs 1976. Athugun þessi var unnin af verkfræðistofunni Rafhönnun undir yfirumsjón orkumálastjóra, Jakobs Björnssonar.

Mér þótti rétt að þessar upplýsingar kæmu fram, vegna þess að þær segja að það er búið að undirbúa þetta verk, sem við gerum ráð fyrir að eigi að framkvæma á næstu 8 árum. Það þýðir auðvitað að það verða engin vandkvæði á því að flýta framkvæmdum í þessum efnum á þessu ári, en á því er brýn þörf. Það er svo mikil þörf á því, að það liggur við að dreifikerfi sveitanna sé sums staðar að brotna niður vegna þess að það þolir ekki það álag sem á því er. Þess vegna tökum við þennan þátt orkumálanna inn í þessa till. Það er aðkallandi að hraða þessu verki.

Ég kem þá að þriðja atriðinu sem við leggjum áherslu á, og það er að lokið verði sveitarafvæðingunni.

Við höfum sagt um styrkingu rafdreifikerfis í sveitum, sem ég var að fjalla um, að þar væri um að ræða II. sveitarafvæðinguna. Ég tel hana jafnþýðingarmikla og hina fyrri. Fyrri sveitarafvæðingin hefur staðið síðasta aldarfjórðung og það er komið svo, að það eru aðeins 50 bæir eftir á landinu sem gert er ráð fyrir í till. Orkuráðs að fái rafmagn frá samveitum. Þá eru 40 bæir þar fyrir utan sem þarf að sinna með öðrum hætti. — Það eru 50 bæir. Þetta er ekki stórt fjárhagsmál. Það kostar peninga eins og annað, en það er ekki stórt fjárhagslega, ég legg áherslu á það. En það er ákaflega stórt að öðru leyti. Það er siðferðilega stórmál. Það er ekki unandi við það, að ábúendur þessara 50 bæja séu lengur látnir bíða eftir því að fá sama aðbúnað og annað fólk í landinu. Því miður er raunverulega ekkert lagt til þessara mála á þessu ári, og þá sögu má einnig segja um síðasta ár. Þetta getur ekki gengið lengur. Þess vegna tökum við þetta inn sem sérstakan lið í framkvæmdum sem þurfi að endurskoða til þess að hraða verki.

Ég kem þá að fjórða liðnum, að aukin verði jarðhitaleit og hagnýttir verði til fulls jarðborar ríkisins í því skyni.

Það leikur enginn vafi á því, að jarðvarminn er langhagkvæmasti orkugjafinn til upphitunar húsa. Af þessum sökum má einskis láta ófreistað að leita jarðvarmans þar sem hann kann að vera. Eins og nú horfir verður ekki sagt að nóg sé að gert á árinu 1979. Það er ekki einu sinni séð fyrir nægilegu fjármagni til þess að fullnýta þá jarðbora sem eru í eigu ríkisins, og slíkt er með öllu óviðunandi. Jarðhitaleitin er undanfari nýrra hitaveituframkvæmda og aukningar þeirra sem fyrir eru. Þá má og á það benda, að það þarf líka aukinn hraða á jarðhitaleitinni við Kröflu, meiri hraða en nú er ráðgerður, svo að hagnýtt verði sem fyrst þau miklu mannvirki sem þar hefur verið komið upp. Þannig má lengi telja.

Það hafa — mér liggur við að segja: undraverðar framkvæmdir og framfarir átt sér stað í þessum málum á síðustu árum. Ég minni á það, að 1971 var gert ráð fyrir að það mundi ekki vera möguleiki á að fleiri landsmenn en u. þ. b. 60% af þjóðinni gætu notið jarðvarma til upphitunar húsa. En nú er svo komið að um 80% njóta eða eru að komast í þá aðstöðu að njóta jarðvarmans. Og það er ekki af tilviljun sem þetta hefur gerst. Í tíð fyrrv. ríkisstj. urðu á ýmsan hátt straumhvörf í þessum málum. Það er lögð aukin áhersla á jarðhitaleitina. Ég nefni tölur í þessu sambandi. 1971 voru veitt úr Orkusjóði lán til jarðhitaleitar fyrir 14.7 millj. 1972 lækkar þessi upphæð um helming eða rúmlega það, niður í 7.3 millj. 1973 lækkar hún í 5.5 millj. og 1974 er veitt 9.1. Svo koma þáttaskil. 1975 nema þessi lán 174.1 millj., 1976 331.7 millj., 1977 458.7 millj. og 1978 313.8 millj. Frá og með árinu 1975 og til og með ársins 1978 eru veittar samtals 1278.3 millj. til þessara mála, en á næstu 4 árum áður 36.6 millj.

Þetta hefur skilað árangri eins og til var ætlast, þannig að við höfum þegar náð mjög þýðingarmiklum árangri. En það þarf að halda áfram af fullum krafti og þess vegna tökum við þetta sem einn þátt í þeim framkvæmdum sem við leggjum áherslu á að hraðað verði.

Ég skal einnig láta þess getið — ég var áðan að tala um lán úr Orkusjóði — að á sama tíma sem Orkusjóður veitir 1278.3 millj. í lán veitir hann í styrki til jarðhitarannsókna 252.3 millj. En á sama tíma næstu 4 árin á undan, þegar veittar voru í lán 36.6 millj. kr. úr Orkusjóði, — hvað haldið þið að hafi verið veitt í styrki? Ekki neitt. Ekkert. Við viljum leggja áherslu á að nú verði haldið dyggilega áfram þeirri stefnu sem hefur verið fylgt í jarðhitaleitarmálum á undanförnum árum. Því tökum við þetta með.

Þá kem ég að fimmta og síðasta atriðinu, sem við flm. tökum fyrir í þessari till., og það fjallar um að hraðað verði framkvæmdum við hitaveitur og fjarvarmaveitur. Það er auðvitað ekkert mikilvægara en að jarðvarminn verði hagnýttur sem fyrst til upphitunar húsa og leysi gasolíuna af hólmi. Þjóðhagslega er því ekkert brýnna en að hraða þeim hitaveituframkvæmdum, sem standa yfir, og hefja nýjar framkvæmdir. Það jafnast ekkert á við þetta að mikilvægi varðandi upphitun húsa með olíu og ráðstafanir til þess að draga úr olíunotkuninni.

Á undanförnum árum hefur líka verið lögð alveg sérstök áhersla á þessar framkvæmdir. Það er ekki nóg, eins og ég greindi frá áðan, að það hafi verið lögð sérstök áhersla á jarðhitaleit, heldur á að hagnýta þann jarðvarma sem fengist hefur. Og það er fróðlegt að veita því athygli, hvað hefur áunnist á síðustu árum, eða frá 1971 til 1978, — svo að allt sé tekið, en þetta á fyrst og fremst við hin síðustu ár, — og hve margir íbúar landsins hafa fengið aðstöðu til þess að hita upp hús sín með jarðvarma á þessu tímabili. Þetta eru hitaveiturnar: Það er Hitaveita Suðurnesja, þar koma 7160 íbúar. Það er Hitaveita Reykhóla, 70 íbúar. Það er Hitaveita Suðureyrar, 490 íbúar. Það er Hitaveita Hvammstanga, 480. Það er Hitaveita Blönduóss, 850. Hitaveita Siglufjarðar, 2030. Hitaveita Hríseyjar, 290. Hitaveita Akureyrar, 5060. Hitaveita Reykjahlíðar, 260. Hitaveita Brautarholts, 50. Stækkun Hitaveitu Reykjavíkur vegna Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar, 29 200. Þetta eru alls 45 910 íbúar sem á þessu tímabili hafa fengið aðstöðu til þess að nota jarðvarma til upphitunar húsa sinna. Þessar upplýsingar komu frá hæstv. iðnrh. í svari við fsp. frá hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni og Alexander Stefánssyni. Og þar segir enn fremur, að ef gengið er út frá því að olíunotkun til upphitunar íbúðarhúsnæðis sé 13 lítrar á m3 á ári og hver íbúi noti 140m3 húsnæði, þá spari þessar hitaveitur 13 x 140 = 1820 lítra af olíu á hvern íbúa á ári, eða alls um 1820x45 910 = 83.6 millj. lítra á ári. Það er ekkert smáræði sem hér hefur verið að gerast. Og það hefur verið reiknað út, að með núverandi verði á olíu svari þetta til um 5760 millj. á ári. Það er því ekki að ófyrirsynju, herra forseti, að við flm. þessarar till. leggjum ákaflega mikla áherslu á þennan þátt hennar.

En í 5. tölul. till. okkar er þetta þó aðeins annar þátturinn, því þó að jarðvarmi sé ekki fyrir hendi er verk að vinna, þar sem til þurfa að koma fjarvarmaveitur með kyndistöðvum. Slíkar framkvæmdir eru einnig mjög mikilvægar þjóðhagslega, þar sem fjarvarmaveiturnar geta hagnýtt afgangsrafmagn frá orkuverum landsins og afgangsvarma frá verksmiðjum og kælivatn dísilvéla, auk þess sem svartolía er tekin sem orkugjafi í stað gasolíu. Allt þetta kallar á aukinn hraða í hitaveituframkvæmdum, hver sem orkugjafinn er.

Það hefur af hálfu RARIKs í samvinnu við iðnrn. nú um alllangt skeið — ég hygg að það hafi byrjað a. m. k. í fyrra — verið unnið að áætlunum um fjarvarmaveitur á öllum þeim þéttbýlisstöðum yfir 300 íbúa sem ekki eru taldir nú eiga von á jarðvarma, en eru á orkuveitusvæði RARIKs. Hér er um að ræða staði eins og t. d. Hellu á Suðurlandi, Hvolsvöll, Eyrarbakka, Stokkseyri og Vík, flesta þéttbýlisstaði á Austurlandi frá Hornafirði til Vopnafjarðar, þéttbýlisstaði á Vesturlandi og Norðurlandi, sem ekki er nú áætlað að eigi von á jarðvarma a. m. k. á næstunni. En á sama tíma sem RARIK hefur gert þetta hefur Orkubú Vestfjarða gert hliðstæðar áætlanir um alla þéttbýlisstaði Vestfjarða af sömu ástæðum.

Það orkar ekki tvímælis, hve þýðingarmikið er að koma fjarvarmaveitum upp af þeim ástæðum sem ég greindi áðan. Auk þess ber að hafa það í huga, að ef við komum upp fjarvarmaveitum þar sem það er hagkvæmt, í staðinn fyrir að vera með beina rafhitun, erum við búnir að útbúa og þá liggur fyrir það veitukerfi sem við getum hagnýtt ef okkur tekst síðan með aukinni viðleitni að fá jarðvarma sem hægt væri að hagnýta síðar. Þetta verk, sem hefur verið unnið bæði af RARIK og Orkubúi Vestfjarða til undirbúnings framkvæmdum við fjarvarmaveitur, er því ákafleg þýðingarmikið. Rafmagnsveitum ríkisins var falið af þáv. iðnrh. árið 1977 að gera þetta, þannig að þessu verki er núna á þann veg lokið að það liggja fyrir fullkomnar áætlanir um framkvæmdir í þessum málum. Það er aðeins eitt sem vantar. Það vantar aukið fjármagn. Þess vegna tökum við flm. þessarar till. þetta mál upp í 5. tölul. till. og leggjum ekki einungis áherslu á að jarðvarmi sé hagnýttur, heldur og að komið sé upp fjarvarmaveitum.

Herra forseti. Till. þessi fjallar um auknar framkvæmdir í orkumálum á árinu 1979 vegna hækkunar olíuverðs. En auðvitað var þörf fyrir meiri framkvæmdir en ráðgerðar eru þótt olíuverðshækkunin hefði ekki komið til. Það var þörf á að veita t. d. til Vesturlínu um 4000 millj. kr. á árinu 1979 og ljúka henni á því ári, í stað þess að veita einungis 1549 millj. kr. og ljúka henni ekki fyrr en á árinu 1980. Orkuráð gerði að till. sinni til fjárl. árið 1979 að framlag til styrkingar dreifikerfa í sveitum yrði 1000 millj. kr., en á fjárl. eru veittar aðeins 220 millj. kr. Till. var gerð um 500 millj. kr. til sveitarafvæðingar, en ekkert veitt úr ríkissjóði nema 200 millj. á lánsfjáráætlun, sem aðallega gengur til heimtauga í sveitum. (Iðnrh.: Hvað var það 1978?) Ég hef ekki þá tölu, en þetta er sveitarafvæðing. Ég sagði í ræðu minni áðan, að í raun og veru væri ekkert hægt að framkvæma í sveitarafvæðingu á þessu ári og svo hefði verið á síðasta ári. Ég hef þegar sagt það sem ég finn að hæstv. ráðh. vill draga fram. Ég hef engu að leyna í þessu efni. Ég hef leitast við í þessari ræðu að segja satt og rétt frá öllu og draga ekkert undan.

Þá vil ég taka fram að Orkuráð lagði til að til jarðhitaleitar færu 450 millj. kr., en veittar voru aðeins 350 millj. Það er því ekki hægt að hagnýta alla þá jarðbora sem við höfum. Þá gerði Orkuráð till. um 1000 millj. kr. til hitaveituframkvæmda, en aðeins voru veittar 330 millj. kr. Till. Orkuráðs, sem gerðar voru í júní 1978 um fjármagn til þessara framkvæmda sem ætlað var Orkusjóði, námu samtals 2950 millj. kr., en á fjárl. 1979 voru veittar aðeins 900 millj. kr.

Olíuverðshækkunin, sem nú er við að fást, kom til hálfu ári eftir að Orkuráð gerði framangreindar till. Óskum Orkuráðs var mjög stillt í hóf, ef menn vilja á annað borð viðurkenna þörfina á að framkvæmdir í orkumálum skuli hafa forgang. En því miður var ekki fallist á þessar till., og framlög á fjárl. ársins 1979 eru ekki einu sinni þriðjungur þeirrar heildarupphæðar sem Orkuráð lagði til. Þetta var fráleit niðurstaða, þó að olíuverðshækkuninni nú hefði ekki verið til að dreifa, hvað þá eins og nú er komið.

Till. þessi til þál. er flutt í því trausti, að hinn mikli vandi, sem olíuverðshækkunin nú veldur í ofanálag á það sem fyrir var, ýti við stjórnvöldum þannig að ekki einungis verði á árinu 1979 veitt það fjármagn til framkvæmda í orkumálum, sem till. höfðu verið gerðar um, heldur verði enn meira að gert.

Hér er um að ræða framkvæmdir á því ári sem nú er að líða. Samt sem áður hefur þáltill. þessi mikla raunhæfa þýðingu. Í fyrsta lagi er meginhluti ársins eftir og aðalframkvæmdatíminn enn ekki hafinn. Í öðru lagi þarf undirbúningur og hönnun framkvæmda ekki að tefja aðgerðir í þessum efnum. Verkefnin, sem hér er um að ræða, eru í framkvæmd eða eru undirbúin til að hefja framkvæmdir. Það er um að tefla að veita auknu fjármagni til þessara verkefna, svo að framkvæmdum verði hraðað á árinu og þær komi fyrr þjóðarbúinu að notum. Till. þessi gerir ráð fyrir að allra ráða sé leitað til að útvega þetta fjármagn, hvort heldur er með lántökum eða beinum framlögum úr ríkissjóði, enda verði beitt niðurskurði á öðrum útgjöldum ríkisins í því skyni.

Till. þessi er flutt á þeirri forsendu, að engan tíma megi missa til að mæta þeim mikla vanda sem olíuverðshækkunin nú veldur. Of mikið er í húfi þjóðhagslega og of miklar byrðar þeirra landsmanna, sem þyngst verða fyrir barðinu á olíuverðshækkuninni, til þess að ekki sé freistað að gera allt — bókstaflega allt sem er mögulegt til úrbóta. Að sjálfsögðu er till. þessi og flutt í trausti þess, að málum þessum verði fylgt eftir á næstu árum og framvegis með þeim hraða og fyrirhyggju sem mikilvægi orkumálanna fyrir þjóðarbúskap Íslendinga krefur.

Herra forseti. Ég leyfi mér að gera að till. minni að till. þessari verði vísað til hv. fjvn.