24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4128 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Atvinnumál á Keflavíkurflugvelli hafa komið til umr. á Alþ. hvað eftir annað í vetur. Nú er rætt um fjölda þann sem á Keflavíkurflugvelli starfar og það öryggisleysi sem verkafólk á við að búa þar. Þetta öryggisleysi hefur verið allmörg undanfarin ár. Það hefur gengið svo, að verkafólk hefur fengið uppsagnir með reglulegu millibili. Hefur það verið mikið vandamál fyrir það fólk að svo skuli málum vera fyrir komið. Nú standa mál þannig að hæstv. utanrrh. hefur tekið málin föstum tökum og komið í veg fyrir að til uppsagna hafi þurft að koma. Sem betur fer ríkir nú nokkru betra ástand í atvinnumálum en var í vetur, en það er m. a. fyrir aðgerðir utanrrh. Ég tel að það þurfi að gera betur í þessum málum og gæta þess, að ekki séu fleiri hermenn í störfum, sem Íslendingar geta unnið, en þarf með. Það mun vera svo, að í tíð fyrri utanrrh. var gert samkomulag við bandarísk yfirvöld um að ýmis verk yrðu unnin af flokkum hermanna — verk sem Íslendingar hefðu átt að geta unnið. Þessum verkefnum er nú að ljúka. Vona ég að til þessa komi ekki aftur.

Svo er annað sem ég vildi minnast á og komið hefur hér fram, að framkvæmdir, sem verktakar gætu unnið, hafa færst yfir til varnarliðsins í of ríkum mæli. Þarf að stöðva það. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað á allmörgum árum, en þar þarf að láta staðar numið.

Ég vil taka undir það, að við þurfum að koma málum þannig fyrir að við verðum ekki háðir hervinnunni svo geysilega mikið sem verið hefur. Leita þarf allra tiltækra ráða til þess að gera atvinnulíf á Suðurnesjum fjölbreyttara en verið hefur. Á fund í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins í morgun kom fram, að Suðurnesjaáætlun liggur fyrir svo til fullbúin og verður vafalaust birt í haust. Samþykkt þáltill. um þau efni í þinginu nú á vordögum er því tilgangslaus eða skiptir ekki máli. Og ég vil geta þess, að þótt áætlanir séu gerðar af byggðadeild Framkvæmdastofnunar skiptir það ekki ýkjamiklu máli ef menn vilja ekki láta fjármagn í þá hluti. Það þarf mikið fjármagn til þess að koma áætlunum í framkvæmd. Ekki hefur mér virst að flokksmenn Alþb., sem sýknt og heilagt agnúast gegn Suðurnesjunum og atvinnulífi þar, séu tilbúnir til að veita fjármagn til þess. Ekki var að sjá að þeir vildu bæta efnahagslífið eða athafnalífið á Suðurnesjum þegar þeir í ríkisstj. fyrir allnokkru lögðust gegn því að þangað kæmu ný atvinnutæki, nýir togarar.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, enda tíminn útrunninn.