23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4111 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

249. mál, afborgunarkaup

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið samið á vegum viðskrn. Aðalhöfundur þess er Gylfi Knudsen lögfræðingur, sem starfaði um árabil í viðskrn., m. a. að hlutafélagalögunum sem nú eru í gildi, og á síðari stigum meðferðar þessa máls var Páll Sigurðsson kennari við lagadeild Háskóla Íslands Gylfa til ráðuneytis um frágang málsins.

Það hafa lengi verið uppi ráðagerðir hér á landi um setningu löggjafar um afborgunarkaup, en það er fyrst nú að frv. til I. um þetta efni er lagt fyrir hv. Alþingi. Lög um afborgunarviðskipti eru þáttur í löggjöf til verndar neytendum. Megintilgangur reglna um afborgunarkaup er að tryggja kaupendum í slíkum viðskiptum nauðsynlega vernd og skýra sem gleggst réttarstöðu og úrræði kaupenda og seljenda í þessum kaupum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að löggjöf til verndar neytendum er afar skammt á veg komin hér á landi borið saman við nágrannalöndin. Neytendavernd og neytendalöggjöf tekur þar jafnan til margvíslegra sviða og viðfangsefna og er fremur tilhneiging til að rýmka þann vettvang en hitt. Má þar nefna lagaákvæði um réttarstöðu og úrræði kaupenda í viðskiptum, kaupum og samningum ýmiss konar sem skipta neytendur almennt máli, gæða- og vörueftirlit og rannsóknir á vörum og þjónustu, vörumerkingar og aðrar upplýsingar í þágu neytenda, afgreiðslu ágreiningsmála neytenda við seljendur með sem fljótvirkustum hætti. Þá má nefna verðlagsmál og verðlagseftirlit og aðgerðir almennt sem fallnar eru til að halda niðri vöruverði. Einnig má benda á lagaákvæði sem ætlað er að vinna gegn alls kyns óhæfilegum viðskiptaháttum, svo sem óhæfilegum auglýsingum og skrumi í viðskiptum. Þessi mál eru að miklu leyti óplægður akur hér á landi og varla vansalaust hve seint hefur þokast í framfaraátt á þessum sviðum. Það er í mesta lagi hægt að segja, að það votti fyrir vísi að neytendavernd á einstaka sviði hér á landi.

Af hálfu hins opinbera hefur neytendamálum lítið verið sinnt og samtök neytenda hafa lengst af barist í bökkum fjárhagslega þótt þeim hafi vegna eljusemi og fórnfýsi félagsmanna tekist að vinna ómetanlegt starf. Sú breyting þarf að verða á hér á landi, að almenn neytendavernd eflist á borð við hin hefðbundnari umbótamál sem sífellt er verið að berjast fyrir. Ríkisvaldið verður eins og í nálægum löndum að hafa frumkvæðið á þessu sviði og verja fé til þessara mála, jafnframt því sem styrkja þarf þau félagasamtök sem að þessum málum vinna. Ég tel og að samtök launafólks ættu að láta sig þessi mál meira skipta og taka ýmis hinna hefðbundnu neytendamála á verkefnaskrá sína. Afskipti verkalýðshreyfingarinnar af þessum málaflokki hafa fram til þessa verið bundin við verðlagsmálin nær eingöngu.

Á undanförnum áratugum hefur réttarstaða neytenda verið mjög bætt víða erlendis við kaup og samninga. Á Norðurlöndum hafa á síðari árum verið gerðar ýmsar breytingar á gildandi kaupalögum eða sett sérstök neytendalöggjöf gagngert í því skyni að auka vernd kaupenda. Einnig hefur verið sett sérstök löggjöf í sumum landanna um bann við óhæfilegum samningsskilmálum og eru samningsform oft stöðluð og seljendur undir eftirliti og tekið í taumana ef ástæða þykir til vegna hagsmuna neytenda. Þá var á Norðurlöndunum, öðrum en Íslandi, sett sérstök löggjöf um afborgunarviðskipti snemma á þessari öld. Hér á landi hefur ekkert gerst í þessum málum á síðustu áratugum. Kaupalögin frá 1922 og samningalögin frá 1936, sem enn gilda, voru merkilegar réttarbætur á sínum tíma. En frá því að þessi lög voru sett hefur í reynd ekkert verið gert til þess að bæta stöðu neytenda á þessu sviði neytendaverndar.

Samningsstaða íslenskra neytenda eftir gildandi lögum og úrræði þeirra í kaupum eru því mun lakari en í næstu nágrannalöndum. Það segir sig sjálft, að lagavernd, sem ákveðin var fyrir síðustu heimsstyrjöld, er allsendis ófullnægjandi nú á tímum. Þjóðfélagið hefur tekið gagngerðum breytingum og viðskiptalífíð er með allt öðrum hætti og sölustarfsemi yfirgripsmeiri og stundum lævíslegri en áður var.

Einhverjum kynni að þykja undarlegt að ekki skyldu sett hér lög um afborgunarkaup um það leyti sem slík löggjöf var sett á Norðurlöndum. Kaupalögin norrænu, þ. á m. íslensku lögin um lausafjárkaup frá 1922, eiga rætur að rekja til norræns lagasamstarfs, svo og afborgunarkaupalögin norrænu. Sennilega hefur ekki þótt ástæða á þessum tíma til þess að taka hér á landi í lög sérstök ákvæði um afborgunarviðskipti þar sem þetta sölufyrirkomulag hefur ekki verið tíðkað hér á landi þá. Að því er best verður vitað verður fyrst vart við afborgunarkaup með eignarréttarfyrirvara hér á landi nokkru fyrir seinni heimsstyrjöld. Á styrjaldartímanum virðist hafa dregið mjög úr þessum viðskiptahætti, líklega vegna bætts efnahags almennings. Síðan hefur þessi tegund viðskipta farið sívaxandi, eins og kunnugt er.

Lagareglur um afborgunarkaup munu fyrst hafa verið settar í Kanada og í Bandaríkjunum. Þessar reglur eru til komnar vegna réttleysis kaupenda og sprottnar af þörf til að ráða bót á þjóðfélagslegu misrétti. Almenningur hafði ekki vegna lítillar kaupgetu bolmagn til þess að kaupa þá framleiðslu sem hann þó skapaði sjálfur. Ástæðan var óhófleg álagning framleiðenda og seljenda, en frjáls verðmyndun var lausnatorðið á þeim tímum og engin íhlutun af opinberri hálfu. Til þess að örva söluna gripu framleiðendur til þess ráðs að gefa fólki kost á því að kaupa framleiðsluna með afborgunarskilmálum, þ. e. a. s. greiða ákveðinn hluta kaupverðs við afhendingu hluta, en eftirstöðvar með greiðslum er gjaldféllu með ákveðnu millibili. Efnahagssveiflur og viðskiptakreppur höfðu þau áhrif, að tekjumöguleikar almennings gátu breyst til hins verra á skömmum tíma. Ef vanskil urðu höfðu seljendur þann háttinn á að þeir sviptu vanskilamenn söluhlutunum án þess að endurgreiða það sem kaupendur höfðu þegar greitt. Þetta varnar- og réttleysi kaupenda er talið hafa átt ríkan þátt í því, að lagareglur um þessi viðskipti voru settar. Það er dapurlegt til þess að vita, að hér á landi eru kaupendur í dag réttarlega álíka varnarlausir gagnvart harðræðum af þessu tagi og kaupendur á síðustu öld í öðrum löndum. Athuganir, sem gerðar hafa verið á þessum viðskiptum, sýna þetta svo ekki verður um villst. Gildandi lög veita takmarkaða vernd gegn þessu, og dómsúrlausnir liggja fyrir sem bera með sér hversu rýran rétt kaupendur búa við, en þá má svipta söluhlutunum, ef vanskil verða, án þess að uppgjör fari fram. Kaupandi, sem sviptur hefur verið söluhlut með fljótvirkri fógetaaðgerð eða jafnvel án hennar, verður að sækja endurgreiðslukröfur sínar sjálfur og þá fyrir almennum dómstálum með seinvirkum hætti þeirra stofnana.

Hvað eftir annað, hæði í ræðu og í riti, hefur verið bent á nauðsyn þess að sett yrðu lög um afborgunarkaup hér á landi. Af hálfu Neytendasamtakanna og annarra þeirra samtaka, sem að neytendamálum vinna, hefur verið margítrekað við stjórnvöld að sett yrðu lög um þetta efni. Þá hafa nokkrar athuganir farið fram á afborgunarviðskiptum hérlendis. Má í því sambandi nefna athuganir á vegum Neytendasamtakanna 1970–1971 og könnun laganema við Háskóla Íslands árið 1974 í tilefni af afborgunarkaupum sem sérstöku viðfangsefni í kennslu við lagadeild á þeim tíma. Niðurstöður þessara athugana eru fróðlegar, og ýmsar ályktanir má af þeim draga. Kom glöggt í ljós hversu veik réttarstaða kaupenda er í þessum viðskiptum og hversu mikið er um alls konar óþægilega samningsskilmála. Ofan á réttleysi kaupenda vegna skorts á lagaákvæðum virðast í mörgum tilfellum bætast harðir samningsskilmálar, sniðnir einvörðungu eftir hagsmunum seljenda. Algengt er að seljendur áskilji sér í samningum um afborgunarkaup rétt til endurheimtu söluhluta án þess að endurgreiða kaupendum það sem þeir hafa greitt er vanskil verða. Í þokkabót eru slíkar klausur oft prentaðar með smáu letri í samningum, eins og títt er um ósanngjarna samningsskilmála. Lítið þarf út af að bera til þess að kaupandi teljist kominn í vanskil samkv. ákvæðum margra samninga. Dráttur á greiðslu, er veldur því að allt kaupverðið er í gjalddaga fallið, er oft óeðlilega stuttur, og jafnvel er það látið valda vanskilum sem ekki er í neinum eðlilegum tengslum við viðskipti aðilanna, svo sem vanræksla kaupenda á að tilkynna aðsetursskipti. Þá skortir mjög allar upplýsingar fyrir neytendur um afborgunarkjörin, og er samanburður á hagkvæmni afborgunarkaupa og staðgreiðsluviðskipta illframkvæmanlegur vegna skorts á upplýsingum af hálfu seljenda. Þá hefur borið töluvert á ófullnægjandi og oft villandi auglýsingum um afborgunarviðskipti.

Eitt meginmarkmið löggjafar um afborgunarkaup er að tryggja að seljendur leggi fram nægilegar upplýsingar um þessi kaup, þannig að neytandinn geti metið hvort honum er hagkvæmt að kaupa í þessu viðskiptaformi. Því verður að leggja áherslu á fullnægjandi verðupplýsingar í auglýsingum og verðmerkingar við söluframboð almennt, þannig að skýrt komi fram, hvert staðgreiðsluverðið er og hver sé munur þess og afborgunarverðsins, og kostnaður sá, sem fellur á kaupandann vegna afborgunarviðskiptanna, og skipting hans liggi sem ljósast fyrir. Þá þarf að koma alveg í veg fyrir að víxlar séu notaðir í afborgunarviðskiptum með eignarréttarfyrirvara. Slíkt er afar algengt hér á landi og hefur í för með sér að seljendur fá tvöfalda tryggingu fyrir rétti sínum: annars vegar víxilréttinn og hins vegar eignarréttarfyrirvara. Víxill er alveg slitinn úr tengslum við þau viðskipti sem á bak við hann liggja, og mótbárum verður ekki við komið vegna þeirra viðskipta við innheimtu á grundvelli víxilréttar — og raunar afar takmörkuðum mótbárum yfirleitt. Það væri því auðvelt að sniðganga lagafyrirmæli um afborgunarkaup, ef leyft yrði að blanda víxlanotkun inn í afborgunarviðskipti með eignarréttarfyrirvörum. Þetta vandamál hefur skotið upp kollinum erlendis og leitt til þeirrar úrlausnar, að þessu tvennu er haldið algerlega aðgreindu. Velja verður á milli víxilréttarins og eignarréttarfyrirvarans. Hvorn tveggja háttinn er ekki hægt að hafa í sömu viðskiptunum.

Nýlega hafa heyrst um það raddir og komið fram tillögur um að hanna ætti afborgunarviðskipti með þeim rökum aðallega að slík viðskipti örvuðu fólk til að kaupa um of hluti sem það hefði enga þörf fyrir, einnig væri hætta á að kaupendur gleptust af þessum viðskiptahætti og af fyrirhyggjuleysi byndu sér skuldabagga sem þeir ættu erfitt með að rísa undir. Einnig hefur því verið haldið fram, að á þenslu- og verðbólgutímum bæri að takmarka þessi viðskipti þar sem þau auki spennuna í efnahagslífinu. Raunar er mjög umdeilt hversu hagrænum áhrifum neytendalána er farið og hvort takmarkanir á þeim komi að gagni við hagstjórn.

Það er ekki nýtt að réttmæti afborgunarviðskipta sé dregið í efa og því haldið fram að þetta fyrirkomulag viðskipta sé óheilbrigt og ýmislegt því fundið til foráttu.

Þá má auðvitað fallast á að viðskipti af þessu tagi hafi nokkra galla. Eflaust glepjast ýmsir til þess að gera ótímabær kaup vegna þess að þessi kjör eru í boði. Kostir afborgunarviðskipta eru hins vegar ýmsir og þá fyrst og fremst þeir, að kaupendur geta með þessum hætti aflað sér hluta sem þeir ella gætu ekki eignast, enda er það svo að afborgunarkaup tíðkast einkum í verslun með hinar dýrari neysluvörur eða svonefndar varanlegar neysluvörur, svo sem húsgögn, heimilis- og rafmagnstæki, sjónvarps- og hljómflutningstæki og þess háttar. Kostir þessa viðskiptaháttar eru þannig ýmsir og verður því að telja að hann eigi rétt á sér, enda séu settar um hann fastar reglur svo sem stefnt er að með frv. þessu.

Ég hef farið hér nokkrum orðum um afborgunarviðskipti almennt, kosti þeirra og galla, og um ástandið í þessu máli hér á landi eftir því sem næst verður komist.

Ég vil þá víkja að ákvæðum þess frv., sem hér liggur fyrir, og fjalla um nokkur mikilvægustu atriði þess. Við samningu frv. var höfð hliðsjón af norrænum lögum um þetta efni og þá einkum gildandi lögum í Danmörku.

Í 1. gr. frv. er skilgreint hvað séu afborgunarkaup, og er sú skilgreining í samræmi við hefðbundna túlkun á afborgunarviðskiptum með eignarréttarfyrirvara. Í greininni eru ákveðin viðskipti sem fjármögnuð eru af þriðja aðila lögð að jöfnu við afborgunarkaup. Er um að ræða þau tilvik er kaupandi fær lán til kaupanna fyrir milligöngu seljanda eða með vitund hans frá einhverjum þeim sem seljandi hefur fjárhagsleg tengsl við. Rétt þykir að hafa þetta ákvæði, enda þótt það hafi sennilega ekki ýkjamikla þýðingu hér á landi nú. Víða erlendis skiptir þetta hins vegar verulegu máli, þar sem starfa fjármögnunar- eða „kredit“-fyrirtæki og stofnanir sem seljendur hafa viðskiptaleg tengsl við og geta því útvegað kaupendum lánsfé til kaupa á vörum sínum. Þá eru leigusamningar felldir undir afborgunarkaup ef ætla má að fyrirhugað hafi verið að viðtakandi hlutar öðlist eignarrétt að honum. Í slíkum tilvikum eru leigugreiðslur í eðli sínu aðeins afborganir af hinum leigða hlut, og er því nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði til þess að koma í veg fyrir að farið sé í kringum ákvæði frv. Undanþegnir eru þó samningar um atvinnutæki milli atvinnurekenda. Þá er í lokamálsgr. 1. gr. skilgreining á afborgunarverði. Telst afborgunarverð vera samanlagðar umsamdar greiðslur kaupanda.

Í 2. gr. er gerð krafa um lágmarksútborgun í afborgunarkaupum, og er í 2. mgr. 18. gr. lagt til að ráðh. verði veitt heimild til þess að breyta með reglugerð hlutfalli lágmarksútborgunar bæði almennt og að því er einstaka vöruflokka snertir. Hér er að vísu, eins og ég hef minnst á, um nokkuð umdeilt atriði að ræða. Ýmsir hafa vefengt að það skipti máli við stjórn efnahagsmála að breyta útborgunarhlutfalli í afborgunarviðskiptum til hækkunar eða lækkunar eftir því sem á stendur. Af hálfu Neytendasamtakanna var á sínum tíma lagt heldur lítið upp úr þessu.

Almenn lágmarksútborgun er áskilin í lögum á Norðurlöndum, en sýnist ekki vera beitt þar með virkum hætti nema í Noregi gagngert í hagstjórnarskyni. Þar er fyrirkomulagið nokkuð frábrugðið því sem gerist í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Norska skipanin er í megindráttum þannig, að löggjafinn hefur falið framkvæmdavaldinu að setja reglur um afborgunarkaup í hagstjórnarskyni. Þar eru m. a, settar mismunandi reglur um útborgun og annað eftir vöruflokkum og reglum breytt með hliðsjón af efnahagslífinu, útborganir hækkaðar til að draga úr þenslu, en lækkaðar í efnahagsdeyfu.

Í þessu frv. er haldið í þá hugmynd, að útborgunarreglur geti skipt máli, og með ákvæðum 18. gr. er opnuð leið til að beita svipuðum aðferðum og tíðkast í Noregi ef ástæða þykir til.

Mikilvægar reglur eru í 3. gr., en þar er skilgreint hversu miklar vanefndir kaupanda verða að vera til þess að seljandi geti beitt þeim úrræðum sem ákvæði frv. heimila honum. Á því hefur borið, eins og ég hef minnst á, að kaupendum séu settir harðir skilmálar að þessu leyti í afborgunarsamningum. Hér er því um brýnar úrbætur að ræða og er leitast við að taka með þessum reglum tillit til hagsmuna beggja: kaupanda og seljanda.

Í 4.–5. gr. eru hin mikilvægu ákvæði um uppgjör eða skuldaskil milli aðila ef kaupandi telst hafa vanefnt skuldbindingar sínar skv. ákvæðum frv. og seljandi vill endurheimta söluhlutinn. Skortur á reglum um þetta hefur verið einn tilfinnanlegasti annmarkinn á þessum viðskiptum hér á landi. Hér eru í fyrsta lagi settar reglur um það, hvernig ákvarða skuli verðmæti hluta við endurheimt seljenda, og skal telja verðmæti hlutarins á þeim tíma, þegar honum er skilað, kaupanda til tekna við uppgjör aðilanna. Verðmæti hlutar er skilgreint sem sú upphæð er seljandi getur fengið fyrir hlutinn við eðlilega endursölu. Ráð er fyrir því gert, að seljandi geti oft vegna aðstöðu sinnar með auðveldum hætti aukið verðmæti hlutar, og skal það koma kaupanda til góða.

Þá er í öðru lagi talið upp í 5. gr. hvað seljandi getur talið sér til tekna við uppgjör. Þar er um að ræða ógreiddar afborganir gjaldfallnar eftir ákvæðum samningsins, þ. e. a. s. á hinum eiginlegu gjalddögum, svo og ógreiddar ógjaldfallnar afborganir sem reikna skal með ákveðnum hætti miðað við hlutfall staðgreiðsluverðs af afborgunarverði. Þá getur seljandi reiknað sér vexti og óhjákvæmilegan kostnað við endurheimtuna. Til þess að létta og flýta uppgjöri í hinum smærri málum er sett ákveðin viðmiðunarregla um hlutfall staðgreiðsluverðs af afborgunarverði.

Í 6. gr. er réttur kaupanda verndaður í þeim tilfellum þegar verðmæti hlutarins reynist meira en samanlögð fjárhæð þess sem seljandi getur talið sér til tekna. Þegar svo stendur á ber seljanda að greiða kaupanda mismuninn ef hann vill beita endurheimtu.

Í 7. gr. er kaupanda veittur réttur til þess að hindra endurheimt, þótt skilyrði til hennar séu fyrir hendi og seljandi krefjist hennar, með því að greiða lokakröfu sel anda og gera upp viðskiptin.

Í 9. gr. eru ýmis mikilvæg ákvæði. Þar er tekið fyrir að öðrum viðskiptum sé blandað inn í samning um afborgunarkaup eða að réttur kaupanda sé að öðru leyti gerður háður öðrum viðskiptum, en á þetta getur sérstaklega reynt þegar nýjum viðskiptum milli sömu aðila er bætt inn áður en eldri afborgunarviðskiptum þeirra er lokið. Þá er seljanda óheimilt að áskilja sér að fjárhæð, sem kaupandi greiðir, renni til greiðslu annarra krafna, kaupunum óviðkomandi. Með tilliti til þess, að staða seljanda er mun sterkari en kaupanda og seljandi ræður gerð samningsskilmála, þykir rétt að hafa almennt ákvæði um að 6hæfilegum samningsskilmálum megi víkja til hliðar. Í lögum eru ákvæði skyld þessu, en ástæða er til að leggja áherslu á þetta að því er afborgunarkaup varðar sérstaklega. Þá eru kaupendum veittir möguleikar til þess að knýja fram lækkun á ósanngjörnu afborgunarverði. Ég hef áður minnst á bann við notkun víxla í afborgunarkaupum og er kveðið á um það í 5. mgr. 9. gr.

Í 10. gr. eru settar reglur sem ætlað er að loka leiðum sem kynnu að vera opnar til þess að fara í kringum ákvæði frv. um uppgjör aðilanna.

Í 11.–15. gr. eru settar reglur um fógetameðferð, en þær reglur stefna að því að unnt sé að hraða afgreiðslu þessara mála sem mest. Hér er um beinar fógetaaðgerðir að ræða, og eru því til þess að auðvelda sönnunaratriði sett ákveðin lágmarksskilyrði í 11. gr. um form og efni afborgunarsamnings. Fógeti getur ekki hafist handa nema skilyrði þessi séu uppfyllt. Ef brestur á um skilyrðin yrði seljandi að leita eftir aðfararhæfum dómi yfir kaupanda. Þessar reglur ættu að stuðla að nákvæmari samningsgerð milli aðila.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um framkvæmd fógetaaðgerða eftir ákvæðum frv. Meginatriðið er að með reglum þessum er stefnt að hraðri málsmeðferð og að fógeti hafi fullnaðarafgreiðslu þeirra með höndum. Ákvarðanir hans verða ekki bornar undir hliðsett dómsstig. Og til enn frekari flýtisauka er í 19. gr. kveðið á um að úrskurðir og ákvarðanir fógeta í þessum málum skuli sæta kæru.

Í 16. gr. felst að þau ákvæði frv., sem sett eru til verndar rétti kaupanda, eru ófrávíkjanleg að því leyti að óheimilt er að semja fyrir fram um lakari kjör kaupanda til handa en kveðið er á um í frv. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu að semja um betri rétt kaupanda til handa. Það er óhjákvæmilegt til að tryggja kaupendum þá vernd, sem frv. stefnir að, að takmarka möguleika til að semja sig undan ákvæðum þess, enda hafa seljendur miklu meiri möguleika til að ráða efni afborgunarsamninga en kaupendur að jafnaði. Ekki er gert ráð fyrir því í frv., að réttur til að stunda afborgunarviðskipti skuli háður sérstökum leyfum. Slíkt tíðkast sums staðar erlendis, en hætt er við að slíkt hefði í för með sér mikið umstang og skriffinnsku. Aftur á móti er lagt til í 17. gr., að unnt verði að svipta þann rétti til að stunda afborgunarviðskipti sem gerist sekur um óhæfilega viðskiptahætti gagnvart kaupendum. Er það vitaskuld dómstóla að meta hvort aðili hefur fyrirgert rétti til að stunda þessi viðskipti eða ekki.

Herra forseti. Mér hefur þótt rétt að gefa nokkuð ítarlegt yfirlit yfir þessi mál og höfuðþætti frv., þar sem hér eru á ferðinni nýmæli í löggjöf, enda þótt viðskipti þau, sem hér er um að ræða, hafi lengi verið tíðkuð. Ég vísa að öðru leyti til ákvæða frv. og athugasemda við það sem eru allítarlegar. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.