23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4120 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

251. mál, Iðnlánasjóður

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Í upphafi þessa þings lagði ég ásamt hv. 5. þm. Suðurl. fram þáltill. um iðngarða, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um byggingu iðnaðarhúsnæðis með samstarfi einstaklinga, félagssamtaka og sveitarstjórna og með stuðningi ríkisins. Hafa skal samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð, Byggðasjóð, Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna. Könnun þessari og undirbúningi skal hraðað svo sem unnt er.“

Till. þessi fékk mjög góðar undirtektir hjá iðnrh. svo og þm. úr öllum flokkum. Því miður hefur till. enn ekki verið afgreidd úr n., en þess er að vænta að n. geri það nú strax eftir páskana. Hún var send ýmsum aðilum til umsagnar og munu umsagnir vera jákvæðar. Engum dylst að aukin fjármagnsútvegun til byggingar iðngarða vítt og breitt um landið yrði stórefling fyrir iðnaðinn og þjóðina í heild. Hafa iðngarðar raunar verið byggðir í Reykjavík og víðar þótt skort hafi stuðning. Á iðnkynningarári var bent á byggingu iðngarða sem mikilsvert tæki til að efla iðnaðinn í landinu. Sveitarfélögin tóku þetta mál upp og hafa lagt mikla áherslu á framgang þess.

Það frv., sem hér liggur fyrir og ráðh. hefur nú reifað, ber vissulega að þakka. Þetta er vissulega viðurkenning og nokkur stefnumótun, og mjór er mikils vísir. Harma ber hins vegar að ekki eru í því meiri nýir tekjustofnar fyrir iðnaðinn en raun ber vitni. Ekki er óeðlilegt að hluti þess fjár, sem rynni til iðngarða, kæmi úr Iðnlánasjóði. En með þessu frv. eru lánveitingar til annarra þátta iðnaðarins skertar sem nemur hinu nýja framlagi til lánadeildar iðngarða. Ekkert nýtt fjármagn er fært til iðnaðarins með þessu frv.

Sannarlega hefði verið æskilegra að lánadeild iðngarða hefði farið af stað með meiri glæsibrag en hér liggur fyrir. En þó ber að þakka það sem gert er, og eftir samþykkt þeirrar till. um iðngarða, sem liggur fyrir Alþ. og ég gat um fyrr, mun ríkisstj. vonandi fela þeim aðilum, er þar segir, að undirbúa framtíðarlöggjöf um iðngarða, svo sem raunar kom fram í máli ráðh. áðan, þar sem tryggt verði stóraukið fjármagn til byggingar iðnaðarhúsnæðis og þar með treystur grundvöllur að þessum atvinnuvegi, iðnaðinum, sem hlýtur að taka við stórum hluta af því vinnuafli sem kemur á vinnumarkaðinn á næstu árum.