23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4102 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það kom fram í skýrslu hæstv. fyrrv. dómsmrh., sem lögð var fram hér á Alþ. á síðasta þingi, að afgreiðsla og meðferð mála fyrir dómum landsins tók styttri tíma á síðustu árum en menn höfðu ætlað og reyndar mun styttri tíma en áður átti sér stað. Hins vegar kom líka fram í umr. um þá skýrslu, að flöskuhálsinn í dómsmálum okkar var og er í Hæstarétti. Hæstv. ráðh. nefndi það í ræðu sinni, ef ég hef tekið rétt eftir, að mál gætu nú þurft að híða í allt að eitt ár þangað til þau væru tekin fyrir í Hæstarétti. En sannleikurinn er sá, að enda þótt málin séu tekin þar fyrir getur liðið miklum mun lengri tími þangað til niðurstaða fæst hjá

Hæstarétti í viðkomandi máli, og ég hef grun um að tími sá, sem liðið getur frá því að undirréttardómur er kveðinn upp og þar til dómur er kveðinn upp í Hæstarétti, sé allt upp í 3–4 ár eins og nú er. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi ástand, dregur mjög úr öllu réttaröryggi og rýrir traust almennings á dómstólum landsins. Ég held því að það sé mjög brýn og tímabær till. að fjölga dómurum í Hæstarétti, og að því leyti styð ég þetta frv.

En ég vil um leið koma því að, að ég hygg að ein leiðin til þess að auka virkni Hæstaréttar og greiða fyrir eðlilegri málsmeðferð hjá Hæstarétti sé líka að bæta mjög starfsaðstöðu dómaranna. Eins og nú er háttað þessari starfsaðstöðu er tiltölulega fámennt starfslið hjá Hæstarétti og dómararnir sjálfir þurfa að sinna öllum undirbúningsstörfum, jafnvel svo, að mér skilst, að það sé ákaflega takmörkuð aðstaða til vélritunar, hvað þá að fyrir hendi séu fulltrúar sem gætu flett upp fyrir dómara, undirbúið málatilbúnað eða reynt að greiða fyrir því að þeir gætu tekið fljótt afstöðu til þeirra mála sem þar er fjallað um. Ég held því, að um leið og þetta frv. fær afgreiðslu hér á þessu þingi og gert er ráð fyrir að reynt sé að búa betur að Hæstarétti, þá eigi að leita þeirra leiða með því að bæta starfsaðstöðu Hæstaréttar með því að fjölga hugsanlega fulltrúum eða starfsmönnum hjá Hæstarétti áður en a. m. k. enn er gripið til þess að fjölga dómurum í Hæstarétti. Ég held að það sé mjög mikilvægt, að það orð komist ekki á og sú staðreynd blasi ekki við, að Hæstiréttur sé svo mikill flöskuháls að það sé beinlínis með ráði gert hjá aðilum einkamála sérstaklega að áfrýja þeim til Hæstaréttar til þess að draga mál á langinn og vinna þannig tíma og um leið rýra auðvitað þær kröfur sem hafðar eru uppi í slíkum einkamálum.

Þessum sjónarmiðum vildi ég koma að, herra forseti, um leið og ég lýsi efnislega yfir stuðningi mínum við þetta frv.