23.04.1979
Efri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4099 í B-deild Alþingistíðinda. (3197)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess sem fram kom hjá hv. 5. þm. Reykv.

Það er auðvitað rétt, að lífeyrissjóðirnir verða að fá að verðtryggja bæði skuldbindingar og það sem þeir eiga inni, ef við höldum óbreyttu kerfi. Hitt er annað mál, að um leið og við tökum upp sameiginlegt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn er hægt að hugsa sér að gegnumstreymiskerfi verði að meira eða minna leyti tekið upp, þannig að þetta þurfi ekki að rekast geysilega mikið á. En eins og málin standa í dag sigla allir lífeyrissjóðirnir í gjaldþrot eins og þeir leggja sig að öllu óbreyttu, nema náttúrlega þar sem ríki eða bæjarfélög koma til. Það er enginn vandi að reikna út, að eftir örfá ár- að óbreyttri verðbólgu verða allir þessir svokölluðu frjálsu lífeyrissjóðir gjaldþrota og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það er atriði sem við þurfum að huga vel að, en ég vænti þess, að með samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn verði því slysi afstýrt.

Það er auðvitað rétt, að hugsanlegt er í þeim tilvikum þegar lífeyrisgreiðslurnar eða tekjurnar af lífeyri koma bara á eiginmanninn einan, en tekjurnar voru áður á báðum hjónunum, að 50% reglan hjálpi ekki. En það verður auðvitað aðeins eitt ár um að ræða, því að síðan fellur þessi 50% regla niður.

Ég vil að lokum upplýsa það og undirstrika, að frv. er lagt fram af allri ríkisstj. með fyrirvörum einstakra ráðh. um minni háttar breytingar á tekjuöflunarleiðinni, t. d. að 5% verði breytt í 4%, eins og ég var að tala um áðan. Það kom ekki formlega fram, en ráðh. lýstu yfir að þeir mundu vilja hafa fyrirvara um þetta atriði. Frv. eins og það liggur fyrir er lagt fram af allri ríkisstj.