24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4135 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þessar umr. hafa farið langt út fyrir það takmarkaða svið, sem fsp. fjölluðu um, og orðið að eldhúsumr. um varnarliðið. Að sjálfsögðu er við þær reglur, sem gilda, öllum nema kannske mér, sem hef lengstan ræðutíma, ógerlegt að ræða þetta ítarlega. Ég kveð mér þó hljóðs vegna þess að hv. síðasti ræðumaður spurði málefnalegrar og eðlilegrar spurningar sem hún á kröfu á svari við.

Það er á vitorði og hefur verið á vitorði flestra sem fylgjast með varnarliðinu, að nú síðustu mánuði, á síðasta hálfu ári eða svo, hefur verið skipt um gerð radarflugvéla, sem eru fljúgandi radarstöðvar, og teknar í notkun allra nýjustu flugvélar af því tagi, en þær eru óvopnaðar með öllu, svo að þær tilheyra eftirlitshlutverkinu. Einnig hefur komið hingað ný gerð af minni eftirlitsflugvélum, T-3 held ég að þær séu nefndar, og í þeim er mikið af rafeindatækjum sem eru hin fullkomnustu til eftirlitsstarfa sem nú eru til. Það kom fram í samtali við varaforsetann, að það var fyrst og fremst þetta sem hann átti við, en ég hef ekki heyrt, hvorki í samtali við hann né annars staðar, að þarna séu nein drápstæki af neinu tagi sem framar standi en verið hafa og til eru annars staðar.

Það er e. t. v. spaugilegt frekar en nokkuð annað, að minn ágæti félagi, hæstv. viðskrh., skyldi orða það að varaforsetinn yrti ekki á hann. Ég efast ekki um að Mondale hefði fengið hressileg svör ef hann hefði gert það. En tíminn var stuttur og við marga að tala, svo að hæstv. forsrh. notaði sem gestgjafi þá eðlilegu leið að bjóða nokkrum hópi áhrifamanna til kvöldfundar þar sem hægt var að tala við varaforsetann, en enginn af ráðh. Alþb. hafði aðstöðu til að vera þar. Þeir hafa vafalaust sinar ástæður fyrir því, að þeir misstu þar af tækifæri. Hins vegar vil ég nefna að hæstv. menntmrh. tók á móti varaforsetanum í Árnagarði, þar sem helgustu dómar þjóðar okkar eru geymdir, og ég hygg að hann hafi gert það með sóma, veit ekki annað, hvort sem hann hefur fundið einhvern stað í handritunum sem hann gat bent Mondale á hugmynd Alþb. til stuðnings eða ekki.

Varðandi það, að því hafi verið haldið fram í 30 ár að varnarliðið væri hér algerlega okkar vegna, þá kann að vera að margir hafi gert það. En ég vil ekki játa að ég hafi gert það á þann hátt sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. Ég hef þvert á móti — og fjöldamargir aðrir — ávallt sagt að varnir Íslands væru eins og hlekkur í keðju og þar af leiðandi gætu þær þjóðir, sem eru í sama varnarbandalagi og við, með góðri samvisku þakkað hver annarri fyrir að hafa fengið að lifa í algerum friði í Evrópu í 30 ár, sem ekki hefur gerst oft í sögunni. Og þó að sannkristinn og lítillátur maður eins og forseti Bandaríkjanna sendi þessa orðsendingu sem beint var á réttan stað, til forsrh., held ég að ekki hafi falist í því neinn nýr sannleikur og öllum þeim, sem hugsa af raunsæi um varnarmálin, hafi verið og sé ljóst að þessu er þannig varið. Það er ekki í einu einasta landi í allri Vestur-Evrópu fullkomlega varnarstyrkur sem dugi til að verja það land án þess að til komi aðstoð frá öðrum bandalagsþjóðum. Þetta á jafnt við allar þjóðirnar, sem í þessu bandalagi eru, og á mjög svipaðan, ef ekki sama hátt, á þetta við þjóðirnar í Varsjárbandalaginu. Þar er ekki heldur nema eitt þátttökuríki sem segja má að gæti algerlega séð um sjálft sig, heldur eru þau hvert öðru háð. Það er fjöldamargt smáatriða sem hefði verið eðlilegra að ræða en þetta í tilefni af fsp. um atvinnumál á Keflavíkurflugvelli, en tími og aðstæður leyfa slíkt ekki að sinni, svo að ég verð að neita mér um það.