24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4136 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

206. mál, jarðborar

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 402 fsp. til hæstv. iðnrh. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hverju nema eftirtaldir kostnaðarliðir við borun Kröfluholu, þar sem heildarkostnaður er áætlaður um 280 millj. kr.:

a) launakostnaður og annar beinn kostnaður í mannafla,

b) flutningskostnaður á bor,

c) borkrónuslit, efni, fóðrun og steypa?

Hvað kostar jarðborinn Jötunn eigendur árlega, sé hann ekki notaður?“

Tilefni þessarar fsp. er það, að fyrir nokkru var sagt frá því í fjölmiðlum, að hætt væri við að bora þær tvær holur við Kröflu sem búið var að gera ráð fyrir að boraðar yrðu á þessu ári. Það hefur einnig komið fram í fjölmiðlum, að jarðborar ríkisins mundu ekki starfa allt árið vegna fjárskorts.

Nú er það yfirlýst stefna stjórnvalda að nýta innlenda orkugjafa svo sem unnt er og að flýta virkjunum þar sem hægt er að hagnýta jarðhitann, hvort sem um er að ræða lághita eða háhita. Fá atvinnutæki munu gefa þjóðfélaginu jafnmikinn arð með vinnu sinni og jarðboranir, og er þá nokkuð sama hvort borað er á háhita- og lághitasvæðum. Vegna ört hækkandi orkuverðs er nú mögulegt að nýta jarðhita á ýmsum þeim stöðum í landinu, þar sem óhugsandi var að keppa við olíuna áður fyrr. Þess vegna vona ég að stjórnvöld sjái sér nú fært að nota þessi stórvirku tæki og hafa þau í gangi allt árið eða svo mikinn hluta af árinu sem veðurfar leyfir. Það er liður í því að búa að sínu og það hefur löngum þótt hagkvæmt. Starfræksla þeirra er örugglega meira gjaldeyrissparandi en flestra annarra atvinnutækja.

Upphitun húsa hefur lengst af verið mikið vandamál í þessu landi og eitt erfiðasta fjárhagsmál hverrar fjölskyldu. Starf jarðboranna á að gera þennan vanda minni. Þess vegna vona ég að skammvinnur auravandi verði ekki til þess að stöðva þessi stórvirku tæki, einkum vegna þess að ég held að mjög verulegur kostnaður sé fyrir hendi hvort eð er, enda þótt tækin séu látin standa. Því langaði mig til að fá að vita hjá hæstv. ráðh. hvernig þessi mál lægju fyrir í dag.