23.04.1979
Efri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4090 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um þýðingarmikið mál og er hið gagnlegasta. Það er beinlínis, eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. og í grg. fyrir frv. þessu, flutt í framhaldi af samkomulagi, sem gert var við kjarasamningana í júní 1977, og fyrirheiti, sem þáv. ríkisstj. gaf um þessi efni. Ég vil taka það fram, að ég er samþykkur tilgangi þessa frv. Mér virðist að það, sem kveðið er á um bætur í frv., sé þess eðlis að ekki séu neinar aths. við það. Hins vegar er, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., ágreiningur um það hjá þeirri nefnd, sem vann að undirbúningi þessa máls, með hverjum hætti skyldi séð fyrir fjáröflun til þess að mæta þeim bótagreiðslum sem frv. gerir ráð fyrir.

Hæstv. ráðh. fór því miður nokkuð fljótt yfir sögu, þegar að þessu atriði kom í hans annars mjög ítarlegu framsöguræðu. En mér finnst að við þurfum að koma nokkru nánar inn á það, sem er svo þýðingarmikið atriði í þessu efni, hvernig á að fjármagna þessar bótagreiðslur. Þeim mun fremur er ástæða til þess að víkja nokkru nánar að því máli þar sem ágreiningur er um það efni. Þessi ágreiningur er annars vegar á milli fulltrúa vinnumarkaðarins: Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og annarra sjálfstæðra heildarsamtaka vinnumarkaðarins, og hins vegar fulltrúa ríkisstj. í þeirri nefnd sem endanlega gekk frá frv.

Hæstv. ráðh. sagði að það hefði ekki náðst samkomulag um fjárhagsgrundvöllinn, þó að það hefði verið reynt ítarlega. Afleiðing þess er sú, að þetta frv. felur í sér ákvæði um fjármögnun sem er í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambandið, Vinnuveitendasambandið og önnur sjálfstæð hagsmunasamtök sem hæstv. ráðh. taldi upp og eru einnig talin upp í grg. með frv. Ég skil það svo, og ég bið hæstv. ráðh. að leiðrétta það ef það er ekki réttur skilningur, að aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki fallist á fjáröflunina, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Og þá er spurningin, ef það er rétt, hvaða áhrif það hefur, og ekki síður, hvort það er ekki í andstöðu við það samkomulag, sem ríkisstj. hafði áður gert við aðila vinnumarkaðarins, að koma nú með þetta frv. að því er varðar fjáröflunina í þeirri mynd sem hér er gert ráð fyrir. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þessi efni frá hæstv. ráðh. Er þetta frv. þá að þessu leyti ekki í samræmi við það samkomulag sem fyrrv. ríkisstj. var búin að gera við aðila vinnumarkaðarins í sambandi við kjarasamningana í júní 1977?

Eftir því sem mér skilst, og það kom óbeint líka fram í ræðu hæstv. ráðh., hafa aðilar vinnumarkaðarins mjög fylgt eftir sjónarmiði sínu um þessi efni. Ég þykist vita að það hafi ekki verið gert út í loftið eða án þess að færð hafi verið einhver rök fyrir því. M. a. skilst mér að það sé litið svo á af þessum aðilum, að með þeim ráðstöfunum, sem verið er að gera með þessu frv. ef að lögum verður, sparist ríkissjóði fé með sparnaði í tryggingakerfinu eða hjá almannatryggingum. Því hygg ég að aðilar vinnumarkaðarins telji það nokkurt sanngirnismál, að tekið sé tillit til þessa atriðis. Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma.

Ég stend hér upp í fyrsta lagi til þess að lýsa yfir stuðningi við tilgang þessa frv. og ákvæði um bótagreiðslur, en svo jafnframt til að vekja athygli á þessu atriði varðandi fjárhagsákvæði frv. Þau eru ekki í samræmi við skoðanir aðila vinnumarkaðarins. Spurning er, hvort þau eru í samræmi við það samkomulag sem fyrrv. ríkisstj. gerði um þetta efni við aðila vinnumarkaðarins. Það væri ágætt ef hæstv. ráðh. gæti komið hér við 1. umr. nánar inn á þetta sérstaka atriði. En að sjálfsögðu þarf n. sú, sem tekur málið til athugunar, að athuga sérstaklega þetta atriði. — Með þessum orðum mínum er ég ekki að leggja til að tafinn sé framgangur þessa frv. Ég tek algerlega undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er þörf á því að afgreiða þetta mál sem fyrst.