24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4123 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrsta fsp. er á þá lund: „Hve margir útlendingar vinna nú við verkamanna-, iðnaðar- og skrifstofustörf á vegum bandaríska hersins og annarra aðila á Keflavíkurflugvelli? Hver var fjöldi þessa starfsfólks í febr. 1978?“ — Það er sjálfsagt að skilja þetta svo, að með orðinu „útlendingar“ sé átt við útlendinga sem ekki eru varnarliðsmenn, heldur utan varnarliðsins.

Um síðustu áramót — það eru þær tölur sem ég hef handbærar — störfuðu á vegum varnarliðsins 400 borgaralegir starfsmenn sem höfðu útlent ríkisfang. Þar af hafði 121 sérstaklega verið fluttur til landsins af varnarliðinu vegna ýmiss konar sérþekkingar. Það voru t. d. tæknimenn, kennarar við skóla, fulltrúar flugvélaframleiðenda og fleiri slíkir. Önnur tala er þó stærri, en það eru makar manna sem eru í varnarliðinu og hafa fjölskyldur sínar með sér. Af þeim eru 27 taldir vera í einhvers konar atvinnu á varnarsvæðinu. Fyrir árið áður, sem spurt er um, er heildartalan 398. Aðfluttir sérfræðingar, getum við sagt,126 og makar — gætu einnig verið í sumum tilfellum börn varnarliðsmanna — 272. Af þessu má sjá að á milli áranna hefur nálega engin breyting orðið.

Athyglisvert er að skoða örlítið nánar það fyrirbrigði, að makar varnarliðsmanna geta ráðið sig til ýmiss konar starfa á vegum varnarliðsins og innan varnarsvæðanna. Varnarsamningurinn hefur frá upphafi verið túlkaður þannig, og er það nokkuð augljós túlkun eftir orðalagi, að starfslið, sem herliðinu fylgir og er í þjónustu þess og hafi hvorki ríkisfang né fasta búsetu á Íslandi, dveljist hér vegna starfa, þurfi ekki atvinnuleyfi innan varnarsvæðanna. Að sjálfsögðu mundi þetta fólk þurfa atvinnuleyfi á venjulegan hátt ef það færi út fyrir svæðin.

Af þeim 279 fjölskyldumeðlimum varnarliðsmanna, sem hér um ræðir, eru taldir 17 unglingar sem vinna 16–20 tíma vinnuviku. 19 eru við ýmiss konar sérfræðistörf sem krefjast háskólamenntunar, flestir þeirra kennarar í skólum, 19 eru við ýmiss konar tæknistörf, 163 eru í skrifstofu- og verslunarstörfum og 61 í þjónustustörfum.

Eins og fyrirspyrjandi gat um eru nokkrar stofnanir óaðskiljanlegur hluti af varnarliðinu, en ekki kostaðar með fjárveitingum Bandaríkjanna. Þ. á m. er sú deild í bandaríska flotanum sem er kölluð Public Wards og mætti líkja við starfslið bæjarverkfræðings t. d. hér í Reykjavík. Hjá þeirri deild vinnur mikill fjöldi Íslendinga. Hefur starfsemi hennar raunar oft og tíðum verið umdeild og verið reynt að gæta hagsmuna okkar þar eftir því sem best hefur tekist hverju sinni. Sú stofnun, sem heitir Navy Exchange og fyrirspyrjandi nefndi, er verslunarfyrirtæki sem starfar fyrir bandaríska hernaðaraðila í heimalandi þeirra og um allan heim. Þessi verslun hefur algera sérstöðu og er undir heraga að því leyti til að hún borgar enga skatta eða gjöld neins staðar, hvorki í heimalandi né öðrum löndum, og skilst mér að þetta sé almennur háttur um slíka verslun. Þarna vinnur mikill fjöldi fólks, þ. á m. stór hópur Íslendinga, en í þessi störf hafa t. d. eiginkonur varnarliðsmanna sótt allfast. Þá má enn nefna að ýmiss konar klúbbar sem kallaðir eru, sem eru veitingahús, matsölustaðir eða skemmtistaðir á varnarliðssvæðinu, eru einnig reknir með sérstakan fjárhag. Í slík störf sækir bæði fjöldinn allur af Íslendingum og einnig aðilar sem eru í fjölskyldum varnarliðsmanna.

Lítum á hinn hópinn — fólk sem varnarliðið sjálft hefur óskað eftir að fá hingað til lands vegna ýmiss konar sérþekkingar. 45 eru í tæknistörfum, 68 í ýmsum öðrum sérfræðistörfum, þar af 51 við skólakerfi varnarliðsins, en alls mun starfslið við skóla varnarliðsins vera 64. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að farið var inn á þá braut að óska beinlínis eftir því, að varnarliðsmenn hefðu fjölskyldur sínar frekar með sér. Sambúð við fjölskyldufólk hefur reynst vera miklu þægilegri en við fjölskyldulausa eða ógifta einstaklinga, eins og var áður fyrr. En jafnframt því sem meira hefur komið af fjölskyldum hafa vaxið ýmiss konar þjónustuþarfir, svo sem barnaheimili, dagheimili og félagsstofnanir ýmsar. Er þetta allt saman hluti af því, hve mikið af fjölskyldufólki varnarliðsins er skráð í einhvers konar störfum.

Önnur spurningin er á þá lund, hve margir útlendingar á vegum bandaríska hersins búi nú utan Keflavíkurflugvallar.

Í lok febrúar bjuggu 42 bandarískar fjölskyldur, sem eru á vegum varnarliðsins, utan varnarsvæðisins. Þar af voru 40 borgaralegir starfsmenn, þ. e. a. s. fólk sem var ekki í varnarliðinu, heldur taldist til þeirra sérfræðinga sem varnarliðið hefur ráðið sér eða kallað hingað. Margar af þessum fjölskyldum eru þannig að annar hvor aðilinn er íslenskur. Eru konur starfsmanna þessara mjög oft íslenskar. Í lok febrúar voru aðeins tvær fjölskyldur hermanna utan varnarsvæðisins. Önnur þeirra er þegar farin af landinu og hin fer í júnímánuði. Þess verður að geta hér, að vitað er um a. m. k. 21 fjölskyldu varnarliðsmanna sem hafa komið hingað til lands algerlega á eigin vegum og dvelja hér sem hverjir aðrir útlendingar eða ferðamenn, fá dvalarleyfi eins og ferðamenn hjá íslenskum yfirvöldum og eru hér lengur eða skemur. Varnarliðið ber enga ábyrgð á þessu fólki og það nýtur engra þeirra hlunninda eða aðstöðu sem varnarliðið getur notið innan varnarsvæða sinna.

Þriðja spurningin: „Er fyrirhugað að fjöldi útlendinga við störf á Keflavíkurflugvelli fari vaxandi á þessu ári?“ Svarið við því er nei. Það er ekki fyrirhugað, nema síður sé, ef hægt verður að hafa áhrif á þróunina í þá átt. Fjórða og síðasta spurningin er á þessa lund: „Hve mörgum Íslendingum hefur verið sagt upp störfum á Keflavíkurflugvelli frá 1. sept. á síðasta ári?“

Hjá varnarliðinu sjálfu störfuðu á haust- og vetrarmánuðum milli 1000 og 1100 manns, en á því tímabili, sem spurt er um, hefur engu fólki verið sagt upp vegna fækkunar eða samdráttar hjá varnarliðinu.

Hins vegar hefur fólk að sjálfsögðu sjálft sagt upp störfum. Það hafa verið hreyfingar í þá átt og einhver smávægilegur samdráttur hefur verið framkvæmdur þannig. Hins vegar hefur varnarliðið sagt upp t. d. 4 mönnum vegna „hjólbarðamálsins“ svokallaða, sem hv. þm. væntanlega þekkja úr fréttum, og a. m. k. einum sem reyndist vera sekur um smygl.

Varðandi aðra aðila á Keflavíkurflugvelli er erfitt að gefa tæmandi svör, því að þeir skipta nokkrum tugum. Um þá, sem eru langstærstir og hafa flesta í vinnu, get ég sagt, að ég hef reynt mjög til þess í vetur að fá verktakafyrirtækin til þess að segja fólki ekki upp yfir vetrarmánuðina. Hefur verið reynt að hjálpa til með því að hliðra til með verkefni eða annað, sem gæti stuðlað að því að sem allra fæstu og helst engu fólki yrði sagt upp, eins og venjan er þó yfir vetrarmánuðina. Verktakar hafa tekið þessari viðleitni mjög vel. Ég tel að af þessum sökum hafi Aðalverktakar komist hjá því að segja upp 40–50 manns yfir vetrarmánuðina. Var raunar búið að segja þeim fjölda upp í tveimur lotum, en var í bæði skiptin tekið aftur. Keflavíkurverktakar, sem hafa mikinn fjölda starfsmanna líka, hafa heldur engum starfsmanni sagt upp, en þeir hafa neyðst til að stytta vinnutímann í sumum tilvikum.

Ég vil að lokum láta í ljós þá skoðun, að ég er sammála þeim orðum fyrirspyrjanda, að Íslendingar mega ekki verða háðir varnarliðinu um atvinnu. Ég hef reynt að fylgja þeirri hugmynd í vetur að varnarliðið og þær stofnanir, sem vinna fyrir það, hefðu sem minnst eða helst engin áhrif á atvinnuástand á Suðurnesjum og þá síst af öllu til þess að gera það verra en verið hefur. Með það í huga má segja að unnið hafi verið að skammtímaverkefni varðandi ástand sem ríkti þennan vetur, en að sjálfsögðu verðum við að hugsa fyrir því að gera framkvæmdir á þessu svæði sem skapa eðlileg íslensk störf til frambúðar. Vil ég í því sambandi benda á tillögu, sem er á dagskrá síðari fundar í dag, um tollfrjálst iðnaðarsvæði í nánd við flugvöllinn. Ég tel að það sé mjög athyglisverð hugmynd sem vert væri að kanna nánar. En ég vona að hún verði rædd hér frekar.