06.11.1978
Efri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka heils hugar undir efni þessarar till. til þál. um aukna aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli. Ég efast ekkert um að hv. þm. Jón G: Sólnes er, eins og raunar kom fram í ræðu hans, í hjarta sínu fylgjandi efni þessarar till., þótt hann drægi nokkuð í efa að til þess muni viðra að fá það fé sem til þess arna sé nauðsynlegt.

Svo að ég afgreiði strax í upphafi máls míns þá aths. sem hann gerði við ummæli í grg. varðandi söluskatt til ríkisins af snjómokstri á götum af eigin vinnuvélum, þar sem hv. þm. Jón G. Sólnes sagðist hafa grun um að þennan söluskatt hefði Akureyrarbær ekki borgað, þá er ég hræddur um að þarna hafi þá hlaðist upp reikningar hjá Akureyrarbæ og óvarlegt hafi verið af hv. þm., sem ég veit að vill byggðarlagi sínu ákaflega vel, að vekja athygli á slíku svo harður rukkari sem ríkissjóður er, ekki síður nú en áður.

Af því að hv. þm. Jón G. Sólnes vitnaði í frv. til l. sem hann hefði flutt árið 1976 ásamt hæstv. forseta þessarar deildar, hv. þm. Braga Sigurjónssyni, þá hlýt ég nú að greina frá því, að ég horfði á andlit hæstv. forseta með eftirvæntingu þegar Jón G. Sólnes gat um þetta frv., sem þeir hefðu flutt saman árið 1976, og bjóst hálfgert við því, að forsetinn mundi mótmæla. En það færðist bjart gleðibros yfir andlit hans þegar hann minntist þessa frv. sem flutt var í þágu allra bæjarfulltrúa á Akureyri. Sannleikurinn er náttúrlega sá, að ekkert slíkt frv. var flutt árið 1976. Slíkt frv. var flutt árið 1975, ég hef það hér fyrir framan mig, og hv. þm. Bragi Sigurjónsson var alls ekki meðflm. að þessu frv. Flm. voru Jón G. Sólnes, Ingi Tryggvason og Stefán Jónsson, þ.e.a.s. þm. Norðurl. e. í Ed., og í grg. segir frá því, að þeir flyttu þetta frv. í samráði við þm. kjördæmisins í Nd. að beiðni bæjarstjórnar Akureyrar.

Þetta frv., sem var flutt að nær 70% af öðrum mönnum en hv. þm. Jón G. Sólnes sagði frá og á öðru ári, fjallar efnislega raunverulega um hið sama í þágu Akureyrarbæjar og þessi þáltill. sem er til umr. núna. Hv. þm. Jón G. Sólnes sagðist búast við því, að vegna aukinnar skattpíningar í landinu væri mikill vafi á að nú fengist samstaða um slíka skattheimtu með afturvirkni á Akureyri eins og þá fékkst. Þó kemur það í ljós í grg. með frv., að í grundvallaratriðum er afstaðan óbreytt. Á bls. 3 í þskj. .frá 1975, í grg., segir: „Óréttlátt er að fasteignaeigendur, sem hafa beinan hag af að vera við fullgerðar götur, taki engan þátt í fyrirhuguðu átaki við varanlega gatnagerð, en að öðrum fasteignaeigendum, sem í áratugi hafa verið við ófullgerðar götur, verði gert að greiða sérstakt malbikunargjald. Hinir síðarnefndu fasteignaeigendur hafa greitt sín gjöld til bæjarsjóðs, margir áratugum saman, til jafns við hina og þar með tekið þátt í kostnaði við lagningu bundins slitlags hjá þeim.“ Hafi þetta verið réttlætismál árið 1975, þá sé ég ekki með hvaða hætti stjórnarskipti fá orkað því, að það sé ekki enn réttlætismál 1978. Reyndar er ég þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða réttlætismál.

Nú vil ég alls ekki nudda hv. þm. Jóni G. Sólnes upp úr fótaskorti á lítilfjörlegum minnisatriðum. En ég veit að þar skjöplaðist honum, að vorið 1975, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir tók fram í ræðu sinni, voru samþykkt lög um atriði þessi með 5 ára afturvirkni. Við afgreiðslu þeirra laga var hv. þm. Jón Sólnes, að mig minnir, — hann leiðréttir mig ef ég fer rangt með, — þá var hann fjarverandi og kynni að hafa gert aths. við þetta um 5 ára afturvirknina við afgreiðslu laganna úr þessari hv. d. einmitt á því vori, ef hann hefði frá því að við þremenningar fluttum lagafrv. í jólaönninni 1974, á því tímabili, komist að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir allt væri óréttlátt að láta þessi lög verka aftur fyrir sig og óréttlætið, sem gerð er grein fyrir í prýðilegri grg. í þskj. sem við fluttum, — óréttlætið sem þar er gerð grein fyrir neðarlega á bls. 3, hafi í rauninni verið réttlæti. En ég mótmæli því harðlega, að það geti átt sér stað að grundvallaratriði í þessum réttlætismálum hafi umhverfst svo síðan vorið 1975.

Ég er viss um að þetta atriði, sem lýtur að bundnu slitlagi á götur þorpanna okkar úti á landi, er eitt hinna þýðingarmestu byggðarmála. Það er staðföst skoðun mín, að enda þótt þau byggðarlög þar sem síðast var farið að leggja bundið slitlag, svo sem Ólafsvík, eigi ekki við það vandamál að stríða, sem lýtur að mismunun á aðstöðu þeirra, sem lengst hafa búið við götur með bundnu slitlagi, og hinna, sem ekki hafa búið við slitlag, þá eru það býsna mikilvægt í öðrum byggðarlögum, svo sem á Akureyri og að hluta á Siglufirði.

Ég geri mér ljósa grein fyrir því, að einmitt það atriði sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir benti á, sem lýtur að heildargjöldum fólks á langri starfsævi, er vissulega vert íhugunar, vegna þess að margar hafa sveiflurnar verið teknar í íslenskum skattamálum á síðustu 40–50, jafnvel 60 árum, og þær hafa verið með ýmsum hætti. Í þessu sambandi hygg ég aftur á móti, þó að ég telji æskilegt að úttekt verði nú gerð á heildargjöldum þessa gamla fólks sem er sumt í þann veginn að ljúka starfsævi og annað hefur lokið henni fyrir löngu. Þá hygg ég að sú úttekt mundi ekki snerta þetta atriði svo mjög, heldur kæmi inn annars staðar.