23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4111 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. til viðbótar því, sem ég áðan sagði, og í tilefni af því, sem fram hefur komið síðan. Ég er eindregið á sömu skoðun og hæstv. utanrrh., að við höfum samkv. núgildandi lögum og samningum fullan rétt til afskipta af skipum sem hætta getur stafað af í mengunarlegu tilliti. Við höfum haft þennan rétt nokkuð lengi. Við öðluðumst hann með svokölluðum Oslóarsamningi sem staðfestur var fyrir nokkrum árum og hefur lagagildi hér á landi. Ég minnist þess, að fyrsta verk mitt í utanrrn. var að kalla til viðtals sendiherra Hollands, sem þá var hér að afhenda trúnaðarbréf, og tilkynna honum að við vildum ekki þola að Hollendingar vörpuðu hér í hafið eiturefnum eins og þá stóð til. Menn muna kannske eftir þeirri siglingu, að skip þeirra sigldu nánast um öll heimsins höf með þennan óþverra og komu honum hvergi frá sér. Þessi mótmæli okkar voru tekin til greina. Þau voru byggð á þeim samningi sem ég áðan nefndi. Þess vegna tel ég ekki nokkrum vafa undirorpið að þennan rétt eigum við og getum notað hvenær sem á þarf að halda.

Ég vil fagna því, sem hæstv. ráðh. upplýsti og raunar hefur komið fram annars staðar, að viðræður um Jan Mayen og fiskveiðiréttindin og önnur efnahagsréttindi á þeim slóðum eru hafnar, og þær eru í góðum höndum þar sem okkar færasti sérfræðingur í hafréttarmálum og alþjóðamálum, Hans G. Andersen, fer með þær fyrir okkar hönd. Ég vænti þess, að á þeim fundi, sem boðaður hefur verið í Strasbourg nú í næsta mánuði, þar sem í ráði mun að ráðh. Íslands og Noregs hittist, geti farið fram gagnlegar, vinsamlegar og hagstæðar umræður fyrir okkar hönd í þessu mikilsverða máli.

Það skiptir okkur verulegu máli að fá Jan Mayenmálið á hreint. En ég vek athygli á því einu sinni enn, að við það eru nokkuð önnur mál tengd sem líka þarf að athuga, án þess að ég ætli að gera þau að umtalsefni í þessari stuttu ræðu.