24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4131 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst og fremst að mótmæla því sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði áðan, að ég hefði í utanrrh.-tíð minni gert eitthvert sérstakt samkomulag við herinn um að þeir fengju að vinna tiltekin verkefni. Um það er ekki hægt að tala, þó að leyft hafi verið að mála eina skemmu. Ég tel að það geti ekki talist samningur um yfirtöku verkefna. Ég man þvert á móti eftir því, að í utanrrh.-tíð minni — og það veit hv. þm. fullvel sem formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur — var unnið að því að fækka hermönnum á vellinum og leysa verkefnin með íslenskum vinnukrafti eftir því sem þurfa þótti.

Ég er sammála því, sem hér hefur komið fram, að efla þarf atvinnulíf á Suðurnesjum. Það er vafalaust staðreynd sem ekki verður á móti mælt. Það hefur nokkuð dregist aftur úr af ýmsum ástæðum, sem ástæðulaust er og raunar ómögulegt á stuttum tíma að gera grein fyrir. En ég vil líka benda á að enda þótt atvinnulíf á Suðurnesjum verði eflt eins og þarf að gera verður það seint sem allir þeir, sem hafa vinnu hjá varnarliðinu, hafi kost á annarri vinnu, vegna þess að þar er ýmislegt af fólki sem ekki getur t. d. farið á sjó eða unnið aðra erfiða vinnu. Þetta held ég að menn viti og viðurkenni sem þekkja til mála. A. m. k. býst ég við að formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur viðurkenni þessa staðreynd. En ef Alþfl.-menn á hinn bóginn vilja aukna vinnu hjá varnarliðinu geta þeir vafalaust þakkað núv. utanrrh. fyrir aðgerðir hans. Mín vegna mega þeir mjög vel gera það, og ég held að hann sé vel að þeim þökkum kominn.

Ég tel að það hafi verið rétt, sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði að nauðsynlegt sé að aðskilja herstörfin frá öðrum störfum og annarri starfsemi á Keflavíkurflugvelli, meðan þar er her. Menn vita vel hvaða hugmyndir ég hef um það. Ég tel að í tíð fyrrv. ríkisstjórna hafi verið að þessu unnið og einkum í tíð fyrrv. ríkisstj., ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, og það sé raunar gert enn. Það var fækkað í herliðinu og það er verið að byggja yfir varnarliðsmenn þannig að þeir geti búið einir og sér og þurfi ekki að vera innan um annað fólk á Suðurnesjum.

Eitt af því, sem hvað nauðsynlegast er til þess að aðskilnaður geti orðið að veruleika, er bygging nýrrar flugstöðvar, því að það samkrull, sem þarna á sér stað, að flugstöðin er á miðju hersvæðinu, et ekki boðlegt. Það stendur til boða að fá fjárhagslega aðstoð frá Bandaríkjunum til þess að byggja þarna flugstöð sem til þarf. Og ég skora á ríkisstj. að láta nú til skarar skríða og byggja þessa flugstöð og aðskilja þar með þessa starfsemi. Ég vænti þess, að hv. Alþb.-menn verði ekki í neinum vandræðum með að semja slíka bókun og fyrirvara að þeir geti þolað þessa framkvæmd, alveg eins og þeir gerðu þegar flugbrautin var lengd á sínum tíma gegn mótmælum þeirra. Nú heyrist ekki eitt einasta andmælisorð. Þvert á móti vita allir og viðurkenna að sú lenging flugbrautarinnar var eitt af þeim atriðum sem hefur gert Keflavíkurflugvöll að einum besta í heimi.