06.11.1978
Efri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Þessar umr. um þessa ágætu till. hafa tekið aðra stefnu en till. gefur tilefni til, og er ekki nema gott um það að segja, en ég ætla að leiða það hjá mér.

Í mörg ár voru möguleikar sveitarfélaganna, sérstaklega úti um land, til varanlegrar gatnagerðar mjög takmarkaðir, þar sem engir sérstakir tekjustofnar voru til í þessu skyni. Á þingum sveitarfélaga voru þessi mál mjög til umræðu, enda eitt af grundvallarskilyrðum fyrir búsetu úti um landið. Ég átti sæti á Alþ. sem varamaður 1973, og þá flutti ég frv. til l. um gatnagerðargjöld sem hv. Alþ. samþykkti sem lög á því þingi. Og ég verð að segja það, að ég fagnaði því mjög. Eftir þessa lagasetningu hófst mjög ör framþróun á þessu sviði hjá sveitarfélögunum víðs vegar í þéttbýlisstöðum úti um landið. Samband ísl. sveitarfélaga beitti sér fyrir samningum við Byggðasjóð um lán til sveitarfélaga út á fyrir fram gerðar gatnagerðaráætlanir, þ.e.a.s. 80% af álögðu gatnagerðargjaldi eða 25% af framkvæmdakostnaði sem greiðist á 4–5 árum af innheimtum gatnagerðargjöldum. Samhliða þessu var reglum um þéttbýlisvegaféð breytt, þ.e. hinn svokallaði 25% sjóður myndaður, sem varð mjög til styrktar þessum framkvæmdum sem eru víða fyrirferðarmestar við þjóðvegina þar sem þeir liggja í gegnum þéttbýlisstaðina.

Aðalvandamál sveitarfélaganna í dag er að Byggðasjóður hefur ekki haft yfir að ráða nægjanlegu fjármagni til að fylgja eftir framkvæmdahraða hjá sveitarfélögunum sem flestöll vinna, eins og áður sagði, eftir fyrir fram gerðri 10 ára framkvæmdaáætlun. Á þessu þarf að ráða bót, og þess vegna get ég tekið undir það með flm., að það er mjög nauðsynlegt að sveitarfélögin eigi kost á meira fjármagni til framkvæmda á þessu svíði. En ég vil einnig benda á það, að sveitarfélögin hafa möguleika á svokölluðu A-gatnagerðargjaldi til að standa undir gatnagerð í þessu skyni og nota það mjög.

Um afturvirkni B-gjalds vil ég segja, að um þörfina fyrir þetta atriði má vissulega deilda og ég tel að það varði, sem betur fer, aðeins fá sveitarfélög og þá helst þau sem búið hafa við sérstöðu að þessu leyti, þ.e.a.s. bundið slitlag, sem hefur komið á vegna aðstöðu sem önnur sveitarfélög höfðu ekki. Ég dreg í efa nauðsyn þessarar afturvirkni og raunar réttmæti og ég er þess vegna á móti slíku.

Um söluskattinn af snjómoksturstækjum sveitarfélaga verð ég að segja að hann er mjög óréttlátur enda hafa sveitarfélögin í áraraðir barist fyrir því að þurfa ekki að greiða söluskatt af eigin vinnuvélum við hinar ýmsu framkvæmdir innan sveitarfélagsins svo sem gatnagerð, holræsi, vatnsveitur o.s.frv. En þetta hefur ekki fengið hljómgrunn hjá stjórnvöldum til breytinga, og er það miður. Þarna er um verulegan lið að ræða í rekstri sveitarfélaga, og mörgum finnst óeðlilegt að sveitarfélögin skuli ekki mega nota eigin tæki til eigin framkvæmda án þess að greiða af því sérstakt sölugjald til ríkisins.

Að öðru leyti get ég tekið undir margt sem kemur fram í þessari till. og grg., en ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér.