07.04.1979
Sameinað þing: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4064 í B-deild Alþingistíðinda. (3184)

231. mál, framkvæmdir í orkumálum 1979

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér þykir nú fremur leitt að mál af þessu tagi skuli vera hér til umr. í nánast tómum þingsölum, því að ég hygg að það hefði verið full þörf á því fyrir hv. alþm. að glöggva sig á stöðu þeirra mála sem till. þessi gefur vissulega tilefni til, og hún gæti gefið mér tilefni til langrar ræðu hér og grg. um ýmislegt sem unnið er að á sviði orkumálanna og tengist efni þessarar till. Ég vil að það komi fram hér, að ég tel efni hennar góðra gjalda vert og það sé mjög eðlilegt að stjórnarandstaðan beri slíkt mál fram og reyni að ýta á eftir málum af þessu tagi, jafnframt því sem hún hafi uppi nokkra gagnrýni á störf þeirrar ríkisstj. sem við völd situr. Það er aldrei svo, að slík ýtni geti ekki komið nokkru góðu til leiðar, ekki síst ef það reynist svo, að menn séu efnislega sammála um mikilvægi þess máls sem til umr. er.

Ég tel að þessi till. sé með því skynsamlegra af fremur fáum málum sem stjórnarandstaðan hefur hreyft hér á þinginu í vetur. Hinu vil ég ekki leyna, að mér finnst sumt af því, sem fram kemur í grg. till., ofsagt og sumpart villandi. Ég mun víkja að því nokkrum orðum síðar í ræðu minni.

Afgreiðsla þessarar till. breytir úr af fyrir sig ekki miklu og þýðing hennar er að því leyti kannske ekki eins mikil og fram kom í máli hv. frsm. áðan, því að það er svo, að við höfum verið að vinna að þessum málum á vegum iðnrn. nú um nokkurra mánaða skeið. Þar hefur verið í gangi vinna að endurskoðun fyrirætlana varðandi framkvæmdir í orkumálum á árinu 1979, einmitt vegna þeirrar hækkunar olíuverðs, sem við blasir, og raunar einnig með tilliti til lengri tíma en ársins 1979. Einnig horfum við þar til næsta árs og næstu ára. Þessi vinna var hafin í iðnrn. áður en þessi till. kom fram á Alþ., en það er vissulega svo með mörg mál, að þau eru á einhverjum rekspöl í stjórnkerfinu og ekkert við því að segja þótt hv. þm. ýti á eftir með tillöguflutningi hér á þinginu.

Allt frá stjórnarskiptum hefur verið unnið að margvíslegri áætlanagerð varðandi orkumál. Vissulega tengist sú vinna ýmsu því sem var í gangi hjá fyrrv. ríkisstj., eins og alltaf vill verða, þó mál séu tekin öðrum tökum, og svo hygg ég að verið hafi nú við þessi stjórnarskipti, þó að það eigi kannske eftir að koma betur í ljós þegar frá líður. Samstarfsyfirlýsing stjórnarflokkanna gerir m. a. ráð fyrir að gerð verði áætlun um raforkuþörf og raforkuöflun til næstu 5–10 ára. Að slíkri áætlun hefur verið unnið á vegum rn. nú um nokkurra mánaða skeið, raunar í eitt missiri, og bráðabirgðaniðurstöður slíkrar áætlunar voru hafðar til hliðsjónar er till. voru mótaðar af rn. hálfu varðandi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1979. Þessu verki er nú fram haldið á þeim mánuðum, sem liðnir eru af þessu ári, og tengist m. a. breyttum viðhorfum vegna hækkunar olíuverðs, sem sjálfsagt er að tekið sé með þegar áætlun til langs tíma er mótuð. Fyrir utan þetta er svo í gangi mikil vinna við athugun á skipulagsmálum raforkuiðnaðarins með það að markmiði að koma á fót einu landsfyrirtæki til að annast meginraforkuframleiðslu og raforkuflutning um landið. Má út af fyrir sig segja að það starf tengist ekki með beinum hætti því máli sem hér er til umr., en með óbeinum hætti gerir það það og á að tryggja, ef í höfn kemst, að mun heildstæðari vinnubrögð verði viðhöfð í sambandi við orkumál landsmanna en tekist hefur til þessa.

Fyrir olíuverðshækkunina, eða strax í byrjun vetrar, hóf iðnrn. undirbúning að víðtækum aðgerðum á sviði orkusparnaðar og hagkvæmari orkunýtingar, sem hv. frsm. þessarar þáltill. gerði að nokkru umtalsefni og vikið er að í þáltill. Það hafði þannig verið ákveðið að leggja í fyrstu sérstaka áherslu á sparnað í notkun á innfluttu eldsneyti og að fyrstu verkefnin á því sviði yrðu varðandi olíunotkun fiskiskipa og notkun olíu til húshitunar. Ég gerði grein fyrir vinnu og undirbúningi að þessum málum Sþ. á fyrsta degi þinghalds eftir jólaleyfi og mun því spara mér að fara ítarlega út í þessi mál nú. Síðan hefur verið unnið að þeim samkv. áætlun og allverulegur skriður er nú kominn á þá þætti sem ég nefndi, m. a. varðandi skipti á olíutegundum í togaraflotanum með vissri fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda og með könnun á ástandi húsa með tilliti til einangrunar og ástands kynditækja, þar sem enn er kynt með olíu. Þessi undirbúningur, sem kominn var á rekspöl á liðnu ári, kom sér einkar vel nú, er mikil hækkun hefur orðið á olíuverði.

Varðandi sparnaðaraðgerðir í húshitun vil ég sérstaklega geta þess óeigingjarna starfs sem skólanemar nokkurra framhaldsskóla hafa lagt af mörkum, m. a. með ferð til þriggja þéttbýlisstaða á Austurlandi. Nú einmitt á þessum dögum og um helgina, sem fram undan er, eru skólanemar að verki í þessum tilgangi í öðrum landsfjórðungi, þ. e. a. s. á Vesturlandi, við að stilla og fara yfir kynditæki hjá íbúum á nokkrum stöðum þar. Hins vegar er ekki við því að búast að við getum treyst á skólaæskuna eina saman til þess að vinna það verk sem nauðsynlegt er að gera í sparnaðarskyni og hagkvæmniskyni með því að líta á búnað þeirra eitthvað 15 þúsund aðila sem búa enn við olíukyndingu, og því þarf þar að koma til fjölþættari aðgerða. Iðnrn. hefur því tekið til þess ráðs að hafa samvinnu við sveitarstjórnasamtök og sveitarfélög og snúið sér fyrir nokkru til landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem hv. frsm. þáltill. nefndi áðan að hefðu snúið sér til hæstv. ríkisstj. með sérstöku erindi, og við höfum óskað eftir því að geta átt samstarf við þau um þetta mál og boðið þar fram ákveðinn stuðning. Þannig er ákveðið að námskeið verði haldið að frumkvæði og á vegum iðnrn. í maímánuði n. k. til að þjálfa menn í meðferð kynditækja og til að unnt verði að rækja þessa þjónustu á sómasamlegan hátt í sem flestum byggðarlögum landsins sem búa við olíuhitun, á meðan ekki hefur tekist að útrýma notkun þessa innflutta eldsneytis. Einnig er í undirbúningi fræðsla með dreifiriti til allra þeirra, sem við olíukyndingu búa, um meðferð viðkomandi búnaðar, og upplýsingar munu koma fram og fræðsla í fræðsluþáttum í sjónvarpi nú innan tíðar.

Þess er einnig að geta, að starfshópur vinnur á vegum Orkustofnunar að þessum málum horft til lengri tíma, þ. e. a. s. að sparnaði í húshitun, óháð því hvaða orkugjafi á í hlut, hví að vissulega þurfum við að hugsa til sparnaðar á þessu sviði þótt um innlenda orkugjafa sé að ræða, og á þetta raunar ekki eingöngu við um húshitun, heldur nánast á öllum sviðum þar sem um orkunotkun er að ræða. Sparnaðarviðleitni er þannig sjálfsögð og eðlileg. En markmiðið hlýtur að vera að útrýma olíunotkun við upphitun húsa sem viðast á allra næstu árum og einnig á öðrum sviðum í búskap okkar eftir því sem frekast er kostur, svo sem í iðnaði og samgöngum. Þetta verkefni kallar á samræmdar aðgerðir á sviði raforkumála, í hitaveituframkvæmdum, þar sem byggt er á jarðvarma, og í fjarvarmaveitum, þar sem hagkvæmt kann að verða að koma þeim upp, en þær byggja sem kunnugt er á blöndu af raforku og svartolíu og með þeim er haldið opnum leiðum fyrir nýtingu jarðvarma með þeim vatnskerfum, sem þar er um að ræða, eða afgangsorku frá iðjuverum til upphitunar.

Iðnrn. tók einnig til við það, eftir að ljóst var að veruleg verðhækkun yrði á olíu, að leita leiða, hvernig hægt væri að standa með skipulegum hætti að því að bregðast við þessari vá, eins og það er orðað í fyrirliggjandi þáltill. Við tókum til þess ráðs að kveðja saman allmarga sérfræðinga og starfsmenn af vettvangi orkumála, kvöddum þá saman til funda til þess að fá fram hugmyndir til undirbúnings að tillögugerð um framkvæmdir og forgangsverkefni á sviði orkumála vegna fyrirsjáanlegrar verðhækkunar. Fyrsti undirbúningsfundur þessa liðs var haldinn í lok febr. s. l. og í framhaldi af honum ráðstefnur um málið 12. og 13. mars s. l. Þessir fundir, en þá sóttu m. a. starfsmenn rafveitna úr öllum landshlutum, voru mjög gagnlegir að mínu mati og þar kom fram fjöldi hugmynda. Voru skráðar eitthvað á milli 400 og 500 ábendingar og hugmyndir frá þátttakendum. Frumúrvinnslu á því, sem fram kom á þessum fundum, er nú lokið og liggja þar fyrir 200 ábendingar sem teknar eru til framhaldsskoðunar, og sérstakur hópur vinnur nú að því á vegum rn. að móta till. á grundvelli þessa efnis og fleira sem að verður dregið.

Þetta er þriggja manna hópur undir forustu ráðuneytisstjóra í iðnrn. Það er ætlunin að leggja fram mótaðar till. um þessi efni innan tíðar og þær eiga að fela í sér viðbrögð við hækkuðu olíuverði. Ég geri ráð fyrir að þar komi fram till. um hugsanlega hröðun framkvæmda á árinu 1979, þar komi fram ábendingar um hraðari undirbúning framkvæmda vegna ársins 1980 og till. um framkvæmdahröðun á sviði orkumála með tilliti til verðbreytinga á orku horft til næstu ára. Ég á einnig von á að þarna komi fram till. um æskilegar og nauðsynlegar rannsóknir vegna framkvæmda í orkumálum, vegna nýjunga og æskilegra nýmæla á sviði orkumála og vegna orkusparnaðar og mögulegrar hagkvæmari orkunýtingar.

Till. vegna hugsanlegra aðgerða á yfirstandandi ári þurfa að sjálfsögðu að koma fram fyrr en seinna, eins og hv. frsm. gat um áðan, og ég vænti þess, að þær liggi fyrir frá þessum starfshópi innan hálfs mánaðar. Rn. mun þá kynna þær í ríkisstj. og leita leiða til að hrinda a. m. k. einhverjum þeirra í framkvæmd og leita leiða til fjáröflunar í því skyni til viðbótar því sem till. hafa verið mótaðar um og fram hefur komið í fjárl. og framkvæmda- og lánsfjáráætlun ríkisstj.

Í fyrirliggjandi þáltill. er bent á tvær mögulegar leiðir. Ég tel út af fyrir sig eðlilegt að á þær sé litið. Við hljótum að hugsa til mögulegrar öflunar á lánsfé eftir því sem ástæða þykir til að hraða framkvæmdum eða undirbúningi framkvæmda. Einnig kemur vissulega til álita tilfærsla á fjármagni frá því sem fyrirhugað hefur verið. Ég vil einnig geta um atriði sem ég tel að líta beri á í þessu samhengi, en það er að ráðstafa hluta af þeim viðbótartekjum, sem ríkissjóður fær vegna hækkaðs olíuverðs eða bensínverðs, í þessu samhengi. Ég tel að það komi vel til álita að nýta eitthvað af þeim tekjum, að svo miklu leyti sem þeir tekjustofnar verða ekki niður felldir, einmitt til þess að hraða framkvæmdum á sviði orkumála hér innanlands.

Sú vinna, sem verið hefur í gangi á vegum iðnrn., mun einnig nýtast við undirbúning og mótun till. vegna framkvæmda á árinu 1980, en vinna við þá tillögugerð er nú einmitt að hefjast á þessum vikum. Það þarf að hyggja einnig að framtíðinni. Hér kemur vissulega fjölmargt til álita, eins og bent var á af frsm. áðan, og það liggja fyrir langir óskalistar innan iðnrn., en einnig frá hv. þm. og frá sveitarfélögum víða um land. Það er mjög eðlilegt að til álita komi raflínulagnir, eins og bent hefur verið á, hröðun raflínulagna til þess að taka fyrir eða afnema raforkuframleiðslu með olíu sem enn á sér stað í nokkrum mæli á vissum stöðum á landinu og áætlað hefur verið að geta kostað um 1.5 milljarð kr. á þessu ári, og er þá miðað við olíuverð sem nemur 92 kr. á lítra. Þessi svæði eru einkum eftirtalin: Það eru Vestfirðir. Þar gæti olíukostnaður samkv. sömu forsendum numið 785 millj. kr. Ég nefni það auðvitað, að þessar tölur eru ekki nákvæmar og eru áætlunartölur. Það er Vopnafjarðarsvæðið á Austurlandi. Þar búa menn eingöngu að dísilvinnslu, þar sem rafmagn er eingöngu framleitt með olíu. Gæti kostnaður við það numið um 290 millj. kr. á þessu ári. Þess er að geta, að samkv. lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við tengingu þessa svæðis með lagningu línu frá Lagarfossi til Vopnafjarðar, sem væntanlega nær í höfn á næsta ári og þarf að gerast fyrir vetur raunar, á sama hátt og tryggja þarf að tenging Vesturlínu ljúki fyrir veturinn 1980–1981. Það er þjóðhagslega mjög þýðingarmikið.

Enn eitt af þessum svæðum, sem búa við mikla dísilvinnslu eða framleiðslu á raforku með olíu, er Austur-Skaftafellssýslusvæðið, sem er enn þá einangrað frá landskerfinu. Kostnaður við raforkuframleiðslu með olíu þar er talinn geta numið 465 millj. kr. á þessu ári. Einnig ber hér að nefna svæði Skeiðsfossvirkjunar á Norðurlandi, sem er einangrað svæði, þar sem er fyrst og fremst um að ræða Siglufjörð og raunar Ólafsfjörð, en ekki horfir vel með orkuöflun á þessu svæði, þannig að það er mjög nauðsynlegt að leita leiða til þess að tengja það fyrr en seinna við landskerfið með lagningu raflínu, væntanlega frá Dalvík til Ólafsfjarðar. Vegna þess, hvernig árað hefur að undanförnu, er vatnsforði mjög takmarkaður hjá vatnsaflsvirkjunum á þessu svæði, þannig að það þarf að grípa til skyndiráðstafana til þess að afstýra orkuskorti á næstu vikum. Ég vil líka í þessu samhengi nefna Norðausturlandið, þ. e. a. s. svæðið í Norður-Þingeyjarsýslu, þar sem mjög nauðsynlegt er að bæta ástandið og endurbyggja þá stofnlínu, sem þangað liggur og er mjög ófullkomin, og geysimikil orkutöp eru á þessu svæði og þar sem um nokkra olíunotkun er að ræða við raforkuframleiðslu.

Brýnt er að sjálfsögðu að halda áfram lagningu stofnlína um landið, hinna öflugu 132 kw. stofnlína, og ljúka hringtengingu með slíkum línum um landið. Er í sérstakri athugun á vegum iðnrn. hversu hratt beri að fara í þeirri framkvæmd, en þegar hefur verið áformað að tengja Austur-Skaftafellssýslu norðan frá á allra næstu árum með slíkri stofnlínu, og það er aðeins spurning um tíma — ekki langan tíma — hvenær hringnum verði lokað. Þetta tengist m. a. athugun á raforkuframkvæmdum og virkjanaframkvæmdum á Austurlandi og öryggisþáttum fyrir landskerfið í heild. Þau mál eru nú í athugun á vegum iðnrn. í samráði við marga hlutaðeigandi aðila.

Hv. frsm., Þorv. Garðar Kristjánsson, vék áðan einnig að styrkingu dreifikerfanna og nauðsyn á að gera þar mikið átak. Ég tek fullum hálsi undir þau orð hans og lýsi ánægju minni með þá vinnu sem staðið hefur verið fyrir af Orkuráði á undanförnum missirum við úttekt í þessu efni, þar sem fyrir liggur nú áætlun um eða a. m. k. greining á stærð þessa verkefnis, II. þætti í rafvæðingu sveitanna, eins og það var orðað áðan. Þarna er um að ræða mjög stórt verkefni á okkar mælikvarða, en geysiþýðingarmikið, og ég held að það sé út af fyrir sig ekki ofsagt að menn hafi mænt of mikið á virkjanir á undanförnum árum, en ekki veitt þýðingu uppbyggingar dreifikerfisins þá athygli sem skyldi, og því hafi gætt þarna nokkurs misvægis. Það er full þörf á því, að horft verði á þessi mál í fyllsta samhengi, því að fyrir notendurna skiptir auðvitað meginmáli að fá raforkuna næga og örugga á leiðarenda og á sem hagkvæmustu verði og sanngjörnu verði miðað við það sem best gerist á landinu. Ég tel að það þurfi að ýta mjög vel á eftir einmitt við styrkingu dreifikerfa á næstu árum, og sú áætlun, sem felst í till. og skýrslum Orkuráðs, sem dreift var til hv. þm. nýlega, þyrfti helst að ganga eftir ef vel ætti að vera. Þar er gert ráð fyrir því, að komið verði þrífasa rafmagni á um 65% af þeim línulögnum sem nú eru fyrir hendi í sveitum eða strjálbýli landsins, og þetta ætti að ná til 70–80% af býlum eða jörðum í sveitum landsins, sem mundu þá njóta þessa rafmagns. Kostnaðurinn við þetta verkefni hefur verið áætlaður, miðað við verðlag í byrjun þessa árs, 8800 millj. kr., sem þýddi þá að verja þyrfti til þess 1100 millj. kr., ef ljúka ætti þessu mikilvæga verkefni á 8 árum, eins og Orkuráð hefur gert till. um. Eftir væri þá hluti af sveitabýlum í landinu án þrífasa rafmagns, en það verður auðvitað að vera matsatriði hversu miklu til er kostað, og það þýddi verulegan viðbótarkostnað ef ætti að tryggja þessum jörðum sams konar rafmagn með þrífösun, eða samkv. áætlun, að mig minnir, milli 6 og 7 milljarða kr. sem þá bættust við. Það er ekki heldur endilega sagt að allt sé fengið með slíkri þrífösun, þó að það muni staðreynd að vélar séu dýrari þegar um einfasa rafmagn er að ræða.

Ég vil aðeins víkja að einum þætti sem sjálfsagt er að huga að í sambandi við aðgerðir til hagkvæmni í sambandi við raforkuöflun og ekki þarf að kosta mjög mikið til að skila árangri, en það er að bæta við svokölluðum þéttum í spennistöðvar í dreifikerfinu, í aðveitustöðvum. Með slíkum ráðstöfunum, slíkum búnaði, sem kallaður er „þéttar“ og ekki kostar mjög mikið, má auka verulega flutningsgetu lína. Ég get tekið sem dæmi, að með slíkum búnaði, sem kostar aðeins nokkra tugi millj., að ég hygg, væri unnt að auka flutningsgetu á línu til Keflavíkur um heil 7 mw. frá því sem nú er. Ég skal ekki fullyrða um tilkostnaðinn, en hann er ekki mjög verulegur við slíkan búnað. Sama gildir ef komið væri upp þéttum á Austurlínu á Akureyri og við endastöð hennar í austri í Skriðdal. Þá mætti fyrir 400 millj: kr. stórlega auka flutningsgetu þessarar línu. Þarna er um möguleika að ræða sem ekki hafa verið mikið til umr., en sjálfsagt er að líta til þegar rætt er um að bæta ástandið í þessum efnum frá því sem nú er.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að þeim þætti sem varðar jarðhitaleit og rannsóknir á því sviði. Ég tel að eitt af því þýðingarmesta í sambandi við þessi mál sé að unnt verði að halda áfram og auka og standa skipulega að jarðhitaleit á þeim svæðum og nálægt þeim þéttbýlisstöðum sem ekki njóta jarðvarmaveitna, en hefðu möguleika til þess. Þar er ólokið mörgum verkefnum, bæði grundvallarrannsóknum með hitastigulsborunum, sem svo eru kallaðar og ekki kosta mikið fjármagn, en einnig borunum, sem nauðsynlegar eru í framhaldi af slíkum yfirlitsrannsóknum, til þess að fá úr því skorið hvort möguleikar kunna að vera á heitu vatni til hitaveitna á viðkomandi svæðum. Ég get nefnt þarna sem dæmi svæðin á Snæfellsnesi eða við sunnanverðan Breiðafjörð, þar sem menn telja sig hafa von um að geta fengið upp jarðhita, en það er hins vegar mjög erfitt og verður ekkert um það fullyrt nema að undangengnum verulegum rannsóknum, sem hvorki er eðlilegt né líklegt að sveitarfélög geti staðið fyrir, svo mikil er óvissan í þessum efnum. Það er því eðlilegt að mínu mati að hið opinbera gripi inn í með því að standa fyrir borunum á slíkum svæðum. Þetta gildir raunar einnig um svæði á því „kalda“ Austurlandi, sem talið hefur verið í jarðfræðilegum skilningi, þar sem á síðustu árum hefur þó komið í ljós að von getur verið um nýtanlegan jarðhita. Raunar liggur vissa fyrir um það fyrir þéttbýlið við Egilsstaði, þar sem menn eru að undirbúa og ætla sér að ráðast í hitaveitu, jarðvarmaveitu, þegar á þessu ári.

Ég vil í þessu samhengi, vegna þess að hv. frummælandi vék sérstaklega að nauðsyninni á að hækka olíustyrk og nefndi einnig og rifjaði upp tölur frá liðnum árum í sambandi við jarðhitaleit og lán til jarðhitaframkvæmda um Orkusjóð, taka fyllilega undir orð hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar um það, að óhjákvæmilegt er að hækka olíustyrk að því marki að ekki verði um að ræða frekari mismunun en orðin er hjá þeim íbúum landsins sem enn búa við olíukyndingu. Það hefur komið fram, að ríkisstj. hefur nýlega hækkað olíustyrkinn allverulega frá því sem var á síðasta ári, eða um 85%, úr 2600 kr. á íbúa upp í 5000 kr., og gert hafði verið ráð fyrir því samkv. fjárl. að styrkurinn yrði tvöfaldaður, en óhjákvæmilegt verður að bæta þar verulega við ef eftir gengur sem horfir um þróun olíuverðs. Þessi hækkun, sem gildir fyrir fyrsta ársfjórðung 1979, nemur um 85%, eins og ég gat um, en hlýtur að verða endurskoðuð fyrir framhaldið með hliðsjón af hækkun á olíuverði.

En það er kannske eðlilegt að rifja upp í þessu samhengi eða ítreka það sem hv. frsm. nefndi, hversu lítið olíustyrkurinn hefur hækkað á undanförnum árum og á starfstíma síðustu ríkisstj. Ég tel að það sé eðlilegt að á það sé minnt, aðþegar menn eru að benda á að vel hafi verið staðið að jarðhitaleit og jarðhitalánum má það hins vegar ekki gleymast að þarna er um samhengi að ræða. Það var tryggð tekjuöflun. (ÞK: Það var tekið fram, hvað hefði hækkað olíustyrkur til hitakyndingar.) Það er alveg rétt. Það var fram tekið af hv. flm. En það var samantengd á starfstíma fyrrv. ríkisstj. hækkun á jarðhitalánum og framlögum til jarðhitaleitar og hlutfallsleg lækkun á olíustyrk á sama tíma. Menn voru með þennan tekjustofn, sem tryggður var og markaður var 1974 sem 1% gjald, sem skyldi varið til þessara hluta. En það var fyrrv. ríkisstjórnar að ákveða um skiptin. Hún valdi þann kost, sem ég út af fyrir sig ætla ekki alfarið að gagnrýna, að verja auknu fé til jarðhitaleitar. Það var nauðsynlegt og það var rétt að gera það. En það var gert á kostnað olíustyrksins að verulegu leyti, þannig að verðgildi hans rýrnaði stórlega á sama tíma. Það, sem hefði þurft að gerast á þessum tíma, var að bæta þarna við fjármagni til hvors tveggja. Ég get margt vel sagt um þá vinnu sem fyrrv. ríkisstj. stóð að í sambandi við átak í hitaveituframkvæmdum og þeim rannsóknum sem þær þurfa að byggjast á, en hitt má ekki gleymast, að þeir, sem við olíuhitun búa og bjuggu á þeim tíma, sátu ansi mikið úti í kuldanum hjá þeirri hæstv. ríkisstj. á meðan hún starfaði. Því er nú brýn nauðsyn að bæta þar úr og um það hefur verið mörkuð stefna.

Varðandi hitaveituframkvæmdir vil ég líka geta þess, að ég tel að þar þurfi í framtíðinni að læra nokkuð af mistökum sem orðið hafa að sumu leyti á liðinni tíð, og er ég þar ekki að áfellast einn eða annan. Það væri kannske réttara að segja: að læra af þeirri reynslu sem við höfum safnað á liðnum árum í sambandi við hitaveituframkvæmdir. Þó að rösklega hafi verið unnið að mörgu leyti á því sviði fyrir tilverknað fyrrv. ríkisstj. hefur skort mjög á að nógu skipulega og vel væri staðið að undirbúningi framkvæmda í hverju tilviki.

Eins og við vitum eru sveitarfélögin frumkvöðlar og standa fyrir hitaveituframkvæmdum. Þær eru á þeirra vegum langflestar og þau bera af þeim veg og vanda, þó að hið opinbera láni til þeirra og styrki þær með vissum hætti, þ. á m. með lánafyrirgreiðslu. Það er nú svo, að ekki er nóg eitt út af fyrir sig að jarðvarmi finnist. Það þurfa að vera ákveðnar hagkvæmniforsendur til þess að það sé óyggjandi rétt að ráðast í jarðvarmaveitur eftir að varmi er fundinn. Það skiptir því mjög miklu máli, að allur undirbúningur sé vandaður. Við höfum nokkrar hitaveitur hérlendis sem eru í vandræðum vegna þess að menn hafa teflt í nokkra tvísýnu og þar sem ekki er kannske um fundið fé að ræða, jafnvel þótt miðað sé við hið háa olíuverð og hækkandi olíuverð. Vissulega vænkast samanburðurinn með hækkuðu olíuverði, þannig að þess er að vænta að veitur, sem nú eru þegar risnar og eru kannske ekki ýkjahagkvæmar, verði það innan tíðar og að hitaveitukostir verði hagkvæmir, þó að þeir sýnist það ekki miðað við núverandi orkuverð. Ég get nefnt sem dæmi um hitaveitur, sem þarna eiga í vanda, hitaveiturnar á Blönduósi og á Siglufirði, þar sem nauðsynlegt er að leita leiða til þess að bæta úr fyrirsjáanlegum vandkvæðum.

Í þessu sambandi tel ég rétt að benda á að ég hygg að það þurfi að standa öðruvísi að jarðhitaleit fyrir hin minni sveitarfélög, það sé nánast í of mikið ráðist fyrir tiltölulega fjárhagslega vanmegna sveitarfélög að standa fyrir jarðhitaleit með þeim hætti sem æskilegast væri. Því hafa menn teflt þar í sumum tilvikum óþarflega í tvísýnu, þ. e. a. s. menn hafa ráðist í að leggja dreifikerfi næstum á sama tíma og þeir eru að leita að jarðhitanum, meðan þeir eru að bora. Þetta er dálítið svipað og gerðist við þá frægu Kröfluvirkjun. Þarna er teflt á of mikla tvísýnu. Og þetta er einfaldlega vegna þess að veiturnar eru ekki hagkvæmar nema takist að koma þeim í gagnið nánast samtímis og sveitarfélagið fer að stofna þar til verulegs tilkostnaðar. Þá þarf að fá inn tengigjöld og tekjur, og er sveitarfélagið því nánast nauðbeygt til þess að taka verulega áhættu. Á þessu tel ég að verði að ráða bót. Þar verða opinberir aðilar að koma til eða skipuleg samtök meðal sveitarfélaga.

Ég held að það sé veruleg ástæða til þess að taka hitaveitumálin til skipulegrar meðferðar og úttektar á grundvelli fenginnar reynslu. Við í iðnrn. höfum þegar tekið upp samvinnu við sveitarfélög um þetta og ákveðið að reyna að taka undirbúning þessara mála meira til athugunar á vegum sjálfs rn. en verið hefur. Þetta hefur því miður verið allt of mikið á tvístringi og hefur nánast enginn einn aðili haft yfirlit yfir þessa þætti. Ég tel það ekki orka tvímælis, að iðnrn. beri að hafa þarna veg og vanda, vera sá aðili sem metur málin áður en ráðist er í framkvæmdir, svo sem lög raunar bjóða, því að það er iðnrn. sem á að veita einkaleyfi til hitaveitna og ekki síður að vera ráðgefandi í þessu efni. Það þarf líka að huga að verðlagningu jarðvarmaorkunnar. Það er allt of mikill munur á gjaldskrám hitaveitna víða um landið, og þar ganga menn ekki alls staðar eins skynsamlega fram og skyldi með því að halda gjaldi á heitu vatni óþarflegu lágu og hafa þá ekki bolmagn til þess að ráðast í stækkun viðkomandi fyrirtækja þegar að henni kemur. Að þessu öllu þarf að huga.

Hér var svo vikið nokkuð að fjarvarmaveitum, og vissulega hafa menn horft talsvert til þess kostar í sambandi við þau svæði sem ekki geta með vissu treyst á jarðvarma, a. m. k. ekki eins og þekkingu okkar nú er háttað. Það er mjög góðra gjalda verð sú úttekt sem unnið hefur verið að á undanförnum árum að þessu leyti. Henni er nú nokkuð langt komið, þannig að menn eru að fá sæmilega heildarsýn til þessara mála. Það eru að koma núna á allra næstu vikum skýrslur sem hafa að geyma yfirlit yfir hagkvæmniútreikninga í þessum efnum fyrir nánast landið allt, eða réttara sagt þau svæði þar sem fjarvarmaveitur gætu komið til álita, og það hefur komið í ljós einmitt á síðustu mánuðum við athugun þessara mála, að það er kannske ekki allt eins girnilegt í þessum efnum og mönnum hefur sýnst og það þarf þarna eins og viðar að fara vel ofan í saumana áður en ráðist er í framkvæmdir. Ég er ekki að segja með þessu, að það hafi neitt komið fram sem er útilokandi fyrir fjarvarmaveitur á mörgum þéttbýlisstöðum, en hins vegar virðast útreikningar og athuganir leiða í ljós að munurinn á beinni rafhitun og fjarvarmaveitum sé engan veginn eins mikill þjóðhagslega séð og hagkvæmnilega séð og menn hafa haldið. Því er það, að margt bendir til þess að víða á hinum svokölluðu „köldu svæðum“ verði um blöndu hvors tveggja að ræða, þótt í þéttbýli sé, og menn þurfi að vanda vel allan undirbúning áður en ráðist er í framkvæmdir að þessu leyti.

Eins og hv. þm. vita er hugsað til þess að nota afgangsraforku í sambandi við uppbyggingu fjarvarmaveitna og olíu til þess að taka af afltoppana. Það er nokkuð misjafnt, og fer eftir uppbyggingu raforkukerfisins og raunar eftir vatnsárum líka, hversu mikla afgangsraforku við höfum. Það er einmitt athugun af þessu tagi sem hefur verið í gangi og er að verða sæmilega heildstæð nú, þar sem menn eru að bera saman — horft fram til næstu aldamóta — hvernig háttað muni vera um afgangsorku í raforkukerfi landsmanna á þessu tímabili og þar með hvernig fallið geti saman á hinn æskilegasta hátt þjóðhagslega séð uppbygging á fjarvarmaveitum, miðað við þá afgangsorku sem fyrir kann að liggja í landskerfinu á hverjum tíma. En þess ber vissulega að geta, að þó að krónur beri kannske vott um að fjarvarmaveitur séu ekki endilega hagkvæmar miðað við beina rafhitun ber að hafa í huga að þær halda opnum leiðum m. a. fyrir jarðvarma ef hann finnst og þær auka einnig á öryggi notenda, þar sem menn hafa varaafl úr að spila, ef raforku þrýtur, og það er nokkuð fyrir það gefandi. Slíkt ber að sjálfsögðu að taka til greina. Vatnskerfin gefa einnig möguleika á því að nota afgangsvarma í ýmsu formi, ef til fellur, m. a. frá iðnaði, og ber vissulega að meta slíkt þegar litið er á hagkvæmni fjarvarmaveitu.

Hv. þm. og frsm. hér áðan, Þorv. Garðar Kristjánsson, vék nokkuð að fjárveitingu til orkumála á yfirstandandi ári og var með samanburð við óskir Orkuráðs, eins og þær voru fram settar s. l. sumar. Ég vil taka það fram, að ég tel að það hafi langt frá því tekist að tryggja það fjármagn til orkumálanna á þessu ári sem þurft hefði og það enda þótt ekki hefði komið til hækkun á olíuverði. En vegna þess samanburðar, sem fram kemur í grg. með þessari till., og þeirra orða, sem hv. frsm. hafði áðan um þessi efni, tel ég rétt að víkja nokkrum orðum að þessum þætti og líta þá einnig á hvernig fyrrv. ríkisstj. stóð að þessum málum, þó að metingur af því tagi sé kannske ekki það brýnasta í þessum efnum.

Við skulum byrja á því í þessu samhengi að líta á samanburð í heild á framlagi til orkuframkvæmda milli áranna 1978 og 1979. Samkv. fjárfestingaráætlun ársins 1979, sem nú er í meðferð Alþ., er gert ráð fyrir að það verði um 5% samdráttur í opinberum framkvæmdum milli ára, og raunar benda áætlanir og spár til þess, að um 7% samdrátt verði að ræða í heildarfjárfestingu á árinu 1979. Samdráttur framkvæmda við rafvirkjanir og rafveitur er að framkvæmdamagni — ekki í krónum talið, heldur í framkvæmdamagni — talinn vera samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar 2.7% lægri en var á árinu 1978, þ. e. allverulega minni en meðaltalssamdráttur í opinberum framkvæmdum. Hins vegar dragast framkvæmdir við hitaveitur meira saman en nemur meðaltalssamdrætti í heildarfjárfestingu til opinberra framkvæmda, eða að mig minnir nálægt 13% að magni til miðað við árið 1978. Þar veldur m. a. að stórar framkvæmdir — eins og við Hitaveitu Suðurnesja — eru langt á veg komnar. Það eru kannske ekki mörg stórvirki af því tagi fram undan, en þó ber þar að geta sérstaklega hitaveitna Akraness og Borgarness sem gert er ráð fyrir að unnt verði að hefja framkvæmdir við á þessu ári og ég vona að megi takast, og ætlaðar eru í því skyni allt að 750 millj. kr. samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun þessa árs. Einnig er gert ráð fyrir lántökum og framlögum til margra nýrra hitaveituframkvæmda fyrir utan þessa stóru veitu á Vesturlandi, þ. á m. hitaveitu Egilsstaða og fjarvarmaveitu á þéttbýlisstöðum, svo sem á Ísafirði og Höfn í Hornafirði.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að Orkuráð gerði till. um fjárveitingar til framkvæmda á sviði orkumála að upphæð 2950 millj. kr. og þær till. lágu fyrir s. l. sumar, ég hygg í júnímánuði s. l. Í þeim drögum að fjárlagafrv., sem fyrir lágu við stjórnarskiptin og fyrrv. ríkisstj. skilaði í veganesti til þeirrar sem við tók, var hins vegar gert ráð fyrir að þessi fjárhæð næmi ekki 2950 millj. kr., eins og Orkuráð hafði lagt til, heldur 830 millj. kr., fyrir utan 130 millj. kr. lántöku sem gert var ráð fyrir undir merkjum sveitarafvæðingar. Í fjárl. ársins 1978 var samsvarandi fjárveiting 690 millj. kr. Ég er ekki að segja með þessu — síður en svo — að till. Orkuráðs hafi verið óeðlilegar eða óraunsæjar. Ég held að þær hafi verið studdar góðum rökum.

Við afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlunar var fjárveiting til framkvæmda á vegum Orkusjóðs hækkuð úr 830 millj. í 900 millj. kr. — það var auðvitað allt of lítið — auk þess sem ákveðnar voru lántökur til sjóðsins að upphæð 225 millj. kr. til styrkingar dreifikerfa í sveitum og lántaka að upphæð 200 millj. kr. til sveitarafvæðingar. Nokkuð var því úr bætt frá því sem till. lágu fyrir um við stjórnarskiptin. Þá liggur einnig till. fyrir um það í lánsfjáráætlun ríkisstj., að Orkusjóði verði heimiluð lántaka að upphæð 360 millj. kr. vegna yfirtöku skulda Orkusjóðs á skuldum Rafmagnsveitna ríkisins sem til komu við stofnun Orkubús Vestfjarða. Við stjórnarskiptin stóð Orkusjóður frammi fyrir mjög alvarlegum fjárhagsvanda, m. a. vegna þeirra skuldaskipta sem á hann voru sett í byrjun ársins 1978. Till. iðnrn. um fjárframlög til þessara mála við undirbúning lánsfjáráætlunar ársins 1979 voru miklu hærri en hún ber vott um, en náðu hins vegar ekki fram að ganga við afgreiðslu hennar í ríkisstj. Það mun vera reynsla þeirra, sem á einstökum málaflokkum halda, að þeir fá ekki það fram sem æskilegast væri. En ég tel að það sé mikil nauðsyn á því, að menn fáist til að líta á mikilvægi orkumálanna og þjóðhagslega þýðingu öðrum augum en verið hefur nú um nokkuð langt skeið, og ég vænti þess, að slík hugarfarsbreyting komi fram á þessu ári og endurspeglist að einhverju leyti í till. vegna fjármagns til þessara þátta á næsta ári. — Ég vil geta þess í þessu samhengi, að iðnrn. studdi eindregið varatill., sem Orkuráð gerði og setti fram 11. des. s. l. um 1900 millj. kr. fjárveitingu til framkvæmda á vegum Orkusjóðs, og lét reyna á það í þessu sambandi innan ríkisstj. hvort unnt væri að fá fylgi við þær tillögur.

Ásamt mörgu vék hv. frsm. áðan að jarðborunum. Raunar kemur það einnig fram í grg. með þessari þáltill., að ekki sé einu sinni séð fyrir nægilegu fjármagni til að nýta þá jarðbora sem eru í eigu ríkisins. Þetta er alveg rétt. Ástandið er þannig, að það er nánast aðeins séð fyrir verkefnum fyrir annan af tveimur hinna stóru jarðbora sem aflað var fyrir nokkrum árum. Verkefnalega séð er gert ráð fyrir ákveðinni verkaskiptingu þeirra á milli. En þetta er því miður engin ný bóla. Ástandið hefur verið þannig á undanförnum árum samkv. grg. sem ég hef fengið frá Orkustofnun, að engan veginn hefur verið séð fyrir verkefnum fyrir þessa stóru bora. Þau hafa ekki verið samfelld nú um nokkurra ára bil og hafa borarnir oft verið notaðir til skiptis. Það er auðvitað út af fyrir sig álitamál, hvort tæki sem slík eigi að ráða ferðinni, og ég tel vissulega að það geti ekki verið rétt að menn eigi að meta framkvæmdir út frá fyrirliggjandi tækjum. En hitt tel ég alveg sjálfsagt að fram komi, að það þyrfti að vera meiri kraftur í borunum, í jarðhitaleit í landinu, og þessi tæki þyrfti að nýta betur.

Þegar ráðist var í kaup á jarðbornum Jötni gerðu menn ráð fyrir því og áætlanir munu hafa legið fyrir um það, að boraðar yrðu með honum 4–5 holur á ári hverju, að slík verkefni lægju fyrir. En það hefur einfaldlega ekki gengið eftir. Á þeim tíma gerðu menn ráð fyrir stórframkvæmdum í borunum vegna Kröfluvirkjunar. Þar hafa aðstæður í millitíðinni breyst og menn hafa að meiri hluta reynst 6fáanlegir til þess að veita fjármagn í það sem ég teldi eðlilegar rannsóknir á jarðhitasvæðum þar til þess að færast nær því marki að geta metið hvort líkur séu á því, að unnt verði að koma þeirri miklu fjárfestingu, sem þegar er fyrir í Kröfluvirkjun, í gagnið. Þannig er ekki neitt fjármagn samkv, lánsfjáráætlun þessa árs til neinnar borunar á þessu háhitasvæði, og það kemur auðvitað fram þegar litið er á nýtingu jarðboranna. Ég hygg að þeir erfiðleikar, sem menn hafa orðið fyrir í sambandi við jarðhitaleitina vegna Kröfluvirkjunar, hafi orðið til þess að dregið hefur úr jarðhitaleit og hugsanlegum framkvæmdum á háhitasvæðum landsins. Ég hygg að ef vel hefði gengið og eftir því sem vonir stóðu til hjá mönnum á háhitasvæðinu við Kröflu, þá hefði orðið framhald á borunum á jarðhitasvæðum, eins og t. d. á Hengilssvæði, þar sem menn höfðu nokkurn veginn fullbúnar frumáætlanir a. m. k. fyrir raforkuver sem ætlað var að reisa á jarðvarma.

Þannig hafa erfiðleikarnir, sem menn hafa mætt við Kröfluvirkjun, áreiðanlega orðið til þess að draga úr mönnum kjarkinn til að rannsaka og ráðast í framkvæmdir í sambandi við jarðhita okkar. Ég tel að svo megi ekki lengur standa. Ég held að við þurfum að efla mjög skipulegar rannsóknir á jarðvarma okkar, ekki aðeins vegna hitaveituframkvæmda, heldur vegna hugsanlegra iðnaðarnota á grundvelli jarðvarmans. Það er engan veginn gott til frásagnar, að við vitum allt of lítið um jarðhitasvæði okkar, þar sem menn hefðu þó ástæðu til að hugsa til hagkvæmra nota í sambandi við iðnaðaruppbyggingu. T. d. um svæði, sem liggur ekki lengra frá Reykjavík en Hveragerði og þar sem menn hafa stundað hagnýtingu á jarðvarma til gróðurhúsaræktar og fleiri nota nú um alllangt skeið, vita menn engan veginn nóg til þess að geta svarað spurningum sem á okkur brenna vegna hugsanlegrar iðnaðaruppbyggingar þar, t. d. í formi sykurvinnslu, sykurverksmiðju, sem menn eru að hugsa til eða vilja a. m. k. fá úr skorið hvort hagkvæmt sé að reisa. Það liggur fyrir, að það er ekki hægt að svara frumatriðum og einföldum spurningum um gæði gufu frá þessu jarðhitasvæði til verksmiðju af því tagi né heldur á hvaða verði unnt sé að afgreiða orkuna þaðan. Þetta er auðvitað ekki nógu gott. Ég tel að við þurfum að læra af slíku og reyna að tryggja að við getum áttað okkur á því, hvaða hugsanleg not og þjóðhagslegan ávinning við getum haft af jarðvarma okkar einnig í sambandi við iðnaðarnot.

Varðandi jarðboranir og tilkostnað þar að lútandi liggja nú fyrir hv. Alþ. fsp. sem hafa ekki komist á dagskrá nú um nokkurra vikna skeið, og sitthvað verður upplýst þegar þeim verður svarað. Ég mun því ekki orðlengja frekar það sem snýr að jarðborunum og tilkostnaði þar að lútandi, þó að forvitnilegt gæti verið að koma nánar að þeim þáttum.

Nokkrum atriðum úr framsöguræðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar væri kannske ástæða til að víkja hér að, en ég skal ekki lengja þennan fund mikið með því að vera langorður um þau atriði. Hann var að verma upp nokkra þætti sem varða Vesturlínu og till. varðandi fjárveitingar til hennar og nauðsynina á að hraða framkvæmdum við þá línulögn. Um þetta mál fóru fram ítarlegar umr. hér, mig minnir utan dagskrár í Sþ., fyrr í vetur, og sumt af því, sem fram kom og virtist vera deiluefni varðandi till. frá fyrrv. ríkisstj. þar að lútandi, virtist endurspeglast nú í orðum hv. frsm. (ÞK: Ég held að það sé misskilningur. Ég leiddi það alveg hjá mér. Ég veit að það er ágreiningur um það, hvers vegna línan hefur tafist. En ég var bara að leggja áherslu á hér og nú á línulagningu sem allra fyrst.) Já, ég ætla ekki heldur að fara í upprifjun þessara mála. Þau liggja fyrir í þskj. En ég vil eindregið taka undir nauðsyn þess að ljúka tengingu Vesturlínu á næsta ári, og ég held að það, sem fram kom í máli hv. þm. Þorv. Garðars áðan um að það veiti ekkert af að standa vel að undirbúningi á þessu ári og efnispöntun og öðru fleira í sambandi við þessa framkvæmd til þess að tryggt sé að koma henni í höfn á árinu 1980, sýni okkur, að það hefði sennilega verið örðugt, þó að við hefðum haft 4000 millj. kr. handa á milli, að tryggja að koma þessari framkvæmd í höfn á þessu ári. Mér fundust réttmætar ábendingar hv. þm. eiginlega vera viðurkenning á því, að það hefði verið teflt á mjög tæpt vað, jafnvel þó að menn hefðu haft allt það fjármagn handa á milli sem hefði þurft til þessarar framkvæmdar.

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram skiptir mjög miklu máli að vel sé haldið á framkvæmdum og framkvæmdaundirbúningi í sambandi við orkumálin. Það eru fáir þættir í þjóðarbúskap okkar þýðingarmeiri en þessi undirstöðuliður — orkan sem við þurfum til eiginlega nánast allra þátta í þjóðarbúskap okkar og skiptir hvern einstakling í landinu geysilega miklu máli. Þar er það ekki aðeins örugg orkuafhending, heldur líka verðið sem skiptir miklu máli, og þar búa menn langt frá því við jafnan hlut, eins og oft hefur verið á drepið í umr. hér á Alþ. að undanförnu.

Þýðing orkumálanna fyrir íslenskan þjóðarbúskap er vaxandi, ekki síst vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur á orkuverði og fyrirsjáanleg er á orkuverði á alþjóðlega vísu, því að við hljótum að bera okkur saman við það og hagkvæmni einstakra framkvæmda er undir þessum samanburði komin. Það skiptir því geysilega miklu máli að kleift sé að standa skipulega að undirbúningi vegna framkvæmda í orkumálum, og til þess að það sé kleift þarf að vera hægt að koma fram nauðsynlegum rannsóknum í tæka tíð.

Við Íslendingar erum mjög gjarnir á að vilja flýta okkur, og erum sjálfsagt ekki einir um það í sambandi við framkvæmdir, og þá skiptir mjög miklu máli að við veitum fjármagn til rannsókna á réttum tíma. Þar þurfum við að hafa vaðið mun betur fyrir neðan okkur en okkur hefur verið gjarnt til á undanförnum árum, og því þyrfti að koma til mjög aukið fjármagn til rannsókna og annars undirbúnings framkvæmda. Ég held að ef unnt reynist að afla viðbótarfjár til orkumálanna í ár, þá eigi það ekki síst að renna til þessara undirstöðuþátta rannsókna og undirbúnings og svo að sjálfsögðu það sem við erum aflögufærir með til þess að flýta fyrir þeim framkvæmdum sem hagkvæmastar þykja og nauðsynlegast er að fá hraðað.